Literatúr og laxeldi

Nú rífast menn um fiskeldi. Fyrir rúmum áratug var rifist um álver. Hvort tveggja átti að bjarga landsbyggðinni. Álverin björguðu engu og ég hef mínar efasemdir um að fiskeldið geri það. Álverin voru reist á Íslandi vegna þess að þau voru hætt að skila arði í Ameríku. Á Íslandi gátu auðmenn komist hjá allskyns kostnaði eins og sköttum og raforkuverði svo hægt væri að halda batteríinu gangandi aðeins lengur. Norskt fjármagn flæðir til Íslands vegna þess að það er ofgnótt af því í Noregi þar sem það á í erfiðleikum með að finna arðbæran farveg. Vandi landsbyggðarinnar er vandi kapítals á heimsvísu. Sá vandi verður ekki leystur með laxeldi eða álverum heldur sósíalisma. Átakalínurnar liggja jú ekki milli landsbyggðar og höfuðborgar heldur stétta og það ættu sósíalistar eins og Eiríkur Örn Norðdahl að vita. En kannski er ósanngjarnt að Vestfirðingar séu beðnir um að bíða bara rólegir eftir því að þetta verði alltsaman þjóðnýtt. Það er skiljanlegt að þeir vilji ekki sitja hjá — aftur — á meðan núverandi góðæri líður hjá.

En hér var ekki ætlunin að fjall um hagfræði heldur bókmenntir: Leikritaskáldið Henrik Ibsen, leikrit hans Óvinur fólksins og aðalpersónu þess, Doktor Stockmann. Í Stundinni skrifar Ingi Freyr Vilhjálmsson ádeilu á Eirík Örn Norðdahl skáld og Vestfirðing og kallar hann framsóknarskáld fyrir að tala fyrir laxeldi á Vestfjörðum. Að halda því fram að Eiríkur sé orðinn agent fyrir laxeldi er auðvitað ósanngjarnt en það er ekki umfjöllunarefnið hér heldur literatúr, bókmenntir, menning! Ingi Freyr vill að Eiríkur Örn taki sér annað íslenskt skáld til fyrirmyndar, Andra Snæ Magnason. Andri Snær er nefnilega óvinur fólksins eins og Stockmann í leikritinu sem flestir þekkja. Andri Snær sagði sannleikann um álver, virkjanir og umhverfisvernd þegar aðrir vildu að hann þegði. Og það er nokkuð til í þessum samanburði. Stockmann og Andri Snær eru ekki ólíkar persónur. Málið er bara að lestur Inga Freys á þessum persónum er frekar yfirborðslegur. Bæði Stockmann og Andri Snær eru flóknari karakterar en Ingi Freyr segir þá vera.

Þegar rifrildið um álver og virkjanir stóð sem hæst skrifaði ég ofurlitla gagnrýni sem birtist í Skírni um bók Andra Snæs, Draumalandið, Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð, þar sem ég hélt því fram að bókin væri í raun og veru það sem undirtitilinn segði: sjálfshjálparbók. Draumalandið, hélt ég fram, var ekki skrifað til að koma í veg fyrir virkjanir og álver heldur til að halda því til haga að við hefðum mótmælt, sagt “ekki í okkar nafni”, enda stendur það beinlínis í inngangi bókarinnar að tilgangur hennar sé að láta komandi kynslóðir vita að það ekki hafi allir verið með í partíinu. Þessi grein mín vakti jafn litla athygli og hafði jafnlítil áhrif á umræðuna og Draumalandið vakti mikla athygli og umræðu.

Aftur að Stockmann. Ibsen, Stockmann, Andri Snær og Ingi Freyr eru frjálslyndir. Það sem í Ameríku er kallað Liberal. Það þarf ekki að þýða þeir séu jafnaðarmenn eða jafnvel vinstrisinnaðir, hvað þá að þeir séu sósíalistar. Klassískur liberalismi er borgaralegur, vísindalegur, markaðssinnaður. Hann trúir á rök, stjórnsýslu, reglugerðir, nefndarálit, lög og réttlæti. Hann stendur gegn hindurvitnum, tilfinningum, múgæsingu og -sefjun, hópþrýstingi, framsóknarmennsku, væli og sjálfsvorkunn. Með liberalismann að vopni barðist Stockmann gegn menguðum baðhúsum og Andri Snær gegn mengandi stóriðju. En rétt eins og Andri Snær mátti sjá lónið fyllast og álverið rísa þá bíður Stockmann lægri hlut. Hann er gerður útlægur fyrir skoðanir sínar og að lokum endar hann einn og óstuddur. Undir lokin kemur þó ræðan sem Ingi Freyr vitnar í þar sem Stockmann virðist samt sem áður líta á sig sem sigurvegara:

Þegar maður berst fyrir sannleikanum þarf maður að læra að standa einn. Og sterkasti maður heims er sá sem þorir að standa einn. Ég er sá maður. Ég er sterkasti maður í heimi.

Þótt Ibsen hafi ef til vill sjálfur verið liberal þá er samt sem áður öngstræti liberalismans, uppgjöf hans gagnvart ofurvaldi kapítals, auðsjáanlegt í viðhorfi Stockmanns. Fyrir Andra Snæ var mikilvægara að komandi kynslóðir vissu að hann hafi verið á móti virkjunum en að koma í raun og veru í veg fyrir þær. Fyrir Stockmann er mikilvægara að hann beri sannleikann í brjósti en að koma í veg fyrir að mengað vatn sé notað í baðhúsum. Báðir hafa gefist upp fyrirfram. Enda er liberalismi vindur og hjóm, orðin tóm þegar kemur að ægivaldi auðmagnsins sem er skítsama um sannleikann sem skáld bera í brjósti sér ef þeim tekst að byggja álver og virkjanir, eldistöðvar og baðhús.