Lifi hinn skapandi kraftur í leikverkstæðum þjóðarinnar

Maípistill um leikhús

Lífvænt musteri við Hverfisgötu

Það var verulegt ánægjuefni að verða vitni að kvikandi lífi á leiksviðinu í aðalsal Þjóðleikhússins í sýningum á þeim tveimur verkum sem þar voru frumsýnd þegar leið að lokum leikárs. Annað þeirra, Húsið, er fjörutíu ára gamalt leikrit eftir Guðmund Steinsson og hefur aldrei áður verið sett á svið; hitt var Álfahöllin, samvinnuverkefni margra dramatúrga og leikara undir stjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Mér fannst báðar þessar sýningar dúndurgóðar.

Leikrit Guðmundar er semsé fjögurra áratuga gamalt en það lifnaði sem nýfætt væri á sviðinu í meðförum leikaranna og leikhúslegri sviðsetningu Benedikts Erlingssonar þar sem allir þættir sýningarinnar spiluðu afar vel saman. Leikmynd og lýsing, búningar, staðsetningar leikara og snjöll notkun möguleika hringsviðsins – allt var þetta svo leikandi skemmtilega af hendi leyst að unun var á að horfa. Sjaldan eða aldrei hef ég séð leiksviðsgólfið í Þjóðleikhúsinu jafn skínandi vel málað og í þessari sýningu og vonandi hefur þeim svarta grundvallarbjarma verið haldið vandlega við.

Leikstjórn Benedikts Erlingssonar á Húsinu einkenndist af fágun og nákvæmni, ásamt virðingu fyrir leikriti Guðmundar, en um leið þeim frumskapandi krafti sem ræður líkast til á endanum úrslitum um hvernig til tekst. Sýningin fór reyndar dálítið hægt af stað og ég fann fyrir ákveðnum kvíða. Gat það verið að áhættan sem því var óneitanlega samfara að frumsýna þetta gamalt verk hefði verið of mikil – og þetta yrði kannski bara flopp og fíaskó? En öðru nær. Eftir því sem leið á sýninguna óx hún með hverju atriði og var svo áferðarfalleg að sjaldgæft hlýtur að teljast. Efnið reyndist líka meira spennandi en einn lestur á leikritinu gaf tilefni til að halda og á ekki síður erindi við okkar tíma en þann sem það var skrifað á.

Umgerðin öll og sviðsetning var þannig til fyrirmyndar en mestu skipti þó að mínu mati að leikurinn var mjög jafn og óvenju samstilltur. Það er ekki oft sem maður sér ensembleleik í íslensku leiksviði en leikararnir í Húsinu undir stjórn Benedikts Erlingssonar voru allan tímann í góðum takti og samspili hver við annan. Takk fyrir mig og til hamingju Þjóðleikhús að hafa veðjað á Húsið hans Guðmundar Steinssonar.

Fátæktin í leikhúsinu

Álfahöllin er allt annars konar verk – eins konar spunaverk leikara, handritaskrifara og leikstjóra – þar sem unnið er með nokkur grundvallarþemu. Ævintýrin í álfahöllinni – lesist Þjóðleikhúsinu sem Guðjón Samúelsson teiknaði og sagði fyrir um allan arkitektúr á – saga hússins fyrir og eftir vígslu þess, listamennirnir sem þar hafa starfað, leikritin sem þar hafa verið leikin og söngvarnir sem þar hafa hljómað, var eitt þema. Annað var íslenska þjóðarsálin eins og hún birtist í bullandi aðdáun á íþróttahetjum og fáránlegum uppátækjum fólks við að hafa ofan af fyrir sjálfu sér og öðrum í partíum. Meginefni sýningarinnar og rauði þráðurinn í henni allri var þó fátækt á Íslandi – þjóðarmein sem eins og kom aftur og aftur fram í sýningunni er ekki neitt nýtt fyrirbæri. Val á leikatriðum úr þekktum leikritum og verkum sem í Þjóðleikhúsinu hafa verið sýnd á næstum sjötíu árum miðaðist nær allt við að sýna sem flesta fleti á þessu meini. Atriðin úr Fjalla-Eyvindi voru einfaldlega svo falleg og vel flutt að það hlaut að snerta hvert hjarta. Þau vörpuðu um leið ljósi á það hve mörgum góðum og hæfum leikurum á ýmsum aldri Þjóðleikhúsið hefur á að skipa. En einkum skáru þessi atriði úr meira en hundrað ára gömlu leikriti Jóhanns Sigurjónssonar úr um það hversu mikilvægur skáldskapur er í leikhúsi ef á annað borð er eitthvað verið að vesenast með texta á sviðinu. Margir geta kannski orðið leikritahöfundar og dramatúrgar en það er á færi fárra einna að verða leikskáld.

Sumir gagnrýnendur voru að fárast yfir því að sýningin á Álfahöllinni væri bara ekki nógu vel skrifuð. Því er ég ósammála. Auðvitað má um það deila hvort einhver ávinningur hefði verið að því að stytta sum atriði og fella önnur alveg niður – en það er býsna langt síðan ég hef skemmt mér jafnvel í Þjóðleikhúsinu og þetta kvöld og sjaldan hef ég átt auðveldara með umbera hnökra á leiksýningu. Það kom til af því að eins og í sýningunni á Húsinu var ákaflega gaman að horfa á leikarana í Álfahöllinni – einkum þó fyrir þá sök að þeim lá öllum töluvert á hjarta og voru trúir sínum verkum og margbreytilegu uppátækjum.

Eitt af þeim atriðum sem gagnrýnt var fyrir lengd var frásögn Ólafíu Hrannar Jónsdóttur – Lollu – á eigin rannsókn á fátækt á Íslandi. Ég þykist vita að þetta atriði nokkru eftir hlé sé ekki jafnlangt á öllum sýningum því að Ólafía Hrönn spinnur held ég textann í hverri sýningu fyrir sig svo hann verður aldrei eins frá kvöldi til kvölds. Á sýningunni sem ég sá mátti ekkert andartak af þessu eintali missa sig. Og það var í mínum augum tvímælalaust hápunktur sýningarinnar. Það eitt að sjá Ólafíu Hrönn – Lollu – afklæðast leikkonunni sem næstum öll þjóðin þekkir og koma fram sem hún sjálf að segja frá málum sem á henni brenna var sterk upplifun. Það var innistæða fyrir hverju hennar orði þetta kvöld og öllum blæbrigðum raddar og sterkri nærveru konunnar sem leikarinn hefur tekið sér bólfestu í. Jafnframt fannst mér óumræðilega fallegt að sjá alla þessa leikara og sviðsmenn ganga hljóðlega um sviðið fram og til baka og fylla það af jafnmörgum leikföngum og þau eru börnin sem búa við sára fátækt á okkar auðuga Ísalandi.

Í aðdraganda frumsýningar á Álfahöllinni dásamaði Þorleifur Örn leikstjóri hugrekki Ara þjóðleikhússtjóra fyrir að hafa gefið sér frjálsar hendur til að skapa. Kannski er það hugrekkisvottur en hvaða leikhússtjóri á Íslandi myndi ekki veðja á Þorleif Örn nú um stundir? Það er Ólafía Hrönn sem fær mín hugrekkisverðlaun og með henni reyndar allur leikhópurinn.

Meira andríki af þessum toga, kæra Þjóðleikhús, og burt með alla fátækt í anda. Við höfum ekki efni á slíkri fátækt fremur en fátækum börnum.

Laboratorium í Tjarnarbíói

Í Tjarnarbíói sá ég tvær leiksýningar sem báðar kenndu sig við leikhúslaboratorium; tuttugu og fimm ára afmælissýningu LabLoka sem þeir Rúnar Guðbrandsson og Árni Pétur Guðjónsson kölluðu Endastöð – Upphaf og sýningu SmartíLabs (trúlega kennt við leikstjórann Söru Martí) á Fyrirlestri um eitthvað fallegt.

Rúnar og Árni Pétur rifjuðu í sinni sýningu upp sitthvað af aldarfjórðungsvegferð sinni saman í leikhúsinu og gerðu það þannig að sýningin vísaði langt út fyrir sjálfa sig og leiklistina. Draumurinn um að láta að sér kveða í leikhúsinu með frumlegum og eftirtektarverðum hætti hefur fylgt þeim í öll þessi ár og það kom greinilega fram í sýningunni. Margt fór auðvitað á annan veg en einmitt í því trúi ég að mjög margir leikhúsgestir hafi séð sjálfa sig og þess vegna farið ríkari heim af sýningunni.

Á sviðinu með Árna Pétri og Rúnari þetta kvöld voru Aðalbjörg Árnadóttir og Kjartan Darri Kristjánsson. Þau eru bæði hörkuleikarar og þegar maður horfir á Aðalbjörgu fara með magnaða einræðu Medeu, að ég held á færeysku, þannig að nema má hverja einustu tilfinningu sem leikkonan leggur í flutninginn verður maður forviða á því að leikhúsin stóru og sterku skuli ekki leggja snörur sínar fyrir jafn flottan listamann.

Fyrirlestur um eitthvað fallegt fjallaði á gamansaman hátt um kvíða og þá mörgu fylgifiska þess kvilla sem það mannlega mein getur haft í för með sér. Sýningin var fyrst og fremst svolítið skemmtileg og létt og gerði kvíðann bærilegan með þeirri aðferð. Kannski hefði mátt kafa meira á dýptina – en hvenær er ekki hægt að spyrja þeirrar spurningar? Allavega bauð Smartílab upp á skemmtilegt kvöld í leikhúsinu og þótt stundum jaðraði sýningin við það að vera á pari við frekar góða menntaskólaleiksýningu voru í henni ómetanlegir sprettir. Atriðið um morgunlyfjatökuna var til dæmis svo fyndið að maður hefði getað kafnað úr hlátri en um leið svo beitt að kalda vatnið rann milli skinns og hörunds á mér sem áhorfanda.

Guðmundur Felixsson var meðal leikara í þessari sýningu og fór á kostum í hlutverki Kvíðamannsins. Það rifjaði upp fyrir mér að Guðmundur var leikstjóri þeirrar sýningar sem mér fannst hvað athyglisverðust á þessu leikári – sýningu Leikfélags Menntaskólans við Hamrahlið. Af einhverjum sökum er það nefnilega þannig að það sem er mest spennandi í leikhúsinu gerist oft einhvers staðar á jaðrinum og fjarri stórum sviðum. Önnur jaðarsýning er Reykjavíkurdætur The Show í leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur á Litla sviði Borgarleikhússins. Beitt ádeila á karlrembu og feðraveldi og sýning sem eins og Álfahöllin lifir ekki síst fyrir það að þarna liggur öllum þeim sem fram koma mikið á hjarta.

 

Nú er ég um það bil að hefja rekstur á sannkölluðu jaðarleikhúsi ásamt tveimur öðrum sviðslistamönnum. Við köllum fyrirtækið Leiksmiðjuna Frigg – eftir konu Óðins æðsta guðs – og stefnum á að hefja starfsemi af fullum krafti með haustinu. Leiksmiðjan Frigg verður til húsa á Garðatorgi 1 í Garðabæ. Við ætlum okkur ekki að keppa við meginstraum leiklistarinnar á Íslandi heldur halda okkur á hinum skapandi jaðri þar sem óteljandi fræ geta skotið rótum. Eigi að síður lít ég svo á að þessi fyrirhugaði leiksmiðjurekstur minn geri mig vanhæfan til þess að fjalla um leiklist annarra. Þetta er þess vegna síðasti leikhúspistill minn í Starafugli – að minnst kosti um sinn. Ég hef haft af því nokkurt gaman að skrifa þessa pistla og þó einkum gagn – því að það er mjög lærdómsríkt að setjast niður og velta því fyrir sér hvað maður geti sagt af sæmilegu viti um tilteknar leiksýningar.

Ég vona að fleiri en ég sjálfur hafi haft eitthvert gagn og gaman af leikhúspistlunum mínum og þakka þeim sem lesið hafa.