Skáldheimur hinnar þrítugu Sørine Steenholdt, sem birtist í smásagnasafninu Zombílandi, er fullur af örvæntingu, ofbeldi, alkohólisma og hryllingi einhverskonar nástaðar á mörkum hins siðaða heims. Í raun og veru einhver al-versta landkynning sem mögulega hægt væri að bjóða uppá ef þessi grænlenski höfundur væri að hugsa um það að kynna land, þjóð og tungu – eins og íslenskum höfundum er einatt svo annt um. Hér er ekkert verið að reyna „sýna“ hvað Grænland er hipp og kúl, eða ævintýralegt og rómantískt, hvað gamli tíminn og siðirnir eru lifandi þar, hvað tengslin við náttúruna eru mikilvæg fólki sem stendur nær upprunanum en hin firrta vestræna menning. Nei, það er ekki vottur af þessu. En ef maður kafar aðeins á dýpið þá er þetta þolendasaga, þrátt fyrir að vera ekki ein samtengd heildstæð saga heldur sveigur smásagna frá svipuðum tíma og aðstæðum. Það sem er sammerkt með sögunum er að það er eitthvað mikið að; það er eitthvað tryllt og sjúkt í gangi þar sem fólkið og menningin passar ekki saman. Án þess að benda á að það sé áfengið, hassið, bílarnir, dúkkurnar, símarnir eða blokkirnar sem passa ekki við fólkið þá sýnir höfundur okkur fólk sem ræður ekki við aðstæður sínar. Stíllinn er brotakenndur, hraður, óþægilegur á köflum; óbókmenntalegur eins og sagnahefð frumbyggja á Norðurslóðum er – eins og lesa mátti í þjóðsagnasafninu Kajak drekkfullur af draugum sem kom út hjá Bjarti árið 1999. (Lawrence Millmann safnaði en Sigfús Bjartmarsson þýddi.) Það sem er heillandi við þjóðsögurnar er ákveðinn skortur á línulegri platónskri skynsemishugsun – að einn + einn séu 2 osfrv. – og á einhvern undarlegan hátt eru sögur Steenholdts í ætt við þetta, þó maður hafi fyrst og síðast á tilfinningunni að hin unga skáldkona sé að reyna takast á við eigin reynslu, tjá sársauka og tilfinningu kynslóðar sinnar, kynsystra sinna og samfélagsins í Nuuk. Þetta er ekki gott á bragðið, en samt getur maður eiginlega ekki hætt að lesa.
Útrás tilfinninga eða
Framan af verkinu, í 3-4 fyrstu sögunum af 9, virðist manni samband barns og móður vera í brennidepli þó að í Töfralækninum (nr.4) taki við þemað um geðrænan vanda. Tvær síðustu sögurnar eru síðan á einhverjum nótum sem maður tengir mjög við að gætu verið nær samtíma höfundar sjálfs. Það er óhugnarlegt en heillandi að sá stíll sem er á sögunum, eins og að sögumaðurinn verði bara að koma einhverju frá sér og hugsi lítið um smáatriði eða nostur við líkingar og stemningar, færir manni tilfinningu fyrir því að skáldkonan sé að skrifa sig frá reynslu. Þessvegna verður upplifunin líka hlaðin af hugrekki, heilun og samúð. Það stjórnleysi sem birtist í mörgum sagnanna, Röddinni og Frétt sérstaklega er hluti af tjáningu sem við sjáum sjaldan. Það er ekki reynt að stýra persónum inní kalda vestræna skynsemishyggju til þess að þær líti betur út. En um leið er ekki heldur verið að lítillækka eða framandgera villimannlega frumbyggja sem haga sér dýrslega; við erum þarna bara með fólki sem segir okkur sögur af dramatískum atburðum á allt annan hátt heldur en við erum vön.
Sumt er þannig að það væru bara helgispjöll að klína eða stroka burt stjörnur af því. Verk grænlensku skáldkonunnar Sørine Steenholdt, Zombíland er sveigur smásagna sem tengjast mjög sterkum böndum án þess að fjalla beint um sömu persónurnar. Hún er skrýtin, áhrifarík og eftirminnileg og því kannski eðlilega tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs þetta árið. Kannski ruglar það mann á einhvern hátt í ríminu með væntingarnar, þó það sé að sama skapi ástæðan fyrir því að okkur berst þessi bók í þýðingu Heiðrúnar Ólafsdóttur og útgáfu Sæmundar. Myndskreytingar í bókinni eru viðeigandi og bæta við sérkennilega stemningu; ljóðin í bókinni – sem brjóta upp bilið á milli sagna eða eru undarlegir endapunktar þeirra? – eiga heima þar sem þau eru og skapa heild sem er í raun ógnarsterk. Nokkuð er um smávillur í prófarkalestri og prentverkið er ekki alveg til fyrirmyndar; í því hefði mátt sýna aðeins meiri sóma, en heilt yfir… …þá verður maður betri manneskja af því að lesa svona bækur. Svo ég mæli með henni.
E.S.
Og Steinar Bragi er bara kettlingur ef út í það er farið, ef fólki finnst þar verið að reyna ofbjóða sér, þegar maður ber efnistökin saman við Steenholdt. Þetta er hrátt, sársaukafullt og afhjúpandi. Og á köflum bara ógeðslegt. Á einhvern ótrúlega einlægan og eðlilegan hátt.