Aftur og aftur

Þriðja skáldsaga Halldórs Armands kom út núna í nóvembermánuði. Forlagið, undir merkjum Máls og Menningar. Þetta er jafnframt í fyrsta skipti sem Halldór er gefinn út í harðspjaldi, eins og hann tilkynnti glaður á Instagram aðgangi sínum. Áður en ég reyni að segja eitthvað gáfulegt í samtali við og varðandi þessa bók, verð ég að byrja á að segja að kápan á bókinni er einstaklega falleg og vel sniðin. Fellur unaðslega að fagurfræði lífstílsblogga og að pastelklæddum börnum snappara. Auðvitað gömul tugga að maður eigi ekki að dæma bókina eftir kápunni, en fögur kápa skiptir auðvitað höfuðmáli í markaðslegu aðdráttarafli. Auk þess sem að þegar eitthvað er vel gert á það hrós skilið, til lukku með gott kápuverk, Sigurður Oddson. En að innihaldinu, því sem leynist bakvið fagurbleikt og tælandi áklæðið.

Ellefti september, þegar tvíburaturnarnir féllu, er upphafið á skáldsögunni Aftur og aftur og af einskærri tilviljun er það einnig á þessum sama degi sem að aðalpersóna bókarinnar, Arnmundur, fær sinn fyrsta farsíma, flottustu gerðina á þessum tíma, hann er svona næntís barn. Þarna kynnist hann líka ástinni og elur með sér nýtt samskiptamynstur. Hann er vígður inn í nýja tækniöld og pólitík heimsins. Þessi dagur er þar með mjög mikilvægur fyrir alla heimssýn hans og  framvindu sögunnar. Ósjálfrátt fer lesandi að rifja upp þennan tiltekna dag fyrir sjálfum sér. Heppilega vill til að undirrituð er einmitt einnig næntís barn og á margt skylt við persónu sögunnar, ætli ballið í upphafi sögu sé ekki einmitt staður þar sem ég var einnig vandræðaleg út  í horni að bíða eftir að verða boðið upp í dans. Ég man svona í meginatriðum eftir þessum sama degi, 11. September, held ég hafi horft á fréttirnar af þessu með föður mínum og öðrum uggandi leigubílsstjórum á vinnustað pabba í höfuðstöðvum BSR. þó ég skildi lítið hvað væri að gerast. Hinir fullorðnu virtust reyndar lítið skilja heldur. Dagurinn sem ég fékk minn fyrsta gemsa rifjast þó ekki eins auðveldlega upp fyrir mér, hef greinilega ekki fyllilega skilið á  þeim tímapunkti hversu merkingarþrungið slíkt tæki myndi verða. Ég man hinsvegar mjög skýrt eftir því þegar bekkjarsystkini mín í 9unda gerðu stólpagrín að mér fyrir að eiga ekki nýjasta módelið. Í huganum sagði ég sjálfri mér að það skipti mig ekki máli. Það var ekki satt. Á þessum tíma var þetta ákveðið atriði sem var mjög mikilvægt fyrir sjálfsmynd óöruggrar stelpu í Réttarholtsskóla. Já, við smátt og smátt lærðum öll að láta veraldlega hluti skipta meira máli heldur en annað gott í lífinu. Síminn var mér þó ekki eins sínálægur og hann er núna –  besti félaginn. Og það mætti í raun segja það góðan dóm um skáldverk í dag þegar lesandi lítur lítið sem ekkert í símann sinn á meðan á lestri stendur. Nú er ég yfirlýstur bókaormur og gerist sek um slíkt því miður allt of oft. Símtækið nánast orðið eins og einn annar útlimur í órólegri verund. Kækur sem er ekki hægt að losna við. Við lesturinn á þessari bók leit ég nánast ekkert í símann. Lét snöppin, mötchin og skilaboðin bíða í smá. Þessi bók er því góð lesning.

Bókin hverfist í kringum þennan nýja stafræna heim sem við hrærumst í núna, þar sem tæknin virðist færast hraðar heldur en hugsanir okkar og tilfinningar. Snjallsíminn og samskiptaforrit eru nánast sín eigin persóna í bókinni. Ákveðin vofa sem fer með okkur hvert sem er og virðist eiga svo mikla hlutdeilt í lífi okkar en er á sama tíma einungis tól í höndum eilíft leitandi sála. Við pikkum, lækum, deilum og svæpum eins og til að forða okkur frá því að þurfa að vera of mikið með eigin hugsunum. Tækninýjungar og hnattvæðing eru einkennandi fyrir okkar tíma og setja mark sitt á persónur. Aftur og aftur fjallar einnig um tilviljanakennd lífsins. Það hvernig atburðir einhvernveginn eiga sér bara stað án nokkurrar almennilegrar stefnu eða útskýringar. Hlutir hafa enga merkingu nema þegar við gefum þeim merkingu. Hún fjallar þó líka um hvernig við björgum hvort öðru, höllum haus að næstu sálu til að fá fró við ringulreið verundar og fálmum eftir viðurkenningu. Hún bendir á hvernig við erum öll tengd en samt á sama tíma aftengd. Stöðugt í sambandi en samt aldrei fyllilega í sambandi við umheiminn né okkar eigin tilfinningar. Allt okkur svo mikið nærri en samt svo fjarri. Aftur og aftur birtir upp mynd af Íslandi á tímum sjálfshyggju og tækifæra. Þar sem einstaklingur getur verið fastur meðlimur í vinsælli næntís sveitaballahljómsveit á einu tímabili og svo kominn á raðir útrásarvíkinga í því næsta. Þar sem  eru til feður sem hafa lifibrauð sitt á því að leika Ólaf Ragnar Grímsson og kenna afkvæmum að tækifærin geta verið fundin nánast hvar sem er. Hún sýnir hvernig við manneskjurnar erum ekki bara eitt líf og ein föst vera heldur erum við mótuð af mismunandi tímabilum og af tilviljanakenndum atburðum sem við höfum enga stjórn á.

Stíllinn hjá Halldóri er skemmtilegur og hnyttinn. Hann teiknar upp mjög sterka mynd af persónum sínum í gegnum táknmyndir samtímans. Það er eitthvað við það þegar persóna drekkur í sífellu Aquarius sem segir meira heldur en nokkur önnur persónulýsing gæti gert. Það eru þessir litlu hlutir inn á milli sem gefa svo margt til kynna, segja hvernig önnur tímabil hafa sett mark sitt á persónur og eru síloðandi við þær þrátt fyrir þroska og breytta heimsýn. Tónlist mótar karakter og  persónuleg innkaup geta gefið hugmyndir um innri hugmyndaheim einstaklinga. Persónur eru mjög margslungnar og hugrennsli þeirra áhugaverð. Sagan er samt að vissu leyti mjög hvít. Ég ætla ekki að fara útlista hvort það sé slæmt eða ekki. Auðvitað er hún mjög rammíslensk og þar af leiðandi ófrávíkjandi frekar hvítari en annað. Ég vil þó koma með þá gagnrýni að sjónarhorn persóna á ýmis pólitísk málefni koma úr átt forréttinda. Kannski eitthvað sem gott er að hafa í huga. Þessi veruleiki að skilja lítið sem ekkert í umheiminum, þá sérstaklega með augum eyjaskeggja í Atlantshafi er auðvitað sterkur þráður í bókinni.

Sagan sýnir samt sem áður nokkuð raunsæa mynd af fagurbrotlegu lífi leitandi einstaklinga á tímum þar sem munurinn milli  kynslóða er meiri en áður. Þar sem merking lífs og viðurværis virðist máðari en áður. Áhugaverðasta persónan að mínu mati er Stefán Falur sem er svo lagskiptur en samt sem áður fullkomlega púslaður saman. Hann nær aldrei að tilheyra eða vera almennilega hluti af neinu heldur hoppar bara á milli í lífsins ólgusjó frá einu hlutskipti yfir í annað. Eina stundina heldur lesandi að maður sé með karakterinn algjörlega á hreinu en þá fer hann yfir í nýtt tímabil og kemur á óvart með aðgerðum sínum og hugmyndum. Tungumálið er mjög lifandi hjá Halldóri og popp-kúltúr tilvísanirnar margar og skemmtilegar. Pólítiskir rammar setja hversdagslegar myndir í nýtt sjónarhorn. Minna á að lífið heldur alltaf áfram á einhvern undraverðan hátt sama hvaða hörmungar skella á. Einnig að maðurinn sé breyskur en á sama tíma bara að reyna sitt besta út frá því sem hann þekkir. Bókin vekur upp margar hugsanir og pælingar en allra helst hefur lesandi gaman af því að velta fyrir sér hverbrigðul manneskjan getur verið, hversu ótrúlega óútreiknanleg við öll í raun erum. Jafnvel svo óútreiknanleg að við skiljum oft ekki sjálf afhverju við gerum það sem við gerum. Sagan er eins og ferskur andblær, og þá finnst mér það minnst tengjast því að hún setji snjalltækni í forgrunn. Ég gæti jafnvel lesið hana aftur og aftur.