Ljósmyndari: Sigurjón Ragnar

Ljóð eftir Þórdísi Gísladóttur


Haustlægðir
þyrla sér yfir okkur ein af annarri
á meðan vöðvar bólgna og
naglalakkið flagnar af.

Miðaldra kona er ekki glæsileg fasteign
og býr ekki yfir gamaldags sjarma
eins og áhugaverð íbúð í Þingholtunum,
röddin er stundum rám,
uppáhaldsfylgihluturinn glas.

Dagar mínir eru ekki sjónvarpsþáttur,
vinir og grannar ekki persónur
í Seinfeld eða Friends,
enginn æðir inn án þess að banka,
segir eitthvað óviðeigandi
opnar ísskápinn
og drekkur beint úr fernu
í leyfisleysi.

Skjábirtan er varðeldur,
ég sviðset líf,
skrifa innslög og birti myndir á samfélagsmiðlum,
flyt örleikrit í töskum og vösum,
nær ykkur kemst ég ekki.


Fyrsta ljóðabók Þórdísar Gísladóttur kom út árið 2010 og síðan hefur hún gefið út þrjár ljóðabækur til viðbótar og þó nokkrar aðrar bækur. Í haust sendir Þórdís frá sér skáldsöguna Horfið ekki í ljósið, sem fjallar um svefnleysi, kjarnorkuvá og beinagrindur í skápum. Ljóðið sem hér birtist er úr verki í vinnslu, ljóðabókinni Mislæg gatnamót, sem kemur að öllum líkindum út á næsta ári.