Ljóð eftir Kristínu Svövu


Sunnudagskvöldið 2.október, á Gauknum, Tryggvagötu 22, halda Starafugl og Samtök ungra skálda (SUS) ljóðapartí.

Kristín Svava (f. 1985) er sagnfræðingur og fyrrum póstberi úr vesturbænum. Hún hefur gefið út bækurnar Blótgælur (2007), Dr. Usli (2009) , Skrælingjasýningin (2011), Stormviðvörun (2015) og vinnur nú að ritsafni um klám.

Nýlenduherrarnir

Það gengu svo viðkunnanlegir Danir á undan mér niður götuna (já þeir eru til) á leiðinni heim með sultuna og rjómann. Þeir reyktu pípu og gættu þess að ganga ekki á hjólastígnum. Þeir voru í fötum sem gáfu til kynna að þeir væru vanir að fara ferða sinna fótgangandi, báðir í uppbrettum gallabuxum með bakpoka úr segldúk. Ég velti fyrir mér hvort þeir væru elskhugar eða vinir. Þeir snertust aðeins einu sinni, þegar annar þeirra rann til í hálkunni og greip í hinn og hló. Þegar við gengum framhjá húsinu mínu datt mér í hug að segja „undskyld“ og bjóða þeim inn. Mér datt í hug að segja „det er bolledag her i Island i dag“ og svo myndum við elskast öll þrjú fram á nótt.