Takk fyrir að láta mig vita af þessu fína smásagnasafni

Vefritið Starafugl er skrýtin skepna. Höfundar alls efnis velja sjálfir það sem þeir vilja fjalla um, reyndar oftast af lista yfir áhugavert efni sem ritstjóri sendir út reglulega, en hafa þar fyrir utan nær algjört frelsi í stíl og efnistökum. Þetta finnst mér persónulega vera alveg dásamlegt fyrirkomulag og útkoman ekki síðri; vefrit með vandaða menningarumfjöllun sem birtir nýtt efni nær daglega. Allt gengur þetta fyrir svo eigin skriðþunga, það þarf enginn að kaupa neitt, enginn að fá borgað, en það þarf heldur enginn að gera neitt. Fyrir sumu fólki hljómar þetta allt mjög dularfullt því það er oft erfitt að skilja heiðarlegan áhuga einhvers annars. Ég þráspurði tannlækninn minn til dæmis út í þetta atriði þegar ég var unglingur. „Júbb, ég hef heiðarlegan áhuga á tannlækningum,“ sagði hún. „Ég lofa.“

Það var einhver gjá á milli okkar, mín og hennar, og er enn. Ég viðurkenni reyndar fúslega að vandamálið, ef það er orðið sem ég er að leita að, er eingöngu mín megin, því það er mér sem finnst það óþægilegt að skilja ekki upp né niður í annari manneskju, að finnast við ekki vera stödd í sama raunveruleika. Öll samúð og samkennd kallar á einhvern svona lágmarks sameiginlegan skilning. Betra dæmi er kannski þegar mér var boðið að sjá sýninguna Laddi 2000 hérna um árið. Það óþægilega var ekki það að mér fannst þetta ekki fyndið, það óþægilega var að sjá allan salinn rifna af hlátri meðan ég sat við hliðina á hljóðmanninum, einangraður, einmana og vansæll. (Ég hef reyndar heyrt það síðan að Laddi 6-tugur sýningin hafi verið töluvert betri.)

Í þessum anda langar mig að byrja á því að segja aðeins frá sjálfum mér og hvernig ég kem að þessari umfjöllun áður en ég svo sný mér að sjálfri umfjölluninni. Ég hef mikinn áhuga á smásögum og hef kynnst þeim aðeins í gegnum námið mitt. Í BA náminu í ensku í HÍ voru smásögur uppistaðan í nokkuð yfirgripsmiklu námskeiði um bandarískar bókmenntir og í Stokkhólmsháskóla fékk ég tækifæri til að spreyta mig á að skrifa smásögur á ensku í námskeiðum í skapandi skrifum, svo og að lesa yfir heila dobíu af þeim ásamt því að breyta og laga þegar ég var í ritstjórn safnrits sem skólinn gefur út (það var allt hluti af öðru námskeiði). Síðarmeir hef ég reynt að skrifa sögur á ensku og fá þær útgefnar á ýmsum stöðum með misjöfnum árangri, en hef þó gerst svo frægur að fá tvær sögur gefnar út í áðurnefndu skólaritsafni, líklega mest fyrir klíkuskap. Að allri hógværð slepptri þá þýðir þetta reyndar að ég myndi í dag teljast einn fremsti íslenski smásagnahöfundur sem skrifar á ensku í Stokkhólmi og síðan Eiríkur Norðdahl flutti heim til Íslands þá finnst mér ég eiga ágætis tilkall til þess að teljast einn fremsti núlifandi íslenski höfundur á öllu stór-Stokkhólmssvæðinu, sérstaklega meðal þeirra sem skrifa á ensku.

Það eru annars nokkur almenn atriði um smásögur sem mig langar að minnast á áður en hin eiginlega umfjöllun brestur á. Fyrst er það að nefna að smásagan virðist vera í ákveðinni uppsveiflu þessa dagana. Alice Munro fékk til dæmis Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2013 fyrir smásögurnar sínar og mamma sagði mér að uppgangur smásögunnar hefði verið til umræðu í leshringnum hennar (sem heitir Les-píurnar). Það mætti reyndar líka halda því fram að smásagan hafi aldrei farið í neina niðursveiflu. Alla síðustu öld (og jafnvel miklu lengra aftur) hafa virtir höfundar spreytt sig á smásögum og mörg þekktustu og merkilegustu verk bókmenntanna eru einmitt smásögur og smásagnasöfn. Það hefur lengi verið rými á markaðnum fyrir smásögur af einföldum praktískum ástæðum, það er hægt að prenta þær í blöðum og tímaritum og fólk getur lesið þær í einni bunu. Nútildags vinnur það áreiðanlega með þessu formi að fólk getur lesið þetta af tölvuskjánum eins og hvert annað blogg.

Ég er reyndar meira inni í því sem er að gerast á hinum enskumælandi markaði. Þar er fyrst að nefna að það er ótrúlega mikil gróska í lestri og útgáfu á smásögum á ensku, ekki síst á netinu. Mér hefur líka oft orðið hugsað til þess að það er mjög sterk híerarkía og kannski hætt við að ákveðin forskriftarhyggja myndist í kjölfarið. The New Yorker trónir á toppnum og svo svipaðar útgáfur eins og Tin House, The Atlantic, The Paris Review og fleiri. Flestir sem ég þekki sem kukla við skrif myndu deyja sælir ef þeir afrekuðu það á ferlinum að fá svo mikið sem höfnun frá einu af þessum tímaritum, en þau senda sko ekki höfnunarbréf á hvern sem er. En eins og ég sagði þá hefur maður mestar áhyggjur af að það sé að myndast einhver fastmótuð forskrift að því hvernig góð smásaga á að vera, umfram það að hafa byrjun, miðju og endi, því það er í raun mjög fámennur og menningarlega einsleitur hópur sem ræður því hvaða höfundar og verk hljóta brautargengi.

Maður fór reyndar í gegnum svipaðar hugrenningar þegar maður sat námskeið í skapandi skrifum. Manni fannst stundum eins og það mótaði fyrir smákökuforminu sem gerir allt eins en svo áttar maður sig á því á endanum að þó formið sé knappt þá er ennþá nóg pláss fyrir listræna tjáningu. Við Íslendingar þekkjum þetta vel því við höfum sjálf alist upp við okkar eigin knöppu form. Það vita til dæmis allir sem hafa fundið andann koma yfir sig í kjörklefanum að það skiptir ekki öllu þótt þú látir „verðbólga“ ríma við „Tortóla“ og „píratar“ ríma við „víagra“, það getur sko verið fjandi góð ferskeytla þrátt fyrir það og mikið hlegið þegar hún er lesin upp í kosningasjónvarpinu og á meðan sit ég við hliðiná hljóðmanninum og skil ekki neitt, skelf eins og búðingur, aleinn í heiminum.

Ég veit í rauninni ekkert um hvernig þessu er háttað á Íslandi. Það virðist vera sómasamleg virðing borin fyrir smásöguforminu, smásagnasöfn eru gefin út reglulega og mér detta strax í hug nokkrir höfundar sem hafa byggt feril sinn á smásögum og geta jafnvel talist kanóníseraðir nánast eingöngu vegna smásagna. Fljótt á litið er svosem enginn urmull af netsíðum eða veftímaritum sem birta íslenskar smásögur en smásögur á prenti gubbast út sem aldrei fyrr. Núna um jólin er til dæmis von á smásagnasöfnum frá Steinari Braga og Þórarni Eldjárn og örsagnasafni eftir Gyrði Elíasson svo eitthvað sé nefnt. Svo komst vefurinn smásaga.is á koppinn fyrr á þessu ári en þar er ekki síst lögð áhersla á möguleika smásögunnar fyrir ýmiskonar kennslu sem er bara besta mál.

Annað sem ég hef tekið eftir er að smásögur (á ensku a.m.k.) eru almennt að styttast. Klassísku sögurnar sem ég las í HÍ á sínum tíma voru oft ekki feimnar við að taka sinn tíma. Þannig er “Bartleby the Scrivener” eftir Melville heil 14.355 orð og margar þekktustu sögur Washington Irving og Edgar Allan Poe oft um og yfir 7000 orð (“Rip van Winkle”, “The Fall of the House of Usher”, “The Purloined Letter”) og alveg upp í tæp 12000 orð (“Sleepy Hollow”). Í dag er eins og tölvurnar, takmarkanir einstakra tímarita og hinn áunni athyglisbrestur séu að þrýsta orðafjölda smásagna aðeins niðurávið og á sama tíma eru knappari form stöðugt að verða meira áberandi, eins og svokallaðar leiftursögur (e. flash fiction, <1500 orð), skyndisögur (e. sudden fiction, <750 orð) eða jafnvel nanósögur (e. nano fiction, <300 orð) en mér sýnist þessar styttri smásögur yfirleitt vera nefndar örsögur einu nafni á Íslandi.

Dæmin sem ég nefni hér að ofan eru kannski nokkuð sértæk og margir klassískir höfundar eins og til dæmis Anton Tsjekov, Franz Kafka og Ernest Hemingway hafa gegnum tíðina skrifað styttri sögur en mér finnst þetta engu að síður vera almenn þróun og fólk sem ég hef talað við úr bransanum (jebb) staðfestir þetta. Ein sem ég talaði við sagðist jafnvel ekki þora að skrifa of langt, nefndi 4000 orð sem ákveðna grensu, af ótta við að enginn nenni að lesa svoleiðis langloku. Mér finnst það eins vera merkilegt að sjá áhugafólk um leiftursögur tala um að þær séu ekki jafn langdregnar og silalegar og hefðbundnar smásögur. Annað ágætt dæmi er Colm Tóibín smásagnasamkeppnin sem auglýsti eftir efni nýverið og setti það sem skilyrði að sögurnar væru á bilinu 1800-2200 orð og lét það fylgja með að bæði lengri og styttri textum yrði sjálfkrafa hafnað. Þetta fór reyndar svolítið í taugarnar á mér því að þó smásagan sé alltaf knappt form og kjarni málsins að gera mikið við lítið pláss þá er heldur ekki verið að skrifa fréttir fyrir útvarp.

 

 

Mér voru þessi atriði, og fleiri, hugleikin þegar ég las nýja smásagnasafnið hans Friðgeirs Einarssonar. Ég var einfaldlega forvitinn að vita hvað væri að gerast í smásögumálum á Íslandi eftir margra ára fjarveru og ég varð stórhrifinn. Ég er strax kominn á sveif með þeim Les-píum með að smásagan virðist bara vera í góðum málum, jafnvel bara á húrrandi uppleið. Mig langar engu að síður að ræða bókina í stuttu máli, ýmis þemu sem mér þóttu áhugaverð, til dæmis hvernig bókin brúar ákveðið bil milli stuttra sagna og stærra verks.

Sögurnar hans Friðgeirs eru flestar í nokkuð nútímalegri lengd, oftast milli 1500 og 3500 orð, og svo ein sem er aðeins styttri. Friðgeir notar ýmis form, svo sem ferðasögur, dagbókarfærslur, sögur úr hversdagslífi og svo er ein sagan í skýrsluformi. Sögurnar eru flestar í fyrstu persónu, fyrir utan þá síðustu sem er sögð í þriðju persónu. Í stystu máli þá hafði ég mikið gaman að öllum þessum sögum, þær eru fjölbreyttar og ganga allar upp sem sjálfstæð verk. Mér fannst persónulega sagan sem var í skýrsluformi síst en það var reyndar svo undarlegt að meðan ég las þá sögu, þá fann ég það líka mjög sterkt að vandamálið væri hjá mér og þeir lesendur líklega fleiri sem væru ánægðir með þá sögu. Eins og Númi vinur minn segir gjarnan þá verður bara hver að fljúga eins og hann er fiðraður til og í þetta sinn eiga þau orð kannski frekar við mig sem lesanda heldur en Friðgeir sem höfund.

Það sem mér fannst vera allra áhugaverðast við smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita er hvernig það virkar sem heildstætt verk. Það eru vissulega til mörg smásagnasöfn þar sem sögurnar tengjast innbyrðis en þá er tengingin gjarnan sú að söguhetja eða sögumaður sé sá sami, eða eins og í tilfelli Dubliners eftir Joyce að sögusviðið sé það sama. Það sem tengir sögurnar í Takk eru hinsvegar ákveðin þemu. Hið stóra þema er hversdagslíf fullorðinna í miðstétt. Fullorðinsárin, eins og þau birtast í sögunum orka á mig eins og klippt útúr martröðum mínum frá því þegar ég var unglingur; húsfundir, Ikea-ferðir, að vera of seinn á fund, steiktur fiskur í mötuneytinu. Allsstaðar finnur maður einhverja innilokunarkennd. Fullorðinsárin eru þannig ekki tími frelsis og möguleika, heldur er tilfinningin frekar eins konar doði eða daufur verkur. Ein sagan, „Mjólkin sem ég kaupi,“ rekur til dæmis heilt ár af „smánudögum“ en það er samsuða af tveimur vikudögum, semsagt „sunnudagur sem fer í vaskinn af því að maður er heltekinn af kvíða yfir að þurfa að mæta í vinnu á mánudegi“ (18). Söguhetjan (ein þeirra að minnsta kosti) lýsir því annarsstaðar hvernig hann sé „kominn á þennan aldur, ekki beint gamall, en farinn að átta mig á að flestir mínir draumar munu ekki rætast“ (82). Persónurnar eru í ofanálag gjarnan búnar að missa tengslin við æskuvini sína, nýju vinirnir eru leiðinlegir, tilveran hefur þróast úti röð af skynsemisákvörðunum og málamiðlunum sem bera sífellt meiri keim af sjálfsstýringu, meðvirkni og uppgjöf:

Við fórum í drykk eftir tónleikana með vinahjónum okkar, fengum okkur nokkur vínglös – ekkert sérstaklega gott vín, ekki beint vont heldur – mér fannst bara ekkert varið í það. Ég hafði samt ekki orð á því, vildi ekki spilla stemningunni. Ég á það til að vera „Nonni neikvæði“, eins og konan mín segir. Vinahjón okkar […] eru ekki slæmt fólk, en ekkert sérstaklega skemmtileg heldur. Maðurinn er að vinna fyrir teppahreinsunarfyrirtæki, en segist sjálfur ekki koma nálægt teppahreinsuninni. Við höfum ekki margt að ræða. (78)

Nú finnst mér eins og ég sé að lýsa bók sem sé sjálf leiðinleg en það er Takk fyrir svo sannarlega ekki. Þetta er allt listilega vel gert og innbyrðis fjölbreytni smásagnanna ber þetta allt auðveldlega uppi. Svo er merkilegt hvernig Friðgeir notast við ákveðinn mínímalisma þegar að kemur að lýsingum:

Við vorum á tónleikum kvöldið áður, sáum tónlistarmenn sem sérhæfa sig í að leika lög eftir hljómsveit sem var vinsæl á sjöunda áratugnum. Þeir voru býsna slyngir á hljóðfærin og tónlistin hljómaði nánast eins og upprunalegu útsetningarnar. En þeir voru ekki vitund líkir fyrirmyndunum í útliti. Þegar upprunalega hljómsveitin var vinsæl voru meðlimirnir varla nema um tvítugt. Þessir menn sem við sáum voru nær eftirlaunaaldri. (77-8)

Það er eins og myndin sem dregin er upp verði einhvernveginn ennþá kunnuglegri við það að upplýsingum sé haldið eftir. Maður fyllir sjálfur inní eyðurnar (Creedence Clearwater Revival á Kringlukránni var það í mínu tilfelli) og við það er maður komin í afar persónulegt samband við textann. Ég kannast svo líka ágætlega við það að eyða meiri tíma með fólki af hagkvæmnisástæðum, s.s. nágrönnum eða foreldrum annara barna af leikskólanum, heldur en gömlu vinunum sem það tók mann marga áratugi að velja.

Annað þema bókarinnar er ferðalög, ferðamennska, ýmsar „upplifanir,“ eins og til dæmis svett, og sumar sögurnar eru beinlínis ferðasögur. Ef einhver ímyndar sér að ferðalög geti myndað einhverskonar mótvægi gegn hinum litlausa hversdagsleika þá er sú hugmynd skotin nokkuð rækilega í kaf. Ferðamennsku og upplifunum er ítrekað stillt upp sem innantómri neyslu og hjarðhugsun. Í einni sögunni eru það hellarannsóknir, í annari er það ferðalag um Indland, í enn annari fylgjumst við með steggjapartíi sem er ekki einstakt á nokkurn hátt heldur bara enn eitt steggjapartíið í stórri torfu.

[P]lanið [hafði] verið að fara og spila fótbolta í uppblásnum plastkúlum en Þröstur, sem hafði tekið að sér að hafa samband við fyrirtækið sem leigði út og þjónustaði plastboltana, hafði gert það svo seint að boltarnir voru allir uppbókaðir í aðrar steggjaveislur. (61)

Í einu tilviki er ferðalaginu lýst á óhlutbundinn hátt, en þessi abstrakt stíll er, eins og ég kom inn á áðan, notaður nokkuð mikið og með góðum árangri.

Að öðru leyti gekk fríið vel. Áætlunin hélt; ströndin, dýragarðurinn, rennibrautargarðurinn, sögufrægur kastali, rómverskt hringleikahús, klassískt listasafn, nútímalistasafn, torg, dómkirkja og nokkrir veitingastaðir sem höfðu fengið góða umsögn á netinu. (11)

Áhrifin verða þau að það sé ekkert beint einstakt eða merkilegt við ferðalagið. Ferðalögum er hafnað sem einhverskonar lausn á vandamálum, sérstaklega þegar vandamálið er hið dauflega hversdagslíf og hin hola tilvera fólks. Eins og frændi minn segir, þá er staðreyndin einmitt sú að hvert sem þú ferðast þá tekurðu alltaf rassgatið á þér með þér. Þannig er dauðadæmt ástarsamband ennþá jafn dauðadæmt þó parið sé í ævintýraferð um Indland og fólk annarstaðar frá fær engan frið frá sjálfu sér þótt það hafi dröslað sér alla leið á kebabstað á ævintýraeyjunni Íslandi.

Framan við afgreiðsluborðið standa hjón á miðjum aldri og bíða eftir þjónustu, sennilega ferðamenn, þau eru í vindjökkum og með bakpoka. Þau ræða eitthvað sem skiptir engu máli, kaup á minjagripum, ferðir út úr borginni eða farangur; eitthvað hversdagslegt og gera það annars hugar eins og þau viti sjálf að það breyti ekki öllu hvort þau komist að niðurstöðu eða ekki. (140)

Á svipaðan hátt kemst söguhetja annarar sögu að því að staðsetningin skipti engu máli.  Þessi hefur búið erlendis í langan tíma og komist að því að mannleg samfélög á tíma hnattvæðingar eru allstaðar meira eða minna eins.

Það er hvergi neitt nýtt að sjá. Alls staðar eru malbikaðar götur og steinsteyptar gangstéttir. Í matvöruverslunum er hægt að kaupa vörur; mjólk, kjöt, brauðmeti, niðursuðumat, kaffi, gosdrykki og sælgæti. Ef verslunin er lítil er yfirleitt meira framboð af þurrvöru og verðið hærra. (91)

Um þetta snúast svo hin stóru átök í Takk fyrir að láta mig vita, bæði sem heildar og í einstökum sögum. Fólk leitar að einhverri merkingu, einhverju til að fylla tómið í lífinu en í Takk fyrir er alveg öruggt að ferðalög eru ekki lausnin.

Manni verður hugsað til heimspekingsins Nietzsches og hugmyndar hans um endurkomuna eilífu. Nietzsche varpaði því fram að ef í heiminum væri endalaus tími, en aðeins takmarkað magn efnis, þá hlyti það að merkja að allar mögulegar samsetningar efnisins gengju í eins konar lúppu sem endurtæki sig í sífellu. Það má ímynda sér að maður hafi 100 teninga og endalaust mörg köst, þá myndu allar hugsanlegar samsetningar koma upp einhverntímann og svo aftur og aftur. Prinsippið væri svo það sama ef þú værir með þúsund teninga eða milljón eða 4000 trilljón milljónir, eða trilljón milljón sólkerfi öll gerð úr örsmáum frumeindum og á stöðugri hreyfingu. Allt endurtekur þetta sig semsagt í sífellu á meðan að tíminn er endalaus. Þessi tilhugsun ein og sér er að sjálfsögðu gjörsamlega óbærileg og sérstaklega það að manns eigið líf gangi í endalausa lúppu. Lausnin sem Nietzsche setti fram á þessari afar djúpstæðu tilvistarkreppu var einföld: Amor fati, að elska örlög sín og lifa lífi sínu á þann hátt að þú myndir engu vilja breyta (hvað sem það nú þýðir). Annarstaðar sá ég það orðað þannig að maður ætti að gera listaverk úr lífi sínu sem er svo aftur hægara sagt en gert.

Svona má lesa Takk fyrir að láta okkur vita sem lýsingu á ákveðnu tilvistarlegu vandamáli en í bókinn er engin sjáanleg lausn önnur en sú mjög svo opna vísbending að ferðalög eru sko þokkalega ekki lausnin. Þá er nú gott að búa að því að menn hafa áður reynt að „leysa“ bækur.

Árið 1987 skrifaði rithöfundurinn Salman Rushdie ritdóm um bókina The Enigma of Arrival eftir hinn umdeilda Nóbelsverðlaunahafa V.S. Naipaul. Í umfjölluninni leitast Rushdie við að skilja bók Naipaul og notar til þess eitthvað sem hinn Argentíski höfundur Jorge Luis Borges sagði um gátur. Til þess að semja gátu þar sem lausnin er hnífur, þá er orðið hnífur það eina sem ekki má nota. Rushdie beitir þessari nálgun á bók Naipaul og kemst að því að „lausn“ bókarinnar er kærleikur, því að bókin og höfundurinn virðast vera gersneydd öllum kærleika. Það þarf kannski ekki að fjölyrða um það að þessi ritdómur var enginn lofsöngur um Naipaul og bókina hans. Rushdie fannst hvoru tveggja vera frekar sorgleg eintök.

Það er hinsvegar áhugavert að nota þessa aðferð til að lesa smásagnasafnið Takk fyrir, þó munurinn sé helst sá að tilgangurinn hjá mér er einmitt að skrifa lofsöng um þessa góðu og vönduðu bók. Orðið og fyrirbærið sem að mínu mati „vantar“ í aðstæður persónanna er listsköpun. Persónurnar búa flestar yfir þeim eiginleika að hafa næmt auga fyrir ýmsum atriðum, einhverja áhugaverða heimssýn og einhverja abstrakt hugsun sem er skemmtileg. Það sem persónurnar skortir hinsvegar er farvegur eða útrás fyrir þennan áhuga. (Reyndar má færa fyrir því rök að skýrslusagan skeri sig ögn úr að þessu leyti.) Á einum stað rambar söguhetjan næstum því á lausnina á eigin krísu:

Ég hef stundum látið mér detta í hug að eiga dálítið afdrep einhvers staðar í byggingunni sem ég gæti farið í til að koma ró á hugsanirnar. Jafnvel komið mér upp litlum garði, tómatplöntu og fíkjutré. (81)

Nema hvað, það að ætla að rækta fíkjur í laumi inní stórri skrifstofubyggingu er auðvitað absúrd lausn. Þessi manneskja þjáist einfaldlega af afvegaleiddum listrænum metnaði og sköpunarþörf. Lækningin er að kaupa sér akrýlliti og striga og skella í eins og einn gíraffa. Nú, eða setja sig í samband við Starafuglinn og fá að láta móðann mása um listaverk einhvers annars og gera þá umfjöllun svo að listaverki, jafnvel meta-listaverki.

Í upphafi umfjöllunar sagðist ég ekki fá neitt borgað fyrir gagnrýna efni fyrir Starafugl. Þetta er ekki allskostar rétt. Það er vel borgað starf og sönn forréttindi að fá tækifæri til þess að lesa og hugsa um jafn fína bók og Takk fyrir að láta mig vita. Ég mæli eindregið með henni.

Takk fyrir að láta mig vita af þessari bók, Starafugl!