Títuprjónn í ullarlagði

Þórdís Gísladóttir sendir í dag frá sér ljóðabókin Óvissustig. Þetta er fjórða ljóðabók höfundar en fyrri bækur hafa notið talsverðra vinsælda allt frá því að fyrsta bók hennar, Leyndarmál annarra, fékk bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Í fyrri bókum sínum hefur Þórdís gjarnan tekist á við mannlíf samtímans, kunnuglegar persónur og hversdagsleg vandamál en sýnt fram á að það sé meira sem bærist undir yfirborðinu en ætla mætti við fyrstu sýn. Í Óvissustigi er ólgan þó komin nær yfirborðinu að manni finnst, allt frá inngangskaflanum, útskýringu á óvissustigi eins og hún birtist á heimasíðu Almannavarna. Þetta slær tóninn fyrir bókina og gefur til kynna að eitthvað alvarlegra sé á ferð en við höfum séð áður..

Fyrir þá sem þekkja til ljóða Þórdísar er margt kunnuglegt við Óvissustig. Það sem hefur heillað mig hvað mest við ljóð Þórdísar í gegnum tíðina er hvernig hún tekst á við það sem kalla má hversdagsleikann. Fáir höfundar hafa jafn gott lag á því að draga upp myndir af persónum og aðstæðum hversdagsleikans – minningagreinum, samfélagsmiðlum eða gömlum hjónum til dæmis – þannig að þeir standa manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Með örfáum orðum og hugmyndum byggir hún heilar senur og karaktera sem um leið eru eins og heimurinn í hnotskurn, eigindleg rannsókn á tilvistinni. Frábært dæmi um þetta eru síðustu síður bókarinnar. Þar má finna sjö prósaljóð sem safnað er saman undir titlinum „Á bekknum – sjö samtalsbrot“. Þetta eru mislangar fyrstu persónufrásagnir sem draga upp skýrar myndir, bæði af aðstæðunum sem er lýst, sem og sögumanninum.

Í meðförum sínum á hversdagleikanum hefur Þórdís heldur ekki beitt neinum vettlingatökum. Í fyrri bókum hennar má oft sjá hvernig hún, um leið og hún dregur upp mynd af hversdeginum, snýr honum alfarið á hvolf. Eins og minnst var á innganginum á hún það til að taka rólegt yfirborð en sýna manni á sama tíma bak við tjöldin þar sem leynast mun meiri kvíði, erfiðleikar og ástríður en maður gerði sér grein fyrir. Oft á tíðum mætti líkja ljóðunum við það að handfjatla mjúkan ullarlagð sem í leynast hvassir títuprjónar. Þetta má einnig sjá hér og þar í Óvissustigi og það eru í raun þau ljóð í bókinni sem standa upp úr. Í ljóðum eins og „Tíma“, „Konunni á skrifstofunni“ og „Í lok febrúar“ tekst Þórdísi að sýna manni heiminn í tveimur lögum svo dásamlegt er að lesa. Sérstaklega má nefna síðustu ljóðin tvö í bókinni, prósaljóð sem fjalla um það að lifa lífínu gegnum internetið og samfélagsmiðla frá tveimur mismunandi sjónarhornum.

Ekki eru þó öll ljóðin í bókinni sköpuð jöfn. Það er hægara sagt en gert að hitta á jafnvægið milli hversdagleikans og stjórnleysisins undir yfirborðinu og Þórdís hittir ekki alltaf í mark. Sum ljóðanna sýna eingöngu áferðarfallegt yfirborð eða eru alltof beinskeytt í gagnrýninni og þau fara fyrir utan garð og neðan. Annars vegar má nefna hið átakalausa og klisjukennda „Notalegt kvöld (uppskrift)„ og hins vegar hið stórtæka „Sannleikur“, sem er álíka lipurt og kvefaður stórgripur í kristalsverslun.

Óvissustig er því kannski ekki gallalaus en það er þó talsvert ánægjuefni að fá nýja bók frá þessu færa ljóðskáldi. Þegar vel tekst til og Þórdís er í essinu sínu eru ljóðin hennar magnaður míkrókosmos þar sem misgallað fólk lifir lífinu eins vel og það getur miðað við aðstæður. Innsýn hennar í mannlífið gerir það að verkum að ljóðin standa lesandanum nær en oft er. Það er kannski ekki margt spánnýtt af nálinni í Óvissustigi en þessi nýja viðbót í höfundarverk Þórdísar er þó kærkomin.