Tvö ljóð eftir Hallgrím Helgason


Hallgrímur Helgason (f. 1959) er rithöfundur, myndlistarmaður og pistlahöfundur. Eftir hann liggja fjölmargar skáldsögur, eitt ljóðasafn, íslensku bókmenntaverðlaunin 2001, örfá bönk í bifreið forsetisráðherra, fjölmargir pistlar sem birst hafa víða – og von er á nýrri ljóðabók eftir hann hjá Forlaginu í vetur.

Sunnudagskvöldið 2.október, á Gauknum, Tryggvagötu 22, halda Starafugl og Samtök ungra skálda (SUS) ljóðapartí.

Í gestavinnustofu á Siglufirði
gömlu tvílyftu timburhúsi
á miðri eyri

Einn í tvöföldu rúmi
með eina sæng
en tvíbreitt lak

Hún hringar sig á auða helmingnum
ýmist svört hrúga með hvíta blesu
eða flatur fugl á ís

Þegar ég legg frá mér bókina
og slekk ljósið
laumar hún hvítri löpp í lófa
og við leiðumst inn í landið
þar sem dýr og menn eru blóm
sem raula saman drykkjuvísur
eftir Dalí

Pallbíllinn líður hjá
eins og rammþungur bátsskrokkur

Og eilítið sköllótt mannshöfuð
á hillu í stýrishúsinu

Það skröltir lauslega á henni
þegar báturinn fer yfir hraðahindrun

En fellur þó ekki fram af