Ástlaus Onegin, innblásinn Eyvindur, ódrepandi Njála og andvana blár hnöttur

Októberpistill um leikhús

Rebekka Þráinsdóttir og Örlygur Benediktsson segja í grein í leikskrá Íslensku óperunnar að jafnan sé litið á ljóðskáldsögu Púshkíns um Évgení Onegin sem fyrsta raunsæisverkið í rússneskum bókmenntum. En rómantíkin var lífseig í raunsæinu og rússnesk rómantík náði miklum hæðum þegar tónsmiðurinn Tsjækovskí gekk í arfinn frá Púskhín og skrifaði tónhendingar, hljóma og melódíur við ljóðrænar senur úr sögu hans um Onegin. Évgení þessi Onegin er alls ófær um að elska og auðnuleysi hans af þeim völdum óendanlegt og yfirþyrmandi. Hann kastar frá sér hreinni og saklausri ást Tatjönu, duflar við Olgu systur hennar, sem er kærasta besta og kannski eina vinar hans, skáldsins Vladimirs Lenskí. Skáldið kann ekki alveg að meta fjölþreifni Onegins um kærustuna og skorar hann á hólm. Évgení er svo óforbetranlegur að hann mætir of seint á hólmstefnumót, en Vladimir skáld lætur það ekki á sig fá, bíður eftir kauða og gengur í opinn dauðann í einvígi gegn andstæðingi, sem hann sjálfur fyrir einlægrar vináttu sakir er ófær um að drepa.

Ástin lifi 

Eftir að Onegin banar skáldinu verður gæfuleysi hans algert, hann flakkar um heiminn og leggur einkum lag sitt við hórur og annan miður vel þokkaðan lýð. Þegar honum skýtur svo aftur upp í veislu í keisaraborginni sem kennd er við Pétur er Tatjana orðin greifafrú Gremín og þótt enn örli á ástarþeli til Onegins í hennar barmi bregst hún við endurkomu flagarans af öryggi og skapfestu þroskaðrar konu. Sorrí, Évgení, lukkan virtist svo nærri, en nú er orðið um seinan að við höndlum hana saman, farvel minn kæri. Í sýningu Íslensku óperunnar á Évgení Onegin réttir Olga titilpersónunni byssu þegar Tatjana hefur endanlega hafnað honum, en kappinn hefur ekki einu sinni hugrekki til þess að kála sér. Sú sena minnir mjög á svipað atriði í einu andhetjuleikriti Tsjekhovs. Og er afskaplega smart útfærð í sýningunni í Eldborgarsal Hörpu.

Í samræmi við anda Onegin eftir Tsjækovskí ríkir rússnesk stemning í sýningu Íslensku óperunnar á verkinu. Sungið er á rússnesku sem fellur ugglaust þjóðtungna best að tónmáli óperunnar. Silkiumgjörð og blómum skrýdd steppan, höfundarverk Evu Signýjar Bergar, styður við rússneskt yfirbragðið sem verður enn sterkara í einvígissenunni og ballinu í Eldpétursborg eftir hlé. Útslagið gera meistarabúningar Maríu Th. Ólafsdóttur, sem vekja hrifningu og hugblæ sem varir allt til enda með ákveðnu hámarki í framkalli listamannanna, þegar konurnar í kórnum marséra inn á sviðið í undurfögrum rússneskum klæðnaði. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar undirstrikaði oft stemingar og andrúmsloft en ég fékk á tilfinninguna að örfáar stundir til viðbótar á æfingatímanum hefðu ráðið úrslitum um að úr litum, ljósum og leikmynd yrði það heilsteypta listaverk sem greinilega var lagt upp með. Hið eina sem þó raunverulega spillti fyrir listafagurri umgerð sýningarinnar var textaspjaldið efst á sviðinu þar sem óþarfa ósamræmis gætti á milli íslenskrar og enskrar þýðingar á rússneska textanum.

Söngvararnir í uppfærslu Íslensku óperunnar á Évgení Onegin eru afbragðs góðir. Vandvirkni og fagmennska Þóru Einarsdóttur verður sterkari og áhrifameiri með hverri sýningu sem hún syngur í. Leikur hennar er líka mjög góður, hvort heldur hún túlkar Tatjönu sem saklausa unga stúlku flögrandi um sviðið eða sem þroskaða eiginkonu sem stendur föstum fótum í hjónabandi sínu þótt æskudraumurinn um ástina skjóti upp kollinum á ný. Um rússneska söngvarann Andrej Zhilikhovskí í titilhlutverkinu þarf ekki að fjölyrða. Hann er kynntur sem stjarna Bolshojleikhússins og frammistaða hans á Eldborgarsviði Íslensku óperunnar gefur ekki tilefni til annars en að trúa þeirri sögu. Tíðindin eru hins vegar þau að íslenski tenórinn, Elmar Gilbertsson, gefur stjörnu rússnesku óperunnar ekkert eftir. Fyrir utan frábæra söngtúlkun þá skal frá því sagt að Elmar ber einstaklega vel þau rússnesku klæði sem María Th. Ólafsdóttir hefur fengið honum. Spurningin sem áhorfandinn stendur frammi fyrir er sú hvernig í ósköpunum Olga getur verið sá kjáni að kíkja eitthvað framhjá því gervilega og rómantíska góðmenni sem Vladimir Lenskí verður í túlkun Elmars. En vissulega er þarna á ferðinni það stílbragð höfunda að saga Olgu endurspeglar á vissan hátt örlög Onegins og stílbragð þetta er undirstrikað í fyrrefndu byssuatriði svikaparsins.

Nathalía Druzin Halldórsdóttir er í hlutverki Olgu og gerir afar vel þótt hún sé reynsluminnst aðalsöngvaranna. Tvísöngur hennar og Þóru í blábyrjun óperunnar lét undurvel í eyrum og gaf til kynna hversu margt fagurt var í vændum.Leikur þeirra sem nátengdra systra var samstilltur hvort sem þær hlupu léttfættar um sviðið eða settust niður til að skrafa saman og trylla sig inn í rómantíkina. Alina Dubik og Hanna Dóra Sturludóttir í hlutverkum fóstru og móður systranna voru hvor annarri betri, jafnt í leik og söng, og hreint með ólíkindum hversu fyndin Hanna Dóra getur orðið á leiksviði. Söngrödd Alinu og sterk sviðsnánd hennar undirstrikaði lífsreynslu fóstrunnar og hversu vænt henni þykir um þær systur, Olgu og Tatjönu. Færeyski bassinn Rúni Brattaberg, sem fer með hlutverk Gremíns fursta og eiginmanns Tatjönu, er gæddur góðri og þjálfaðri rödd sem hljómar svo djúp og þroskuð að hún gæti næstum verið rússnesk. Frábært val á söngvurum sem er undirstrikað með því að skipa Hlöðver Sigurðssyni í rullu loddarans monsjúr Triquets. Auðvitað má túlka Triquet allt öðru vísi en þarna er gert en það léttir vissulega andrúmsloftið að sjá þennan sjálfskipaða amatörskemmtikraft leika fáránlegar listir sínar og babla frönsku við veislugesti á sveitasetri frú Larínu.

onegin2Hljómsveit Íslensku óperunnar lék undir stjórn Benjamins Levy. Tónlist Tsjækovskí í Onegin virtist afar auðspiluð í höndum hljóðfæraleikaranna en hér á það við trúi ég að það er erfiðara en margur hyggur að láta alla samhljóma einstakra hljóðfæra og söngradda berast um svið og sal þannig að allt falli hvert að öðru. Það hjálpar líka til að kórinn sem syngur í Onegin er svo góður að á því skipi virðist vera valinn maður í hverju rúmi. Og Levy sveiflaði tónsprota sínum þannig að hann virtist hafa fullkomið samband við allt þetta fólk uppi á sviði og ofan í gryfju.

Það er eitt af sérkennum og einkennum óperuformsins að sagan er sögð í tónum, laglínum og stefjum, og með samhljómum, stríðum ef við á eða ómþýðum beri svo undir. Allur sá tónleikur er raunar svo margbrotinn að það tekur langa stund að átta sig á þó ekki sé nema helstu þáttum slíks listaverks. Eftir sem áður er músíkin í Onegin svo áheyrileg og glæsilega flutt í Eldborgarsl að þessu sinni að hver sem er ætti að geta notið hennar með því einu að leggja eyrun við. Og í leiðinni er vert að hlusta eftir því hve áhrif Tsjækovskí og óperutónlistar almennt á kvikmyndatónlist samtíma okkar eru auðheyrð í Onegin.

Leikstjóri sýningar Íslensku óperunnar á Onegin heitir Anthony Pilavachi og undir hans stjórn hefur enn ein sýning bæst í röð margra og ótrúlegra sigra þessa óskabarns Garðars Cortes og Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur sem sleit barnsskónum í Gamla bíói. Að tvennu leyti þótti mér samt sem Pilavachi væru mislagðar hendur. Það hefði þurft að leggja meiri rækt við hópatriði kórsins, einkum fyrir hlé, og fá kórfólkinu eiginlegri hlutverk en að vera bara hópur. Rússneska byltingin átti heldur ekki neitt erindi inn í þessa sýningu. Ópera Tsjækovskíj var frumsýnd árið 1879 og rússneska raunsæisrómantíkin er býsna bundin sínum tíma. Líka þó hún sé tímalaus og sá boðskapur Púshkíns og Tsjækovskíj að það er ógæfuspor að forsmá ástina ævinlega í fullu gildi.

Évgení Onegin á sviði Íslensku óperunnar í Hörpu er heillandi sýning. Eina áhyggjuefnið er að ekki er búist við fleiri áhorfendum en svo að aðeins eru áætlaðar fjórar sýningar. Hvernig væri að Illugi Gunnarsson léti það verða sitt síðasta verk í sæti menntamálaráðherra að splæsa í svo sem tvær sýningar á Ónegín fyrir framhalds- og menntaskólanema landsins. Krakkarnir sem þar eru við nám eru engir kjánar og með réttri nálgun og kynningu myndu þau fíla rússneska stemningu og tónlist í meistaralegum flutningi í tætlur. Og það er hlutverk menningarmálaráðherra að vera í fararbroddi við að mennta þjóðina.

Trékrossinn logar

Fyrir hálfri öld eða svo kom ungur íslenskur maður austan frá Moskvu eftir að hafa stundað þar nám í leiklist og leikstjórn um margra ára skeið. Ásamt með því námi tileinkaði hann sér nokkuð af rússneskum þankagangi og svo rómantíska ást á listinni að sú kennd neitar að gefa upp andann. Þessi maður heitir Eyvindur Erlendsson og hafði að kennara Mariu Knebel, sem hafði numið sína list undir handleiðslu sjálfs Konstantíns Staníslavskíj. Árin eftir heimkomuna frá Moskvu setti Eyvindur sterkan svip á íslenskt leikhús, leikstýrði fjölda sýninga og stofnaði Leiksmiðjuna, sem sló áður óþekktan tón í leiklistarlífi landans.

Orðinn nær áttræður og svo á sig kominn líkamlega að hann þarf að styðja sig við göngugrind kvaddi Eyvindur sér enn hljóðs og bauð til gjörnings í nafni Steins Steinarr í Breiðholtskirkju sunnudagskvöldið 9. október. Gestir í kirkjunni þetta kvöld voru ekki ýkja fjölmennir en hópurinn þeim mun tryggari listamanninum sem tróð þarna upp og fór raunar nokkuð óvæntar slóðir í þeirri gjörð sinni.

Ljóðalestur Eyvindar hófst á ávarpi Steins til öreigaæskunnar. Og síðan tóku við kvæði skáldsins eitt af öðru og fleiri en tölu varð á komið. Rödd leikarans og leikstjórans var nokkuð hrjúf í fyrstu en hitnaði fljótt og fékk á sig fjölda blæbrigða, reis ýmist hátt eða sveif lágt, flutningurinn var til skiptis ógnarhraður eða afar hægur, aðra stundina taktfastur en næsta kastið með ólíkindum ör og vanstilltur, eins og þulan væri öllum svo kunn að hratt skyldi farið yfir sögu. Rödd Eyvindar brast öðru hverju í söng og áheyrendum hlaut að verða ljóst að hér þekkti hann hvert orð og hafði margvelt merkingu ljóðanna fyrir sér.

Umgjörð þessa gjörnings, innviðir kirkjunnar í Breiðholtinu, varð þegar á leið flutning Eyvindar að órjúfanlegum hluta þeirrar reynslu að fá að njóta þess að sjá og heyra aldinn snilling gera upp listalíf með orðum skálds sem olli usla og óreiðu í íslensku menningarlífi. Þannig var sá tími þótt nú sé skáldskapur Steins Steinarr orðinn svo samgróinn menntalífinu og mentalitetinu að næstum enginn kippir sér upp við áleitin orð kvæðanna. Fyrir mér reis gjörningurinn hæst þegar Eyvindur flutti Kvæði um Krist, studdi sig við göngugrindina og ítrekaði með orðum Steins að enn er ekki búið að frelsa heiminn. Þá fannst mér eins og risatrékrossinn bak við ljóðamanninn logaði.

Að þola og þola ekki

njalaLoksins kom að því að ég sæi verðlaunasýningu síðasta leikárs, margrómaða Njálu Mikaels Torfasonar og Þorleifs Arnar Arnarssonar, og er afar þakklátur fyrir að hafa ekki misst af henni.

Í sýningunni á Njálu kom þrennt mér mest á óvart.

Fyrst skal það sagt að ég átti ekki von á því hve sýningin er trú sögunum sem sagðar eru í Brennu-Njáls sögu; það er að segja þeim hluta sagnaarfsins sem valinn er til sviðsetningar. Þetta er svo þótt vissulega sé Njála í Borgarleikhúsinu skreytt með hugleiðingum og femínískri greiningu Helgu Kress og djarflegum dansi sem undirstrikar erótík og frygð kvennanna í sögunum. Maskúlín greddu var hins vegar ekki gerð eins smart skil og oftast látið líta svo út að hún hentaði fyrst og fremst til þess að henda gaman að. Nema reyndar undir leikslok þegar karlakórinn streymdi inn á sviðið hálfber og brennandi vitarnir í söng hans fengu svo margræða merkingu að þar er nægilegt efni að finna í fjöldann allan af lærðum ritgerðum. Enda dugði ekkert minna en bæn til himnasmiðs til þess að binda einhvern endi á þá túlkun á Njálu og meintri þjóðarsál sem boðið var upp á í þessari margrétta leikhúsveislu.

Næst skal þess getið sem er raunar nátengt því sem áður var sagt. Mér fannst semsé alveg óskaplega gaman að þessari sýningu. Um það var ég hreint ekki viss fyrirfram svo oft sem ég hef orðið fyrir vonbrigðum með marglofaðar sýningar. Ég hafði kviðið dálítið fyrir Prokoffijevsónötunni en svo reyndist það atriði eitt það sterkasta í sýningunni. Ég lét það ekki trufla mig þótt hljómurinn í hljóðfærinu sem tekið var fram að væri alveg rándýrt væri dálítið holur, hvort sem um var að kenna áslætti píanóleikarans eða einhverju öðru. Sviðsetning sónötunnar var afar stílhrein og gaf áhorfandanum tíma og andrúm til þess að leyfa huganum að leika sér að öllu því sem áður hafði gerst á sviðinu og finna fyrir eftirvæntingu gagnvart því sem enn var ósýnt, ósagt og ósungið.

Hið þriðja atriðið sem mér kom á óvart var hversu lífseigur hinn svokallaði Iðnóleikstíll er í Borgarleikhúsinu. Með Iðnóleikstíl er fyrst og fremst átt við ýkta og tilgerðarlega beitingu raddar og ákveðinn groddaskap og amatörtakta í leik. Það er mér skiljanlegt að þessi einkenni skuli loða við Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, sem ólst upp með þessum stíl og andaði honum að sér frá blautu barnsbeini. Hitt finnst mér erfiðara að skilja að Brynhildur Guðjónsdóttir skuli hafa smitast af þessum leikmáta, leikkona sem er ákaflega flink tæknilega og auk þess menntuð í útlöndum fjarri gömlu góðu Iðnó. Þetta kvöld í Borgarleikhúsinu tók ég hins vegar þá þroskuðu afstöðu að láta ekki þetta stílsmit fara í taugarnar á mér – en í guðsbænum hættiði að láta svona.

Sögurnar í Njálu þoldu semsé bæði sviðsetningu Þorleifs í þýskum semíframandgervingarstíl og of fálmkenndan leikstíl leikaranna. Epískt leikhús er nefnilega líka ensembleleikhús.

Marglitur hnöttur 

blaihnotturinn

Saga Andra Snæs Magnasonar af lífi barnanna á bláa hnettinum er náttúrlega alger andstæða gömlu Njálu. Grunnþráðurinn í sögu Andra Snæs er bara einn og raunar gamalkunnugur. Þar er baráttan milli góðs og ills enn einu sinni rakin og bent á að hollast er að ganga hægt um gleðinnar dyr. Mesti kostur Sögunnar af bláa hnettinum er hversu blátt áfram hún er. Í sýningu Borgarleikhússins er farin allt önnur leið og búin til alveg fádæma flókin leið til þess að segja sáraeinfalda sögu. Öllu er til tjaldað af tækni og trikkum í litum, leikmynd, lýsingu og rafvæðingu tónlistar. Og að sjálfsögðu er sýningin tölvustýrð. Öðru vísi er þetta ekki hægt.

Þessi músíkaltækni er í algerri andstöðu við andblæ og einlægni sögunnar hans Andra Snæs. Börnin sem leika, syngja og dansa á sviðinu eru alveg hreint ótrúlega flink og fagmannleg. En tæknin ber þau ofurliði. Raddir þeirra hljóma hver annarri líkar í gegnum magnara- og hljóðkerfi með þeim afleiðingum að viðkvæm sagan snertir áhorfandann lítið sem ekki neitt. Ekki bætir úr skák að lögin sem sungin og leikin eru hljóma flest mjög keimsvipuð og þess vegna er engin framvinda í tónlistinni. Hér er þó ein merk undantekning á. Nær miðbiki sýningarinnar stígur eitt barnið allt í einu út úr mergðinni á sviðinu og hefur upp raust sína með þeim hætti að gengur inn í kviku. Ótrúlega þroskuð barnsrödd gædd persónulegri tjáningu. Allir sem sýninguna hafa séð og eiga eftir að sjá munu átta sig á því við hvern og hvað er átt.

Andstætt Njálu sem lifir af öll síðnútímabrögð í sviðsetningu Þorleifs Arnar Arnarssonar mengast Saga Andra Snæs af bláum hnetti svo illa af tæknidýrkun samtímans að hún fæðist sem andvana steinbarn á sviði Borgarleikhússins.