Átakalítil en vel skrifuð nostalgía

Draumar á þvottasnúru eftir Þorvald S. Helgason

Ég stend fyrir framan húsið og horfi á stéttina.
Velti því fyrir mér hvort orðin séu þarna enn.

Ef ég ætti að reyna að finna orð til að lýsa ljóðabókinni Draumar á þvottasnúru að þá skýtur tveimur orðum upp í hugann:

  1. Notaleg.
  2. Nostalgía.

Ljóðin eru fremur átakalítil, þægileg, mjúk. Þar segir frá æsku ungs drengs í miðbæ Reykjavíkur;  af húsum sem eru horfin, tómum þvottasnúrum, sofandi götum og ljósastaurum í hvísluleik.

Draumar á þvottasnúru er fyrsta ljóðabók Þorvaldar S. Helgasonar og sextánda verkið í seríu Meðgönguljóða, sem gefin eru út af forlaginu Partus. Líkt og gildir um önnur verk í þeirri seríu að þá er bókin stutt, afar stutt, en samkvæmt óformlegri talningu minni að þá eru þetta um tólf ljóð. Bókin er því kannski nær svokölluð „zine“. Eðlilega – þar sem tilgangurinn með Meðgönguljóðaseríunni er að nálgast ljóðaútgáfu á nýjan hátt. Gefa ungum ljóðskáldum vettvang til þess að koma sér á framfæri og lesendum tækifæri til þess að nálgast efni eftir ný skáld, á sama verði og karamellu frappó (sem var afar kærkomið framtak!).

Þorvaldur stundar meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands og má því teljast líklegt að Draumar á þvottasnúru séu á einhvern hátt afrakstur þess náms. Áður hafði Þorvaldur lokið sviðshöfundanámi við LHÍ.

Textarnir í bókinni eru allir svokölluð nútímaljóð, á þann hátt að þau eru ekki bundin neinum reglum eða braghætti. Þar kallast á lengri prósatextar sem minna kannski fremur á örsögur og styttri, hefðbundnari ljóðtextar, líkt og eftirfarandi texti.

Esjan í HD

það komu stundum dagar
svo skýrir í einfaldleika sínum
með fjöllin formföst í háskerpu
svo tær
að maður hefði hæglega getað teygt sig yfir Faxaflóann, brotið
eitt þeirra af og kippt því með sér eins og Tobleronebita
en þeir dagar voru aldrei nema mínútu að líða
síðan hjólaði maður yfir hraðahindrunina og gleymdi því öllu

(bls. 10)

Eins og áður sagði, eru flestir textanna skrifaðir sem minningabrot eða upprifjun á æsku ungs drengs, séð frá sjónarhóli hins fullorðna manns sem horfir til baka yfir æskuslóðir sínar, fullur hlýju og söknuðar.

Ljóðin eru snyrtileg og vel skrifuð, yfirleitt laus við tilgerð en þó eru, eins og gerist, undantekningar á því. Það stakk mig dálítið við lesturinn hversu almennir og jafnvel flatir margir textanna eru. Aðeins of þægilegir. Það þarf auðvitað alls ekki alltaf að kafa djúpt – þvert á móti – en þá þarf myndmálið að vera grípandi, ögrandi. Myndmálið er hinsvegar nokkuð kunnulegt. Þar kallast á ýmis þemu; rými, gata og steinsteypa, gluggar, fyrir innan og utan, hafið, freyðandi, slétt, og kannski ekki hvað síst – það sem er og það sem var.

Það fer ekkert á milli mála að Þorvaldur hefur sérlega góð tök á íslenskri tungu og góða tilfinningu fyrir hrynjanda og myndmáli. Þar sem Þorvaldur sleppir aðeins af sér beislinu og grípur til óhefðbundnari lýsinga, leyfir sér að leika sér að tungumálinu og vera persónulegur, tekst honum stórvel upp. Toblerone-ið var til dæmis kærkomið uppbrot á myndmáli í textanum hér að ofan, sem og tilvísunin í háskerpu (HD). Legókubbar koma víða fyrir, sem mér þótti líka skemmtilegt. Þannig smáatriði lífga textann við, koma manni jafnvel á óvart.

Heilt yfir var ég hrifnari af lengri textunum, þar fær maður betri tilfinningu fyrir ljóðmælanda og aðeins verið að gera tilraunir með formið. Lengri textarnir eru líkari örsögum, látlausir en eitthvað meira spennandi að gerast. Stundum hefði kannski mátt segja ögn minna, skilja lesanda eftir með einhverjar spurningar.

Í textanum „Myrkrið í þvottahúsinu“, er ljóðmælandi barn að leik í þvottahúsi:

… Hendurnar sökkva ofan í kassann í leit að kubbi, þessum sem kemst alltaf undan.

Barnið felur sig svo þegar móðirin kemur inn í þvottahúsið til að setja í vél.  Þar var einhver strengur, tilfinningin um einmanaleikann sem fylgir því að vera barn, sem má raunar finna víðar í bókinni.

Eins fannst mér skemmtileg lýsingin á flugunum í ljóðinu „Kofinn“:

Þar sem flugurnar hvæstu eins og fljúgandi tígrisdýr og börðu loðnum hausum sínum upp við rúðurnar; sveittar, másandi og við það að sligast undan þunga sumarsins.

Uppáhalds kaflinn minn var hinsvegar í fyrsta ljóðinu: „Laufásvegur 1995. Tuttugu árum síðar“:

Ég stend við hliðina á háu tré og með hægri hendi held ég í endann á grænni garðslöngu sem hangir niður úr trénu. Ég horfi opinmynntur í myndavélina eins og ég sé að fara að segja eitthvað. Beini slöngunni að trénu en ekkert vatn kemur úr henni, enda er hún ekki tengd. Ég er líka ekki að vökva, ég er að skrifa. Ég kann ekki að skrifa en það skiptir engu máli. Orðin flæða fullmótuð úr slöngunni yfir á tréð, leka niður trjábolinn og hverfa ofan í jarðveginn

(bls. 6-7).

Þessi hluti ljóðsins hefði vel getað staðið einn og sér, sem sjálfstæður texti. Í byrjun sama ljóðs er önnur skemmtileg lýsing:

Ekkert á þessum stað er kunnulegt. Á framhlið hússins er búið að bæta við stórum gluggum og þar sem tréð stóð áður trónir nú svartur lúxusjeppi á nýlagðri stétt

Söknuður og nostalgía er ítrekað þema í bókinni. Þar er fjallað um hús sem stóðu, en standa ekki lengur. Ljósastaurarnir eru dregnir inn í barnaleiki (hvísluleik), og minningarnar virðast flæða yfir allt. Seinasti bálkurinn, sem bókin dregur nafn sitt af, „Draumar á þvottasnúru“, á svo að hnýta þetta allt saman. Þar fer drengurinn, nú orðinn ungur maður,  að leita uppi sína gömlu drauma á fornum æskuslóðum. En finnur ekkert. Nema „...nokkra tætta og föla larfa, alsetta tannaförum, sem mér fannst nokkuð skemmtileg mynd.

Nostalgía eða fortíðarþrá er í ensk-íslenskri orðabók skilgreind sem „angurvær, ljúfsár söknuður eftir liðnum tíma“. Nostalgía er svona eins og filter á instagram sem maður klessir yfir myndir til að láta heimili sitt líta út eins og Monet-málverk, þegar raunveruleikinn er nær sjónvarpsþætti af „Hoarders“. Hún er brenglun á minningum, fantasía sem við grípum oftar til eftir því sem við upplifum meira öryggisleysi í hversdeginum, hinum ófilteraða raunveruleika.

Í nostalgíu-vímu verður barnæska manns að ævintýraheimi, þar sem maður var endalaust að sulla í heitu kakó, öll hjól voru hraðskreið og allar brekkur lágu niður í mót og maður var alltaf með sólina í andlitinu (et cetera, et cetera). Söknuður er auðvitað kunnuglegt þema í ljóðtextum. Í ljóðtexta vekur hann upp þessa taug í manni sem saknar alls þess sem var – en er ekki lengur.

En það er varasamt þegar nostalgían tekur yfirhöndina og allar hvassar brúnir og breyskleiki hverfa, hvort sem er í endurminningu eða texta. Rétt eins og það er varasamt þegar hugmyndin um hvernig eigi að skrifa ljóð, hvernig ljóð eigi að vera, yfirtekur ljóðið sjálft. Að skrifa ljóð er flókinn línudans. Það er freaking erfitt! Það er búið að dæla í okkur allskonar upplýsingum um hvernig ljóð séu – hvernig ljóð eigi að vera. Yfirleitt er sú hugmynd eitthvað sem var framúrstefnulegt árið 1960, jafnvel árið 1980, en kannski ekki svo árið 2017.

(Hey kids, þetta er ljóð!)

Ég er ekki að meina að ein tegund ljóðs sé betri en önnur. En nánast allir sem eru að byrja að skrifa ljóð falla í þá gryfju að setja sig í ögn hátíðlegri stellingar. Nú eða að ætla að setja sig einmitt, í svo hversdagslegar stellingar að ljóðið eigi sko bara að vera eins og matarkex með kaffi á brúsa, svona „verkamannaljóð“ – ekki nein sushi-ljóð! En ókei. Fólk skrifar bara og skrifar svo meira og heldur áfram að móta sína eigin rödd.

Svo er líka smekkur fólks, sem betur fer, svo dásamlega misjafn. Ljóð er auðvitað alltaf túlkun og lestur ljóða krefst óneitanlega dálítið öðruvísi lesturs en annar texti. Ef að það eru bara nokkur góð ljóð í verki – þá er það þess virði að fara í þetta ferðalag með höfundinum.

Það er í raun ekkert ljóð sem er illa skrifað í þessari fyrstu bók Þorvalds. Það sem truflaði mig var bara hvað ljóðin voru notaleg – snyrtileg. Þau hefðu sómt sér vel í hvaða kennslubók um ljóð sem er – Ljóðspor, Ljóðspegli eða hvað þetta hét allt saman. Sem er kannski, hvað mig varðar, eina og jafnframt stærsta vandamálið.

Þorvaldur má vera afar stoltur af sínu fyrsta verki. Hann hefur greinilega góða tilfinningu fyrir tungumálinu og það býr í honum sögumaður. En ég er þess fullviss að í honum býr líka mun meiri sprengikraftur; húmor og reynsla sem hann getur tjáð en enginn annar.

Nú á ég eftir að hljóma eins og ég sé að predika. Sorrý. Kannski er ég að því. En mér finnst dásamlegt þegar skáld gera tilraunir, leika sér, nota húmorinn og draga fram pönkarann.

Fokk Ljóðspor og ljóðakennsla í grunnskólum! Fokk að snýta sér í tóbaksklút eitthvað! Fokk húmið og rökkrið og vatnið og allt þar á milli! Fokk fyrirsjáanleg „punch line“ og verkamannaljóð (af því verkamenn þurfa öðruvísi ljóð? Eða?). Það er búið að gera þetta allt svo oft. Gerum eitthvað annað. Fokk að segja fokk. Eða eitthvað. Bara eitthvað.

Ég hlakka til að halda áfram að fylgjast með Þorvaldi og hans listsköpun. Hann er hæfileikaríkt ungskáld en ef hann dregur fram rapparann og anarkistann í sjálfum sér, gefur svolítið skít í ljóðið en heldur samt áfram að skrifa ljóð, hefur hann alla burði til að verða eitt af okkar betri skáldum.