Endurbókun í Listasafni Ísafjarðar

Rætt við Gunnar Jónsson yfir myndlistarsýningu og hádegisverði

Safnahúsið á Ísafirði hýsir einsog nafnið gefur til kynna söfn en þó fyrst og fremst eitt safn: hið mikilfenglega héraðsbókasafn Ísafjarðarbæjar. En þar eru líka Héraðsskjalasafnið og ljósmyndasafn bæjarins. Í einum sal á annarri hæð hússins er svo að finna Listasafn Ísafjarðar. Í ár hefur meðal annars verið þar sýningin Vex eftir Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur og listsýning LÚR hátíðarinnar. Nýjasta sýningin heitir Endurbókun og er á vegum listahópsins ARKIR, sem samanstendur af 11 konum og hefur starfað í vel á annan áratug.

Ég mælti mér mót við Gunnar Jónsson, myndlistarmann og safnstjóra í Gallerí Úthverfu á Ísafirði (sem er til húsa þar sem hið fornfræga Slunkaríki var eitt sinn) til þess að ræða sýninguna. Gunnar er fæddur 1988, menntaður í LHÍ, og hefur meira vit á myndlist en ég. Ég á hins vegar áreiðanlega fleiri bækur og kenningin sem lagt er upp með einhvern veginn sú að sýningin eigi sér stað á skurðpunktinum þar sem lífslínur okkar mætast – milli bókar og myndar.

Það var áreiðanlega sól og blíða. Ég vil muna það þannig. Við höfðum ákveðið að borða saman eftir göngutúr um sýninguna. Um morguninn sendi ég Gunnari skilaboð og spurði hvort við værum ekki áreiðanlega on og hann játti því en sagðist þurfa að koma við á sjúkrahúsinu og yrði korteri of seinn. Í fyrstu ruglaði þetta mig í ríminu því Safnahúsið er Gamla sjúkrahúsið – þar fæddist stór hluti bæjarbúa. En Gunnar var á alvöru sjúkrahúsinu (það var ekkert sjáanlegt að honum) sem er hinumegin við tún og götu.

gunnar

„Ég held ég viti hvernig þetta verður“, sagði Gunnar þegar ég hafði sýnt honum myndbandið af sjálfum sér nálgast. „Ég held ekki að þetta falli inn í þann ramma sem ég kalla bókverk. Sem ætti kannski ekki að hafa ramma.“

Ég spurði hvað hann kallaði bókverk og fékk langa útlistingu um Dieter Roth, um bókina sem konsept frekar en efnivið, um Boekie Woekie og Flúxus, um Fallegustu bók í heimi og eitt og annað fleira sem ég hef gleymt. „Handverk úr bók er ekki endilega bókverk“, sagði Gunnar og brosti þegar við gengum upp stigann. Síðan hverfum við hvor ofan í sinn símann og uppgötvum meðal annars að „bókverk eigi sér stað á mörkum prentverks, ljósmyndunar, ljóðlistar, tilraunafrásagnarlistar, myndlistar, grafískrar hönnunar og útgáfu.“ En erum kannski litlu nær fyrir það.

Við grípum okkur sýningarskrá við inngang salarins en það vantar á hana nöfn listamannanna. Við gúgglum. Þessi nöfn koma upp.

Anna Snædís Sigmarsdóttir
Arnþrúður Ösp Karlsdóttir
Áslaug Jónsdóttir
Bryndís Bragadóttir
Helga Pálína Brynjólfsdóttir
Ingiríður Óðinsdóttir
Kristín Guðbrandsdóttir
Kristín Þóra Guðbjartsdóttir
Sigurborg Stefánsdóttir
Svanborg Matthíasdóttir

„Þekkirðu einhvern?“ spurði ég.

„Já. Helgu Pálínu, hún var deildarstjóri, minnir mig að titillinn hafi verið, í Listaháskólanum þegar ég var þar. En þú?“

„Bara Áslaugu Jónsdóttur – ég les svo mikið af barnabókum. Hún gerir skrímslabækurnar með færeyskri vinkonu minni, Rakel Helmsdal; gerði líka teikningarnar í Bláa hnettinum. Og mynd af mér, með einhverri grein í norrænu blaði – ég nota hana sem avatar á instagram.“

Við stingum á okkur símunum, brjótum saman sýningarskrárnar og göngum einn rúnt um hvítan salinn. Gunnar jammar. „Einmitt. Einmitt.“ Ég fæ það á tilfinninguna að sýningin staðfesti allt sem hann hafði haldið. „Já, ég veit það ekki,“ segir hann síðan. „Hvað finnst þér?“img_9800

„Ég er bara ennþá að skoða. Mér finnst þetta fínt“ segi ég og bendi á verk eftir Áslaugu þar sem texti hefur verið gylltur utan á harðspjaldakápur og þær hengdar gleiðar upp.

„En eru þetta bókverk?“ spyr Gunnar.

„Frekar en verk gerð úr bókum, meinarðu?“

„„Já, einmitt. Ég held þetta sé nær því að vera handverk sem í sjálfu sér er ekkert að. Kannski er ég samt á vafasömum slóðum; eitthvað að pönka yfir mig. Án leyfis. Ég er enginn pönkari. Framsetningin á sýningunni er góð, það er aðallega innihald verkanna – ég get ekki ákveðið hvað það er.“

„Ég er enn ekki viss um að ég skilji hvernig maður skilgreinir bókverk“, segi ég og teygi mig í símann. 

„Mér finnst það þurfa að vera einhvers konar afbygging á hugmyndinni um bók. Frekar en að bókin sé bara notuð sem strigi eða efniviður í skúlptúr sem hefur ekkert með eðli bókarinnar að gera. Sjáðu til dæmis þetta“, segir Gunnar og bendir á annað verk eftir Áslaugu, þar sem bækur eru bókstaflega notaðar sem strigar fyrir einhvers konar málverk. „Er þetta bókverk? Mér finnst það alveg valid spurning. En kannski er ég að festa mig í einhverju hérna.“

„Úrklippurnar eru af bókarkápum.“

„Og hún gengur frá þessu einsog íkonamálverki.“

„Mér finnst einsog þetta sé hugsanlega í senn það verk hérna sem stendur næst og fjærst bókinni. Það fjallar í öllu falli um einhvern tiltekinn bókakúltúr. Mætti jafnvel lesa það sem gagnrýni á sjoppurómaninn – eða í það minnsta portrett af honum. Sem þýðir ekki endilega að hún takist á við hugmyndina um bókina sem slíka – en allavega bókmenningu.“

img_9803„Að einhverju leyti finnst mér vera sami brandari í þessum bókverkum og því að hafa bókverkin inni á bókasafni. Þetta er of einfalt. Mér finnst vanta dýpt í þetta. Þetta er einsog ég hafði áhyggjur af að þetta yrði. Næstum einsog verkin séu bara onelinerar. En svo er þetta eiginlega ekki bókasafn, heldur er salurinn skilgreindur sem listasafn, sem hann er eignlega ekki heldur. Það er kannski líka lýsandi fyrir sýninguna. Hún er einhvern veginn svolítið hvorkiné. Meira hönnun og handverk en myndlist, en nær samt ekki vera það heldur.“

„Mér finnst áhugavert líka að að svo miklu leyti sem sýningin endurspeglar hugmyndir okkar um „bók“ þá er það bókin sem statískur 20. aldar forngripur; það er hin gutenbergíska bók sem er hérna í forgrunni. Á síðustu áratugum hefur bókinni verið kollvarpað – með tölvuvæðingu, rafbókavæðingu og félagsmiðlum. Er Facebook kannski ekki einhvers konar bók? Er bókin – einsog við skiljum hana árið 2016 – ekki bara hvaða farartæki fyrir texta sem er? Uppáhalds bókverkið mitt er kannski tilraun bandaríska konkretskáldsins Kenneth Goldsmith til þess að prenta út allt internetið og troða blaðsíðunum inn í gallerí.“

„Haha. Það hljómar skemmtilega,“ segir Gunnar og heldur áfram: „Það er líka svona úthaldstengt verk, eins og töluverk Romans Opalka, það er að segja ef hann heldur því áfram þar til hann deyr; algjörlega ómögulegt verkefni. Þetta hérna er ekki alveg 20. aldar – minnir á bókrullur.“ Hann bendir á verk sem heitir Skáldskapur I og II, sem er einsog þykkar bambusgardínur úr textaprikum. „Og þá er farið aftur fyrir Gutenberg. Eða honum kannski steypt saman við eldri heim. En þetta er líka svolítið föndur.“

img_9807Gunnar þegir augnablik og við störum ráðlausir út í loftið. Svo heldur hann áfram: „Ljótt orð, þetta föndur, mér líður einsog ég sé að saka fólk um eitthvað ægilegt.“

„Sum verkin eru svolítið fyndin“, segi ég. „Bestu verkin hafa húmor fyrir sjálfum sér. Einhverja gleði. Verstu verkin eru kannski föndur. Eða, verstu, þú veist. Þau eru ekkert endilega verri – en maður hefur þá kannski ekkert um þau að segja annað en hvort þau séu fín eða ljót. Þau bjóða ekki upp á neitt annað. Myndi ég hengja þetta upp í stofunni eða myndi ég ekki hengja þetta upp í stofunni.“

„Já“, segir Gunnar eftir dálitla þögn. „Ég þoli samt ekki sum verkin. Hnettirnir þarna í horninu – stór og lítill og hvað þeir heita. Þetta nær ekki að vera bókverk, ekki að vera geometrísk myndlist, þetta er ekki hönnun, ekki iðnlist, ég veit ekki hvað þetta á að vera eða hvað það á að gera.“

Við jömmum og jæjum. Það er ekki að okkur finnist þetta ekki að mörgu leyti fínt – held ég – en við erum eitthvað að berjast við að átta okkur á því hvar við séum. Við göngum í einhverja hringi og ég tek myndir af nokkrum verkanna, tek myndir af Gunnari með verkunum og spyr hvort hann haldi að þetta þýði að ég fái fleiri höfundarréttarrukkanir (einsog þegar ég birti fræga ljósmynd af Sölva Fannari með umfjöllun um list hans). Gunnar segist halda ekki, svo fremi sem hann sé sjálfur aðalatriðið á myndunum, en við vitum hvorugur hvar línan liggur.

img_9808

„Erum við bara að leita að tungumálinu í verkum sem fjalla ekki um tungumálið heldur bókina sem hlut?“ spyr ég. „Ég hef mest gaman af verkunum þar sem ég get lesið eitthvað, jafnvel þótt það séu bara orð og orð á stangli, eða orðhlutar, eða jafnvel bara stakir krókar af stöfum.“

„Ef að bækur eru farartæki fyrir tungumál – frekar en bara pappi, þráður og pappírsarkir – þá hætta þær augljóslega að vera bækur þegar þær bera ekki lengur neitt tungumál. Þá hafa þær verið sviptar eðli sínu og ekkert eftir til að afbyggja eða portrettera.“

„Þegar ég hugsa um bókverk þá eru þau samt einmitt svona. Þetta er það sem kemur upp í hugann þegar ég hugargúggla í myndaleit. Svona rolodex-bækur og eitthvað föndur úr bókum – búið að mála aðeins inn í þær og svona.“

„Ekki mér“, segir Gunnar. „Ég hugsa miklu meira um eitthvað boekie woekie eða Dieter Roth, þar sem bókin er enn einn miðillinn fyrir listina, líkt og vídeóið, hljóðið og ljósmyndin.“

„En samt sagðirðu að sýningin væri einsog þú hélst hún yrðir. Hvers vegna hélstu að hún yrði svona þegar þú vissir ekkert um hana annað en að hún samanstæði af bókverkum?“

„Kannski hafði ég bara ekki meiri trú á Listasafni Ísafjarðar? Ég átti ekki von á að finna hérna þess lags sýningu sem uppfyllir hugmynd mína um bókverk. En kannski er ég líka bara smámunasamur með hugtakið – eða að beita því eitthvað vitlaust, ég veit það ekki. Þetta er alveg fínt en þetta er líka bara eitthvað þunnt. Það er ekkert að gerast í þessu.“

Ég dreg upp símann og gúggla „bókverk“. Fyrsta hittið er heimasíða Áslaugar, annað hittið er heimasíða Arka. Mér finnst skyndilega einsog við séum að ráfa um annarra manna skilgreiningar í óleyfi.

„Hvað fannst þér um sýninguna?“ spyr Gunnar.

„Mér fannst hún pen. Ekki … ekki agressíf, óagressíf, andagressíf kannski?“

„Já einmitt. En fínt handverk eða föndur. Ekkert að því.“

„En mér finnst þetta líka svolítið karlaröfl í okkur. Kannski er það bara testósterónið í manni, lífeðlisfræðileg örlög manns. Ég verð viðurkenna að fíla oft betur sýningar sem eru agressífari – ég á ekki við að konur séu ekki pönkarar, auðvitað er fullt af konum pönkarar. En ég á bágt með að sjá fyrir mér hóp af körlum með þessa föndurdýnamík – kannski er einhver móðurleg hógværð eða mærð sem einkennir stemninguna hérna.“

„Og kannski er það líka bara rýmið. Þessi kurteislegi salur inn af bókasafninu.“

„Og svo er þetta karlaröfl. Einhver innri ósk um að allir listamenn séu karlpungar á háa c-inu.“

img_9801

„Já, það er gott að þú segir þetta. Ég vil ekki heldur koma út sem einhver hrokagikkur. En kannski er ég það bara.“

„Hlutirnir þurfa náttúrulega ekki að vera jákvæðir eða neikvæðir – það þurfa ekki að vera víddirnar sem við hugsum þetta í. Við þurfum kannski bara betri lýsingarorð en karllægt og kvenlægt.“

„Listasagan er náttúrulega gegnsýrð af þessari tvíhyggju“, segir Gunnar. „Karllægt og kvenlægt. Mörg fyrstu listaverkanna eru auðvitað frjósemistákn – typpi og píkur. Venus frá Willendorf, til dæmis.“

„Já, en við getum líka bara talað um domestík og pönk; heimilisfrið og niðurrif. Hvorutveggja er mikilvægt, hvorutveggja þjónar tilgangi – ég er ekki einu sinni viss um að þau þrífist hvort án hins. Og svo eru frjósemistáknin öll pönk – öll gredda. Þótt þau séu ekki niðurrif. Þau eru of hættuleg. Ekki síst Venus frá Willendorf.“

Við göngum nokkra hringi í viðbót, skrifum nöfn okkar í gestabókina og færum okkur yfir í næsta herbergi, þar sem finna má listaverkabækurnar. Gunnar langar að sýna mér eitthvað eftir Dieter Roth en finnur það ekki, langar að sýna mér eitthvað eftir Kristján Guðmundsson en finnur það ekki og langar loks að sýna mér eitthvað eftir Birgi Andrésson en finnur það ekki heldur. Hann mælir með bók Þrastar Helgasonar um Birgi.  Og heldur áfram að leita að einhverju sem fellur undir hans skilgreiningu á bókverki, en það finnst ekki og hann virðist vera farinn að efast um sitt eigið ágæti og skilning hugtakinu – kannski er þetta bara ekki til.

Þá förum við að tala um Ragnhildi Jóhanns, myndljóðskáld, og bók hennar Konur 30 og brasilískt (sem fjallar um konur yfir þrítugu sem fara í brasilískt vax). Fyrren varir erum við djúpt sokknir í samræðu um hárvöxt og rakstur á tímum stafrænna myndavéla. Það síðasta sem ég segi áður en við leggjum af stað í hádegismat er: „Það er einfaldlega einsog siðmenningin hafi gert sér bústað í nærfötunum.“

„En svo er líka eitthvað glatað að gera lítið úr þessari sýningu“, segir Gunnar þar sem við göngum niður Hafnarstræti í áttina að veitingastaðnum Húsið. „Þetta er fín sýning. Hún er það sem hún er. Ég held að maður verði að skilja hana sínum eigin skilningi. Ég veit ekki alveg fyrir hvern hún er. Þú segir að hún sé kvenleg en kannski er hún líka bara alþýðleg.“

„Ég veit ekki hvort hún er kvenleg. En ég velti því fyrir mér. Hvort það sé orðið sem ég vilji nota.“

„En er hún alþýðleg?“

„Ég held hún gangi vel í bolinn“, segi ég. „Ég veit ekki hvort að það þýðir að hún sé alþýðleg.“

„Mér finnst þetta vera svolítið svona einsog einhver hafi verið að henda bókum af Borgarbókasafninu og hugsað: Hey, vill ekki einhver gera eitthvað úr þessu? Þetta er endurvinnsla endurvinnslunnar vegna.“

„Endurvinnslan sem siðbót. Listin sem siðbót. Annars var ég einmitt með í svona föndurhópi – aðallega eða bara karla – sem endurunnu bók upp úr ruslagámi Borgarbókasafnsins. Það var aðeins meira pönk en það var líka smáborgaralegt föndur. Bókin hét Áræði.“

„Það er náttúrulega svo rangt að henda bókum. Síðan að Vesturafl hættu að taka við bókakössum hleðst þetta bara upp hjá mér. Fyrst einn kassi, svo annar og þriðji. Ég veit ekkert hvað ég að gera við þetta. En ég get ekki hent bókum, það er alveg óhugsandi.“

„Ég er sem betur fer með skrifstofu í bílskúrnum þar sem er nóg pláss fyrir bókahillur. Og svo les ég núorðið mikið af rafbókum – þá dregur svolítið úr vexti bókasafnsins.“

„Þetta er einsog matarafgangar. Maður fær geðveikt samviskubit af að henda bókum og mat.“

img_9811

Maður fær samviskubit af því að kasta bókum eða mat.

„Ha ha. Kannski var það það sem vakti fyrir Dieter Roth þegar hann var að troða matnum inn í bækurnar. Að komast hjá því að henda bókum og mat.“

„Maður getur allavega étið afgangana.“

„Ég er að reyna að hætta því. Ég var eitthvað að monta mig af þessu – en kvarta undan því hvað það væri fitandi – og þá var mér sagt að ég væri bara að nota líkama minn sem ruslafötu. Mér fannst það sannfærandi röksemd.“

„En hvað gerir maður við svona bækur? Lestu allar bækur sem þú átt?“

„Nei. Hvergi nærri.“

„Ekki ég heldur. Mér finnst bara notalegt að eiga sumar. Að geta sótt í þær. Að þær séu hluti af heimili mínu.“

„Ég á líka frekar myndarlegt ljóðabókasafn sem ég umgengst dálítið einsog eina heild. Ég fer reglulega og næ mér í bók – blaða aðeins í henni, skil hana eftir við dolluna eða sófann. Svo þvælast þær um húsið og ég les ljóð hér og þar – Nadja les einhver líka – og svo reglulega fer ég rúnt og sæki þær allar aftur og raða þeim aftur í hilluna. Í stafrófsröð, ljóðabókasöfn þurfa að vera í stafrófsröð, annars finnur maður ekki neitt.“

„Þetta er gott. Svona vil ég umgangast bækur.“

Við þegjum stutta stund.

„Skoðaðir þú hvaða bækur voru í Ævintýri?“ spyr Gunnar. „Verkinu sem hét Ævintýri, meina ég. Voru þetta ævintýri?

„Nei, ég athugaði það ekki. Gleymdi því.“

„Kannski skoðuðum við þetta ekki nógu vel heldur. Kannski voru þetta ævintýri.“

„Eða bara ólíkar prentanir af Mein Kampf.“

„Haha. Já, Mein Kampf í ólíkum litum. Það er eitthvað.“