Ég er klofinn í afstöðu minni. Nýjasta kvikmynd Baldvins Z og Birgis Arnar Steinarssonar Lof mér að falla gerir eitthvað mjög rétt. Hún snertir við fólki og sendir það grátandi út í nóttina; hún sýnir smælingjum heimsins samúð og segir mikilvægar sögur þeirra; hún er falleg, meira að segja þegar hún er ljót; hún ertir skilningarvitin og ýfir tilfinningalífið. Það er erfitt að horfa á hana. Við höfum verið í sumum þessara partía og börnin okkar eiga þetta kannski eftir og við vitum það mæta vel að það komast ekki allir lífs af – og sumir sem komast lífs af eru svo gott sem lifandi dauðir. Lof mér að falla er mikilvæg mynd.
En á sama tíma er hún líka svolítið einsog ofpródúserað jafningjafræðslumyndband. Sem listaverk spyr hún engra spurninga sem hún svarar ekki jafn harðan og ekkert svaranna kemur á óvart. Fara eiturlyf illa með fólk? Já. Er ljótt að svíkja vini sína? Já. Gerir fólk siðlausa hluti til að verða sér úti um fix? Já, jú er það ekki, það hljómar sennilega.
Tveggja áratuga niðurtúr
Aðalsöguhetja myndarinnar heitir Magnea og er fimmtán ára. Hún á vinkonu sem er einu ári eldri og heitir Stella. 1 Þeim finnst gaman að dópa og djamma en þess utan leiðist þeim lífið. Þær eru frumkvæðislitlir eltarar. Magnea eltir Stellu og Stella eltir aðra og saman bara svona hálfpartinn lenda þær í því að verða dópistar á meðan furðu rænulitlir foreldrar Magneu yppta öxlum og segjast brosandi elska hana mjög mikið – þangað til það er orðið of seint og hún sokkin dýpra en svo í fenið að hún verði auðveldlega dregin upp úr því.
Magnea og Stella verða fljótlega ástkonur en þrátt fyrir að þær elski hvor aðra einlæglega og stundi í þokkabót kynlíf af og til þá gleymdi ég því undantekningalítið að þær voru kærustupar nema rétt á meðan þær duttu í sleik. Kemistrían á milli þeirra var einhvern veginn vinakemistría.
Það er bútasaumsblær yfir handritinu – hvert og eitt atriði er sannferðugt en svo er einsog þau hangi ekki almennilega saman. Einsog þau tilheyri sitthvoru lífinu eða í það minnsta lífsskeiðinu og jafnvel ólíkum áratugum. Ég átti líka oft erfitt með að átta mig á hversu djúpt þær voru sokknar. Eina stundina virtust þær saklausir djammfiktarar og þá næstu innmúraðir reynsluboltar og svo aftur saklausir djammfiktarar.
Söguþráðurinn inniheldur allt það ljóta sem getur komið fyrir fíkla í einni beit – nauðganir, óverdós, vændi, þjófnað, ástvinasvik, sjálfsmorð, mansal, barsmíðar o.s.frv. o.s.frv. – og þótt myndin sé vel á þriðja tíma hljóta meira að segja jákvæðustu áhorfendur að viðurkenna að hún er svolítið ofhlaðin og hefði mátt við því að dvelja betur við einstök atriði.
Þjáningar og hvatar
Lof mér að falla gerist á tveimur tímabilum með 20 ára millibili og við fáum líka að sjá Stellu og Magneu fullorðnar. Þá hefur Stella hangið þurr í lengri tíma, hún vinnur á Stígamótum og deitar Dóra DNA. Á yfirborðinu lifir hún fyrirmyndarlífi en hún líður enn talsverðar þjáningar vegna fortíðar sinnar. Magnea hefur hins vegar aldrei hætt neyslu og er beinlínis á botni samfélagsins. Á köflum er hún sýnd einsog skepna – það er allt gert til þess að hún virki primal, einsog frummaður, ónýt og án nokkurar vonar um að snúa aftur. Hún er hinn fallni maður – idið strípað og hreint, ekkert nema harmur og fíkn.
Einsog Ásgeir H. Ingólfsson bendir á í dómi sínum um myndina á Menningarsmygli þá sjáum við upptúr Stellu og Magneu fyrst og fremst utan frá en áttum okkur sem áhorfendur illa á því hvers vegna þær eru að dópa. Við finnum ekki fyrir því að þeim finnist það sjálfum nema rétt svo passlega heillandi eða að þær séu að flýja neitt annað en hversdagsleiðindin. Og þegar þá tengingu vantar er hálfur harmur myndarinnar horfinn.
Samhangandi fagurfræði
Elín Sif Halldórsdóttir leikur Magneu 15 ára og hún einfaldlega á þessa mynd – að öðrum ólöstuðum, enda myndin mjög vel leikin. Kristín Þóra Haraldsdóttir leikur Magneu eldri og gerir það mjög vel en geldur fyrir það hvað karakterinn og gervið eru grótesk. Eyrún Björk Jakobsdóttir og Laufey Elíasdóttir skipta með sér Stellu, 16 og 36 ára; Sólveig Arnarsdóttir og Þorsteinn Bachmann leika fráskilda foreldra Magneu, og Sveinn Ólafur Gunnarsson og Sólveig Guðmundsdóttir, leika maka þeirra. Þá mæðir nokkuð á Sturlu Atlas í hlutverki kærasta Stellu yngri og Dóra DNA í hlutverki kærasta Stellu eldri. Aðrar vinkonur Magneu koma líka við sögu – Álfrún Laufeyjardóttir og Laufey Elíasdóttir skipta með sér Helgu, Kristín Auður Sophusdóttir leikur Silju – Guðjón Davíð, Björn Stefáns, Víkingur Kristjánsson og Tómas Víkingsson eru allir illa farnir dópistar og illmenni. Og þetta gera allir sem sagt mjög vel.
Myndin er vel tekin, tónlistin er góð, bæði frumsamin tónlist Ólafs Arnalds og tónlistarstjórnun annars, og allt gengur upp. Þeir dagar eru sennilega liðnir að það eitt að maður fyrirverði sig ekki fyrir pródúksjón íslenskrar bíómyndar verði talið henni til tekna, en hér er allt ríflega gott, jafnvel mjög gott, og það er samhangandi fagurfræði í ólíkum þáttum myndarinnar. Það er að segja ef sjálft handritið er tekið út fyrir sviga.
Innra og ytra
Innri tími sögunnar – þessi tvö tímabil með tuttugu ára millibili – er jafn vel skilgreindur og ytri tími sögunnar, hvenær hún á að gerast, er það ekki. Á fyrra tímabilinu er stundum einsog sagan sé að gerast á níunda áratugnum og stundum einsog hún hafi gerst í gær. Eina stundina er auglýst eftir Magneu á forsíðu DV á meðan hún étur franskar úr körfu á einhverri næntíssjoppu og þá næstu fær hún snjallsíma frá pabba sínum, notar contalgin – sem var ekki tískudóp á tíunda áratugnum, það best ég veit – og hlustar á Hatara í partíum (frekar en bara t.d. gegnumbrotsplötu Maus, Lof mér falla að þínu eyra, já eða Mínus!). Tuttugu árum síðar er ennþá bara samtíminn og fólk sennilega ennþá að hlusta á Hatara og sprauta sig með conta. Allir eru alltaf á 2015 módelum af bílum alveg sama hvað og þeir halda sér ótrúlega vel. Það er skrítið að í mynd sem fjallar að talsverðu leyti um samband fortíðar og framtíðar sé í raun enginn tími.
Gleðileysið er besta vímuleysið
Það er kannski lýsandi fyrir samtímann að kvikmynd ársins 2018 sé í grunninn langt, dýrðlegt, tragískt og tignarlegt forvarnarmyndband. Óttinn er fastari þáttur í lífum okkar í dag en þegar Trainspotting og Requiem for a Dream voru gerðar – en hvað sem raunsæispælingum líður má ekki gleyma því að rithöfundarnir sem skrifuðu bækurnar sem þær myndir eru byggðar á voru báðir djönkarar. Grunnþáttur í þeim myndum er útsjónarsemi, harka og ákveðin gleði. Fíklarnir í þeim fara hlæjandi mót örlögum sínum, fallegir og ódrepandi, þeir ætla aldrei að gefast upp fyrir borgaralegu kjaftæðinu – alveg þangað til þeir standa skyndilega á kafi í dauðum börnum og eru byrjaðir að sprauta sig með rottueitri í augnkúluna. Maður finnur fyrir tryllingnum sem drífur þá áfram og maður er að einhverju leyti sammála þeim um vonleysi hins borgaralega samfélags.
Hins vegar vill maður bara að Magnea drífi sig heim til pabba síns eða mömmu og mæti í skólann, nái samræmdu prófunum og svona. Það er mikilvægt að standa sig í lífinu. Maður empatíserar með henni einsog maður væri sjálfur Helga – æskuvinkona hennar, streitarinn sem vill heldur eiga kósíkvöld en fara í sturlað partí og öðlast þannig á endanum eilíft líf, nei afsakið, ég meina borgaralegt líf og eignast síðan fallega dóttur sem hún skírir auðvitað Magneu eftir sinni föllnu vinkonu. Maður horfir á eftir Magneu niður í fíkniefnadíkið en hún fer þangað ein.
Og einhvern veginn situr þá í manni að „sögn“ verksins sé sú sama og ef maður hefði verið dreginn niður í bæ og bent á pissublautasta, verst farna rónann í borginni og spurður hvasst: ÆTLAR ÞÚ AÐ ENDA SVONA? VILTU AÐ BÖRNIN ÞÍN ENDI SVONA?
Nei, Baldvin og Biggi, svona vil ég ekki enda, og ég lofa að gæta barnanna minna svo þau endi ekki svona, vina þeirra, barna vina minna, it takes a village, við erum öll í þessu saman svona hafa of margir endað, ég þekki nokkra, við þekkjum þau öll og ef við erum nógu skelfingu lostin þá kannski hættir það. Ég er að gera mitt besta. Ég lofa.
1. | ↑ | Ég sá ekki betur á kreditlistanum en að þær ættu að vera 15 og 16 ára; annars staðar eru þær sagðar 15 og 18 ára; á kreditlistanum stóð líka áreiðanlega að eldri útgáfur þeirra væru 35 og 36 ára, en á Facebook leikstjórans er því haldið fram að sá hluti gerist 15 árum síðar, og þá væru þær annað hvort 30 og 33 ára, eða 30 og 31 árs. |