Dansarinn Yoshiya Sakurai í hlutverki Pucks. By KCBalletMedia - Puck, CC BY 2.0

Í yndislegri sturlun

The poet’s eye, in fine frenzy rolling,
Doth glance from heaven to earth, from earth to heaven;
And as imagination bodies forth
The forms of things unknown, the poet’s pen
Turns them to shapes and gives to airy nothing
A local habitation and a name.

5.1.12–17

A Midsummer Night’s Dream er það leikrit sem ég þekki best. Og þá er ég ekki bara að tala um Shakespeare. Ég kann það næstum utanað. Hef leikið í því, samið við það tónlist, þar á meðal heila óperu við harmleikinn um Píramus og Þispu, leikstýrt því, unnið með það á námskeiðum og séð það í fleiri uppfærslum (held ég) en nokkurt annað. Þrisvar í Nemendaleikhúsinu, einu sinni í Þjóðleikhúsinu og einum sex áhugaleikfélagauppfærslum. Næstum allar voru þær í það minnsta skemmtilegar og ein þeirra, uppfærsla Guðjóns Pedersen í Nemó 1993, er með eftirminnilegustu kvöldstundum sem ég hef átt í leikhúsi, og er þá þónokkuð sagt.

Ég er reyndar ekki viss um að þetta hafi verið nema hóflega góð túlkun á leikritinu sem lá sýningunni til grundvallar, en það skiptir minna máli en hitt. Hvað Margrét, Katrín, Þórhallur og Hilmir Snær voru ástsjúk og glórulaus, hvað Sigrún Sól var óumræðilega skotin í asnanum, hvað Halla Margrét var ógnvekjandi Bokki og hvað Guðlaug Elísabet var fáránlega fyndin sem prímadonnan Spóli, og hinn elskaði lesbíski asni.

Grundvallarafstaða mín til Draumsins hefur ekki breyst lengi: Uppáhaldsleikritið mitt. Besta og skemmtilegasta leikrit sem skrifað hefur verið sem endar vel.

Orðin hér að ofan eru vandlega valin. Draumurinn er ekki besti gamanleikurinn, ekki fyndnasta leikritið, ekki besta leikritið. Heldur nákvæmlega þetta: besta og skemmtilegasta leikrit sögunnar með „happy end“.

Sú skoðun haggaðist ekkert við þennan lestur, en hann gaf mér heldur ekkert ógurlega mikið. Þetta var aðeins of mikil upprifjun. Yndisleg upprifjun, en engin opinberun. Og það sem meira er: þetta varð aðeins of mikil upprifjun á íslensku þýðingunni, sem er algerlega brennd í textaminnið og skein í gegnum frumtextann nema ég beitti Helga valdi – hugrænni þöggun. Það er meðal annars þess vegna sem ég kalla verkið „Drauminn“, en nota ekki enska heitið sem er annars meginreglan í þessum skrifum mínum. Það sama gildir um persónurnar. Bottom heitir Spóli í þessari ritgerð af því að það heitir hann á harða disknum í mér.

Ég hef bara einu sinni lesið enska textann áður, í undirbúningi undir eigin uppfærslu með Leikfélaginu Sýnum í Elliðaárdalnum 2003. Ég sé núna að ég hef ekki látið frumtextann trufla eina af „snjöllu“ hugdettunum mínum, nefnilega að láta indverska umskiptingsprinsinn, sem Óberon og Títanía deila um forræðið yfir, vera kornabarn. Sem er lógískt, móðir drengsins, vinkona Títaníu, dó af barnsförum og álfadrottningin hefur væntanlega gengið því strax í móðurstað.

Það gengur líka ágætlega upp í texta Helga Hálfdanarsonar, en orðrétt enskan styður þá túlkun tæpast:

For Oberon is passing fell and wrath,
Because that she as her attendant hath
A lovely boy, stolen from an Indian king;
She never had so sweet a changeling;
And jealous Oberon would have the child
Knight of his train, to trace the forests wild“

2.1.20–25

Attendant … Knight of his train. Þetta er ekkert bleyjubarn. Það var samt hryllilega fyndið að láta Ágústu Evu í hlutverki álfs missa reifabarnið í jörðina þegar hún heilsaði Spóla. Já, fyndið. Þú hefðir þurft að vera þarna.

Annað dæmi um ósamræmi íslenska og enska textans verður svo varla skilið öðru vísi en sem rangþýðing. Þegar Títanía leiðir Spóla í asnagervi til sængur er lokaskipun hennar til þjóna sinna hjá Helga:

Farið í þögn, svo þagni vinur minn.

3.1.111

En í frumtextanum er þetta:

Tie up my love’s tongue bring him silently.

Ekkert um að álfaskarinn eigi að þegja, en þeim skipað að þagga niður í asnanum, jafnvel með múl, sé „tie up“ skilið bókstaflega. Það held ég að hann Halldór Magnússon sem lék Spóla hjá mér í Elliðaárdalnum sé feginn þessari veigrunarvillu Helga.

Ég tímdi ekki að kaupa nýjustu útgáfu Ardenmanna og las þá sem ég átti fyrir. Helsti munurinn á annari og þriðju umferð Ardenútgáfunnar er að nú fær uppfærslu- og túlkunarsaga verkanna mun meira pláss, nokkuð sem mér finnst mjög til bóta. Ekkert slíkt er í boði hjá Harold F. Brooks, sem bjó verkið til prentunar í minni bók og skrifar inngang. Þar fyrir utan er inngangsritgerð hans og skýringar afbragð.

Brooks telur fullvíst (eða því sem næst) að Draumurinn hafi ekki verið skrifaður fyrir opinberar sýningar, heldur saminn sérstaklega fyrir brúðkaup í aðalsmannakreðsunum. Maður sér alveg augnagotur Snikka yfir sviðsbrúnina þegar hann tilkynnir í 4.2. að búið sé að gifta tvö „eða þrjú“ pör til viðbótar við hertogahjónin.

Heimildir eru um nokkur brullaup sem gætu passað við Drauminn, og blandast inn í vangaveltur um ritunartímann. Brooks staðnæmist við ungt aðalspar sem vígðist í hjónaband í febrúar 1596, sem smellpassar við tímalínuna sem ég er að vinna með. Eitt telur hann líka víst: að Elísabet drottning hafi verið í veislunni. Tvær tilvísanir til hennar í verkinu eru af því tagi sem henni þótti sérlega vænt um að heyra. Annars vegar meydómur Vestumeyjarinnar í tilurðarsögu töfrablómsins (2.1.) og hinsvegar hin alþýðlega afstaða Þeseifs til þess þegar þegnar hans missa málið þegar þeir mæta hinum fræga kappa augliti til auglitis (5.1.)

Annað smáatriði sem skiptir máli fyrir tímasetningu er skemmtileg saga frá atviki við skosku hirðina 1594, þegar hætt var við að spenna ljón fyrir vagn í skrautsýningu af ótta við að nærstaddir yrðu hræddir. Þetta vilja margir meina að hafi orðið Shakespeare efni í vangaveltur handverksmannanna um að draga úr áhrifamætti leiksýningar sinnar og gera m.a. ljónið ekki of ógnvekjandi. Veðurfræði blandast líka inn í þessar vangaveltur, því ótíðin sem Títanía lýsir í frægri ræðu sinni í 2.1. gæti vel tengst uppskerubresti sem varð um þetta leyti í mið- og sunnanverðu Englandi.

Draumurinn er eitt þeirra verka þar sem óhætt er að skrifa fléttuna á Shakespeare sjálfan. Auðvitað liggja rætur hennar víða og Brooks grefur þær upp af miklu harðfylgi. Það vekur auðvitað athygli og aðdáun hvað plottið er þétt og skemmtilegt, svona í ljósi þess að skáldið var alls ekki jafn þrautþjálfað í þeirri list og hinni, að hnýta orð fagurlega saman. Engu að síður stenst Draumurinn algerlega samanburð hvað þetta varðar við þrautplottuðustu verk síðustu ára: Romeo and Juliet og The Comedy of Errors, sem bæði byggja á aðkeyptum fléttum.

Um yndisþokka skáldskaparins hér er óþarfi að setja á langar ræður. Þetta er allt meira og minna dásamlegt, einhverskonar hápunktur – kannski endapunktur – ljóðræna skeiðsins sem hófst með lokun leikhúsanna 1593. Samt er þetta aldrei lýrískt blaður út í loftið. Sjáum t.d. ívitnuðustu ræðu verksins:

I know a bank where the wild thyme blows,
Where oxlips and the nodding violet grows,
Quite over-canopied with luscious woodbine,
With sweet musk-roses and with eglantine:
There sleeps Titania sometime of the night,
Lull’d in these flowers with dances and delight;
And there the snake throws her enamell’d skin,
Weed wide enough to wrap a fairy in:

2.1.256–264

Það verður ekkert mikið fallegra. En tilefnið fyrir þennan yndislega náttúrumyndaflaum: Að vísa veginn fyrir eina voðaverk leikritsins:

And with the juice of this I’ll streak her eyes,
And make her full of hateful fantasies.

2.1.265–266

Látum nægja að tala aðeins um formið og heimana fjóra sem hýsa atburði verksins. Þeir eiga hver sitt málsnið, sitt form, sem skarast og renna saman þegar á þarf að halda.

Við hirð Þeseifs tala menn að sjálfsögðu stakhendu, virðulega og glæsilega. Konungshjónin og gestir þeirra. Einn sker sig hér úr, hinn æsti öldungur Egeifur, sem setur aðalplott verksins af stað með feðraveldislegum yfirgangi varðandi ástarlíf dóttur sinnar. Hjá honum flæðir stakhendan ekki virðulega, hvað þá mjúkt, heldur höktir og gusast fram með endurtekningum og vanstilltum útúrdúrum og upphrópunum:

Enough, enough, my lord; you have enough:
I beg the law, the law, upon his head.
They would have stolen away; they would, Demetrius,
Thereby to have defeated you and me,
You of your wife and me of my consent,
Of my consent that she should be your wife.

4.1.153–158

Það ætti eiginlega að kalla þetta ljóðform „fauskhendu“.

Þó unglingakvartettinn hafi orðfæri hirðarinnar á valdi sínu þá þurfa unglingar þá sem nú að hafa sitt einkamál líka. Þau Hermía, Lýsander, Helena og Demetríus tjá sig sín á milli í rímuðum og þokkafullum tvíhendum. Lengst af. Í línu 194 í öðru atriði þriðja þáttar, í miðju hinu ógurlega rifrildi, tekur stakhenda fullorðinsáranna við. Og það gerist þegar Helena telur (ranglega) að æskuvinkonan hafi svikið hana:

Lo, she is one of this confederacy!
Now I perceive they have conjoin’d all three
To fashion this false sport, in spite of me.

[hér!]

Injurious Hermia! most ungrateful maid!
Have you conspired, have you with these contrived
To bait me with this foul derision?
Is all the counsel that we two have shared,
The sisters’ vows, the hours that we have spent,
When we have chid the hasty-footed time
For parting us, O, is it all forgot?
All school-days’ friendship, childhood innocence?

3.2.192–202

Álfakóngur og drottning tala mál mennsku hirðarinnar, en Bokki er á unglingastiginu. Álfarnir syngja  og flakka milli forma. Handverksmennirnir tjá sig að sjálfsögðu í prósa, og ráða ekki einu sinni fyllilega við það. Shakespeare fer síðan óalgenga leið með samskipti Títaníu og Bokka – lætur hana halda áfram að tala stakhendu þó asninn sé óbundinn.

Hin yfirnáttúrulega vídd verksins fær mikið pláss í inngangi Brooks. Eðlilega, enda er hún einstök í höfundarverkinu, ótal spurningar sem vakna – og fleiri en verður auðveldlega svarað. Svo virðist sem Shakespeare hræri saman hinum ýmsu álfatrúarhefðum, með dassi af annarskonar undraverum og klassískri goðafræði.

Eitt af því sem Brooks skoðar sérstaklega er velsk álfahefð, þaðan sem hann telur að Shakespeare hafi hið smávaxna þjónustulið Títaníu, nokkurskonar blómálfa sem geta falið sig í akarnaskeljum og slegist við býflugur. Hann bendir m.a. á að „Mab“, sem Merkútsíó notaði sem nafn á trítlvaxinni álfadrottningu í næsta leikriti á undan Draumnum, er velska og þýðir kornabarn, og vekur athygli á hvernig Wales og velskar persónur taka sífellt meira pláss á næstu árum. Glendower og frú Hotspur í Henry IV 1 þar sem er bæði talað og sungið á velsku, velski presturinn í The Merry Wives of Windsor og loks Fluellen í Henry V. Hann telur ljóst að á þessum árum hafi verið velskur félagi í leikhópi Shakespeares sem bæði gat leikið og sagt til um siði, málsnið og tungumál síns fólks – og sagt álfasögur.

Fleira hefur Brooks að segja um leikhópinn. Það er t.d. ljós að um þetta leyti er einn af drengjunum sem leika ungar stúlkur óvenju lágvaxin. Annars hefði Shakespeare varla gert sér sérstakan mat úr, og haft orð á, hæð einnar kvenpersónunnar í bæði Love’s Labour’s Lost (Rosaline), Much Ado About Nothing (Hero) og Draumnum (Hermía).

En aftur að álfunum. Fyrir utan hinn smávaxna þjónustuskara höfum við hér hraðfleyga hrekkjaálfinn Bokka, og svo konungshjónin. Þau virðast vera einhverskonar frjósemisguðir. Fram kemur að Títanía er tilbeðin á Indlandi og illar samfarir þeirra Óberons skapa óreglu í veðurfarinu eins og drottningin rekur í einni af glæsilegustu ræðum sem Shakespeare skrifaði (2.1.81–117).

Og talandi um aðföng Shakespeares í handanheimshluta draumsins: hér er Bokki að tala um starfsskyldur sínar við hirð Óberons:

I jest to Oberon and make him smile
When I a fat and bean-fed horse beguile,
Neighing in likeness of a filly foal

2.1.44–48

Förum við ekki öll að hugsa um Óðin, Loka – og Sleipni?

Það er gaman að velta fyrir sér hverjir nákvæmlega eru ofurkraftar Óberons og Títaníu, fyrir utan að mök þeirra frjóvga náttúruna. Þessum hæfileikum eru nokkuð skýr takmörk sett. Títanía þarf t.d. heilan her af smáálfum til að berja frá sér snáka og önnur meindýr svo hún geti lagt sig. Óberon kemst hratt yfir eins og skósveinninn, en þarf að treysta á grasafræðiþekkingu sína til að hafa áhrif á mannfólkið. Er að því leyti á pari við föður Lárens og apótekarann í Romeo and Juliet. Það er líka umhugsunarefni að ástar- og hjónabandssæla Helenu og Demetríusar hangir á áhrifum ástarlyfsins þegar leiknum lýkur. Eins gott að bóndinn komist aldrei í snertingu við móteitursjurtina. Ætli enginn hafi skrifað leikrit eða sögu um það?

Eitt af því sem endurlesturinn skilaði mér voru vangaveltur um Þeseif og Hippólítu og stöðu þeirra í heimi verksins. Þeseifur hafnar yfirnáttúrunni á afgerandi hátt í lokaþættinum, afstaða hans er nánast eins og það sem kemur fram á Kjaftæðisvakt Vantrúar. Sem er pínu vandræðalegt sé haft í huga að hann er launsonur Póseidons og stríðsguðinn Ares verðandi tengdafaðir hans. Og ef marka má Óberon og Títaníu hafa þau bæði átt vingott við þau hjónin back in the day.

Enn flækist málið um hvað er raunverulegt og hver trúir hverju ef við rýnum í upphafsorð þeirra hjónaleysa um þetta mál:

HIPPOLYTA

‘Tis strange my Theseus, that these lovers speak of.

THESEUS

More strange than true: I never may believe

These antique fables, nor these fairy toys.

5.1.1–4

Eitt er nú að jafn „goðsagnakennt“ par trúi ekki á álfa. Hitt sem vekur furðu (og ég skil ekki af hverju ég hef ekki hnotið um þetta fyrr) er að elskendurnir hafi útskýrt atburði næturinnar fyrir „fullorðna fólkinu“ með tilvísun í álfa. Því þau hafa enga slíka séð. Einungis fylgt sínum eigin ástríðum, og skipt um stefnu fyrir duttlunga tilfinninganna. Eða það halda þau, er það ekki?

Það að þau hafi dregið álfa fram sem afsökun er pínu dásamlegt. Við vitum að álfarnir eru raunverulegir í heimi leikritsins, þau vita það ekki, en búa þá til sem skýringu á hinu óskýranlega. Sem óvart er rétt. Fyrir utan að allt er þetta í plati og álfar eru ekki til.

Er Draumurinn þá um trú á álfa? Neinei. Alfarnir eru hér eins og skeifan yfir dyrum Nielsar Bohr: þeir gera sitt hvort sem þú trúir á þá eða ekki.

Draumurinn er um ást og ímyndunarafl. Og hringrás lífsins. Besta brúðkaupsræða sem samin hefur verið.

Uppfærslusaga Draumsins er auðvitað skrautleg mjög, og óneitanlega saknar maður yfirferðar um hana í útgáfu Brooks. Uppfærsla næstum-nafna hans, Peters, í Stratford 1970 er einn af hornsteinum nútímaleikhússins. Illu heilli ekki aðgengileg í upptöku, en glefsur af henni finnast á Youtube, til dæmis hér og hér og hér.

Kvikmyndaaðlaganir eru nokkrar til og ég horfði á tvær þeirra. Já og svo reyndi ég enn og aftur að hlusta mig í gegnum óperu Brittens, en hún er svo leiðinleg og bjánaleg að ég bara gafst upp. Píramusaróperan mín skilur þetta klunnaverk eftir í rykinu. Kalt mat í anda Páls Kvists og félaga í áhugamannadeildinni.

Árið 1968 fór Peter Hall út í skóg með nokkrar af skærustu stjörnum Royal Shakespeare Company (Helen Mirren, Judi Dench, Diana Rigg, David Warner, Ian Holm, Ian Richardson …) og gerði hráa og ódýra bíómynd upp úr leikritinu. Það er eiginlega óskiljanlegt að útkomunni hafi verið hleypt fyrir almenningssjónir. Tæknileg vanefni og smekkleysa á Ed Wood-skalanum og samleikur nánast útilokaður vegna sérkennilegrar römmunar atriða – þröng skot af tveimur hausum að horfa í kameru eru reglan – engin viðbrögð, engin hlustun.

Einstaka glampar í leiktúlkun og textameðferð bjarga litlu sem engu. Judi og asninn jú, ágæt. Og Bill Travers er stórkostlegur sem Stútur/veggur. Næstum jafn góður og Róbert Arnfinnsson í sama hlutverki í annarri skelfilegri uppfærslu – Baltasars Kormáks í Þjóðleikhúsinu vorið 2000. Sérstök heiðursverðlaun fær tónskáldið Guy Wolfenden fyrir „You spotted snakes“ – mögulega verstu tónsetningu á Sjeikspírsku söngljóði í tónlistarsögunni.

Hér er myndin. Horfið ef þið þorið.

Þetta er hinsvegar nokkuð flott tónsetning á vögguljóðinu góða.

Adrian Noble, þriðji arftaki Halls í sæti leikhússtjóra RSC myndaði rómaða sviðsuppfærslu sína árið 1996. Hún hefur margt við sig. Drulluskemmtileg bara. Snjallar styttingar (fyrir utan stóra rifrildið í 3.2. sem Noble rústar) og allskonar skemmtilegir díteilar. Löðrungurinn sem Hippólíta rekur Þesiefi fyrir að vera til í að dæma Hermíu til dauða á brúðkaupsdaginn þeirra. Augnablikið þegar Kvistur er í alvöru að spá í að láta Spóla leika bæði Píramus og Þispu. Dúbblering Þeseifs/Óberon og Hippólítu/Títaníu er alsiða (skilst að Peter Brook hafi fundið upp á þessu) en Noble lætur leikfélaga Spóla líka vera þjónustuálfana sem stjana við hann í dyngju drottningar. Nokkuð sniðugt, þó það meiki engan sens nema menn brjóti gegn algjöru grundvallaratriði:

DRAUMURINN ER EKKI DRAUMUR!

Allt sem gerist í verkinu gerist í verkinu. Það er EKKI ímyndun persónanna (né heldur einhvers utanaðkomandi, eins og hér, þar sem Noble býr til rammafrásögn um ungan dreng sem dreymir allt heila gillimojið, og mjög vel útfært sem slíkt, þó óþolandi sé). Hvað eftir annað velta persónur verksins því fyrir sér að þær, eða aðrar persónur, dreymi það sem gerist. Bokki stingur upp á að við áhorfendur ímyndum okkur að okkur hafi dreymt verkið (reyndar bara ef okkur fannst það leiðinlegt). Að gera það að konsepti sýningarinnar að atburðirnir séu draumur geldir verkið. Og það er bannað.

Það eina sem er meira bannað er að gera leiðinlegar sýningar úr skemmtilegasta leikriti bókmenntasögunnar.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast. 

Textinn.