Steinunn hlaut verðlaun Jónasar Hallgríms | RÚV

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur hlaut í dag Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í tilefni af degi íslenskrar tungu. Verðlaunin voru afhent í Iðnó í dag.

Steinunn hóf rithöfundaferilinn 19 ára gömul þegar ljóðabókin Sífellur kom út. Auk ljóðabóka hefur hún sent frá sér smásögur, skáldsögur, barnabók, viðtalsbók og leikrit bæði fyrir sjónvarp og útvarp. Steinunn hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins árið 1990 og fimm árum síðar féllu Íslensku bókmenntaverðlaunin henni í skaut fyrir skáldsöguna Hjartastað. Auk þess voru Síðasta orðið, Hugástir, Sólskinshestur, Góði elskhuginn og Jójó tilnefnd til sömu verðlauna. Tvær aðrar skáldsögur hennar, Hjartastaður og Tímaþjófurinn, voru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs af Íslands hálfu.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir meðal annars: „Hugmyndaauðgi Steinunnar og vald hennar á íslensku máli hefur löngum vakið aðdáun eða eins og Jón Hallur Stefánsson komst að orði í gagnrýni um ljóðabókina Kúaskít og norðurljós kann hún „þá list að láta óvænt orð á réttum stað uppljóma heilu kvæðin“. Það er mikil gáfa að búa yfir slíkum hæfileika. Fáir skrifa líka af jafnmiklu næmi um ástina og Steinunn en sömuleiðis hefur togstreitan í samskiptum kynjanna verið áleitin í verkum hennar“.

via Steinunn hlaut verðlaun Jónasar Hallgríms | RÚV.