Ástríðulausi listamaðurinn

Sýning Arnar Alexanders Ámundarsonar í Listasafni Reykjavíkur er ekki fyrirferðarmikil og maður gæti alveg óvart haldið að hún væri alls ekkert sýning, heldur bara ókláraður undirbúningur fyrir uppsetningu. Þetta er svona sýning milli sýninga, afsakandi, hikandi og svo óörugg að hún neyðist hálfpartinn til að skýra tilvist sína með ítarlegum útskýringum á hvað sé list inn í rýminu og hvað ekki.

Listaverkin eru öll eitthvað sem þarf að vera þarna til að um listsýningu sé að ræða. Skjár fyrir vídjóverk sem slökkt er á og hafður vísvitandi skakkur. (Örn tjáir mér að það hafi þurft að festa hann sérstaklega svo fólk reyndi ekki sífellt að laga hann) Þarna er að sjálfsögðu bekkur til að sitjast á og virða fyrir sér verkin, það er búið að spasla á vegginn til að hann sé sléttur, á veggnum átti að vera mynd en nú er búið að rífa hana af og eftir er einungis pappírssniffsi heftað við vegginn.

Líkt og listamaðurinn hafi ætlað sér að sýna eitthvað en skyndilega hætt við. Hádramatískt í raun, sér í lagi rifnu síðurnar í bókinni hans sem Fréttatíminn gerði smá mat úr. Listamaðurinn sem hættir við. Sem þorir ekki en kennir öðrum um. Eða bara veit að hann er uppfyllingarefni og neitar að fylla í eyðuna.

Við hittumst á kaffistofunni í Hafnarhúsinu og spjöllum í stutta stund.

Snæbjörn: Ef ég les það rétt er klúður eitt af stóru elementunum í sýningu þinni.

Örn Alexander: Meðal annars. Það er kannski skýrast í bókinni, maður verður eiginlega úrvinda af öllum afsökununum á undan áður en maður flettir henni. Klúður er eitt element í þessu.

Áberandi biturleiki gagnvart þeim sem styðja ekki við bakið á listamanninum líka … þú skrifar um sýningu þína á Nýlistasafninu að þeir hafi ekki sýnt þér neinn stuðning, þú finnir þig knúinn til að taka það fram. Skýtur á alla og tekur enga ábyrgð sjálfur. Á öllum villunum í bókinni og síðunum sem þú neyðist til að rífa út er ýmist þýðandinn, sýningarstjórinn, prentarinn eða prófarkalesarinn ábyrgur. Allir hafa á einhvern hátt brugðist þér.

Mér fannst áhugavert að skoða það að vilja ekki halda sýningu, að hafna henni strax, fór að spá í því hvað myndi gerast ef listamaðurinn tæki ekki þátt. Ég komst að því fyrir nokkrum árum þegar ég var fyrst að sýna í svona stofnun að á ákveðinn hátt er maður uppfyllingarefni fyrir stofnanir. Stofnanir þurfa alltaf að halda sýningum gangandi, og þótt auðvitað sé alls staðar fólk með ástríðu fyrir starfinu, þá gerist það stundum að sýning sé að fylla inn í eyðu, og þegar þannig ástand er þá er listamaðurinn sá eini með áhuga.

Í þannig aðstæðum er gaman að skoða hvað gerist þegar enginn hefur áhuga á sýningunni sem verið er að búa til. Enginn að hlúa að henni.

Þetta er sýning milli sýninga. Hulstur. Þegar maður kemur inn sér maður þennan texta sem er búið að skafa af. Spaslið á veggnum. Skjáinn sem búið er að slökkva á. Innihaldið er horfið en eitthvað annað er eftir.

Standa þessi verk sér eða þarf þetta að vera heild til að hafa einhver áhrif? Er það bara sýningin sem er verk?

Ég hef sett upp verkin stök, t.d. hornið [… pappírsnifsið sem stendur eftir af plakatinu sem var rifið niður] sýndi ég fyrir stuttu síðan í Noregi á einkasýningu í öðru samhengi. En sýninguna þarf að upplifa sem heild.

Maður sér oft sýningar sem eru ekki góðar, maður sér góð verk en sýningin sjálf í heildina er ekki góð. Ég vil leggja mesta áherslu á sýninguna. Hún er heildarverk.

Ég ákvað að hafa það rosalega skýrt hvað væri verk og hvað væri ekki verk. Textinn segir af eða á hvað er verk. Bekkurinn er líka verk, það er tekið skýrt fram. Þetta er svo erfitt, einn maður sem aðstoðaði mig við uppsetningu grínaðist allan tímann með hornið, hvort það væri verk eða ekki „er þetta kannski verk líka?“ og fattaði svo ekki fyrr en á lokadeginum að það væri verk líka. Þetta gæti verið eitthvað annað.

Eitthvað verk getur bara hangið þarna, til að hanga þarna, af því einhver ákvað að hengja upp eitthvað einhversstaðar. Auðvitað er mikið af góðum sýningum, en oft er það vandamál að fólk leggur ekki nógu mikið upp úr sýningum. Sýningarstjórnun er ekki nema 20-30 ára gamalt fyrirbæri.

Hvað segirðu við þá sem ásaka svona leik um innihaldsleysi?

Ég tek bara undir. Þetta er innihaldslaust.

Þá er það afgreitt.

Ég hef lent í mjög mikið af reiðu fólki. Fólk hefur gripið í mig niðri í bæ, kallað á mig, kommentakerfið líka verið alveg brjálað.

Það eru tilfinningarík viðbrögð við myndlist, sem má ekki vanmeta. En fólk má kannski vera reitt?

Það tók mig langan tíma að komast að því hvað gerði fólk reitt. Fólk verður aðallega reitt af því það heldur að verið sé að hafa það að fífli, með einhverju sem manni sjálfum finnst svo sakleysislegt.

Það sem maður skilur ekki er þá ógnandi?

Margir hafa sagt, þetta er myndlist fyrir myndlistamenn, og ég skil það alveg. En þá hugsa ég til þess þegar ég var tekinn í skólaferð á sínum tíma á sinfóníutónleikanna. Ég hafði aldrei farið á sinfóníuna áður.

Þá spilaði hljómsveitin Simpsons-lagið og X-fileslagið, og ég man hvað mér fannst það pirrandi. Maður er að fara á svaka hljómsveit spila og þeir spila lög sem maður þekkir, eitthvað sem maður tengir við, í stað þess að spila eitthvað sem maður á erfitt með að fatta, ögrar manni, þá reyna þeir að þóknast manni. Mér finnst mikilvægt að forðast það að þóknast fólki.

Sýningin stendur til 1. Janúar og er sýningarstjóri Yean Fee Quay