Úr Safninu mikilvirka.

Fyrstu þrír dagarnir á RIFF; kvikmyndaunnandinn ýmist dottar eða hlær

Fyrsti dagur: Mössuð hnefaleikarastelpa og bústinn og fjörugur listamaður

Ég er búinn að sjá nokkrar myndir á RIFF, mjög misgóðar, sumar fengu mig til að iða í sætinu af hlátri, ein hreinlega svæfði mig. (Sem var allt í lagi: Draumurinn var skemmtilegri en myndin.)

Hörkutólið Thulasi.

Hörkutólið Thulasi.

Fyrsta myndin nefndist Litla fluga, fljúgðu hátt og er ein þeirra sem ég mæli með. Thulasi er ung, indversk kona, staðráðin að hífa sig upp úr neðsta þrepi stéttarkerfisins í krafti íþróttahæfileika sinna. „Ég fæddist til þess að boxa!“ segir hún stolt og lætur húðflúra orðið BOXER á upphandlegginn. Síðan lemur hún aðra stelpu í klessu við góðar undirtektir. Umsjónarmaður hnefaleikaskólans hennar heitir því að koma henni í vel borgað starf á vegum ríkisins, standi hún sig áfram svona vel í slagsmálahringnum. En þessi klístraði og feiti skólastjóri er auðvitað rotinn í gegn og nennir ekkert að kvitta undir nein meðmælaplögg nema gegn kynferðislegum greiðum. Thulasi fer með málið í fjölmiðla og við fylgjumst með henni berjast við spillt og kúgandi karlaveldi í þrjú ár. Þetta er áhugaverð hetjusaga sem fær mann oftar en einu sinni til að gnísta tönnum.

Þær myndir sem ég hef séð eftir Robert Altman eru frábærar: Hollywood-grínið The Player og svo sagnafléttan Short Cuts sem byggist á nokkrum smásögum og einu ljóði eftir Raymond Carver. Auk þess hef ég bara alltaf verið svo veikur fyrir ævisögum og heimildarmyndum um frjóa og skemmtilega listamenn. Altman rekur feril höfundarins allt frá blábyrjun og dregur upp mynd af bústnu og lífsglöðu framleiðsluhrossi sem var vinur vina sinna og óvinur Hollywood númer eitt. Þetta er bráðskemmtileg, væmin og dálítið pirrandi upphafning á söguhetjunni og fékk mig til að vilja sjá helstu myndirnar hans (sérstaklega M*A*S*H, og svo þær síðustu á ferlinum, Gosford Park og fleiri). Líf Altmans lengdist um tíu ár eða svo þegar hjarta úr liðlega þrítugri konu leysti af hólmi gamlan og höktandi vöðva í brjósti hans (þá var hann um sjötugt) og hann nýtti þann tíma til að gera fjölmargar nýjar og spennandi myndir. Semsé: Þetta var örugglega mjög inspírerandi og kátur náungi og ég hvet fólk til að skoða þessa yfirlitsmynd um hann.

Annar dagur: Ekki hleypt inn í Ástarhreiðrið, John Pilger á mörg bindi

Daginn eftir, annan sýningardag RIFF, fangaði athygli mína japönsk mynd: Ástarhreiðrið. „Í þessari fallegu heimildarmynd er í fyrsta sinn hægt að sýna þrár, óra og viðhorf gesta eins leyndasta staðarins í japönsku samfélagi: Ástarhreiðursins þar sem gestir fá drauma sína uppfyllta fordómalaust.“ Ég vanmat greinilega mannlegt eðli þegar ég óttaðist að ég yrði eini áhorfandinn að einhverju blautlegri, japanskri hálf-erótík; það var löngu uppselt þegar ég reyndi að fá miða. Hins vegar reyndist vera nóg af lausum miðum á Safnið mikilvirka sem fjallar um æsilegt líf nokkurra starfsmanna á listasögusafninu í Vín. Vandinn var bara sá að líf þessa fólks var ekkert mjög æsilegt – ég vonaðist allan tímann til að þau myndu missa þótt ekki væri nema eitt ómetanlegt listaverk í gólfið, svo að eitthvað gerðist – og því laumaðist ég út áður en gleðin kláraðist og pantaði mér miða á næstu mynd, Skortinn, „andlega ferð um fjögur tilbrigði við hugmyndina um ,skort’.

Gagnrýnandi fékk engan aðgang að Ástarhreiðrinu.

Gagnrýnandi fékk engan aðgang að Ástarhreiðrinu.

Ég ætla að viðurkenna það strax að ég er ekki mjög sólginn í tilraunastarfsemi í bíó, þó svo að ég reyni nú alveg að vera hress og móttækilegur. Skorturinn fjallaði um sex konur sem „sökkva sér ofan í hinn magnþrungna og frumstæða kraft sem býr í náttúrunni“. Myndin gerist á Íslandi, í Asíu og víðar og var að mörgu leyti áhugaverð og ljóðræn frásögn – bólugröfnu náungarnir við hlið mér flissuðu og iðuðu og flúðu loks ringlaðir af vettvangi – um andleg ferðalög ekki síður en veraldleg. Öllu óþarfa prjáli, svo sem samtölum, gríni, söguþræði og sannfærandi persónusköpun, var varpað fyrir róða og ég sónaði eiginlega út frá fyrstu mínútu í einhvers konar friðsælu og endurnærandi hugleiðsluástandi og er því kannski illa til þess fallinn að lýsa þessari mynd.

Og ekki er ég betur til þess fallinn að lýsa næstu mynd! – Duldu stríði eftir blaðamanninn John Pilger. Ég sá hana síðla nætur í Tjarnarbíói eftir að hafa setið þar að sumbli með tveimur leiftrandi klárum, ungum mönnum, slungum blaðamanni og miklu sagnfræðiséníi, og kannski var það allt þetta freyðandi öl, að minnsta kosti fundust mér rökfléttur Pilgers um það hvernig stórar fréttaveitur eru orðnar órjúfanlegur hluti af stríðsrekstri nútímans heldur klénar og kunnuglegar, þótt auðvitað væri í þeim einhver sannleiksbroddur. Stærsti lærdómurinn, sem ég dró af þessari mynd, var sá að John Pilger getur auðveldlega nælt sér í ljómandi góða sólbrúnku og á stórt og litríkt safn af hálstaui. Auk þess varpa nýlegir atburðir í Ísrael, Palestínu og víðar breyttu ljósi á umfjöllunarefnið og hálfvegis úrelda þessa mynd.

Treiler:

 Þriðji dagur: Dottað yfir stríðshrjáðri Sarajevó, vaknað í skemmtilegum súpermarkaði

Eftir svolítið brokkgengan annan sýningardag batt ég miklar vonir við þann þriðja og var sérstaklega spenntur fyrir Uppvexti eftir Richard Linklater, þar sem leikararnir eldast með aðalpersónum sínum og framleiðslan tók röskan áratug, held ég. En vittu til, það reyndist líka uppselt á hana svo að ég fékk í staðinn miða handa mér og syfjuðum bræðrum mínum á Brýrnar í Sarajevó, eins konar samsuðu stuttmynda sem allar fjölluðu um stríðshrjáða Sarajevó með einum eða öðrum hætti, allt frá morðinu á Franz Ferdinand til dagsins í dag. Flestar áttu þessar stuttmyndir það sameiginlegt að vera hundleiðinlegar; undantekningarnar sú þriðja, býsna mögnuð, ítölsk sena úr fyrri heimsstyrjöldinni og svo síðustu tvær; fyrri fjallaði um lífsglaðan dreng sem bjó hjá ömmu sinni en hafði misst foreldra sína, lét það samt ekki aftra sér frá því að gæða stræti Sarajevó töfrum hugarflugsins; seinni sagði frá úrillum strák á fótboltaæfingu, sígarettum, kirkjugarði og dularfullri konu. Synd hvað þessi var misjöfn, því að bestu sprettirnir voru mjög fínir og umfjöllunarefnið, stríðshrjáð Sarajevó, auðvitað mjög áhugavert 1.

Jarvis Cocker er fallegur maður.

Jarvis Cocker er fallegur maður.

Mér fannst svo leiðinlegt að geta ekki mælt neitt sérstaklega með nokkurri þeirra mynda sem ég hafði séð að ég dreif mig einnig á Pulp: Kvikmynd um lífið, dauðann og stórmarkaði, þótt titillinn væri reyndar svolítið fráfælandi, einhver tilgerð í honum. Myndin reyndist hins vegar stórskemmtileg. Hún fjallar um það þegar hljómsveitin Pulp snýr aftur til uppvaxtarbæjar síns, Sheffield, til að halda þar allra síðustu tónleika sína. Pulp er heillandi hópur af ólíklegum poppstjörnum: Jarvis Cocker er líklega spastískasti poppari Vesturlanda og eini söngvarinn sem ég hef séð negla klósettrúllum í andlit aðdáenda sinna við mikinn fögnuð þeirra; hljómborðsleikarinn Candida Doyle er nær lömuð í fingrunum af liðagigt; gítarleikarinn Mark Webber er svo feiminn að hann snýr rassinum jafnan í áhorfendur og svo framvegis. Saman við myndina er fléttað stuttum senum með vel völdu úrvali af stórfurðulegum íbúum Sheffeild. Mæli algjörlega með þessari.

Hér er treilerinn:

Sverrir er dálítið ómótaður kvikmyndaunnandi. Hann er höfundur Kvíðasnillinganna sem kom út hjá Forlaginu nú í september.

   [ + ]

1. Fyrir um það bil einu og hálfu ári uppgötvaði ég býsna flinkan höfund frá Sarajevó, Aleksandar Hemon, og las allar bækurnar hans í einhverfulegum rykk í útlöndum. Hemon var staddur í Chicago árið 1992, þegar stríð braust út í fæðingarborginni hans og lýsti því síðar hvernig hann horfði klukkustundum saman á CNN í stjörfum ótta við því að sjá olnboga á látinni frænku skaga upp úr sprengjurústum eða jafnvel höfuð föður síns sem kæmi þá kannski rúllandi niður rykuga götu að baki sjónvarpsþularins. Svo fór að Hemon átti ekki afturkvæmt til heimalandsins heldur settist að í Chicago, þá ekki nema rétt fyllerísfær í ensku, en með því að strika undir skrítin orð í bókum Nabokovs smákenndi hann sér þetta algenga tungumál og náði reyndar á því hálfgerðum meistaratökum, gaf svo út fyrstu bók sína árið 2000, verk sem dansar á mörkunum milli smásagnasafns og skáldsögu, The Question of Bruno. En já, allavegana, þetta var útúrdúr; ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að einlægar og lifandi lýsingar Hemons á ástandinu í Sarajevó eru svo miklu áhugaverðari og betur fram settar en í Brúnum í Sarajevó – fyrir þá sem hafa áhuga á því!