Fortíðin er aldrei liðin

Kompa

Kompa, fyrsta skáldsaga Sigrúnar Pálsdóttur er nýkomin út hjá Smekkleysu. Sigrún lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Oxford árið 2001 og hefur áður gefið frá sér bækurnar Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar (2010) og Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga (2013). Ég verð að viðurkenna að þessar bækur fóru ekki einungis algjörlega framhjá mér, heldur er ég fyrst að heyra um Sigrúnu og hennar ritstörf núna með þessari bók. Ég tel mig svo sem ekki vera með puttann á púlsinum í öllu sem er að gerast í íslenskri bókaútgáfu, en ég er mikill áhugamaður um sagnfræði svo þessi yfirsjón kemur mér nokkuð á óvart. Ég grennslaðist aðeins fyrir um fyrri verk hennar og skáldskapurinn virðist henni þó ekki vera framandi vettvangur – a.m.k. notar hún einnig bókmenntafræðilegar aðferðir Sigrún og Friðgeir. En af fyrsta verki hennar sem flokkast undir hreinan skáldskap að dæma er einnig komin fram ný rödd í íslenskri skáldssagnalist sem bæði bókmenntaunnendur og hugvísindafólk ættu að fylgjast með.

Kompa fjallar um ónefnda sögupersónu verksins sem við kynnumst í fyrstu persónu, konu sem er að rembast við að skrifa doktorsritgerð í sagnfræði við enskan háskóla þegar sagan hefst. Smám saman komumst við að því að eitthvað mikið er að í lífi hennar, t.d. hefur hún gert stór mistök við vinnu ritgerðarinnar, svo stór að hún hefur einungis tveggja kosta völ þegar hún áttar sig á þeim: að setja sex ára vinnu í ruslið eða að gerast sek um gróf svik.

Þetta er söguþráðurinn í grófum dráttum. Hann er í rauninni nokkuð beisik. Þessi lýsing ein og sér gefur þó ekki sanngjarna mynd af innihaldinu, en hún gerði það að verkum að ég var búinn að setja mig í stellingar fyrir allt annars konar bók. Sú upplifun var þó að mestu jákvæð frekar en neikvæð. Með þá vitneskju að þetta væri fyrsta skáldsaga höfundarins fannst mér stíllinn einkennast af miklu sjálfsöryggi. Bókin er vel skrifuð, lýsingarnar eru nógu ítarlegar til að skapa heim sögupersónunnar, sjónarhorn sem við sleppum aldrei undan fyrr en í lokakaflanum, en þó treystir hún lesandanum nægilega mikið til að fylla inn í eyðurnar á réttum stöðum.

Sigrún skilur lesandann oft eftir með mjög sterkar ímyndir sem sitja í honum, eins og í þessu atriði sem hún endar einn kaflann á:

Ég legg minnisbókina á stofuborðið og hendi mér í sófann. Ég ligg með augun galopin af ótta við að sjá það sem ég næstum því sá, loki ég þeim. Ég horfi á hurðina bak við teppið þar til augun lokast. Og þá er hún komin. Garðyrkjukonan. Stendur upp við teppið, teinrétt og styður stungugafflinum við gólfið. Hún horfir beint fram. (bls.53-54).

Það er ekki úr vegi að minnast á Faulkner í þessu samhengi. Ég hugsaði oft um fræga tilvitnun hans um söguna við lesturinn (The past is never dead. It’s not even past), en hún lýsir vel aðalþema bókarinnar. Sögupersónan er ekki aðeins að rembast við söguna í náminu, heldur fáum við að vita að hún glímir við atburði úr fortíð sinni sem henni reynist erfitt að vinna bug á og komast undan. Það sem gerir henni einnig erfitt fyrir er flókið samband við móður sína er kannski skemmtilegasta persóna bókarinnar og auk þess, þrátt fyrir að vera miðaldra kona sem fór fyrst í háskólanám seint á lífsleiðinni, besserwisser sem ætti heima í partýi hvaða BA nema sem er. Frá henni koma setningar eins og: „Sjáðu til, í sagnaritun samtímans, þar sem áherslan á hið einstaka verður stöðugt ríkari, getur það nefnilega komið sér betur fyrir gleymdan listamann að vera kona en karl. Það sem eitt sinn vann gegn listamanninum verður honum nú til happs.“ (bls.92) En eftir því sem frásögninni líður fram missir sögupersónan sífellt meira tak á raunveruleikanum og sjálf hennar hnignar og leysist upp.

Það er þó ekki einungis sagan sjálf, heldur fyrst og fremst túlkun okkar á henni ásamt öðru fólki sem er meginþemað. Sögupersónan eyðir miklum tíma í að virða fyrir sér og túlka þær persónur sem verða á vegi hennar, eitthvað sem hefur neikvæð áhrif á líf hennar, en ásamt því að það bitnar á samskiptum hennar við vinkonur sínar, þá er það einmitt þessi tilhneiging sem er orsökin á mistökunum afdrifaríku.

Höfundur og verk sem skýtur strax upp kollinum við lesturinn er Pale Fire Nabokovs. Sigrún fjallar einnig um fræðimennsku, heimildir og heimildanotkun, rannsókn á höfundi og höfundaætlun, ásamt því að sjónarhóll beggja verka er sjónarhóll mjög óáreiðanlegs sögumanns sem stundar óheiðarleg vinnubrögð. Ef maður er fylgjandi einni túlkuninni á verki Nabokov, fjalla þau bæði um geðveiki. Það kæmi mér á óvart ef Sigrún hafi aldrei lesið Pale Fire og sú bók spilaði ekkert hlutverk í fæðingu Kompu, hvort sem það var meðvitað eður ei.

Ég vil í raun helst ekki segja of mikið frá atburðum verksins, þar sem ég vil ekki skemma upplifun tilvonandi lesenda. Fyrir utan verk Nabokovs má finna dass af Borges þar sem mikilvægi gamalla og gleymdra rita, hvernig þau segja mikið um og geta breytt allri tilveru okkar, mörkin á milli skáldskapar og „veruleikans“, séu þau yfirhöfuð til, eru hluti af umfjöllunarefni Kompu. Einnig fann ég ákveðinn Murakami fílíng í töfraraunsæi sem Sigrún daðrar við á stundum, t.d. leyndir stigar og hurðir sem leiða eitthvert dularfullt, og minntu mig á japanska metsöluhöfundinn í verkum eins og The Wind-Up Bird Chronicle. Sérstaklega í kaflanum með fólkið sem hún sér í rammanum í einni senu.

Sérstaklega áhugaverð er framsetning hennar á hinu akademíska lífi. Stressið og áhrif þess á hversdagslegt líf – eitthvað sem einkennir líf sífellt fleira fólks. Þetta er eitthvað sem ég hef oft velt fyrir mér og Sigrún kemur inn á. Hversu absúrd það er að koma sér áfram sem fræðimaður, að það skuli vera venjulegur starfsferill, þar sem frumleiki og ný þekking er krafa fyrir framgöngu og velgengni. Á sama tíma, vegna mikillar fjölgunar nemenda og þar með fræðimanna, þá eru nauðsynlega sífellt færri svið sem eru órannsökuð og bjóða upp á frumlegar nálganir. Þetta leiðir til sífellt þrengri sérsviða. Sem hefur í sjálfu sér vissa kosti, en býður einnig upp á einkennilegt ástand þar sem sérfræðingar eru sérfróðir í minna og minna efni og, vegna þeirrar kröfu að þeir tjái sig aðeins um sérsvið sitt, þá tala þeir einnig um sífellt minna. Háskólar verða þannig fullir af hámenntuðum sérfræðingum sem geta þó tjáð sig um mjög lítið, eitthvað sem ég tel að hafi alvarleg áhrif á samfélagið. Hér er ég þó kannski kominn eitthvað út fyrir efni Kompu.

Sögupersónan telur sig hafa dottið í lukkupottinn vegna þess að hún telur sig geta sýnt fram á að viss myndlistamaður hafi verið kona en ekki karl eins og talið hafði verið, eitthvað sem gulltryggir henni velgengni í þessum heimi. Sigrún lýsir því vel hvernig persónunni líður eins og hún hafi unnið í lottó þegar hún gerir þessa uppgötvun, tækifæri sem vex ekki á trjám. Mér hefur stundum fundist vera eitthvað hálfkómískt við það að vinna manns feli í sér leit að forskilvitlegum sannleika og hlutlægri þekkingu, ásamt innlifun í hugarheim og menningu þjóða á 17. eða 18.öld, hvað þá fornra menningarheima eins og Grikkja eða Rómverja. Mikill tími fer í dauðarannsóknir á heimildum sem fáir aðrir myndu hafa áhuga á, og erfitt getur reynst að tjá mikilvægið til annarra. Akademíkin verður mjög einkennileg þegar hún er skilin sem vinna eins og hver önnur.

Það er áhugavert umfjöllunarefni hversu illa líf fræðimannsins passar inn í nútíma kapítalískt samfélag. Ég get ekki fullyrt um hversu áberandi eða frumlegt þema þetta er þar sem ég er ekkert of vel lesinn í íslenskum nútíma skáldsögum, en mér finnst Kompa vera áhugaverð stúdía um þetta málefni, um glímu venjulegs fólks við bæði hversdagsleika akademíunnar ásamt því hvernig efnið sem þau fjalla um hafa afdrifarík áhrif á líf þeirra. Að því leytinu til minnti verkið mig einnig á Illsku og Heimsku Eiríks Arnar Norðdahl en þrátt fyrir að vera um margt ólík verk, Kompa er fyrst og fremst sálfræðistúdía á meðan að verk Eiríks eru meira samfélagsgagnrýni, þá eiga þau aðra þræði sameiginlega: þau fjalla um líf ungs, íslensks háskólafólks, rithöfunda og fræðimennsku, ásamt mikilvægi sögunnar í Illsku og afdrifarík fræðileg mistök í Heimsku til dæmis, eitthvað sem er einnig fyrirferðamikið í Kompu.

Eitt af því fáu sem ég veit um höfundinn er að hún er með doktorspróf í sagnfræði frá Oxford. Því væri hægt að spyrja hvort verkið sé „persónulegt.“ Ég skal ekki segja um það, þetta er að mínu mati einhver leiðinlegasta og óáhugaverðasta spurning sem hægt er að spyrja rithöfund eða listamann um verk sín. Eins og sköpun sé eitthvað síðri en persónuleg upplifun og hún ljái verki einhverja dýpri og alvarlegri merkingu. Jafnvel þótt persónuleg reynsla búi að baki, hvaða máli skiptir það? Er listaverk meira eða minna virði eða áhugavert eftir því hvort listamaðurinn hafi sjálfur upplifað það sem hann fjallar um? Hvers vegna? Ég hef a.m.k. aldrei skilið þessa spurningu, og grunar pínu að þetta sé bara klisja sem margir reiða sig á vegna þess að þeim dettur ekkert betra í hug.

En nóg um þennan úturdúr. Helsta gagnrýni mín á verkið byggir þó á þeirri staðreynd að höfundurinn er hámenntaður sagnfræðingur, en ég er nokkuð viss um að mér myndi líða eins þótt ég væri ómeðvitaður um það. Það lýsir samt kannski meira hvar minn áhugi liggur frekar en galla á verkinu, en mér fannst áhugaverðustu kaflarnir vera hugleiðingarnar um söguna, list og mikilvægi og áhrif þeirra. T.d.:

Ég bölva tímanum í hljóði. Í listsköpun er hann ekki annað en eyðingarafl á meðan viðfangsefni vísindanna eru óþrjótandi, og glíman við þau uppbyggjandi til framtíðar; í vísindunum opna menn dyrnar fyrir þann sem kemur næstur, í listum skella menn á eftir sér með þeim afleiðingum að sagan hefur smám saman hægt á sér og er nú á enda. (bls.124)

Svona hugleiðingar má finna í gegnum verkið, og fannst mér þær vera áhugaverðustu hliðar þess. Það er augljóst að rithöfundurinn þekkir sögu og mikilvægi hennar vel og er með sterkar og áhugaverðar skoðanir á því. Þær komast að einhverju leyti til skila, en lesturinn skildi mig samt eftir með löngun í meira, eins og hún hefði getað farið meira út í það sem myndi gefa bókinni aukna dýpt. Bókin á augljóslega að vera stutt í sniðum (hún er 166. bls) og góð stutt skáldverk eiga auðvitað að láta mann biðja um meira. Sem stutt skáldsaga eða novella er Kompa ágætlega heppnuð. Ég saknaði ekki endilega meiri lengdar, heldur kannski frekar að kafað væri dýpra í sjálf sögupersónunnar, að við kynntumst henni betur. Af því sem við kynnumst af henni var það stundum svolítið erfitt að trúa því að hún hafi komist alla leið í doktorsritgerðarskrifum við erlendan háskóla.

Að höfundurinn fari ekki meira út í söguna er þó að vissu leyti kannski frekar merki um styrk og sjálfsöryggi hans sem skáldsagnahöfundar, að hann reiði sig ekki um of á sagnfræðibakgrunn sinn. Ef Sigrún Pálsdóttir ætlaði að skrifa um sagnfræði eða hugmyndasögu myndi hún að sjálfsögðu bara skrifa fræðigrein eða bók en ekki skáldsögu. Ég myndi hiklaust lesa þá grein eða bók, eins og Kompu, en skáldskapartilraunirnar heppnast ekki allar eins vel. Sálfræðilýsingarnar og draumkenndar og súrrealískar ímyndir sem hún reiðir fram eru mjög góðar. Samtölin oft góð, en ekki alltaf. Sögupersónan og móðir hennar eru best sköpuðu persónurnar, aðrar takast ekki eins vel upp og skilja lítið eftir sig.

Kompa er áhugavert verk sem hefur ýmislegt fram að færa. Mér fannst gaman að sjá tilraun til að samþætta hversdagsleika venjulegrar manneskju, andlega erfiðleika og upplausn sjálfs, drauga fortíðarinnar, lífið í akademíunni, ásamt list og sögu með dýpri hugleiðingum en gengur og gerist um hvernig þetta allt hangir saman og hefur áhrif á hvert annað. Sem fyrsta skáldsaga sagnfræðings, þá segi ég bara: geri aðrir betur.