Tungusól og nokkrir dagar í maí


Tvö ljóð úr bókinni Tungusól og nokkrir dagar í maí eftir Sigurlínu Bjarneyju Gísladóttur.

Samtímis

Af garðbekknum horfi ég upp eftir húsinu og upp himinninn fikrar sig flugvél og dregur á eftir sér hvíta línu og á sama tíma er svitadropi sem sprettur fram á bringunni á mér og rennur niður á milli brjóstanna í garðinum er tré með fjólubláum laufum ég veit ekki hvað það heitir uppi á þaki syngur fugl borgin er svo falleg að ég gleymi að fylgjast með fuglunum hvít rák upp og svitadropi niður fjólublá laufblöð og söngfugl á vegg bráðum kemur nótt í París.

Núll

(undir áhrifum frá Corpus Hermeticum)

Farðu upp á hæstu tinda
og í dýpstu dali, gakktu í eldinn, hafið
og holur jarðar.
Safnaðu saman í kjarna þinn:
Eldi, vatni, jörð og andardrætti vinda.

Vertu fóstur, fædd, ung og öldruð
deyðu
farðu handan dauðans
vertu samtímis í rýminu
fyrir fæðingu og eftir dauða.

Vertu alls staðar og hvergi
sólkerfi og sandkorn
stjarna og steinn djúpt í jörðu
glóandi stjörnusteinn og þá birtist
núllstilling.