Ég bara reið henni Dísu :-) / Ég var rétt í þessu að gilja Úlf :-)

Fyrir allra augum, sem kom út hjá JPV á dögunum, er önnur skáldsaga Sverris Norlands (1986). Sú fyrri, Kvíðasnillingarnir var gefin út árið 2014. Einnig voru útgefnar skáldsaga ein í hæfilegri lengd, Kvíðasnillingurinn (2013) og ljóðabókin Suss! Andagyðjan sefur (2006).

Kvíðasnillingarnir fengu almennt séð nokkuð jákvæða dóma. Eru gagnrýnendur nokkuð samstíga í klisjunni um að höfundur lofi góðu, sé efni, hafi hæfileika þótt byrjendaverkið sé ekki gallalaust.

Kvíðasnillingarnir spanna langan tíma í lífi þriggja vina, flakka fram og til baka í tíma, flandra stíl- og frásagnalega séð nokkuð út og suður. Fyrir allra augum er á hinn bóginn samtímasaga sem einnig skiptist í þrjá hluta: I. „Desember 2013“, II. „Mottumars 2015“ og III. „Vorkoma 2015“. Hún á sér og stað á þessu tímabili. Hún er allstutt og samanpökkuð á 170 síðum með tvöföldu línubili. Hún flakkar stíl- og frásagnarlega ekki út og suður.

 

 

Fyrir allra augum greinir frá æskufólkinu Úlfi og Dísu. Hann er óframfærinn, óöruggur, aðgerðalítill maður sem er „alltaf jafn hissa á því að fólk […] [taki] eftir tilvist […] [hans] á jörðinni.“ (bls. 15) Hún er opinn, framdráttar-, uppátækja-, atorkusöm og lifir fyrir athygli annarra. Hún er með opið inn til sín á samfélagasmiðlunum og „langar líka að verða fræg.“ (bls. 26) Raunar þráir hún fátt heitar en að hljóta upphefð, allavega á Íslandi. Það verður þó að taka fram að þótt Dísa hafi máske yfirborðskennda drauma er hún langt frá því að vera einhver afglapi.

Eins og svo komist er að orði í verkinu er hann „þögn sinnar kynslóðar“ á meðan hún er „rödd sinnar kynslóðar.“

Þetta ólíklega fólk lendir saman upp í rúmi í byrjun verksins. Hún yrðir á hann upp úr þurru (hún vissi að vísu að hann væri fær teiknari og líkar verk hans) á Landsbókasafninu þar sem hann er að læra fyrir próf í lögfræði og í kjölfarið fær hún hann til fylgilags við sig. Hún á alfarið frumkvæðið enda er hann einn af þeim sem „venjulega rúllaði […] bara samkvæmt rótgróinni íslenskri venju hálf rænulaus af vínneyslu inn í leigubíl ásamt stelpu sem einnig var hálf rænulaus af víndrykkju.“ [i] Svo má bæta næstu málsgrein við því hún er fín: „Þetta var svona kynlíf sem var meira sorglegt og skrítið og örvæntingarfullt en fallegt og gefandi.“ (bls. 20)

Samskipti þeirra tveggja eru rauði þráðurinn í bókinni þó að þau séu eins og ungdómurinn myndi orða það „on and off“. Hann er öllu heillaðari af henni en hún af honum og fylgist með henni í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlunum eftir að hún nær settu marki og verður nafntoguð og umtöluð sem tónlistarkona (hún slær í gegn með hljómsveitinni Forhertum tilfinningaverum) bloggari, leikari og rithöfundur (skrifar bókina „Játningar reykvískrar tilfinningaveru; frægðardraumar“). Hún er sem sagt á hverrar konu vörum og hvers manns skjá.

Ég hafði aldrei upplifað neitt þessu líkt áður; venjulega langaði mig þegar ég hafði nýlokið við að sofa hjá stelpu að flýja út um gluggann. (bls. 36)

Söguþráðurinn er hvorki þungur né þvælinn.Takmarkið er enda að draga upp blátt áfram mynd af ungu fólki og samtíma þess á Íslandi fremur en að segja margbrotna sögu.

 

Það er Úlfur sem segir söguna (1. persónu frásögn). Og þótt frásögnin hverfist að mestu leyti um hann og Dísu koma aðrar persónur einnig við sögu. Eru þær annað hvort samtímans tákn eða rissa upp tíðarandabreytingar. Má hér tína til fyrstu viðbrögð afa og mömmu Úlfs við því þegar Bogga, samkynhneigð systir Úlfs, tekur af sér brjóstamyndir (þeim finnst það ekki við hæfi) til að birta á netinu í tilefni FreeTheNipple og hvernig fyrrverandi kærasti Dísu, sem kallar sig Lovly Boy, birtir nektarmyndir af Dísu á netinu án hennar vitundar (hefndarklám). Auk þess er oft minnst á að bæði Bogga og Úlfur séu grænmetisætur sem einnig mætti sjá sem tímanna tákn. Afinn er að vísu langt í frá forneskjulegur í háttum. Hann rekur öðruvísi og hressa útfararþjónustu og reynir hvað hann getur til að falla inn í tíðarandann. Hann er sá sem brúar kannski bilið milli kynslóðanna.

Sögumaðurinn Úlfur er meðvitaður um að hann sé að segja sögu. Ekkert er reynt til að fela það. Á einum stað er lesandinn meira að segja ávarpaður (bls. 18). En aðalatriðið er þó að Úlfur gerir sér fyllilega grein fyrir að frásögn hans litast af hans líðan og upplifun; hvunndagurinn getur verið ævintýri eða litlaus og grár (auðvitað er bara verið að lýsa hefðbundnum upplifunum en þeim er haglega komið í orð). Máske fari best á að taka til nokkur dæmi:

Kannski gæði ég þennan fyrsta fund okkar Dísu töfraljóma í endurminningunni. (bls. 15)

Eftir ástarfund þeirra sér Úlfur tilveruna í nýju ljósi:

Ég var fullur af einhverjum nýjum, ólgandi krafti, líkleg mætti kalla það lífsgleði. Skrítið hvað veröldin innra með okkur er fljót að breytast […] .“ (bls. 24)

Mér þótti jafnvel ekki fráleitt að við værum tvær ólíkustu manneskjur í heiminum: Dísa beintengd við hverina okkar, eldfjöllin, norðurljósin, brimið, norðanvindinn, ég bar innra með mér þunga og hæga skýjabólstra, langdregin köld janúarsíðdegi, litlausar fjallshlíðar, gróðursnauðar hraunbreiður. (bls. 40)

Hér vakna þau í þynku eftir misheppnuð ástaratlot í áfengisvímu:

Töfrarnir höfðu gufað upp. Þetta var bara dæmigerður desembermorgun grár og deyfðarlegur“. (bls. 41)

Hér er Úlfur út á galeiðunni segir Úlfur segir vinum frá því er hann sængaði hjá Dísu:

[Þ]að var eins og þessir tveir dýrmætu sólarhringar tækju á sig miklu hversdagslegri blæ þegar þeir uppskáru svona groddafengin viðbrögð. (bls. 44)

Hér ber fundum Úlfs og Dísu saman á ný eftir rúmt ár í Myndlistarskóla Íslands. Þar lærir hún teikningu og hann er nektarfyrirsæta.

Skyndilega var ég staddur í litríku málverki frekar en grámyglulegu hversdagsumhverfi Reykjavíkur; ljósgul veggmálningin ljómaði. (bls. 79)

Hér fellir Úlfur tár af hryggð yfir að fá ekki Dísu.

Úti helliringdi enn. Það var ekki ljóðrænt, dramatískt, skáldlegt regn eins og í dulúðarfullri rökkursögu sem gerist í París heldur bara ísköld, rennblaut, hversdagsleg, íslensk rigning sem býr til nefrennsli og hósta. (bls. 157)

Þessi hversdagsævintýri eða alger skortur á þeim, allt eftir því hvernig tilveran er skynjuð hverju sinni kemur vel út og má finna margar hnyttnar og haganlega samansettar málsgreinar um þegar lífið tapar lit eða verður litskrúðugra.

Inn í söguna er fléttað raunverulegum samtímapersónum, atburðum (áðan var minnst FreeTheNipple) og hljómsveitum sem eru móðins um þessar mundir: Úlfur, úlfur, Emmsjé Gauti, Kött Grá Pjé til að mynda. En Dísa vinnur saman með þeim eftir að hún byrjar að njóta lýðhylli.

Öllu er svo dælt á samfélagsmiðlana til að sýna eða láta í veðri vaka að lukkan ein ráði ríkjum og kannski til að fela umkomuleysi sitt. Lukkulegar stöðufærslur bjóða þá upp á tilveru- og „læka“-samanburð eins og sjá má er Úlfur kemst svo að orði: „Tilvera mín blikknaði í samanburði við skínandi konungsveldi Dísu Eggerstsdóttur.“ (bls. 85) og „[v]ar nokkuð sorglegra í heiminum en að fá tvö læk.“ (bls. 85).

Í stuttu máli þá er tekið á mörgu því sem hin svokallaða aldmótakynslóð eða klámkynslóð glímir við (er titill sögunnar nokkuð lýsandi). Sagan er auðvitað samtímaspegill en sama skapi spegill á liðinn tíma þegar fólk (alltént með augum aldamótakynslóðarinnar) var frekar „þjakað af fordómum gagnvart samkynhneigðum, lituðum, kúgaði konur, neitaði að taka við flóttamönnum á árunum fyrir seinna stríð …“ (bls. 113) eins og Dísa kemst að orði í netspjalli við Úlf.

 

Fyrir allra augum er verk yfir góðu meðallagi og á marga góða spretti, einkum og sér í lagi þegar dregin er upp skýr og skemmtileg samtímamynd. Ýmiskonar vangaveltur er athyglisverðar. Eins og þegar, til að mynda, er pælt í íslenskum orðum sem fela í sér bros og þeim sem fela í sér grátur. Orð yfir að gráta eru öllu fleiri í íslensku. Segir það eitthvað um innstillingu Íslendinga? Spurningar í viðlíka veru kunna að vakna við lestur verksins og er það vel.

Fyrir allra augum er skondin (ekki skella upp úr skondin), orðanotkun kemur vel út, hún er skapandi og skemmtileg á tíðum. Svo er dreginn upp áhugaverð samtímamynd sem tekur á hinu tvíþætta (eða margþætta) sjálfi netsins og raunveruleikans, einmannaleika og aðgerðarleysi, þótt möguleikarnir séu óþrótandi. Segja má að litið sé inn til klámkynslóðarinnar við snjallsímaskjáinn.

Það litast kannski af veðrinu en þessa bók má sannlega líta jákvæðum augum þótt ekki sé hún gallalaus frekar en samtíminn.

P.S. Yfirskrifinni eða „statusnum“er klárlega ætlað að fá ykkur til að lesa þessa umfjöllun.

[i] Viðlíka karlmannsmynd virðist ansi áberandi í bókmenntum síðustu ára. Kannski er karlmennskan í hefðbundnum skilningi sjómennsku og Íslendinga sagnanna að deyja drottni sínum? En reyndar er þetta með að ástunda útúrdrukkna bólleikfimi gömul saga og ný.