Bláa Hawaii: Guðrún Heiður Ísaksdóttir


Einu sinni var ég í sólbaði við hvíta strönd í Mexíkó. Ég lá í Kyrrahafinu og lét öldurnar bera mig lengra og lengra frá landi. Ég horfði á pelikana fljúga yfir höfði mér langt í fjarska og ímyndaði mér að þeir væru risaeðlur og ég væri fjarri nútímanum í einhverju öðru hlutverki og það væri miklu betra. Þegar mig rak á land kom fullur kall til mín og vildi kaupa mig. Þegar ég sagði honum að ég væri fjórtán ára og ekki til sölu varð hann brjálaður og sagðist ætla sækja vini sína og þeir ætluðu allir að drepa mig. Þar með endaðist sá capituli.

Ég mun aldrei verða svona venjuleg kona með silkislétt hár og óaðfinnanlega húð sem ríkisbubbar og stjórnmálamenn og virðulegir menn snobba fyrir og ég mun aldrei verða þannig kona sem fær sendar gjafir og atvinnutilboð frá ríkinu upp að dyrum því ég mun alltaf verða þessi kona sem fer í skýrslutöku hjá lögreglunni eftir fyllerí. Þar með endaðist sá capituli.

Einu sinni var ég í rútu með engri loftræstingu. Þegar ég nálgaðist áfangastað opnaði ég gluggann og tók þá eftir því að allir nautgripirnir við þorpið voru dauðir og öll húsin voru í eyði og sandurinn á ströndinni var svartur en ekki hvítur. Á rútustöðinni voru engar dyr en við gluggann var lítið búr með mörgum tegundum af fuglum. Þar með endaðist sá capituli.

Úr bókinni Mörufeldur, móðurhamur eftir Guðrúnu Heiði Ísaksdóttur.

Mynd tók Geiri X.

Ljóðakvöldið Bláa Hawaii verður 22. nóvember næstkomandi. Guðrún er eitt af skáldunum sem les upp.

Feisbúkk viðburð fyrir Bláa Hawaii má nálgast hér