Voru Íslendingar í árdaga kannski bara svartir gyðingar?

Forspil

Ingólfur hét hann sem endur fyrir löngu
Ísaland fann og nam og bjó sér þar ból
og stjórnmálamennirnir minnast hans í ræðum
og menn geta séð hvar hann stendur uppiá Arnarhól

En hvað er það sem verndar viðkomu landans?
Vitið þér hvað það er? Mér er það hulið
því á landsmenn og konur herja eldar og ísar
en allra verst er þó bannsett næturkulið

Því segi ég skál fyrir Fróni og Fjölni og allt það
og firðum snjöllum sem þar hafa skrimt og hrokkið
við minnumst Ingólfs Arnarsonar í veislum
en óskum þess að skipið hans það hefði sokkið

(„Um óþarflega fundvísi Ingólfs Arnarsonar“ eftir Megas af plötunni Megas frá árinu 1972)

Megas hefir oft fengið ávítur fyrir óhefðbundna nálgun á sögu Íslands og nafntoguðum Íslendingum í söngtextum sínum. Hjá honum er Jónas Hallgrímsson til að mynda sauðdrukkinn og hrýtur líkt og sögunarverksmiðja í Brasilíu. Orða mætti hlutina á þann veg að mynd Megasar brjóti oft og tíðum í bága við viðurkennda söguskoðun.

Talandi um söguskoðun þá nýtur það sjónarmið einna mestrar lýðhylli á meðal þeirra sem stendur ekki slétt á sama eða þeirra sem finnst ágætt að minnast þess í ræðum á tyllidögum að Ísland hafi verið numið á því herrans ári 874 og að fyrsti landnámsmaðurinn hafi verið Norðmaðurinn Ingólfur nokkur Arnarson. Þeir hinir sömu eiga til að berja sér á brjóst og segja mörlandann afkomendur frelsiselskandi víkinga sem sættu sig ekki við ofríki Haralds hárfagra og fluttust því til eyjunnar í norðri.

Var eyja þessi nánast óbyggð fyrir utan að þar voru fyrir nokkrir írskir meinlætamenn sem Papar nefndust. Papar höfðu víst ekki áhuga á samneyti við heiðna menn og hunskuðust burt er heiðingjarnir námu land. Landnemarnir komu flestir frá Noregi, nánar tiltekið Vestur-Noregi en rugluðu þó eitthvað reitum við írskt þrælakyn (kannski má tala um kynbætur í því samhengi) og fólk af bresku eyjunum. Hjaltey og Suðurey má taka sem dæmi.

Ekki er því hægt að spyrða íslensku þjóðina fullkomlega við Norðurlandabúann enda er Frónbúinn sér á báti með sín „fjöll og dal og bláan sand, með norðurljósa bjarmaband og björk og lind í hlíð“ svo vitnað sé í „Hver á sér fegra föðurland“ eftir Huldu. Haldið hefir og verið fram að

[h]inir áhættufúsu og áræðnu hefðu lagt af stað í opnum bátum með konu sína og börn, búfénað og þær eigur sem unnt var að flytja á litlu skipi […] í von um að einhvers staðar í hafinu í norðri væri eyland, þar sem draumar um sjálfstæða og bjarta framtíð gætu ræst. Þeir varkárari hefðu orðið eftir í Noregi. Þetta væri á vissan hátt hátt skýring á skapgerðareinkennum Íslendinga, áhættusækni og eðli til að ráðast í ýmsar framkvæmdir að lítt hugsuðu máli og láta skeika að sköpuðu.

Þessi tilvitnun er ekki úr ræðu vors fyrrverandi sögu- og sannleikselskandi forseta Ólafs Ragnar Grímssonar heldur er hún fenginn úr formála bókarinnar Árdagar Íslendinga á blaðsíðu 8.

Sannlega má segja um landann, sem lætur sig tilurð sína varða, að hann þarf ekki að vaða í villu og svíma þegar kemur að því að benda á hver hann sé. Er og brögðótt að geta sett sig á háan hest með atgeir, alskegg, öl og andans yrkingar hoppandi hæð sína aftur á bak í Manchester United-búningnum sínum með MacDonalds-líki í hönd.

Að sönnu er ánægjulegt að geta teiknað upp mynd af sér sem ættstór, sjálfstæður víkingur og spyrt sig við afrek fortíðar þegar „sefur hetja á hverjum bæ“ enda „finnast [þeir] hér á landi enn“ þannig að vitnað sé í „Táp og fjör“ Gríms Thomsens.

Það hlýtur alltént að vera skemmtilegra en grey Þjóðverjinn sem klæða þarf sig í SA-búning eða Lederhose með líterskrús af bjór í hönd reiðifrussandi orðið Schmetterling.

Þessi íslenska arfleifð hlýtur að vera blautur draumur hvers þjóðernissinna og sanns Íslendings sem rígheldur í kristin gildi á heiðin hátt. Pétur Gunnlaugsson, Arnþrúður Karlsdóttir og Jón Valur Jensson þurfa að eiga mörg undirföt til skiptana ef þau leiða hugann að glæstri og múslimalausri fortíð Ísalands á degi hverjum.

En látum ballfró þjóðernissinans liggja á milli hluta enda sjálfsagt hægt að hugsa sér sitthvað fegurra en það. Hér verður fjallað um bók eina sem gerir uppruna Íslands og Íslendinga skil og á þann hátt að brugðið er útfrá hinni almennu ímynd sem rímar svo vel við allslags útrás, ferðamennsku og stóra og litla ættjarðarást.

[Innskot: Hér hefði að sjálfsögðu mátt hefja leik á eitthvað hófstilltari máta. Hugsanlega hefði verið meira viðeigandi að impra lauslega á hefðbundinni söguskýringu á jarðbundnari hátt. Þeir sem hefðu óskað sér þess geta bara farið á Wikipedia.]

Árdagar Íslendinga

Guðmundur G. Þórarinsson heitir maður, verkfræðingur að mennt. Guðmundur hefir löngum verið hugsi yfir sögu og uppruna fólks þess sem byggir þá eyju er allajafna gengur undir nafninu Ísland og ku hafa fengið þá nafngift hjá Flóka Vilgerðarsyni ef trúnað má leggja við þá sögu. Guðmundur hefir nú stigið fram með bók eina allmikla að vöxtum. Telur hún einar 426 blaðsíður með heimilda- og nafnaskrá. Árdagar Íslendinga er nafnið sem hún ber og á Einir útgáfa veg og vanda að útgáfunni.

Heiti verksins lætur klárlega innihaldið í veðri vaka auk þess sem óvitlaus getur leitt að því líkur útfrá forspilinu. Verk með viðlíka titil hlýtur að taka á helstu og algengustu frásögnum um hvernig til vildi að fólk tók sér bólfestu á Guðs vors landi í kjölfar fyrsta landnámsmannsins. Í framhaldinu koma svo frásagnir af víkingum, Alþingi, miðaldabókmenntunum og þar fram eftir götunum. Með öðrum orðum  það sem lopapeysuklæddir leiðsögumenn lands vors básúna yfir útlendan lýð um Íslendinga á Þingvöllum með þjóðfánann blaktandi í bakgrunni; hinar viðurkenndu goð- og hetjusögur vorrar tilurðar með þann dýrðarljóma sem endurspeglast á í öllum „hú-um“ þessa árs.

Góðu heilli er slíku ekki fyrir að fara í Árdögum Íslendinga þótt bókin fjalli vissulega um upphaf Íslandsbyggðar og uppruna þeirra sem settust þar að. Í skruddunni eru kynntar mismunandi kenningar og rannsóknir um upphafið og upprunann. Kenningar og rannsóknir sem víkja frá hinni almennu sögusýn.

Taka verður fram að höfundur lagðist ekki sjálfur í rannsóknarvinnu. Verkið er hans framlag til að kynna þessar kenningar og rannsóknir ýmissa háskóla- og alþýðufræðimanna og er markhópurinn fremur leikir en lærðir. Tilgangurinn er að vekja upp spurningar eða vekja athygli á spurningum sem settar hafa verið fram um téð viðfangsefni. Ekki er þó markmið bókarinnar að taka afstöðu til spurninganna og rannsóknanna eða til „sannleiksgildis þeirra.“ (bls. 9) Í henni er ekki hinn stóra sannleik að finna.

Verkið skiptist í þrjá hluta auk þess sem það er prýtt inngangi og eftirmála. Fyrsti hluti, sem jafnframt er stysti hlutinn, þuklar á spurningunni hvenær tilvist landsins kunni að hafa verið verið ljós og ná slíkar vangaveltur aftur til ársins 3400 fyrir Krists burð og fram til 8. aldar . Hér er auðvitað komið við á kunnuglegum slóðum eins og hjá Pöpum og Thule Pýþeasar.

Annar hluti, sem tekur mest rými og það skiljanlega, fjallar um Landnámu og Íslendingabók. Enda eru það þær bækur sem hin almenna sögusýn byggir á. Hér er komið víða við og kennir margra forvitnilegra grasa er margur fróðleiksfús sauðurinn getur gætt sér á. Til að nefna eitthvað er tilurð og efni Landnámu rakið og horft til mismunandi gerða hennar. Velt er fyrir sér fyrir hverja bókin var skrifuð og hver ástæðan fyrir því kunni að hafa verið. Auk þess eru ástæður landnámsins skoðaðar og litið til ósamræmis gerða Landnámu, hve þjóðsagnakenndan blæ sumir hlutar hennar hafa og hvernig sumt innan Landnámu kemur ekki heim og saman. Eins og gefur að skilja er hér ýmislegt sett fram sem brýtur í bága við hið hefðbundna.

Í þriðja hluta er greint frá seinni tíma rannsóknum og athugunum og kann sá hluti sumpart að virka all ævintýralegur. Nægir í því samhengi að nefna tilgátur um að hinn heilaga kaleik sé að finna á hálendi Íslands og hvort Íslendingar séu forn ættkvísl Ísraelsmanna.

Í Árdögum Íslendinga er vissulega margt forvitnilegt. Fyrir áhugasamar ættu að vera forsendur til að gaumgæfa betur það sem bókin inniheldur fýsi þeim svo hugur. Verkið gerir enda hvorki grein fyrir öllu því sem ritað hefir verið um umgetið efni né kafar það mjög djúpt. Það er ekki heldur gert hér og fjarri því að afstaða sé tekin til fræðanna.

Hér verður látið nægja að geta þess bókin tekur á spurningum eins og hvort Ingólfur Arnarson hafi yfirhöfuð verið til, hvort persónur Landnámu dragi nöfn sín af örnefnum landsins en ekki öfugt og séu því ef til vill uppdiktaðar, hvort kristnitakan hafi verið af hagkvæmisástæðum, hvort vera kunni að bækurnar segi meira um ritunartímann en landnámstímann, hvort Ísland hafi verið veiðistöð fyrir landnám, hvort gelísk áhrif séu stórlega vanmetin, hvort erfðafræðin leiði okkur í allan sannleikann, hvort blómleg byggð hafi verið á Íslandi fyrir komu landnámsmannana, byggð sem „láðist“ að minnast á í Landnámu og Íslendingabók.

Í þessu sambandi er vert að benda á annað verk, Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson, sem einnig setur fram aðra sögusýn.

Stóri dómur

Eins og geta má sér til eru Árdagar Íslendinga hnýsilegt verk. Ekki úr vegi að taka höfuðfatið ofan fyrir höfundi fyrir þá vinnu sem hann hefir lagt á sig við að koma þessum fróðleik saman í umrædda bók. Það er fjarri lagi að hann þurfi að fyrirverða sig fyrir verkið. Að því sögðu er verkið langt í frá gallalaust. Það er mjög endurtekningasamt og eitthvað er um ósamræmi í texta. Texta sem seint vinnur til verðlauna fyrir stílgáfu þó hann sé langt í frá slæmur. Til að mynda er Snorri Sturluson á einum stað sagður höfundur Eglu en á öðrum er greint frá því að hann sé af mörgum talinn höfundur hennar.

Vissulega er tekið fram í inngangi og eftirmála og á fleiri stöðum að endurtekningar eigi sér stað. En það er jafnmikil afsökun og segjast ætla að skrifa lélegt verk svo ekki sé hægt gagnrýna það fyrir að vera lélegt. Skal þó tekið fram að þetta verk er ekki lélegt. Það hefði samt þarfnast betri yfirlesturs.

Also. Í Árdagaga Íslendinga er skemmtilegt og hressandi að glugga í. Sérstaklega hafi ef fengið er upp í kok á víkinga-sjálfstæðis-möntrunni og þessum fjandans hú-klöppum. Eða bara ef  áhugi á annarri sögusýn er fyrir hendi.