Eitthvað skrýtið við hana: Ég elska lífið eftir Ólaf F. Magnússon

Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrst nokkuð undrandi þegar ég heyrði að Ólafur F. Magnússon læknir og fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur væri að gefa út plötu en um leið forvitinn. Hann er ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn til að sinna listagyðjunni að einhverjum mæli. Gunnar Thoroddsen þótti góður píanóleikari og lagahöfundur. Eins sendi Davíð Oddson frá sér ágætt smásagnasafn eitt sinn, reyndar svo gott að margur hefur hugsað sér að þar hafi mögulega góður rithöfundur farið í hundskjaft stjórnmálanna.

En eitthvað er Ólafur ragur við það að standa undir gagnrýni fyrir list sína því hann sendi Starafugli ekki umbeðið eintak af plötunni*. Því er þessi pistill ritaður út frá streyminu á Spotify og án allra þeirra upplýsinga sem er venjulega á umslögum að finna. Ég veit því ekki hver samdi hvaða texta nema út frá viðtölum við Ólaf við aðra fjölmiðla að afi hans samdi ljóðið Ákall og amma hans Ferðabæn. Eins hef ég ekki tæmandi upplýsingar um hverjir lögðu honum lið við spilamennsku á plötunni fyrir utan Vilhjálm Guðjónsson, Pál Rósinkrans og Guðrúnu Dröfn Ólafsdóttur.

Það verður að viðurkennast að við fyrstu hlustun á gripnum þá hélt ég að hér væri um hamfarapopp að ræða. En, við frekari hlustanir sá ég að það væri ekki hægt að afgreiða plötuna á það einfaldann hátt. Til þess er platan of vel unnin. Helstu hjálparkokkar eru færir á sínu sviði og platan er vel tekin upp. En það er samt eitthvað skrýtið við hana.

Sem stjórnmálamaður virkaði Ólafur ávallt á mig sem einlægur hugsjónamaður og stundum um of. Sú sýn mín á hann hefur ekkert breyst við að hlusta á textana við tónlist hans. Hér er að finna heilræðavísur á borð við Gott og göfugt hjarta og Nánd. Ættjarðar- og náttúruverndarljóð eins og Fjallkonuna, Ei má farga fyrir tál og Ekki láta þá sökkva. Þessir textar eru flestir ágætlega settir saman bragfræðilega en eru á sama tíma afskaplega gamaldags í orðfæri, einlægir og stundum væmnir eins er mikið af gamaldags þjóðernishyggju að finna í þeim. Þó mér finnist í sjálfu sér ekkert að því að nota ýtarlega það sem íslenskan hefur upp á að bjóða og mæli reyndar með því að þá ofnotar Ólafur gömul heiti eins og hal og sprund en hefur ekkert nýtt upp á að bjóða í framsetningu sinni. En honum til varnar að þá held ég að hann hafi ekkert langað til að reyna neitt nýtt og það er allt í lagi og stundum fínt til síns brúks.

Þegar ég hóf vinnuna við þessa gagnrýni ætlaði ég mér að gera það án þess að láta stjórnmálamanninn Ólaf F Magnússon koma við sögu. Ég komst hins vegar strax við fyrsta lag að því að það var ekki hægt. Í upphafslaginu segir „engan skaltu meiða, ekki nokkurn mann“. Að heyra svona línu frá manninum sem kallaði fréttamanninn Helga Seljan „óttalega samfylkingarpöddu“ og hélt því fram að það væri hættulegt þjóðaröryggi Íslands að múslimar fái að byggja mosku í Reykjavík fyrir rétt þremur árum síðan er fáránlegt. Hann, stöðu sinnar vegna, á eflaust stóran þátt í því hatri gegn múslimum sem hefur borist inn í meginstrauminn á Íslandi síðustu ár. Orð bera ábyrgð og ekki veit ég til þess að hann hafi beðist afsökunar á þessum ummælum. Á hann kannski við að engan á að meiða nema hann sé múslimi eða vinstrimaður? Telur hann kannski vinstri menn og múslima ekki fullgilda menn? Mér þætti gaman að vita það.

Það verður að teljast Ólafi til hróss að hann er alveg þokkalegur melódíusmiður en eins og áður þá er hann mjög gamaldags. Sum lög minna mann á gamla íslenska sönglagahefð á meðan önnur eru ekkert ólík epískum kántrýlögum sjöunda og áttunda áratugar tuttugustu aldar. Lagasmíðar eru einfaldar, lítið er um brýr og mikið um endurtekningar (sorrý krátrokkunnendur, hér er enga mótorík að finna). Náttúruverndarlagið Ekki láta þá sökkva missir frekar mátt skilaboðanna sem í því búa fyrir þær sakir að melódían er allt of nálægt Laginu um það sem er bannað. Þess vegna stend ég mig að því að syngja innra með mér „það má ekki pissa bak við hurð“ í hvert sinn sem ég heyri það. Það er truflandi og sannast sagna hlægilegt.

Bestu melódíur plötunnar finnst mér tilheyra lögunum Ákall og Fjallkonunni. En, bæði lögin eru of löng. Ákall hefði mátt enda við einnar og hálfrar mínútu markið í stað endurtekningarinnar. Fjallkonan hefði hins vegar mátt fá fleiri erindi í stað þess að endurtaka þau að því sem virðist þriggja mínútna eilífð.

Eins og áður sagði þá hafði Ólafur með sér einvalalið hjálparkokka við gerð þessarar plötu og hún er mjög vel flutt og áferðarfalleg. En eins og allt annað við hana þá er hljómurinn gamaldags og platan hljómar eins og hún hafi verið tekin upp árið 1990. Ólafur veit greinilega vel að hann er ekki góður söngvari og fær góða söngvara til að syngja fyrir sig sum lög og það er góður eiginleiki að þekkja takmörk sín. Ekki ætla ég að kvarta yfir þeim lögum sem hann syngur sjálfur, hann gerir það eins vel og hann getur, hann heldur alveg lagi og getur aðeins batnað.

Ekki veit ég hverjum þessi plata er ætluð nema þá Ólafi sjálfum sem er í sjálfu sér nóg. Ég hef alltaf verið sammála Kurt Vonnegut um það að allir eigi að sinna listsköpun, hvort sem þeir séu góðir eða lélegir í því. Það er alltaf gott fyrir sálartetur þeirra sem list stunda. Og á meðan Ég elska lífið getur varla talist góð plata þá er hún ekki heldur afleit og margt gott við hana. Ég vona að Ólafur eigi eftir að halda þessu áfram og þroskast í sinni listsköpun. Kannski fólk sem fílar Íslandslagaseríu Björgvins Halldórssonar og hugnast söguskoðun Jónasar frá Hriflu geti fundið sig í þessari plötu.

* * *

* Athugasemd ritstjóra: Hugsanlega fóru bara nær öll skeyti mín einfaldlega í ruslsíuna hjá Ólafi – samskiptin gengu a.m.k. mjög treglega.