Þrjú ljóð eftir Skarphéðin Bergþóruson

VATNSTANKA

Þeir eru tveir — —

jarð-
fastir í einni heild
haust-
kvíðans

svo sjómannakóla-
turnspíran

sem teygir sig
í lausu lofti, loks

tunglið
í skýja-
rekstri

— — blekmyrkur annars
gutlar á döprum þönkum

NIÐRÁ STRÖND

Greinilega til þess vinnandi að hætta að vera hálfviti
samband manns við vímugjafann er í eðli sínu prívat
það er óhrekjanleg staðreynd að mínu litla viti
þú varst ekki þar, þú horfðir ekki framaní þetta stóra gat
ég sagði þetta jarðfræðinni af steininum þarsem ég sat

úti á mörgum, mörgum töngum beið mín þessi leifturviti
en hvenær maður getur séð sinn er líka prívat-mat
nú væri fínt, maður —
nú væri helvíti fínt að hætta að vera fáviti
sagði ég steininum af jarðfræðinni þarsem ég sat
— og óskaði mér samt á horfinn stað í kvöldmat!

Á VÍÐ OG DREIF

Í New York eru 100.000 tígrisdýr.

Meir en þriðjungur spönsku þjóðarinnar lifir á betli.

Skrítnir eru Kínverjar. Þeir gráta þegar þeir gleðjast en hlæja þegar þeir hryggjast.

Hér í Reykjavík býr maður sem lepur sólskin úti en nagar bein inni og líkar hundalíf þetta hið besta,

að sögn.

Fleiri ljóð fyrir neðan