Í hverju ertu? – María Hjálmtýsdóttir

Heimanám

Juan og Roberto eru á leið yfir Río Grande frá Mexíkó til Bandaríkjanna. Þeir eru komnir 4 metra frá suðurbakkanum, þar sem landamæravörður A stendur. Fjarlægð þeirra frá norðurbakkanum, þar sem landamæravörður B stendur, eru 3,7 metrar. Þar af leiðandi tilheyra þeir hvorki svæði landamæravarðar A né B. Juan er 48 kíló en Roberto er 53 kíló. Hvorugur kann að synda.
Hversu lengi verður hvor um sig að sökkva til botns?
(Sýnið útreikninga).

INNLIT – ÚTLIT

Það fer líklega best að hafa nýrun við hliðina á sjónvarpinu. Þar nýtur liturinn sín svo vel í flöktandi birtunni. Lifrina væri flott að setja á hillu í borðstofunni (passar við löberinn) og svo er smart að hengja garnirnar í flúgti við gardínurnar hjá svaladyrunum. Gefur aukið flæði í rýmið.

Heilinn stendur inni í eldhúsi á milli bleiku Kitchen Aid-hrærivélarinnar og innilokunarkenndarinnar. Bleik viskustykkin eru í stíl.
Brisinu, botnlanganum og gallblöðrunni er flott að raða innan um afleggjarana í gluggakistunni. Í suður.
Eða kannski frekar í norður? Ég hef nefnilega alltaf upplifað meira í norður.

Heiðurssætið fær svo hjartað. Það verður að fá sinn sérstaka stað innan heimilisins. Á miðju hjónarúminu. Uppstoppað og steindautt eins og hrafninn við höfðagaflinn.

Við hliðina á hrafninum eru stórir hvítir bókstafir sem saman mynda orðið HOME.


Úr bókinni Í hverju ertu. Meiri upplýsingar má nálgast á feisbúkk síðu bókarinnar https://www.facebook.com/ihverjuertu/.