Mynd: Roland Tanglao, CC. https://www.flickr.com/photos/roland/

Skuld þýðandans

Erindi flutt á ráðstefnu ÞOT 30. september síðastliðinn

Kæru gestir.

Ég hætti að þýða bækur árið 2009, fyrir sjö árum síðan, næstum upp á daginn. Það var haust, sonur minn var nýfæddur og ég hafði ekki sofið vikum saman. Ég var með tóma vasa og í tilvistarkreppu – vanur að vera fátækur en ekki vanur að vera fátækur og eiga barn – og einsog nýorðnum föður sæmir tók ég allri vinnu sem fékkst með húrrahrópum. Afleiðingin var sú að ég réð mig til þess að þýða ónefnt ólýsanlegt og óímunnberanlegt sorp fyrir ónefnt stórt og ágætis forlag á Íslandi. Þessi bók var í senn rasísk og heimskuleg og svo illa skrifuð að það hlýtur eiginlega að hafa verið viljandi. Á einum stað var aðalsöguhetjunni svo illt í öxlinni að hún gat ekki lyft henni upp yfir höfuð – og átti auðvitað við olnbogann. Á öðrum stað tók hún hlemm úr opi á háalofti, lagði hann til hliðar og hoppaði svo niður í gegnum hlemminn – ekki opið. Þessum illa skrifaða óhróðri fylgdu síðan langar hálf- og heilrasískar einræður um eðli sígauna og alls kyns vitleysislegar fullyrðingar um kyn, þjóðir og aðra þjóðfélagshópa.

Þetta selst í bílförmum, var mér sagt, þetta stendur undir allri annarri útgáfu, var mér sagt, þetta er raunveruleikinn, var mér sagt, viltu ekki að við höfum efni á að gefa út ljóðin þín, ljóðaþýðingarnar þínar? Nú þá er líka eins gott að við mokum þessum skít ofan í fólkið, annars verður aldrei hægt að fjármagna fegurðina. Og ég man að ég hugsaði aftur og aftur, meðan ég plægði í gegnum skítinn, að hugsanlega væri heiðarlegra að framleiða bara smjörlíki til að fjármagna fegurðina. Hugsanlega væri heiðarlegra að selja vafninga til að gera það. Hugsanlega væri heiðarlegra að selja ógelt grísabeikon til að gera það. Hugsanlega væri næstum hvað sem er skárra en að pranga heimskulegri vitleysu ofan í fólk og kalla það … lærdóm? Skemmtun? List? Hvað kallar maður svona bækur?

Nema hvað. Í hvert skipti sem ég settist niður til að þýða þessa bók sortnaði mér fyrir augum af reiði. Ég starði á textann án þess að skilja neitt, starði á skjáinn, setti svo undir mig hornin og ruddist áfram. Þegar ég var kominn í gegn ýtti ég á send án þess að svo mikið sem megna að lesa bókina yfir.

Ritstjórinn varð brjáluð. Hún sagði að það væri fyrir neðan virðingu mína að skila svona illa unnu verki. Og hvað gat ég sagt? Já, þetta var ömurlega illa gert. Ég átti mér engar málsbætur nema þá að bókin var ekki verri á íslensku en á frummálinu. Ég hafði sýnt henni um það bil þá virðingu sem hún átti skilið. Að það hafi verið mjög lítil virðing var bara ekki mér að kenna. Léleg þýðingin gerði bókina ekki verri – hún var eins vond og hún gat orðið og ég var fyrst og fremst sekur um að hafa ekki fegrað vitleysuna, hafa ekki megnað að gera það, í einhverju svefnleysis- og fyrirlitningarmóki. En ég átti aldrei að taka verkið að mér, þótt ég væri blankur. Og forlagið átti heldur aldrei að kaupa réttinn á þessu rusli, þótt þau hafi verið blönk.

Höfundur fæðist í skuld. Höfundur fæðist með registur á bakinu, bækurnar sem gerðu honum kleift að verða höfundur, sem mörkuðu leiðina, komu honum á bragðið. Höfundur skuldar sjálfum bókmenntunum og þessa skuld greiðir hann fyrst og fremst með því að sinna bókmenntum annarra, með því að hringsóla annað veifið í kringum eitthvað merkilegra en rassgatið á sjálfum sér, með því að skipuleggja viðburði, lesa ný og gömul verk af gagnrýnni alúð, aðstoða aðra með lestri, plöggi, ráðgjöf, fögnuði og kærleika. Með því að borga fyrir sig.

Fátt gengur jafn hátt í þessa skuld og þýðingar og engum höfundum skulda ég jafn mikið og Fjodor Dostojevskí og Allen Ginsberg. Ekki vegna þess að það séu endilega þeir sem taka upp mest rými í hjarta mér í dag, þótt vissulega séu þeir miklir, heldur vegna þess að þessa tvo hvítu dauðu karla las ég sem unglingur og verk þeirra gerðu mér ljóst að bókmenntirnar væru eitthvað annað og meira en bara skemmtilegar. Þær væru líka færar um að sprengja í manni heilann og raða honum saman upp á nýtt. Mér finnst sennilegt að allir höfundar eigi sér eitthvað sambærilegt augnablik – kannski allir lesendur – og áreiðanlega allir þýðendur. Augnablikið sem sýndi þeim djúpið – kraftbirtingarhljóm guðdómsins, for lack of a better word, einsog maður segir, agndofa.

Eitt af því fyrsta sem ég tók mér fyrir hendur þegar það var á annað borð orðið raunverulegur – ef enn nokkuð fjarlægur – möguleiki í höfði mér að einn daginn kæmu út bækur í mínu nafni var að þýða valin ljóð eftir Allen Ginsberg. Einmitt vegna þess að ef ekki hefði verið fyrir hann og Dostó – sem Ingibjörg hafði þegar þýtt – hefði ég aldrei skrifað neitt sjálfur og hefði heldur aldrei lesið alla þá höfunda sem ég las í kjölfarið.

Það tók mig langan tíma að þýða bókina og enn lengri tíma að fá hana útgefna – í landi þar sem stór hluti okkar bestu þýðenda ryðja sér í gegnum spánýja reyfara á færibandi á meðan allir helstu klassíkerar 20. aldarinnar liggja óbættir hjá garði og svo gott sem ekkert af mest spennandi skáldskap samtímans er þýddur á íslensku, nema svo ótrúlega vel vilji til að bækurnar séu undir 250 síðum eða þýðandinn geri það nánast í sjálfboðavinnu. En hún kom út á endanum og hafði þá farið inn á borð hjá öllum helstu forlögum, áður en hún endaði aftur inn á borði á sama forlagi og hafnaði henni í fyrstu, hjá Máli og menningu.

Það fyrsta sem ég uppgötvaði þegar ég fékk hana í hendurnar voru óafmáanleg mistökin sem ég hafði gert. Þetta er bók sem verður sennilega aldrei prentuð aftur – ljóð sem verða sennilega ekki þýdd aftur – og ég gerði mistök sem verða þar með aldrei leiðrétt. Kannski tekur enginn eftir þeim – en þau hvíla á mér alla daga. (Og nei, ég segi ykkur ekki hver þau eru).

Þegar ég þýði úr sænsku er mér gjarna legið á hálsi fyrir að nota sænskuskotið málfar. Þegar ég þýði úr ensku er mér legið á hálsi fyrir að nota enskuskotið málfar. Og þótt mér finnist aðfinnslurnar ómerkilegar er þetta alveg satt. Ég legg mig jafnvel á köflum fram um að í gegnum þýðinguna sjái maður glitta í upprunamálið og finnst sjálfum hreinlega óþolandi skemmdarverk þegar bókmenntir eru þýddar þannig að sögusviðið nánast færist allt til Íslands – þegar Los Angeles Raymonds Chandler er klædd í Grindavík Guðbergs Bergssonar – og óskiljanlegt hvernig sá tendens hefur orðið að reglu frekar en undantekningu í leikhúsi. En dáist að Jóni Bjarman sem í þýðingu sinni á Hverjum klukkan glymur lætur bæði ensku – málið sem bókin er skrifuð á – og spænsku – málið sem bókin er hugsuð á – skína í gegn.

Tungumál eru fýsískar staðsetningar, lifandi einsog landslag – með öllum sínum tiktúrum, sínum sérkennum, dalverpum og dalalæðum – og þýðingar eiga ekki að vera staðfæringar sé hugsanlega hægt að komast hjá því. Það sem hljómar framandi á móðurmálinu gerir það á sama máta og útlönd eru framandi þeim sem þau heimsækir. Og það er alltílagi, það er ekkert að óttast, íslenskan lifir það alveg af að vera margs konar, hún lifir af að vera stundum dálítið útlensk – það er meira að segja sennilegt að hún stórgræði á því.

En hvað sem maður gerir verður einhver ósáttur. Sumir verða alveg óðir þegar sænskt talmál verður ekki að gullaldaríslensku; en aðrir – t.d. ég – verða alveg óðir þegar einmitt það gerist. Vilji maður breyta einhverju sem meirihlutinn álítur norm í tungumálinu er líklegt að maður fái fleiri upp á móti sér en annars; og þá er ágætt að muna að gallar eru ekki bara gallar, ef maður meinar þá eru þeir líka pólitískar yfirlýsingar.


Traddutore, traditore. Úr þessu ítalska orðatiltæki er titill bókarinnar Trado kominn – þýðandi, svikari. En rótin trado hefur einsog mörg önnur orð ótal merkingar. Að færa úr stað, gefast upp, skilja að baki, skilja eftir, gefa, skila, færa, flytja, stinga upp og segja frá. Meira að segja máltækið svíkur, því sögnin svíkur og þýðingin svíkur.

Trado er þrjár bækur í einni kápu – eða kassa – skrifuð af tveimur höfundum, tveimur þýðendum, og gefin út af tveimur forlögum, Rámus og Bonniers. Höfundarnir og þýðendurnir eru sænska ljóðskáldið Athena Farrokhzad og rúmenska skáldið Svetlana Carstean sem kynntust þegar þær byrjuðu að þýða hvort aðra – vel að merkja án þess að kunna tungumál hvor annarrar. Bækurnar urðu til upp úr þessu – þegar þær gátu ekki hætt að þýða, gátu ekki hætt að kynnast eða svíkja hver aðra. Ein er ljóðabók Athenu um þýðingar, svik og vináttu; önnur er ljóðabók Svetlönu um þýðingar, svik og vináttu; sú þriðja er ritgerð þeirra beggja um þýðingar, svik og vináttu.

Í ritgerðinni stendur meðal annars:

Að þýða hina er að verða henni vel kunnug.

Og á sama tíma er það framandgerving.

Að þýðast af hinni er að verða henni náin.

Og á sama tíma er það innrás.

Ég byrjaði aftur að þýða í fyrra eftir nokkurra ára hlé, þegar ég þýddi ljóðasafn eftir sænska skáldið Idu Linde á íslensku. Það var bók sem ég hélt ekki að nokkur myndi vilja gefa út – hún var ekki ný, þykir ekki stærsta eða merkilegasta verk Idu, þótt hún sé að sönnu frábær, og horfumst bara í augu við það: íslensk forlög leggja sig ekki beinlínis fram um að gefa út norræna ljóðlist. Eða suðræna. Asíska. Afríska. Færeyska. Grænlenska. Ekki einu sinni Bandaríska. Og kannski leyfði ég mér þess vegna að þýða hana – ég var í alvöru hættur, mér fannst ég ekki geta þetta lengur – vegna þess að mér var óhætt að gera það út í loftið, út í himingeiminn, án þess að takast á við svarthol kapítalismans.

Bókin, sem heitir Erfðaskrá vélstúlkunnar, kom út hjá Meðgönguljóðum. Og þá var ég líka aftur kominn á bragðið – þýddi leikrit fyrir Þjóðleikhúsið, umbeðinn og á bærilegum taxta, og fór svo óumbeðinn að þýða ljóð hingað og þangað, héðan og þaðan. Vegna þess að þannig eru guðs verk unnin.

Á þriðjudaginn kemur síðan út önnur ljóðabók sem ég þýddi af því mig langaði það og af því mér fannst hún eiga erindi við Íslendinga. Enn á ný kom engum meira á óvart en mér að hún fengist útgefin – í þetta sinn hjá Máli og menningu og þótt mér teljist til að ég fái ekki nema rétt um vikulaun – miðað við lágmarkslaun – fyrir verkið, þá var það nú samt þess virði. Og ég þýddi hana af eins mikilli alúð og ég á til í mér; og vissi líka taxtann áður en ég skrifaði undir samninginn. Maður er bara lufsan sem maður er, og forlagsbransinn einsog hann er, og hvað gerir maður ekki fyrir ljóðlistina?

En hvað um það. Bókin, sem heitir Hvítsvíta, er eftir áðurnefnda Athenu Farrokhzad og hún er – einsog Trado – alveg stórkostleg bók. Í þýðingunni margsvík ég bæði Athenu og textann – breyti fleirtölum í eintölur, eintölum í fleirtölur, sný upp á, afskræmi og fegra og djöflast. Allt til þess að ná einhverjum öðrum sannleika um bókina en þeim bókstaflega; allt til þess að bókin þýðist frekar en íslenskist bara. Og það gleður mig að tilkynna ykkur að textinn er sænskuskotinn allsstaðar þar sem því varð viðkomið– en ég er viss um að þegar ég fæ bókina í hendurnar eftir helgi þá rek ég augun í einhver skelfileg mistök, eitthvað óafmáanlegt lýti, og verð alveg handónýtur fram eftir vetri. Eftir nokkur ár verð ég sennilega kominn á kaf í ruslaþýðingar á ný – í kjölfar eilíflega yfirvofandi blankheita – og fæ nýtt taugaáfall og sver að ég sé hættur þessum andskotans þýðingum um aldur og ævi.

Og þannig koll af kolli.