Tímaglas og tíminn er


Tíminn er sandur í gleri og lekur í gegnum ofurmjótt mitti, eitt sandkorn í einu.
Tímaglas og tíminn er vatn sem rennur frá munnholi í gegnum háls, gegnum barka, gegnum maga, gegnum garnir og út um þvagfæri, út í kosmósið.
Tímaglas og tíminn er tími sem líður í gegnum óendanlega stutt augnablik nútíðar. Tímaglas og tíminn er loft sem streymir í gegnum staðnað loft.
Tímaglas og tíminn er orð sem tekur sér bólfestu í ferli sem fer frá einni rafeind til annarrar, ferðast um óravíddir heilabarkar og myndar tengingu við önnur orð og verður loks að merkingu.
Tímaglas og tíminn er kaffisopi sem skiptir tíma þínum í tvennt, fyrir og eftir sopa og allt verður aftur eðlilegt.
Tímaglas og tíminn er tónn sem syngur í eyra þér og klýfur sögu þína í tvennt, fyrir og eftir tóninn og allt verður öðruvísi en það var.
Tímaglas og tíminn er augnablikið sem þú vaknar og uppgötvar að draumur og veruleiki er ekki ennþá það sama.
Tímaglas og tíminn er eining, tímaglas og tíminn er ekki eining, tímaglas og tíminn er óeining.
Tímaglas og tíminn er tvístruð ögn í ljósögn og efnisögn og er þó bæði í einu, hvorki né tími, bæði og tími, og tíminn er ljós sem er svæði sem er rými sem er flötur og allt er plat.
Tímaglas og tíminn er blekking sem segir þér að hafið sé svart á hafsbotni, þó er það jafnglært og allstaðar annarstaðar, alveg eins og náttmyrkrið er jafnglært og allt annað loft en þú kannt bara ekki að greina það.
Tímaglas og tíminn er ekki til og er til á sama tíma eða ekki tíma.
Tímaglas og tíminn er.
Ekki.