Ljóð um greint rými og fleiri stök

Þeim fjölgar sem keyra um á svifbrettum; þeim fjölgar sem kjósa almenningssamgöngur; þeim fjölgar sem ganga með múslimaslæður; þeim fjölgar sem borða á veitingastöðum þegar þeir nenna ekki að elda; þeim fjölgar sem æxlast, tímgast, stunda kynlíf og geta börn. Þróunin er augljós þeim sem vilja sjá hana.

En það vilja ekki allir sjá hana.

Ekki þeim sem fjölgar. Fyrst um einn, um tvo og uppfrá því með veldisvexti, einsog rottur, einsog klamydía á kampavínsklúbbi, einsog óveðursský á fögrum degi, einsog dagfarsprúðum ungum mönnum á útihátíð, einsog klinki í hvolfdum hatti, einsog stólfótum í húsgagnaverslun. Og svo framvegis.

Á sama tíma fækkar ólæsum, fátæklingum og trúuðum; á sama tíma fækkar ljónatemjurum, bókbindurum og tæ-bóþjálfurum; á sama tíma fækkar súturum, sóturum og járnsmiðum; á sama tíma fækkar bormönnum og léttadrengjum; á sama tíma fækkar hötturum og svonefndum „haterz“.

Einsog björgunarbátum á sökkvandi skipi.

Einsog laufskrúði að hausti.

Einsog ungum karlmönnum á stríðstímum.

Einsog kornflögum úr eldhússkápum.

Einsog maurum fyrir stækkunargleri og sólu.

Og enginn fær neitt að gert.

Ef fer sem horfir verða á endanum fleiri kaffibarþjónar en klósettrúllur á jörðinni. Ef fer sem horfir verða snjallsímanotendur á endanum fleiri en svo að forstjórar lífeyrissjóðanna megni að borga þeim öllum. Ef fer sem horfir verða á endanum fleiri súrdeigsbakarar en við getum með góðu móti torgað. Ef fer sem horfir verður á endanum ekki þverfótað fyrir endurskoðendum, jógakennurum og snjallsímasmiðum undir lögaldri. Ef fer sem horfir neyðumst við á endanum til þess að sofa, ríða, éta og skíta upprétt.

Þróunin er augljós, það er bara að opna augun.

Hnötturinn ber ekki fleiri hugbúnaðarforritara eða fatahönnuði; ber ekki fleiri amatör klámstjörnur; ber ekki fleiri netlausa hvalveiðimenn; ekki fleiri stjörnuspekinga, heimabruggara eða vörubílsstjóra. Hnötturinn ber ekki fleiri glerlistamenn eða hippstera í feðraorlofi; ber ekki fleiri lífræna bændur; ber ekki fleiri stelpur með tíkarspena; ekki fleiri stráka með risvandamál, ljóðskáld með ritræpu eða afgreiðslufólk í dótabúðum. Hnötturinn ber ekki fleiri garðyrkjustjóra eða rafvirkja; ber ekki fleiri ruslakarla; ber ekki fleiri grunnskælinga; ekki fleiri svanga/metta tískubloggara, léttklædda/kappklædda baðstrandargesti eða fjóreygða/gleraugnalausa lestrarhesta.

Þetta lið étur okkur út á gaddinn.

Þetta lið klárar allan fiskinn í sjónum, þarann í sjónum og með hverju eigum við þá að vefja sushiið?

Þetta lið klárar kaffið, koffínlausa kaffið og verkjalyfin. Klárar eðalmálmana og olíuna, tóbakið, uppleysanlega freyðivítamínið og fyllir félagsmiðlana af fjölfaldanlegum gifmyndum úr eftirminnilegum bíómyndum.

Þetta lið á eftir að drekka allt áfengið, afmá dansgólfin með blankskónum og hlusta á tónlistina til enda. Þar til ekkert er lengur eftir.

Ef fer sem horfir verður ekki lengur verjandi að fá sáðlát í sama hverfi og önnur mannvera; og ómögulegt að komast hjá því í öllum þrengslunum, núningnum, veröldin er kynferðisleg og það er ekkert við því að gera. Sáðlátin fær ekkert stöðvað. Þróunin er augljós og því fer sem fer, fer sem horfir.

Og þeim fjölgar sem ryðjast inn á einkalóðir á Pokemonveiðum; þeim fjölgar sem kjósa lífrænt og upplifa kyn sitt og kynferði á fljótandi kvarða; þeim fjölgar sem vinna við að grafa upp sjaldgæfa málma; þeim fjölgar sem komast inn á skemmtistaði á fölskum skilríkjum.

Við þessu er ekkert að gera og það dugir ekki að stinga höfðinu í sandinn.

Þeim fjölgar óneitanlega sem aðhyllast takmarkað og/eða ótakmarkað mataræði; þeim fjölgar sem búa við takmarkað lýðræði; þeim fjölgar sem eru búnir undir allra handa skakkaföll og láta ekkert koma sér á óvart, láta aldrei grípa sig í bólinu; þeim fjölgar sem ferðast fótgangandi milli landa, fljúga og borga offjár fyrir stæði í farangursrýminu. Sá sem sér ekki að þetta er þróunin hefur augljóslega ekki verið að fylgjast með.

Og hnötturinn ber ekki fleiri konur á barneignaraldri; ber ekki fleiri lesblinda skautadansara; ber ekki fleiri órakaða framkvæmdastjóra; ber ekki fleiri rappara með gullkeðjur; ber ekki fleiri frjálsíþróttamenn með vöðvaverki, hálfsköllótta trúarofstækismenn eða listamenn sem gera út á kynþokka sinn. Veröldin er sú sem hún er, jörðin undir fótum okkar og stjörnurnar á himninum; allt er einsog það á að sér að vera og þróunin er augljós. Hnötturinn ber ekki fleiri kirsuberjaveipandi ungmenni; ber ekki fleiri grunnskólastúlkur með slæður; ber ekki fleiri gerendur & þolendur; ber ekki fleiri flugumferðarstjóra á hraðandi lyfjum; ber ekki fleiri offitusjúklinga í dýrum, skærlituðum íþróttaskóm, norðurlandabúa með panamahatta eða lausláta aumingja í hjólastólum.

Það er bara ekki neitt pláss.

Það er bara allt löngu fullt. Því miður.

Því miður allt uppétið og uppselt.

Því miður allt uppurið og uppnumið.

Því miður allt uppþorrnað og uppvaknað.

Því miður allt uppmigið og uppmælt.

Því miður allt upprakið og uppreiknað.

Því miður allt upptalið og uppleyst.

Því miður allt uppfundið og uppdiktað.

Því miður allt uppgefið og uppdregið.

Því miður. Ekkert eftir til að tala um.

Og svo framvegis og svo framvegis.