Óvissustig


Nú birtum við tvö ljóð eftir Þórdísi Gísladóttur úr bókinni Óvissustig, sem kemur út í vikunni á vegum bókaútgáfunnar Benedikts

ovissustig

Sannleikur

Hann er auðvitað truflandi
en ég ætla samt að segja þér hann,
þrúgandi sannleikann um líf manneskju
sem er lokuð inni í gluggalausri vistarveru
með flokki kvefaðra stórgripa.

Hún á ekki að kvarta yfir að úrgangurinn úr þeim valdi hálku,
hún á ekki að gráta,
því þá verða stórgripirnir reiðir,
hún á ekki að hlæja,
þá verða þeir ennþá reiðari,
hún á ekki að orða aðstæðurnar,
hún á ekki að greina frá líðan sinni,
þá hættir hún að vera leyndardómsfull.

Hún á að vera volgur og mjúkur hitapoki
og ekki tala of mikið.
Óþarfa mas finnst stórgripunum þreytandi,
þeir þurfa að ræða málin,
hlusta á sjöttu sinfóníu Mahlers í A-moll
og hvílast
því þeir elda stundum mat og fara út með ruslið,
jafnvel þótt þeir séu með kvef.

Hún má ekki troðast
því þarna eru byssur
sem skot gæti hlaupið úr
í fætur stórgripanna
og valdið varanlegum skaða
á klaufum og hófum.

Í lok febrúar

Eitthvað er loðið í horninu
það er klístur á gólfinu
leifar hafa storknað á diskum
sjónvarpið sýnir mann með blóðugt dýr
og dóttir nágrannans kærir sig kollótta
um tilmæli Íslenskrar málnefndar.

Það er kvenlegt að þjást
umhverfisvænir túrtappar
sem kosta rúmar sjö hundruð krónur
eru stamir og óþægilegir.

Vegna ísingar
er frystihólfið hætt að lokast,
undir glerhálum svellbunka
er rusl síðan á gamlárskvöld,
einhver afglapi
nuddaði sér utan í bílinn
beyglaði stuðara
og ók á brott.

Framlág síðdegissól skríður
niður fyrir næsta hús
á nákvæmlega þeirri stundu
sem sérfræðingar í myrkri
hafa spáð fyrir um.