Fökking Jónas Reynir: Stór olíuskip

Fökking Jónas Reynir gaf út tvær ljóðabækur á síðasta ári og eina skáldsögu! Ég óttast verulega að í umfjöllun minni muni leynast einhver gremja eða öfund ef ég viðurkenni ekki strax fyrir sjálfum mér hve ótrúlegt afrek mér þykir það, og hve mikið ég öfunda hann. Ég óttast samt líka að ég verði full jákvæður til að ég geti sannfært sjálfan mig um að ég sé ekkert bitur.

Takið samt mark á mér.

Þar sem ást hættir að vaxa og byrjar að deyja er þyngdarleysi. Þar er logn. Þar gilda ekki lögmál dáinna vísindamanna um hvernig hlutir falla til jarðar.

Maður gengur hjá glugganum með hund.

Stundum bíð ég mörg ár eftir svona dögum. Sólin skín í augun en það er ekki óþægilegt. Hún skín í gegnum gleraugu og verður að litlum punkti hinum megin við glerið þar sem ást hættir að vaxa og byrjar að deyja.

Ljóðin eru öll númeruð. Þetta eru stórar og áberandi tölur, það fer ekki framhjá neinum númer hvað hvert ljóð er. Og talningin hefst ekki á 1 heldur á 01. Sem er ekki lógískt fyrir venjulegt fólk. en afar praktískt þegar þarf að slá inn margar tölur á lagernum. Þú sleppur alveg við að ýta á enter. Þarft ekki að teygja litla putta hægri handar í vendilhnappinn, getur hvílt hina puttana á talnalyklaborðinu og vinstri höndina um kaffifantinn. Það stendur hvergi í bókinn Stór olíuskip en við erum stödd á lager, um það er ég sannfærður.

Það er kannski annarlegt að gefa sér um efni bókarinnar útfrá myndrænni framsetningu, en mér finnst efni hennar styðja þessa túlkun. Hún er ekki full af mjög slípuðum textum. Þeir eru talsvert hrárri en í Leiðarvísir að þorpi (sami höfundur); það er styrkleiki bókarinnar. Hún æðir áfram. Sum ljóðanna eru einsog margar ólíkar hugmyndir, sem hafa slysast saman í skjal og orðið að einhverju miklu meira. Slysast — ég er ekki að gefa í skyn að ljóðskáldið hafi bara sett eitthvað saman heldur að myndskotin eru svo tilgerðar- og áreynslulaus að textarnir virðast stundum hafa orðið til óvart. Hráleikinn gefur mér líka tækifæri til að finnast sem ég geti uppgötvað tengingar sjálfur sem ekki einu sinni höfundurinn vissi af.

Þessi bók er full af allskonar, meir að segja villum, og sumt hefði kannski mátt gera betur, og sumir vilja eflaust meina að bókin hefði mátt fá meiri yfirlegu. Til dæmis var Winston Churchill ekki forsætisráðherra þegar sprengjum var varpað á Hiroshima og ég er ekki viss hvort meðalhitinn í Reykjavík árið 1987 hafi verið 5,6 gráður. Ég held að rétt hitastig og Clement Attlee (forsætisráðherra Bretlands árið 1945) hefði samt ekkert gert bókina betri.

Eiga ljóð að vera hrá eða fínleg? Jónas Reynir er kominn með ógeð á tvíhyggjunni og vill að við förum að samsama okkur með allskonar, ekki einhverju einu. Ég er búinn að finna í einum manni mælikvarða á ljóðasenuna. Í dag er ég Olíuskipa-Jónas en ég skil vel að sumir kjósi frekar að vera Þorps-Jónas. Ég bíð bara eftir spenntur brjálaða konseptljóða-Jónas.