Alsæla, grimmd og forvitni

Um Lolitu Nabokovs

Í Lolitu, sem er nýkomin út hjá Dimmu í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar, kynnumst við frægasta sköpunarverki Nabokovs og jafnframt einu alræmdasta illmenni bókmenntasögunnar, Humbert Humbert. Þrátt fyrir að vera óafsakanlegur barnaníðingur er hann mjög óhefðbundið illmenni. Hann er evrópskur herramaður, fræðimaður, ljóðskáld og fagurkeri sem hefur djúpa og mikla þekkingu á listum og bókmenntum og skrifar setningar sem jafnast á við hina bestu rithöfunda sem hann vitnar statt og stöðugt í. Hegðun hans er aldrei afsökuð af Nabokov og raunar hataði Nabokov sjálfur persónuna með ástríðu, hann kallaði Humbert: „a vain and cruel wretch.“

Það er einnig áhugavert að lesa eftirmála bókarinnar en þar leggur Nabokov fram fagurfræðikenningu sína. Hann heldur því fram að bókmenntir eigi ekki að snúast um neitt annað en fagurfræðilega ánægju og því sé enginn punktur með bókinni, hún sé ekki að reyna að segja neitt. Ég vil þó meina að með Humbert Humbert grafi Nabokov á vissan hátt undan sinni eigin kenningu og að Lolita hafi vissulega eitthvað að segja.

En fyrst aðeins almennt um bókina. Lolita fjallar um áðurnefndan Humbert Humbert sem, eftir misheppnað hjónaband í Evrópu og vist á geðspítala, kemur til Bandaríkjanna til að vinna að fræðastörfum. Hann kynnist þar Charlotte Haze sem á dótturina Dolores. Humbert Humbert er með þráhyggju fyrir því sem hann kallar smádísir, ungar stúlkur á aldrinum 10-13 ára. Er þessi þráhyggja hans tengd fyrstu ástinni hans Annabel Leigh (vísun í ljóð eftir Edgar Allan Poe) sem lést fyrir aldur fram. En Dolores, sem hann nefnir Lolitu, er holdgervingur smádísar hugsjónar hans og verður hann gagntekinn af henni og leggur á ráðin um að komast yfir hana. Hann ákveður að giftast móðurinni til að geta verið nær dótturinni og, þegar hann kemst að því að Charlotte hyggst senda Dolores í heimavistarskóla fer hann að plotta að koma henni fyrir kattarnef. En það kemur þó ekki til þess þar sem Charlotte verður fyrir bíl og deyr eftir að hún kemst að leyndarmáli Humberts. Þetta leiðir til þess að Humbert tekur Lolitu á ferðalag um gjörvöll Bandaríkin undir því yfirskini að þau séu faðir og dóttir.

Lolitu hefur oft verið lýst sem erótískri skáldsögu sem er mikið rangnefni. Fyrir utan fyrstu kaflana, sérstaklega óþægilega þrettánda kaflann þar sem Lolita situr í kjöltu Humberts er lítið sem ekkert um erótík í því sem eftir stendur af bókinni (sem er megnið af henni). Öllu heldur er Lolita tragikómedía sem, þrátt fyrir háalvarlegt viðfangsefni sitt, einkennist helst af húmor og íroníu, nokkru sem kemst illa til skila í kvikmyndaaðlögununum sem hafa verið gerðar. Hún er fagurbókmenntir í hæsta gæðaflokki. Á hverri einustu blaðsíðu má finna dæmi um ritsnilld Nabokovs og ástæðuna fyrir því að hann er talinn vera einn af bestu rithöfundum tuttugustu aldarinnar. Stíll hans er endalaust uppfinningasamur, fullur af margföldum merkingum, orðaleikjum og bókmenntavísunum, sem Árni Óskarsson nær frábærlega að þýða yfir á íslensku. Bókin er enn meira afrek þegar maður hefur í huga að enska var ekki einu sinni móðurmál höfundarins. Sjálfur lýsti Nabokov bókinni sem ástaróði til enska tungumálsins, en þegar hann skrifaði verkið hafði hann sagt skilið við heimaland sitt Rússland og ákveðið að hætta að skrifa á rússnesku (hann þýddi þó bókina sjálfur yfir á rússnesku, það var upplifun sem hann lýsti sem miklum vonbrigðum.)

Lolita vekur upp áhugavert vandamál um skáldskaparpersónur. Þrátt fyrir að Nabokov reyni ekki að fegra Humbert á neinn hátt eða réttlæta gjörðir hans, þá fordæmir hann þær heldur ekki. Bókin er alveg laus við beinar siðferðispredikanir. En lesandinn kemst ekki hjá því að samsama sig með Humbert þar sem hann er í aðalhlutverki og við skynjum atburði frásagnarinnar frá hans sjónarhorni. Lesandinn upplifir sig á vissan hátt samsekan, sama hvaða skoðun hann hefur á aðalpersónunni.

Annars er lítið sem ekkert að segja um aðrar persónur bókarinnar. Þar sem við fáum aldrei sjónarhorn á neina aðra persónu sem er ómengað af ástríðu og sjálfsréttlætingu Humberts mætti halda því fram að hann sé í rauninni eina alvöru persóna bókarinnar. Þetta á sérstaklega við um Lolitu sjálfa en þrátt fyrir að við skynjum áhrifin sem glæpir Humberts hafa á hana óbeint, aðallega í gegnum breytingarnar á málnotkun hennar en þær bera vott um tapað sakleysið, fáum við aldrei hennar sjónarhorn á atburði frásagnarinnar. Við kynnumst henni aðeins í gegnum gleraugu langana hans. Þar sem Humbert er vægast sagt óáreiðanlegur sögumaður, jafnvel eitt frægasta dæmið um slíkt í bókmenntasögunni, er ekki hægt að taka lýsingar hans á persónunum í kringum hann trúanlega. Því kynnumst við þeim aldrei í raun og veru.

Bókin hefur verið túlkuð á margan ólíkan hátt. Nabokov nefnir sjálfur eina þeirra í eftirmálanum en einhverjir höfðu haldið því fram að bókin fjallaði um hvernig nýji heimurinn, Ameríka sem Lolita er fulltrúi fyrir, táldragi gamla heiminn Evrópu, þaðan sem Humbert kemur. Martin Amis hélt því einnig fram að bókin væri allegóría um alræðishyggju. Hann vildi meina að bókin væri sögð frá sjónarhóli einræðisherra, Humberts, og væri rannsókn á öllum sjálfsblekkingunum, lygunum og grimmdinni sem væri nauðsynlegur fylgifiskur stjórnkerfisins sem lagði heimaland Nabokovs í rúst 1.

En það er ljóst að Nabokov myndi gefa lítið fyrir þessar túlkanir. Í eftirmála bókarinnar segir hann að sér sé meinilla við tákn og allegóriur (bls. 326) og heldur því fram að bókin kenni lesendum ekkert, að hann sé:

…hvorki lesandi né höfundur fræðsluskáldskapar og þrátt fyrir staðhæfingu Johns Ray, hefur Lolita engan siðferðisboðskap í eftirdragi. Að mínu áliti er skáldverk aðeins til að svo miklu leyti sem það veitir mér það sem ég hispurslaust kalla fagurfræðilega alsælu, það er þá kennd að vera einhvern veginn, einhvers staðar, tengdur öðrum tilvistarstigum þar sem listin (forvitni, blíða, góðvild, algleymi) er viðmiðunin. (bls. 327)

Þannig afskrifar hann Balzac, Gorkí, Mann, Zola og önnur skáld þar sem verk þeirra eru fyrst og fremst samfélagsgagnrýni sem miða ekki að þessari fagurfræðilegu alsælu sem alvöru bókmenntir eiga að stefna að og bjóða lesandanum upp á. Í frægum fyrirlestrum sínum um bókmenntir heldur Nabokov því fram að alvöru lesandi lesi með bakinu, að fiðringurinn sem maður fær milli herðablaðanna þegar lesið er góða bók sé það sem bókmenntir eigi að snúast um og ekkert annað (hann lofar þó Dickens, sérstaklega Bleak House, en einungis fyrir fagurfræðilegu hliðarnar á verkum hans, hann segir samfélagsgagnrýnina vera tilgangslaust blaður).

Þessi fagurfræðikenning er athyglisverð ef við höfum hana til hliðsjónar á meðan að við köfum aðeins dýpra í sköpunarverk Nabokovs – Humbert Humbert. Bandaríski heimspekingurinn Richard Rorty hefur bent á, að þrátt fyrir að Nabokov þvertaki fyrir að bókin innihaldi siðferðisboðskap virðist fagurfræðikenningin sjálf vera á sama tíma eins konar siðfræðikenning, eða tilraun í þá átt 2. Þessir mannlegu eiginleikar sem Nabokov nefnir eru æðra tilvistarstig sem eru aðallega á færi listamanna að nálgast. En það vantar þó eitthvað í þessa kenningu eins og persónan Humbert Humbert útlistar. Hún býður upp á möguleikann á listamönnum sem nálgast hin æðri tilvistarstig í gegnum alsæluna, en eru á sama tíma færir um hrikalega grimmd. Það er að segja, það er ekki endilega sama sem merki milli alsælunnar og blíðunnar, góðvildarinnar o.s.frv.

Tökum eftir því að forvitni er það fyrsta sem Nabokov nefnir í ofangreindri tilvitnun, en það er einmitt eiginleiki sem Humbert býr ekki yfir, nema að svo miklu leyti sem hún beinist að hans eigin löngunum og þrám. Hann sýnir ekki minnsta vott af forvitni gagnvart fólkinu í kringum hann. Aðrar persónur bókarinnar, Dolores og Charlotte fyrst og fremst, eru aðeins athygli hans verðar að svo miklu leyti sem það hjálpar honum að ná fram eigin markmiðum. Humbert viðurkennir þetta sjálfur í bókinni þegar hann kemst að því að hann veit í rauninni sárafátt um Lolitu, þrátt fyrir að vera heltekinn af henni. Hann er algjörlega fastur í sínum eigin heimi og er aðeins á höttunum eftir að svala eigin löngunum. Þrátt fyrir það er Humbert fagurkeri og ljóðskáld sem leitast eftir sinni eigin alsælu, löngunin í fegurð smádísarinnar Lolitu en á einum stað í bókinni líkir hann henni við Venus Botticellis (bls. 282). En það er skorturinn á forvitni sem gerir honum kleift að sýna Lolitu og öðrum slíka grimmd. Grimmd sem hann er sjálfur blindur á. Það er af þessum sökum sem Rorty kallar Humbert: „a monster of incuriosity.“

Lolita er ekki samfélagsgagnrýni á borð við Dickens eða Zola. En ég myndi neita því að bókin hafi engan boðskap og segi okkur ekkert eins og Nabokov heldur fram. Boðskapurinn er þó ekki sá augljósi, að fullorðnir karlmenn eigi ekki að vera í kynferðislegu sambandi við barnungar stúlkur, heldur miklu fremur að skortur á forvitni geti leitt til grimmdar gagnvart öðrum. Við eigum að veita fólkinu í kringum okkur verðskuldaða eftirtekt, ef það er ekki gert gætum við átt hættu á að feta í fótspor Humberts og valda mikilli þjáningu án þess að taka eftir því. Því mætti segja að Nabokov grafi undan eigin fagurfræðikenningu og að sköpunarverk hans, Humbert Humbert, sýni fram á hinar mögulegu slæmu afleiðingar hennar. Leitin að persónulegri alsælu opnar dyrnar að sjálfhverfu sem, eins og Humbert, skeytir engu um fólkið í kringum sig og hugsar aðeins um eigin langanir og þrár. Þannig er Nabokov sjálfur sinn eigin harðasti gagnrýnandi. Það er mögulega einnig skýringin á því að Nabokov var svona meinilla við Humbert, hann sá eitthvað af sjálfum sér í honum, fagurkeranum sem er aðeins á höttunum eftir sinni eigin alsælu, hvort sem hún er fagurfræðilegs eða kynferðislegs eðlis.

Italo Calvino hélt því eitt sinn fram að klassísk skáldsaga væri skáldsaga sem væri aldrei búin að segja það sem hún hefði að segja. Þrátt fyrir mótbárur Nabokovs sjálfs, að hún segi ekki neitt, á þetta fullkomlega við um Lolitu.

   [ + ]

1. Amis, M. (2003) Koba the Dread. Vintage, London.
2. Rorty, R. (1989) „The Barber of Kasbeam: Nabokov on Cruelty“ í Contingency, Irony and Solidarity, Cambride University Press, Cambridge, bls. 141-168.