Ekkert fyrir Bylgjulestina: Blonde eftir Frank Ocean

Upp á síðkastið hefur verið dálítil mystík í loftinu þegar kemur að RnB og hip hop heiminum. Sumir tónlistarmenn hafa gefið út plötur hálfpartinn fyrirvaralaust, aðrir reyna að halda ídentiteti sínu leyndu og þar fram eftir götunum. Það er kannski óþarfi að rekja þá dularfullu atburðarás sem leiddi að útgáfu Blonde. Hún var löng og flókin og var við það að æra hans helsta aðdáendahóp. En hún er allavega komin út. Og við erum fegin og þakklát. Talandi um dularfullt. Platan eins og fyrr segir heitir Blonde en það stendur „Blond“ á umslaginu. Svo er hann ekkert einu sinni ljóshærður á myndinni sem prýðir umslagið heldur með grænan hársvörð. Frank Ocean er örugglega að þessu bara til að vera með stæla. Hann virðist eiginlega frekar stríðinn.

Eitt það áhugaverðasta við Frank Ocean er eiginleiki hans til að höfða til mismunandi hópa. Ræturnar eru í RnB og hip hop heiminum þar sem hann á sér dygga aðdáendur. En ég get samt svo svarið það að einhverjir singlar af Channel Orange hafi verið spilaðir á Bylgjunni á sínum tíma. John Mayer átti meiraðsegja innkomu á þeirri plötu og á þessari er skilinn eftir smá virðingarvottur til Elliott Smith. Svolítið áhugavert hvernig tónlistarmaður af hans meiði getur náð til flíspeysuklæddra majónesúthverfabúa sem hlusta á Bylgjuna. Í kjölfar Channel Orange sem kom út 2012 spilaði Ocean einmitt fyrir fullri Laugardalshöll. Ocean dró sig þó úr sviðsljósinu jafn harðan og hann hratt sér fram á það. Í kjölfar skyndifrægðar og frama kom Frank Ocean svo útúr skápnum sem er bara stórmál. Síðan eru liðin fimm ár og ný plata er loksins komin út.

Þetta er ekki plata sem fyllir Laugardalshöll – þetta er slow burner og grípur sennilega ekki marga við fyrstu hlustun eins og Channel Orange gerði. Blonde er draumkennd plata sem líður frekar ljúft áfram og gefur hlustandanum nokkuð gott svigrúm til þess að einbeita sér að textunum sem Ocean virðist hafa sett í framsætið við gerð plötunnar. Farartækið eru hinsvegar nokkuð langdregnir, lágstemmdir og þægilegir taktar, oftar en ekki keyrðir áfram af endurómsdrifnum gítar eða góðri synþa-mottu. Hér eru engir húkkar á ferð, ekki mikið verið að vinna með grípandi viðlög, engar dansgólfsneglur og ekkert softcore RnB fyrir Bylgjulestina. Frank Ocean er ekki að leggja sig fram við að geðjast neinum nema sjálfum sér með þessari plötu. Og það er augljóst og einlægt og mikilvægast af öllu laust við tilgerð og rembing.

Fyrir svartan, samkynhneigðan tónlistarmann sem á rætur í alltof hómófóbískum tónlistarheimi getur lífið sennilega verið flókið. Sjálfsagt er ekki á bætandi að upplifa skyndilega heimsfrægð og textunum samkvæmt hjartasár, sorg og depurð. Platan er heilt yfir nokkuð þung og alvörugefin – hann ætlar sannarlega ekki að gefa neina afslætti á sjálfum sér sem alvarlegum listamanni og í sjálfu sér er nokkuð slungið að festa reiður á hvað Ocean ætlar nákvæmlega að fara eða meina með þessari plötu – það er einmitt það sem gerir plötuna og Frank Ocean sem listamann einstakan.

Textarnir segja nokkuð kryptíska sögu um ungan mann sem upplifir alveg jafn mikla sorg, upphefð, raunir og tilvistarkrísu og annað ungt fólk. Það þarf kannski ekki að vekja furðu að efnistökin virðast helst hverfast um ungan listamann sem veit ekki alveg enn hver hann er, fyrir hvað hann stendur og hvert hann ætlar, enda á Frank Ocean sér engan líkan og fellur ekki að neinu sérstöku formi.  Blonde skilur Frank Ocean eftir í einskonar samhengis-tómarúmi og ég held að honum líki ágætlega þar. Hvort sem það sé vegna tilvistarkrísu eða stríðni.