Formáli og fyrsti kafli úr Sólhvörfum

  1. desember, 2016

vetrarsólhvörf

 

Rautt vax drýpur.

Saman dást feðgarnir að kransinum og ræða hversu vel þeim tókst að krækja könglana í grenisprotana og binda borðana á rétta staði svo kertisloginn næði ekki til þeirra. Þeir höfðu farið eftir leiðbeiningum sem sonurinn fékk í skólanum nokkrum vikum fyrr, í fyrsta bekk læra börnin að búa til aðventukrans, en það var ekki fyrr en í kvöld sem feðgarnir komu því í verk, á sama tíma og þeir skreyttu jólatréð. Móðirin hafði ætlað að búa kransinn til með syninum. Ekkert varð af því. Undanfarið hefur hún verið mikið fjarverandi.

Heita súkkulaðið yljar feðgunum. Piparkökurnar metta þá. Jólalag frá níunda áratugnum í útvarpinu fyllir upp í þögnina sem fylgir spurningu sonarins: „Hvar er mamma?“

Faðirinn ypptir öxlum – og kreppir hnefann í vasanum.

Þeir klára súkkulaðið.

Þegar kertin fjögur hafa brunnið niður til hálfs kemur móðirin heim. Heimkomunni fylgja blótsyrði og háreysti sem breytast fyrr en varir í öskur.

Sonurinn felur sig undir borði. Mamma talar skringilega, hugsar hann, og það er vond lykt af henni. Pabbi hefur aldrei verið svona reiður. Þau segja svo mörg ljót orð, orð sem má ekki segja.

Faðirinn spyr móðurina hvar hún hafi verið en hún segir honum að halda kjafti. Hlutir brotna en þau slasa ekki hvort annað. Um nóttina sefur faðirinn á dýnu í herbergi sonarins á meðan móðirin sefur úr sér í hjónaherberginu.

 

Móðirin staulast inn á baðherbergi, kastar upp, þambar vatn og skolar framan úr sér.

Klukkan er níu á laugardagsmorgni en enginn er á ferli í húsinu. Á þessum tíma óma vanalega skrækar teiknimyndaraddir úr sjónvarpinu í stofunni. Frá herbergi sonarins berast einkennileg hljóð, snörlandi andardráttur og mjóróma kvenrödd með undarlega holum hljómi, engu er líkara en að röddin berist úr síma eða sjónvarpi. Ekkert slíkt tæki ætti þó að vera í herbergi sex ára snáðans.

„Snúðu nú aftur,“ segir röddin.

Móðirin gægist varlega inn. Varirnar fara að titra, hún getur sig hvergi hrært og kemur ekki upp hljóði. Í herberginu liggur faðirinn líflaus á blóði drifinni dýnu á gólfinu. Þvert yfir hálsinn er djúpur skurður. Við hlið hans stendur horuð vera sem grúfir sig yfir rúm sonarins og tekur ekki eftir móðurinni. Búkurinn er svo stuttur að klofið virðist ná upp undir axlir. Fingurnir eru varla annað en langar klær, á fótum eru engar tær og veran klæðist engu öðru en skítugri stromphúfu. Framan á búknum hanga tveir sekkir sem bifast og virðast samvaxnir verunni. Um hálsinn hangir svartur gljáandi hlutur í festi, í hlutnum bylgjast óljós mynd.

Sonurinn liggur alveg hreyfingarlaus á rúminu. Og þó. Hann andar.

Hvers vegna vaknaði hann ekki þegar …?

Veran athafnar sig hratt og stingur annarri hendi undir bak sonarins. Í hinni heldur hún á opnum leðurpoka, sem hún setur soninn í og hnýtir fyrir. Hún rís svo upp, hávaxin, limalöng og hokin í baki og sveiflar pokanum yfir öxl sér.

Þótt móðirin hafi aldrei séð vættir með berum augum býr hún yfir almennri þekkingu á þeim eins og flestir, en hún hefur ekki hugmynd um hverrar tegundar þessi meinvættur er. Að minnsta kosti er vætturin karlkyns, lítill limur hangir milli lappanna og skeggtægjur hringast í kringum hvassan tanngarðinn.

Skrumskælda kvenröddin berst úr svarta hlutnum í festinni, ávarpar veruna. „Flýttu þér til baka.“

Vætturin hlýðir, stígur eitt skref til hliðar en flækist um sjálfa sig og rekst utan í leikfangahillu sonarins með þeim afleiðingum að hálsfestin slæst utan í vegginn.

„Gættu þín, fáráður!“ heyrist úr svarta hlutnum.

Nú er eins og álagafjötrar falli af móðurinni, hún rekur upp vein og býst til að ráðast á þetta ófrýnilega fyrirbæri, en það er um seinan. Í sömu andrá hverfur vætturin líkt og hendi sé veifað og með henni hverfur sonurinn.

Móðirin hnígur niður, fálmar eftir farsíma föðurins við hlið dýnunnar á gólfinu og hringir á Neyðarlínuna.

Síðar um daginn er hún handtekin, sökuð um að hafa í annarlegu ástandi myrt feðgana og falið lík sonarins. En þegar rannsóknar- og tæknideildir lögreglunnar taka við, vettvangur hefur verið kannaður betur og lýsingar móðurinnar á vættinni teknar til skoðunar fer málið inn á borð sérstakrar deildar.

Þennan mánuðinn hefur þremur öðrum börnum verið rænt með svipuðum hætti. Leitin að þeim hefur engan árangur borið en nú gæti orðið breyting þar á, því þetta er í fyrsta sinn sem einhver hefur séð ræningjann með eigin augum.

 

 

I

 

  1. desember, 2016

aðfangadagur jóla

 

Allir bíða eftir því að klukkan slái sex.

„Útvarp Reykjavík. Gleðileg jól.“ Djúpraddaði útvarpsmaðurinn skilar verki sínu fullkomlega, stimplar jólin formlega inn og feykir burt stressinu sem náði hámarki augnablikum áður en sest var til borðs.

Hátíð er hafin hér á bæ, í Jöklafold í Grafarvogi. Pabbi og eiginkona hans, Kolla, brosa gegnum þreytubaugana og í þann mund sem hið árlega, drepleiðinlega kórlag hefst, segja þau okkur að gjöra svo vel.

Það rýkur upp af hamborgarhryggnum, puran er stökk og fagurbrún, froðan á appelsín maltinu leggst mjúklega niður. Niðursoðnu baunirnar og rauðkálið líta hins vegar viðbjóðslega út en í samkrulli með brúnuðu kartöflunum og sósunni myndast súrsætt bragð sem enginn Íslendingur má missa af, á jólum jafnt sem páskum og í raun hvaða tyllidögum sem er.

Litlu hálfsystkini mín, Jónsi og Sif, gúffa í sig matnum enda hálfsvelt eftir daglangt sjónvarpsgláp á meðan pabbi og Kolla undirbjuggu jólahaldið ásamt því að sjá um þann litla sem fæddist í haust, viku eftir að ég varð tvítug. Njáll Brjánn heitir þriðja hálfsystkinið, sem nú sefur. Hver skírir lítið barn svona nafni?

Glansandi pakkarnir bíða undir jólatrénu, messan í útvarpinu er hafin, smjattið í fyrirmyndarfjölskyldunni nær hámarki. Allt er eins og það á að vera.

Nema ég, Brá Bjarkadóttir.

Ég er nývöknuð, spilaði tölvuleik í alla nótt, tók upp spilunina, talaði yfir og hlóð upptökunni inn á Youtube, en þar reyni ég að vinna upp áhorfið svo ég fái hærri auglýsingatekjur, einu tekjurnar sem ég hef með framhaldsskólanáminu, námi sem ég byrjaði seint í og nenni ekki að eyða miklum tíma í. Í vor féll ég á mætingu í MH en vegna þrýstings frá pabba gaf skólastjórnin mér eitt tækifæri til viðbótar, sem er vel sloppið því ég hafði aðeins klárað eina önn. Í nótt teiknaði ég líka og skrifaði smávegis, rotaðist að lokum undir morgun og fékk auðvitað martröð.

Martraðirnar eru verri þegar ég er dauðþreytt en aftur á móti eru þær skýrari og þá get ég gert tilraun til að ná stjórn á draumförunum með hugaraflinu, reynt að móta myndirnar yfir í annarskonar draumsýnir; þær sem sýna mér liðna atburði, atvik líðandi stundar eða atburði framtíðar. En ég er ekki enn orðin nógu fær í því, mér mistekst oft og martraðirnar yfirtaka hvern hugarkima þar til ég hrekk upp.

„Ætlarðu ekki að fá þér sósu?“ Kolla gjóar augunum til mín en einbeitir sér svo aftur að matarfjallinu á disknum sínum.

„Ég er góð,“ ansa ég.

„Jónsi minn, réttu systur þinni sósuna,“ segir hún að bragði og brosir gleitt svo skín í tanngóminn.

Hún er stór og þrekin en pabbi smágerður og mjór, eiginlega horaður, og ég þurfti endilega að erfa líkamsgerðina hans. Sama hversu mikið ég borða, alltaf skal ég fá að heyra að það vanti kjöt á beinin.

„Ætlarðu til mömmu þinnar á morgun?“ spyr pabbi og teygir sig eftir baununum. Orðunum fylgir lymskulega ágengur tónn sem ég fæ oft að heyra og veit þá að meira býr að baki spurningunni.

Ég lyfti brúnum, finn að pinninn í þeirri vinstri er skakkur, hagræði honum og svara: „Hvers vegna ætti ég ekki að gera það?“ Ég fer alltaf til mömmu á jóladag.

Áhyggjuhrukkurnar á enni hans margfaldast og lyfta þunnum hársverðinum upp. „Mér datt bara í hug hvort stirt væri á milli ykkar. Þú hefur ekki farið til hennar síðan … hvenær? Í byrjun mánaðarins?“

„Hún er víst upptekin,“ segi ég. „Fæst við erfitt mál. Ég fæ ekkert að vita.“

Pabbi skóflar slepjubaunum á diskinn sinn. „Fórstu þá ekkert til hennar þegar við vorum í London?“ Þau fóru í verslunarferð aðra aðventuhelgina og keyptu jólagjafir en ég varð eftir. Það var himneskt.

„Nei, ég var hér, þú veist það. Af hverju ertu að spyrja að þessu?“

Þetta er lygi hjá mér. Ég var ekki með mömmu en ég fór úr bænum í eigin erindagjörðum. Ég tók annan fjölskyldubílinn – sem ég mátti ekki því ég er próflaus, missti bílprófið í fyrra þegar ég keyrði dálítið hífuð – og leitaði að völvu sem átti að halda til í húsi í Grindavík. Ábendingu um hana hafði ég fengið hjá Sambandi sjáenda, mér var sagt að völvan ætti að geta hjálpað mér að ná betri tökum á hæfileikum mínum. En þetta voru úreltar upplýsingar því völvuna fann ég ekki, hún var nýflutt úr húsinu. Maðurinn sem býr þar núna vissi ekki hvar völvuna, „hana Þorbjörgu litlu“, væri að finna og kvartaði sáran yfir sóðaskapnum í henni, að kattarhár hefðu verið um allt húsið. Það var nú meiri fýluferðin.

„Kolla, gætirðu skutlað henni á morgun?“ segir pabbi án þess að svara spurningu minni og snýr sér að eiginkonu sinni sem lítur örsnöggt upp frá disknum til samþykkis.

Pabbi er enn afar tortrygginn gagnvart mér og mömmu eftir það sem gekk á síðastliðið vor, þegar ég flæktist í rannsókn hennar á Víghólamorðunum. En ef það hefði ekki verið fyrir þá svaðilför hefði ég kannski aldrei komist að því að ég væri næm.

Ég er sem sagt fjarskyggn og telst til sjáenda, sem er heiti yfir fólk sem getur séð gegnum tíma og rúm og átt í yfirnáttúrulegum fjarskiptum af ýmsu tagi. Á Íslandi finnast til dæmis völvur, draumverjar og dávaldar. Líkt og í tilviki miðlanna, og í raun flests næms fólks, erum við sjáendur í miklum minnihluta. Aðeins brotabrot af mannkyninu býr yfir næmi af einhverju tagi og því verðum við fyrir töluverðum fordómum. Margt venjulegt fólk vill lítið af yfirnáttúrunni vita og telur allt sem tengist Hulduheimi og Handanheimi skrítið og jafnvel skaðlegt Mannheimi, heimi mannfólksins. Fordómunum er því líka beint gegn vættum. Vissulega eru til meinvættir, illir andar og sturlaðir seiðskrattar en það er svo margt sem yfirnáttúran og samliggjandi heimar hafa upp á að bjóða sem gæti orðið okkur til góðs. Ónæmt fólk eins og það sem situr hér við borðið með mér og smjattar á jólamatnum á þó erfitt með að skilja það.

Fjölskyldan í Grafarvoginum hefur ekki hugmynd um að ég sé næm og búi yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum. Pabbi og Kolla halda enn að martraðir mínar séu afleiðing af kvíðaröskun sem ég tók lyf við þegar ég var yngri. Ég kæri mig ekki um að segja pabba frá næmi minni, ég veit að hann myndi bregðast illa við, gömul sár frá skilnaðinum við mömmu myndu ýfast upp og hann myndi örugglega láta það bitna á mér.

Mamma, huldumiðillinn Bergrún Búadóttir, er sú eina í mínu nánasta umhverfi sem veit um hæfileikana. Sjálf getur hún séð inn í Hulduheim og talað við vættir en getur þó ekki stigið inn í heim þeirra. Hún hefur ekki enn komist á það stig, enda er það víst yfirgengilega erfitt.

Huldu- og andamiðlar geta haft samskipti við verur í öðrum heimum og beitt hæfileikunum yfir lengri tíma. Sjáendur geta látið hugann flakka og séð fortíð og framtíð, oftast eru sýnirnar þó óljósar og þá þarf að túlka þær. Það kostar mikið hugarafl að móta sýn og ná stjórn á henni og þess vegna geta sjáendur aðeins beitt fjarskyggnigáfunni í skömmtum.

Ég hef lesið að stundum fylgi fjarskyggninni viðbótarhæfileikar, til dæmis hugsanaflutningur og fjarflutningur hugans, sem gera vart við sig þegar sjáandinn hefur náð betri tökum á gáfunni. Svo langt er ég ekki komin, ekki enn. Þegar hæfileikar mínir létu á sér kræla í vor tókst mér að beita þeim kröftuglega og stöðva öflugan seiðskratta en svo var eins og skrúfað hefði verið fyrir hugaraflið eða orkubirgðirnar tæmst. Síðan þá hef ég verið föst á byrjunarreit. Á meðan ég leita eftir leiðum til að ná tökum á gáfunni vinn ég í því að rannsaka yfirnáttúru, hina heimana og mynda tengsl við annað næmt fólk. Það er ekki sjálfgefið að fá inngöngu í Samband sjáenda og ég þarf því að sanna mig.

 

„Megum við opna pakkana núna?“ spyrja systkini mín í kór og sleppa hnífapörunum á diskinn svo glamrar í.

„Nei,“ svarar pabbi. „Þið bíðið eftir því að við mamma ykkar klárum matinn, svo tökum við af borðinu og hjálpumst að við að undirbúa eftirréttinn.“

Jónsi er átta ára, Sif fimm ára og því ríkir enn mikil stemning fyrir jóladýrðinni á heimilinu en ég finn mig illa í henni. Mig langar helst að fara upp og leggja mig.

Þó geri ég mitt besta til að taka þátt í gleðinni, systkina minna vegna.

Svona eru jólin.