Eitruð einlægni, heilandi kaldhæðni

Byrjum á því að segja nokkur orð um töluna 22. Glergildra eftir Megan Auði Grímsdóttur er Meðgönguljóðabók númer 22 og kom út fyrr á þessu ári. 22 er meistaratala samkvæmt talnaspeki, líkt og 11, 33 og 44. Með tölunni eiga víst draumar að rætast. 22 er líka hængur, þversögn, pattstaða. Catch 22. Hængur 22. Hvernig get ég fengið vinnureynslu ef ég fæ ekki vinnu til þess að öðlast reynslu? Hvernig er hægt að vera einlægur í heimi kaldhæðninnar þegar einlægnin er grafin svo djúpt inni í okkur? Svarið er að bíta sjálfan sig til blóðs.

Ég sleiki varirnar
sýg þær
sökkvi tönnunum djúpt
og vonast eftir blóði
einhverju sem kemur
beint frá hjartanu.
Ég sýg það í mig
eitra mig með einlægninni.

Í heimi kaldhæðninnar, upplýsingastreymis og ofstækis er ekki lengur hægt að vera einlægur án þess að það blæði. Það er einhver þversögn í því að eitra sig með einlægni. Þannig hef ég að minnsta kosti skilið einlægni; eitthvað sem við viljum mörg hver finna innst inni. Reyna að fara eftir einhverjum gildum í lífinu í stað þess að rífa þau sífellt í sundur. Reyna vera meira eins og Forrest Gump.

En í heimi kaldhæðninnar er einlægnin vissulega eitur. Þar er líka erfitt að finnast einlægni raunverulega góð því hún veldur gjarnan vonbrigðum. Lög Murphy’s: Allt sem getur farið úrskeiðis mun fara úrskeiðis. Þegar á hólminn er komið klúðrast alltaf eitthvað og við reynum að gera allt til að afstýra klúðrinu. Jafnvel meira en allt. Ég held til dæmis að góðhjörtuðustukapítalistar, sem þykjast ætla stunda einhver heiðarleg Adam Smith-viðskipti, leiðist út í það á endanum að svindla, svíkja og reyna að viðhalda status quo.

Ljóðmælandi Glergildrunar eitrar sig með einlægninni því henni fylgir áhætta og hún er grafin djúpt. Hún plantar sér svo í moldina eins og fræi. Þar grær hann, vex aftur af leir og segist vera heil. Ljóðmælandi er sem sagt hún. Og hún endurnýjast í góðri von.

Persónan Þú er kynnt til leiks í kjölfarið. Sú persóna er fjarlæg ljóðmælanda, bæði í tíma og rúmi og eftirsjá leynist í samskiptunum. Þú ert aðallega grár, segir ljóðmælandi, og grár fær mig til að gráta. Samband sem átti að endast að eilífu eða ef til vill var óljóst frá upphafi hvers eðlis það var.

Ég raðaði orðunum svo þú skinir sem bjartast,
gegnum reykmatta þokuna sem hékk utan á okkur.

Hér birtist okkur sama óskhyggjan og sú að einlægnin sé hið góða sem sigri á endanum. Ljóðmælandi raðaði orðunum þannig að þú skinir sem bjartast, fullmeðvituð um að það væri ekki til neins eða í það minnsta mikil fyrirhöfn. Hún uppgötvar að grá, reykmött þokan er nær óyfirstíganleg og hættir að blanda list og táknum saman við raunveruleikann. Það er aðeins í einu ljóði (bls. 14) sem rykið skiptir ekki máli, augnablikið er allt sem skiptir máli og hlutirnir fá einhverja einlæga merkingu.

En svo brestur eitthvað og draumar koma við sögu í einni af bestu ljóðlínum bókarinnar:

Þegar draumar rætast skilja þeir eftir sig holu sem eitt sinn var þrá.

Draumarnir rætast en grafa holu í leiðinni, líkt og ljóðmælandi sjálfur gróf og skreið ofan í í upphafi. Holur samanstanda af engu. Holur eru refsingin fyrir að fella varnir kaldhæðninnar. Eftir að hafa látið drauminn rætast (eftir kukl meistaratölunnar 22) kemur sannleikurinn í ljós. Hann springur framan í mann eins og uppljómaður bíósalur eftir níþunga ungverska RIFF-heimildarmynd:

Til þess að læra að hverjum draum sem rætist
fylgir stundaránægja.

Og við sitjum eftir í bíósalnum, galtóm og engu nær, þ.e. um tilveruna. Það eru mjög fallegar línur í Glergildrunni og sterkar myndir, sérstaklega í fyrstu ljóðunum. Bókin er stutt, pönkuð og gefur lesanda ekki færi á því að staldra neins staðar við. Þess vegna fullyrði ég að þetta er á heildina prýðileg frumraun.