Við erum öll Bojack

Bojack bojack bojack Horseman, hvar á ég að byrja hvar á ég að enda hvernig fylli ég þetta ekki af spillum, hversu óljós á ég að vera? Við erum öll Bojack, við erum öll breysk, öll höfum við eftirsjár og samvisku, þó að við reynum að fela hana einhverstaðar þar sem ekki sést til sólar. En ekki Bojack. Hann ber sinn breyskleika utan á sér og fer ekki í felur með hann. Hann er miðaldra, hann er þunglyndur, hann er alkohólisti sem lifir fyrir forna frægð og mannlegasti hestur sem fyrir finnst.

Enginn karakter í Bojack Horseman er fullkominn, þvert á móti eru þau öll breysk á sinn hátt. Hvort sem þau eru mennsk, hundar, kettir, skjaldbökur, froskar eða Andrew Garfield. Persónurnar eru velskapaðar og aldrei einsleitar, heldur hafa dýpt. Ég vil ekki spilla of miklu eða skrifa um og of um persónurnar og söguþráðinn, því ég vil að þú lesandi skapir þér þína eigin skoðun á þessum niðurdrepandi, ávanabindandi downer sem þátturinn er. Sagan fékk mig til að líta í eigin barm og í augu við sjálfa mig, hvort sem ég vildi það ekki. Ég fór eftir lokaþátt þriðju seríu út í skóg og grét eftir að hafa verið með tilfinningalega hægðatregðu svo vikum skipti.

Þemu þáttarins eru frægðin, þunglyndi, fíkn, mannleg samskipti og ástin. Þessi þemu eru svo þakin þunnri dulu orðabrandara og bröndurum byggðum á heimsmynd þáttarins sem sköpuð var af listakonunni Lisu Hanawalt. Í heimi þáttarins eru manndýr til jafns við menn og er sú heimsmynd velnýtt í frásögn og húmor þáttarins. Þrátt fyrir myrk umfjöllunarefni þáttarins er þátturinn sjálfur litríkur og fjölbreytilegur og nýtir það vel að vera teiknaður, en ýmislegt hefði ekki verið hægt að gera í leiknu efni og ef til vill hefði maður ekki tengt jafn vel við karakterana, hefðu þeir verið almennskir í útliti.

Mig langar ekki að hafa of mörg orð um þáttarins en mig langar að þú sem lest þetta farir og horfir á hann og lítir svo í eigin barm og gerir eitthvað í þínum málum, eða ekki. Við fyrstu sín gætu þeir virst eins og hinn týpíski sitcom þáttur en áður en þú veist af bregður þátturinn út af venjunni og fer ekki til baka.

Ég vil freista þín ég vil að þú horfir á þáttinn ég vil að þú þjáist og ég vil að þú njótir. Ég vil ýta þér út í Bojack Horseman og ég vil að þú horfir á fleiri teiknimyndir eftir að þú klárar þær þrjár seríur sem komnar eru út.

Þátturinn er fyrsti teiknimyndaþátturinn framleiddur af streymisveitunni Netflix og kemur úr hugarheimi Raphael Bob-Waksberg.

Við erum öll Bojack.