Söngur svarðreipslagarans

Nokkur orð um Leitina að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson

Leitin að svarta víkingnum er skrifuð fyrir menn eins og mig. Vönduð og útspekuleruð alþýðleg fræðibók sem dýpkar þekkingarbrunn lesandans og finnur í honum æð af óvæntu og nýstárlegu bragðefni. Enginn flokkur lesefnis er mér kærari, og mér er merkilega mikið sama hvert umfjöllunarefnið er. Hér er það reyndar líka í algjöru uppáhaldi: grúsk í íslenskum fornritum í ljósi þekkingar úr öðrum greinum: fornleifafræði, örnefnafræði, menningarsögu, náttúruvísindum, mannfræði, erfðafræði og almannarómi.

Hér er það hinn göfugi og umsvifamikli landnámsmaður Geirmundur Hjörsson sem er grúskaður fram úr rýrum heimildum Sturlungu, Landnámu og Fornaldarsagna. Niðurstaða Bergsveins er að Geirmundur hafi verið hálfur Síberíumaður, hafi dvalist á unglingsárum meðal móðurfólks síns við Hvítahafið, lært til verka við veiðar og vinnslu á rostungum og síðar byggt veldi sitt á Íslandi á slíkum iðnaði, með öllum þeim þrælaskara sem vinnslan útheimtir. Þessi veiðimennska – rányrkja reyndar – ásamt með umfangsmiklu þrælahaldi og vafasömum uppruna er síðan orsök þess hvað rýrum sögum fer af Geirmundi heljarskinn: hann fellur ekki að landnámsmýtu sagnaritara tólftu og þrettándu aldar. Of mongólskur, of umsvifamikill þrælahaldari, of lélegur bóndi.

Reyndar horfir Bergsveinn skarpt framhjá nærtækustu skýringunni á að þessi göfugasti landnámsmaður varð ekki hetja í sinni eigin Íslendingasögu: Ekkert gerðist. Án mannvíga, illdeilna og hefndarkeðju er enga sögu að segja, frá sjónarhóli sagnaritunartímans. Líkt og að í dag nenna blöðin varla að ræða við stjórnmála- eða athafnafólk nema það hafi glímt við krabbamein eða þunglyndi. Eða takist að minnsta kosti á við foreldramissi. Það þarf að vera saga til að hægt sé að segja hana.

Í kenningu Bergsveins er aftur á móti mikil saga, sem sést best á því að Leitin að svarta víkingnum (sem kom út á norsku fyrir þremur árum) er önnur tveggja bóka hans um söguefnið. Hin seinni, fornsagnastælingin Geirmundar saga heljarskinns, kom út í fyrra.

Líkt og um þá bók má segja að þessi sé formtilraun. Bergsveinn segir það meira að segja sjálfur í lokaorðum bókarinnar, og kallar hana „viðleitni til að brúa bilið milli fræðimanns og rithöfundar“ (328). Það má til sanns vegar færa. Bergsveinn er óspar á sviðsetningar, þeirra veigamest norðursigling Geirmundar með föður sínum frá Ögvaldsnesi í Rogalandi til móðurfólksins austan Kólaskaga 861, sem er hryggjarstykkið í öðrum kafla bókarinnar. Þessar sviðsetningar bera þess óneitanlega merki að þjóna kenningunni, hér er ekki sama gróteska stíl- og hugmyndaflugið og í sambærilegum köflum skáldsögunnar.

Segja má að tveimur sögum vindi fram í bókinni. Frásögn af lífshlaupi Geirmundar út frá hugmyndum og kenningu Bergsveins, og síðan saga rannsókna höfundarins, tilurðarsaga kenningarinnar. Vissrar óreiðu gætir í síðarnefnda þræðinum. Sömu retórísku spurningarnar birtast aftur og aftur og nokkuð er um endurtekningar. Það er til dæmis skrítið að fá að vita það á bls. 242 að svarðreipi séu „gerð úr skinnum rostunga og sela“, sem er búið að vera eitt leiðarstef bókarinnar nánast frá fyrstu síðu, grundvallaratriði í meginkenningu bókarinnar.

Það er líkast til að undirlagi hins smekkvísa rithöfundar, frekar en hins nákvæma fræðimanns, að víðast hvar í textanum er látið er undir höfuð leggjast að hafa fyrirvara og viðtengingarhátt þar sem settir eru fram möguleikar sem ekki eru studdir öðrum heimildum en rökvísi og líkindum. Þar trompar læsileikinn áreiðanleikann og lesandinn þarf sjálfur að hafa varann á, nema hann kjósi að ganga einfaldlega sögumanninum á hönd. Stundum saknaði ég þess að Bergsveinn gerði betur grein fyrir í meginmáli sögunnar hvar hann er á traustum grunni textanna og hvar kenningin þarf að sjá um sig sjálf. Í lokaorðunum segir hann að „…röksemdir fyrir mínum túlkunum eru reifaðar í aftanmálsgreinum“ (328).

Sem minnir mig á þetta algilda lögmál:

Þegar neðanmálsgreinar innihalda ekki bara tilvísanir í heimildir heldur sjálfstæðan og gagnlegan fróðleik, hvað þá röksemdir, jafnvel í löngu máli, þá er BANNAÐ að hafa þær aftanmáls. Eða ætti að vera það. Ég skil svosem fegurðarrökin fyrir þessu, en afleiðingin fyrir lesþægindin eru líkust því ef kokkur setti hvert einasta amboð jafnóðum niður í skúffu meðan hann stæði í eldamennskunni, til að eldhúsið virkaði snyrtlegt. Bergsveinn og Bjartur: Þið verðið að lofa að gera þetta ALDREI AFTUR! Tíminn sem okkur er skammtaður hér á jörðu er knappur og mun betur varið í annað en að fletta blaðsíðum fram og til baka að óþörfu.

Fyrir nokkrum vikum varð ég vitni að smávægilegu fjaðrafoki á Facebook vegna útkomu annarrar bókar um upprunasögur Íslendinga og kenningar utan alfaraleiðar. Æsingurinn gekk reyndar ekki út á hugmyndirnar heldur prófskírteini bókarhöfundar. Bergsveinn Birgisson hefur sem betur fer ekki látið fræðimannsréttindin hamla hugsun sinni, og þó hann haldi því fram í margívitnuðum lokaorðum að bókin sé „vísindalegt rit“ þá grunar mig að kollegar hans muni finna í henni ýmsar rökholur og tæpa bláþræði. Það er sterkur áhuga- og ástríðumannasvipur á Leitinni að svarta víkingnum. Engum hefði brugðið þó t.d. verkfræðingur á eftirlaunum hefði sent frá sér slíka bók.

Við leikmenn getum auðvitað ákveðið að taka Bergsvein á orðinu og „keypt“ kenninguna. Og þó við gerum það ekki þá auðgar fróðleikur og fantasía bókarinnar þá mynd sem við höfum af fortíðinni. Jafnvel þó fátt eitt af því sem sagt er frá hér hafi gerst eins og textinn rekur eru möguleikarnir til staðar. Sögusviðið í huga manns er auðugra, myndin af hversdegi víkingatímans og bjástri fólksins þéttari. Landnámið meira spennandi.

Það sakar ekki að það sem bætist við fortíðarmyndina hefur stóra snertifleti við heit málefni samtímans: Rányrkju og umhverfi, norðurslóðir, hugmyndina um kynþætti. Mansal. Við skulum ekkert afneita því kikki sem felst í því að brjóta helgimyndir, og það er eitt erindi Bergsveins með bókinni.

Þrátt fyrir aðfinnslur og annmarka sem ég hef rakið, og kannski dvalið óþarflega mikið við, er Leitin að svarta víkingnum spennandi og áhugaverð bók. Hvalreki fyrir okkur áhugafólkið um frumlegan fróðleik.

Og sagan er góð.