Eftir að hafa hrundið innrás og uppreisn fær skoski þjánninn Macbeth skilaboð frá þremur dularfullum konum að hann hafi verið sæmdur nýrri þjánsnafnbót og muni í framhaldinu verða konungur. Skömmu síðar kemst hann að því að fyrri spádómurinn hefur þegar ræst. Fullur bjartsýni um framhaldið heyrir hann konunginn Duncan útnefna Malcolm, son sinn, ríkisarfa. Macbeth deilir fréttunum með konu sinni og saman ákveða þau að ráða konungnum bana, þar sem hann dvelur hjá þeim á heimleið eftir stríðið. Eftir að hafa með hjálp konu sinnar unnið bug á efasemdum um það ráðslag drepur Macbeth konunginn og þeim tekst að koma sökinni á varðmenn hans, en synir konungs flýja. Macbeth er krýndur en byrjar strax að óttast um framtíðina. Ekki síst vegna þess að vinur hans, Banquo, sem einnig var viðstaddur fundinn með nornunum og var þar spáð því að afkomendur hans verði konungar, veit of mikið. Hann lætur drepa Banquo, en sonur hans kemst undan, svo áfram óttast Macbeth um sinn hag. Sérstaklega eftir að draugur vinar hans birtist honum í veislu sem hann heldur stuðningsmönnum sínum. Hann grunar líka að annar aðalsmaður, Macduff, sé andstæðingur sinn og lætur fara að honum og drepa konu hans og börn, en sjálfur er Macduff flúinn til Englands, þar sem Malcolm hefur fengið stuðning heimamanna og undirbýr innrás í ríki Macbeths. Valdaræninginn leitar aftur til nornanna og fær þær fréttir að annarsvegar sé honum óhætt þar til Birnham-skógur komi til Dunsinane, þar sem hann hefur aðsetur, og auk þess geti enginn „af konu fæddur“ ráðið honum bana. Lafði Macbeth er þjökuð af samviskukvölum, gengur í svefni og endurlifir morðnóttina og aðrar skelfingar og deyr loks. Malcolm og enski herinn nálgast Dunsinane, með hríslur úr Birnhamskógi sem dulargervi. Lokaorrustunni lýkur með bardaga Macbeths og Malcolms, sem gengur milli bols og höfuðs á konunginum, enda kom hann í heiminn með keisaraskurði. Malcolm tekur við völdum í Skotlandi.
Ég var ekki alveg viðbúinn hvernig Macbeth virkaði á mig. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir hvað ég þekkti þann texta vel. Það kostaði alveg smá áreynslu að halda athyglinni þegar kunnuglegustu kaflarnir birtust á síðunum, nokkuð sem hefur ekki truflað síðan í Jónsmessunæturdraumi. Ég hef ekki lesið Macbeth árum saman, en sennilega hafa myndirnar verið allnokkrar sem ég hef séð. Sumar tiltölulega nýlega, nú síðast skelfileg útfærsla Justins Kurzel frá 2015 með Michael Fassbender og Marion Cotillard í aðalhlutverkunum.
Hef einnig séð það fimm sinnum á sviði, oftast harmleikjanna. Fyrst var það í fremur mislukkaðri uppfærslu Guðjóns Pedersen og Frú Emilíu 1994. Tveimur árum síðar fórum við í pílagrímsför til Stratford og sáum Roger Allam fara glæsilega með textann í annars óeftirminnilegri uppfærslu. 2007 var röðin komin að Patrick Stewart í rómaðri sýningu Ruperts Goold, sem seinna var kvikmynduð. Sýning sem ratar á lista hinna bestu en heillaði okkur ekki. Ári síðar var komið að sniðugri en léttvægri pólskri útiuppfærslu í Krónborgarkastala (!), og svo að lokum Benedict Andrews í Þjóðleikhúsinu 2013, sem mér tekst enganvegin að muna hvað mér fannst um og þurfti því að fletta í dómasafninu mínu til að átta mig á því.
Þekki þetta semsagt alveg bærilega. Og svo hjálpar tvennt örugglega minninu: Textinn er glæsilegur, jafnvel á Shakespearemælikvarða, og hefur sinn sérstaka tón og einstakt myndmál. Og svo hitt: Macbeth er umtalsvert styttra en meðalharmleikurinn, reyndar sjötta stysta verk Shakespeares, þriðjungi styttra en King Lear, sem er næststystur „stóru“ harmleikjanna.
Á þessari „vöntun“ hefur fræðingum þótt ómaksins vert að leita skýringa frá því mælingar hófust. Ekki þykir ólíklegt að sú gerð Macbeths sem varðveittist og prentaðist í Folio 1623 (engin Q-útgáfa er til) sé stytting á „upprunalegu“ verki. Svo má rífast um hver hafi stytt, hvenær og hvers vegna. Skyld spurning er svo hvort eitthvað af því sem þó er í textanum sé ekki upprunalegt.
Þá birtist á sviðinu góðkunningi okkar, Thomas Middleton. Meðhöfundur Timon of Athens, líklegur aðlagari Measure for Measure og jafnvel fleiri verka. Þétt nærvera hans við Shakespeare og pappíra hans þessi árin gerir Middleton auðvitað grunsamlegan, en svo eru líka feitari sönnunargögn á borðinu.
Um eða upp úr 1613 skrifaði Middleton tragíkómedíuna The Witch. Í henni eru tvö söngljóð sem einnig er að finna í Macbeth, sem var að öllum líkindum frumsýnt um 1606, og alveg örugglega fyrir 1611 þegar leikhúsgestur lýsir því í dagbók sinni. Ljóðin eru reyndar ekki i heilu lagi í Macbeth, heldur bara vísað í með titlum þeirra að þau skuli sungin. Það er nokkuð almenn skoðun að ljóðin séu ort fyrir The Witch, sennilega af Middleton sjálfum, og skotið inn í Macbeth síðar.
Hvað nákvæmlega Middleton gerði annað; hverju hann bætti við og (ekki síður) hvað hann strikaði, eru síðan engir tveir sammála um. Jú, Hekötusenan, þar sem söngvarnir eru (3.5) er talin hans verk. Þess má svo geta að í nýlega útkominni fræðilegri heildarútgáfu verka Middletons er Macbeth meðal verka, líkt og Timon og Measure.
Hvað strikaði Middleton? Kannski voru þarna svör við hinum eilífu spurningum um barneignamál Macbeth-hjónanna (eða lafðinnar allavega). Mögulega var ekki gengið betur frá endum en svo að Macbeth virðist ókunnugt um svik og dauða þjánsins af Cawdor, þrátt fyrir að hafa sjálfur klofið hann í nafla niður. Mögulega var þetta breiðara, epískara, pólitískara verk áður.
En kannski ekki. Og kannski er rétt að segja „hjúkkitt“ ef Middleton á heiðurinn af að þrengja sjónarhorn Shakespeares og láta hr. og frú Macbeth nánast ein um sviðsljósið. Eitt af því sem greinir Macbeth frá öðrum snilldarverkum Shakespeares.
Sá mikli bókmenntagúrú Harold Bloom á heiðurinn af skemmtilega sjokkerandi innsæi í þetta verk þar sem hann segir að samband þeirra Glamis-hjóna sé hamingjuríkasta hjónaband í verkum Shakespeares. Það er alveg vit í því, þó það virki fráleitt við fyrstu sýn. Milli þeirra ríkir alger trúnaður og samheldni. Þau þekkja styrk og veikleika hvors annars til hlítar og traustið bilar lengi vel ekki þó þau takist harkalega á um stærstu ákvörðun lífs þeirra.
Það vill til að þau hafa komist í gegnum áföll áður:
I have given suck, and know
How tender ’tis to love the babe that milks me:
I would, while it was smiling in my face,
Have pluck’d my nipple from his boneless gums,
And dash’d the brains out, had I so sworn as you
Have done to this.1.7.62–76
Þannig herðir Lafðin hug bónda síns, ögrar honum með þessu svakalega dæmi um mikilvægi orðheldni. Athugum að þetta er ekki nýtilegt til að dæma Lafðina sem siðblint flagð. Þetta er allt í viðtengingarhætti og þýðir EKKI að hún sé tilbúin að berja börnum utan í vegg, heldur aðeins að siðareglan um að orð skuli standa trompi ALLT.
En það er þetta með barnið sem hún hefur haft á brjósti. Það er ekki í viðtengingarhætti. Ég hef séð þetta túlkað eins og barnið sé ímyndun hennar, séð Macbeth ranghvolfa augunum þegar hún byrjar „enn og aftur“ að tala um þessa fantasíu. Það er samt langsótt. Rakhnífur Ockhams segir að þau hafi átt barn (allavega hún) og það hafi dáið.
Árið 1999 léku Anthony Sher og Harriet Walter þau hjónin í Stratford. Í ævisögu sinni segir Sher um þetta álitamál:
Scholars invent all sorts of nonsense to explain this: a previous marriage etc. […] You can’t play a previous marriage (never referred to) but you can play a dead baby (referred to). They are a couple whose baby has died. […] I found a photo of a dead baby in one of my Boer books […] gave Harriet a copy and stuck another in my script. Our baby.
Einmitt. Kannski er „hamingjusamt“ fullmikið sagt hjá Bloom, en þetta er gott hjónaband. Nákvæmlega hvort það brestur vegna þess að þau kikna hvort um sig, eða hvort þau brotna bæði þegar hjónabandið gliðnar og þau hafa ekki lengur stuðning hvort í öðru er varla leysanleg gáta, né heldur mikil þörf á því að leysa hana. Ekki frekar en systurgátu hennar um hænuna og eggið.
Hvenær rofnar sambandið? Skoðum 3.2, stutta senu á undan veislunni. Lafðin spyr þjón hvort Banquo sé farinn í sinn útreiðartúr, kannski ekki alveg grunlaus um hvað stendur til, en mögulega bara að hugsa praktískt og „húsmóðurlega“ (hún er góð í svoleiðis). Svo er hún ein og deilir þessu með okkur:
Nought’s had, all’s spent,
Where our desire is got without content:
‘Tis safer to be that which we destroy
Than by destruction dwell in doubtful joy.3.2.6–9
Bóndinn kemur og hún snarhættir að barma sér, og ríma:
How now, my lord! why do you keep alone,
Of sorriest fancies your companions making,
Using those thoughts which should indeed have died
With them they think on? Things without all remedy
Should be without regard: what’s done is done.3.2.10–14
Er þetta ekki stundum kallað „frávarp“ í sálarfræðunum? Að eigna öðrum manns eigin ástand? Í svari Macbeths leynist makalaus mynd:
We have scotch’d the snake, not kill’d it:
She’ll close and be herself, whilst our poor malice
Remains in danger of her former tooth.
But let the frame of things disjoint, both the worlds suffer,
Ere we will eat our meal in fear and sleep
In the affliction of these terrible dreams
That shake us nightly …3.2.15–21
„these terrible dreams that shake us nightly“
Svo samrýmd eru þau hjónin á þessu augnabliki að þau deila martröðum. Tökum augnablik til að sjá það fyrir okkur.
Nú halda þau hvort í sína áttina. Hann berst sem óður við að tryggja árangurinn af konungsmorðinu, hún hverfur inn í sitt prívatmyrkur. Hann vex og eflist í krafti villufrétta nornanna um skóginn og banamanninn sem ekki er af konu fæddur, eftir að hafa næstum bugast í upphafi og hún haldið honum á lofti. Lafðin brotnar, án stuðnings. Eftir á að hyggja er fyrsti sýnilegi bresturinn í lok þessarar frábæru senu, þegar Macbeth deilir ekki áformum sínum um dauða Banquos með Lafðinni:
Be innocent of the knowledge, dearest chuck,
Till thou applaud the deed.3.2.51
Hugsunin á bak við leyndarhyggjuna virðist við fyrstu sýn og í „ótúlkaðri“ útgáfu blasa við. „Mig langar að koma þér á óvart, elskan“. Eða jafnvel, „nú get ég sjálfur!“ En hann getur ekki sjálfur. Dráp Banquos skilar ekki hugarrónni sem til var ætlast, og nú er Macbeth líka einn.
Eins og í Hamlet, jafnvel enn skýrar og dýpra en þar, sjáum við krísuástand sálar og samfélags spegla hvort annað, orsaka hvort annað. Sálarlíf Macbeths er í forgrunni og heillandi að sökkva sér ofan í það eins og ég hef verið að gera hér að ofan, en meðfram því verða til skýrar og sterkar myndir af samfélagi í upplausn.
Þegar maður les Macbeth í dag er auðvelt að sjá stöðu mála í upphafi sem dæmigert valdatóm og dæmigerðar afleiðingar þess. Veikur (ef til vill aldraður) konungur ríkis sem sótt er að úr öllum áttum tilnefnir ungan og mögulega hættulega reynslulítinn son sinn ríkisarfa. Metnaðargjarn herforingi hrifsar völdin og kemur á nokkuð dæmigerðri harðstjórn þar sem enginn er óhultur og ekkert er óhugsandi í viðleitni hins nýja konungs til að halda völdunum. Á sama tíma leitar hinn burtflúni ríkisarfi aðstoðar hjá nálægu stórveldi til að endurheimta krúnuna sem hann telur sig eiga rétt á. Við vitum öll hvað svoleiðis „þróunaraðstoð“ kostar alla jafnan. Þannig verðum við að skilja þessi orð úr lokaræðu Malcolms eftir sigurinn á Macbeth:
My thanes and kinsmen,
Henceforth be earls, the first that ever Scotland
In such an honour named.5.8.74–76
Ég býst við að margir lesendur og áhorfendur Macbeths deili með mér óþoli gagnvart „ensku senunni“, þar sem sögunni víkur að undirbúningi Malcolms fyrir innrás og endurheimt krúnunnar. Maður vill ekkert láta vekja sig af þeirri martröð sem smám saman er að umlykja Macbeth-hjónin. Hún er nú samt dálítið mögnuð á sinn hátt. Þessi furðulega „prófraun“ sem Malcolm leggur fyrir Macduff áður en hann þiggur liðveislu hans, þar sem hinn tilvonandi kóngur finnur sér allt til foráttu og ljær sér alla hugsanlega harðstjórnarlesti. Lengi vel þykir Macduff þeir vera ásættanlegur fórnarkostnaður. Þegar Malcolm sakar sig um óseðjandi kynhvöt sem hann muni svala á öllu í pilsi (eða þannig) er svarið:
We have willing dames enough
4.3.87
Þá segist hinn ungi konungsson vera gírugur maurapúki sem muni raka til sín auðæfum landsins. Jafnvel það stuðar Macduff ekki par:
Scotland hath foisons to fill up your will.
Of your mere own: all these are portable,
With other graces weigh’d.4.3.104–106
Það er ekki fyrr en hann lýsir sér sem óhæfum stjórnanda sem muni:
Pour the sweet milk of concord into hell,
Uproar the universal peace, confound
All unity on earth.4.3.114–116
sem Macduff er nóg boðið:
Fit to govern?
No, not to live. O nation miserable,
With an untitled tyrant bloody-scepter’d,
When shalt thou see thy wholesome days again,
Since that the truest issue of thy throne
By his own interdiction stands accursed,
And does blaspheme his breed? Thy royal father
Was a most sainted king: the queen that bore thee,
Oftener upon her knees than on her feet,
Died every day she lived. Fare thee well!
These evils thou repeat’st upon thyself
Have banish’d me from Scotland. O my breast,
Thy hope ends here!4.3.120–132
Og þar með hefur Macduff staðist prófið. Hann er ekki tilbúinn að fylgja hvaða óþokka sem er til að fella Macbeth. Macduff hefði væntanlega hætt við að kjósa Trump þegar „grab ‘em by the pussy“ upptakan birtist.
Þetta samtal er vissulega svolítið „skematískt“ og jafnast í skáldskap ekki á við helstu aríur og dúetta verksins. En magnað er það samt. Það er síðan ekkert flatneskjulegt við næsta samtal, þar sem Macduff fær fregnir af morðæðinu á heimili hans, síðasta og mest sjokkerandi illvirki Macbeths.
Allt orkar alltaf tvímælis hjá Shakespeare. Aðferð Malcolms við að sannfæra sig um hollustu Macduffs, og ekki síður viðbrögð hans við fregnunum af drápi Lafði Macduff og barnanna, bera óþægilegt vitni pólitískri kalkúlasjón. Við hugsum til feðganna Bolingbroke og Hinriks V, til Mark Anthony í Julius Caesar. Það er eitthvað krípí við þessa kalla, eins flinkir og þeir eru í því sem þeir gera. Það kemur óbragð í munninn við að heyra fyrstu orð Malcolms við sinn nýja liðsmann, sem hefur misst allt:
Be comforted:
Let’s make us medicines of our great revenge,
To cure this deadly grief.4.3.252–254
Svar Macduffs er síðan ein af setningum verksins sem endurómar í höfði manns:
He has no children.
4.3.255
Tvíbendni verksins alls gagnvart valdhöfum, innrásarherjum, erfðaröðum og hinu yfirnáttúrulega fær síðan kröftuga og ómstríða yfirtóna sé haft í huga að Shakespeare virðist hafa valið viðfangsefni, og væntanlega miðað úrvinnslu þess, við hinn nýlega krýnda konung, hinn skoska Jakob. Samt sjáum við „réttborinn“ ríkisarfa í tvíræðu ljósi, samt er enginn sérstakur dýrðarljómi yfir Banquo, sem Jakob rak ættir sínar (sennilega ranglega) til.
Hið sama gildir alveg örugglega um sýn Shakespeares á eina af sérgreinum Jakobs, galdra- og nornafræði, sem hann skrifaði um lært rit meðan hann var enn (bara) Skotakonungur. Skáldinu hefur verið þessi áhugi og þekking konungs kunnug þegar hann skrifaði í fyrsta og eina sinn leikrit þar sem nornir leika lykilhlutverk.
En einnig hér orkar allt tvímælis. Hafa nornirnar yfirnáttúrulegan mátt? Annan en það að sjá fram í tímann. Eru þetta hinar norrænu örlaganornir eða eru þær hreinlega á vegum andskotans? Og burtséð frá því tækniatriði: eru þær „illar“?
Það er í sjálfu sér alveg óþarfi að sökkva sér í nákvæma kortlagningu á hugmyndaheiminum sem verkið er sprottið úr hvað nornirnar varðar. Enda held ég að þó hægt sé að rekja einstaka hluta þess sem þær segja af atferli sínu í ýmsar heimildir, mögulega jafnvel í demónólógíu Jakobs sjálfs, þá er það dramatúrgísk staða „systranna“ sem skiptir okkur mestu máli.
Þar verður fyrst fyrir okkur þversagnarkennd staða hins forspáa í goðsögnum og ævintýrum. Það að vita hvað mun gerast, og segja frá því, hefur áhrif á atburðarásina, er eitt af því sem lætur það sem gerist, gerast. Það er eitthvað skammtafræðilegt við þetta. Macbeth er eins og köttur Schrödingers í höndum nornanna þriggja, sem kunna auðvitað vel með ketti að fara.
Þær sjá inn í framtíðina. Og þær skapa honum örlög. Þær sjá semsagt sín eigin handarverk. Öðrum þæði er eins og þær séu sér fyllilega meðvitaðar um þessa stöðu. Að þær teymi Macbeth vísvitandi áfram með tvíræðum leiðbeiningum sem virkja í honum metnaðinn (drápið á Duncan og síðan á Banquo), blóðþorstann (morðin á fjölskyldu Macduffs) og sjálfsöryggið sem verður honum að falli (skógurinn og ósæranleikinn). Eða eins og Banquo orðar það snemma í verkinu:
And oftentimes, to win us to our harm,
The instruments of darkness tell us truths,
Win us with honest trifles, to betray’s
In deepest consequence.1.3.135–138
En það er líka hægt að sjá þetta sem svo að þær séu einfaldlega að miðla honum því sem þær vita um framtíðina, án þess að í þeirri miðlun felist afstaða eða ætlan.
Í annarri senu þeirra kemur fram að þær gera allskonar „nornalega“ hluti, sigla á hripum t.d. Við þurfum ekkert að trúa því sem þær trúa, en það er ljóst að þær telja sig hafa áhrif á heiminn með athöfnum sínum. Í þeirri þriðju (ef við teljum Middletonsenuna með Hekötu ekki með) bætist í þá mynd, auk þess sem þar fáum við að vita að þær þjóna (eða telja sig þjóna) sér sterkari öflum, og það er í umboði þeirra afla sem Macbeth fær fréttirnar úr framtíðinni sem verða honum endanlega að falli.
Það er auðvitað líka fær túlkunarleið að yfirnáttúran sé ekki til, þó systurnar trúi á hana. Jafnvel að nornirnar séu einhverskonar sálfræðilegar spírur úr hugskoti Macbeths sjálfs (sem er samt alveg augljóslega ekki meining höfundar). Það sem þarf að varast er að láta eins og það þurfi ekki að hafa þessa afstöðu skýra. Í fyrrnefndri lýsingu á vinnunni við Anthony Sher-sýninguna í Stratford kemur m.a. fram að enginn í leikhópnum mátti fylgjast með vinnu nornanna við þeirra senur eða taka þátt í þeirra greiningarvinnu á textanum. Enginn mátti vita hverju þær trúðu, hvernig þær sáu heiminn. Það hljómar vel. Svo hefur maður séð sýningar þar sem engin leið var að sjá að nokkuð hefði verið pælt í þessu. Jafnvel í Þjóðleikhúsinu (hóst).
Nornasveimurinn á stóran þátt í að skapa það sem er helsta tromp þessa frábæra leikrits: andrúmsloftið. Þær eru eins og hljóðrás í hryllingsmynd: lita allt sem við heyrum og sjáum. Annað sem gegnir þar lykilhlutverki eru orðin sjálf. Svo margt hér hefur límst í heilabörkinn og býr þar til stemmingu sem hvergi er hægt að fá annarsstaðar. Það er nefnilega ekki bara fjöldi lestra eða séðra sýninga sem hefur eytt nýjabrumi Macbeth: Það er einfaldlega með eftirminnilegustu textum sem ég hef komist í tæri við. Úir og grúir af línum sem hafa límst í heilabörkinn:
Doubtful it stood;
As two spent swimmers, that do cling together
And choke their art.
There’s husbandry in heaven;
Their candles are all out.
Light thickens; and the crow
Makes wing to the rooky wood
The raven himself is hoarse
That croaks the fatal entrance of Duncan
Under my battlements.
unsex me here,
But screw your courage to the sticking-place,
And we’ll not fail.
Will all great Neptune’s ocean wash this blood
Clean from my hand? No, this my hand will rather
The multitudinous seas in incarnadine,
Making the green one red.
O, full of scorpions is my mind, dear wife!
Hell is murky!
Yet who would have thought the old man
to have had so much blood in him.
Þetta síðasta úr makalausri og einstakri svefngöngueinræðu lafðinnar, sem ég horfi reglulega á í óviðjafnanlegri túlkun Judi Dench úr rómaðri uppfærslu Trevors Nunn frá 1976. Hér er síðan önnur mögnuð og allt öðruvísi Ella – Kate Fleetwood úr uppfærslu Rupert Goold frá 2010.
Kvikmyndaðir Macbethar eru annars fjölmargir. Ég skoðaði nokkra.
Nicol Williamson og Jane Lapotaire eru hjónin í BBC-myndinni frá 1983. Sem er nokkuð fín, þó túlkunin virki ekkert rosalega pæld. Ég var hrifnari af henni þegar ég sá hana fyrst, einhverntíman upp úr ‘90, en núna pirrar másið í Williamson dálítið. Besta hugmynd leikstjórans Jack Gold er að gefa Macbeth nokkurskonar hægri hönd. Seyton (kúl nafn, prófið að segja það upphátt), dularfull aukapersóna sem varla kemur við sögu fyrr en í seinni hluta verksins í handriti er hér alltaf nálægur, slæst í för með morðingjum Banquos og er hrollvekjandi í aðförinni að fjölskyldu Macduffs. Eamon Boland hefur skuggalega nærveru í hlutverkinu.
Michael Bogdanov er Gunnar Smári Egilsson breskra Shakespeareleikstjóra og -pælara. Túlkun hans á Macbeth, eins og hún birtist í ritgerðasafninu Director’s cut, er aðallega um það hvað Malcolm sé mikill yfirstéttardrullusokkur, að England sé nýlendukúgari í Skotlandi og hvað það sé skrítið að Macbeth fái taugadrullu yfir einu morði, svona í ljósi þess hvað hann er afkastamikill drápari hvunndags. Árið 1998 gerði Bogdanov sjónvarpsmynd upp úr leikritinu þar sem þessar hugmyndir ráða ríkjum. Tónninn sleginn strax í byrjun þar sem Duncan og hans fólki er slétt sama um þjáningar hermannsins sem ber þeim fregnir af afrekum Macbeths og Banquos. Umhverfið er nútímalegt og væri mögulega „post-Apocalyptic“ ef framleiðendur hefðu látið hann hafa aðeins meira af peningum, en því miður er það bara fátæklegt og stundum hreinlega pínlegt. Túlkun Sam Pertwee á Macbeth er afleit, og greinilega enginn áhugi á því að skoða í hug morðingjans eða greina samviskukvalir, enda myndi það mögulega draga athyglina frá því hvað þessi elíta er dekadent og óholl öllu sínu umhverfi. Greta Scacchi er litlu betri sem lafðin. Bestar eru Fife-senan, sérstaklega þegar hinn ungi sonur Macduffs skvettir súrmjólk framan í tilvonandi morðingja sinn, og svo Englandssenan. Macduff er flottur hjá Lorcan Cranitch, sem er auðvitað gamall uppáhaldsmaður úr Cracker. Og talandi um uppáhaldsmenn: Jack Davenport (Coupling) er Malcolm og það er ekkert minna en óborganlegt að sjá Richard Coyle (Jeff úr þeirri grínseríu) tilkynna Macbeth að Birnhamskógur sé á leiðinni.
Þetta með þverstæðuna varðandi sálarháska stríðsgarpsins/fjöldamorðingjans yfir einu drápi enn þá er lausn Bogdanovs ófullnægjandi. Leið Kurosawas í The Throne of Blood er ekki ósvipuð – að svo miklu leyti sem Washizu/Macbeth er klikkaður þá er hann það fyrir og skánar hvorki né versnar við morðið. Aðallega er hann samt leikinn af Mifune svo það er ekki gott að segja hvað hrjáir hann, ef nokkuð annað en Nóh-vírusinn. Þetta er lang-shakespearískasta mynd Akiras, en samt er eitthvað mjög undarlegt við að kalla hana kvikmyndagerð leikritsins, hvað þá bestu kvikmyndagerð þess. Svo mjög er allri mótívasjón og gangverki breytt. Hér eru pólitísk hyggindi og refskapur í forgrunni. Rök lafðinnar fyrir drápi konungs eru skotheld, og valdataflið eftir það er meira Henry VI en Macbeth. Flott mynd samt.
Undirheimar Melbourne-borgar eru vettvangur nútímavæddrar Macbeth-myndar Geoffrey Wright frá 2006. Sem er bísna snjöll yfirfærsla efnisins og krukk í sögu og framvindu vel heppnað. Allt í kringum dána barnið og nornirnar þrusuflott og innkoma Birnham-skógar á lóð glæpaforingjans (Höskuldur: á trjábolaflutningabíl) skildi eftir „a smile in the mind“. Sam Worthington ágætlega kúl Macbeth að svo miklu leyti sem hægt er að vera kúl með ástralskan hreim.
NT Live sendi uppfærslu Kenneths Branagh á verkinu frá 2013 út, þó hún væri reyndar ekki verk þjóðleikhússins, heldur einkaframtak stórleikarans, sett upp í gamalli kirkju í Manchester. En Ken er svosem alveg eins manns þjóðleikhús og Larry-wannabe. Enduróma útsendingarinnar er enn að finna á netinu. Þetta hefur verið kröftug og á köflum frábær sýning. Það eru teknar miklar áhættur með retórískan og „stóran“ leikstíl (sem kjánar kalla „ofleik“) og oft lukkast vel hér, sérstaklega hjá Ken og stundum líka hjá Alex Kingston sem er lafðin. Þegar lukkan er ekki með þeim verður þetta reyndar talsvert pínlegt. Og því miður gerist það t.d. í svefngöngusenunni, „Tomorrow and tomorrow“ og hjá nornunum, sem eru hreint út sagt hræðilegar. Margt annað mjög gott. Til dæmis byrjunin (fyrir utan nornirnar) þar sem orrusturnar sem lýst er í upphafi verks af sendiboðum eru einfaldlega sviðsettar og svo vaðið beint í fund Macbeths og Banqous við örlög sín.
Ég lauk svo þessari áglápshrinu með því að horfa loksins á sjónvarpsmyndina sem gerð var upp úr sviðsuppfærslu Rupert Goold með Patrick Stewart og Kate Fleetwood og ég sá á sínum tíma við hæfilega hrifningu í London. Það er nú gott, því þetta er núna mögulega minn eftirlætis kvikmyndaði Macbeth. Tvennt stóð áhrifunum fyrir þrifum á sviði: konseptið (verkið gerðist í einhverskonar bunker/hersjúkrahúsi) gekk snilldarlega upp í byrjuninni (nornirnar sem hryllingsmyndahjúkkur) en þvældist síðan fyrir. Og hin hvassa rödd Stewarts var eintóna og þreytandi, sem kemur í ljós að var bara vandamál þegar hann þarf að skila hugsunum Macbeths upp á efri svalir, en er ekki bara að tala við kameru. Þá er gamli Trekkarinn svo sannarlega í essinu sínu. Ég kæri mig t.d. ekkert um að leita uppi betri meðferð á frægustu einræðu verksins. Og á skjánum nýtur konseptið sín til fulls, þar sem hægt er að fara um víðan völl og stækka hryllingsheiminn að vild. Reyndar kemur annar konseptgalli í staðinn: mjög misráðið að tengja Macbeth svona beint við Stalín og Skotland við Rússland byltingarinnar. Paralella sem hjálpar ekki neitt en dregur myndina á köflum niður í banalítet. Útfærsla ógnarstjórnarinnar er reyndar stórkostleg, hefði bara þurft að vera generískari.
Fullt af frábærum smáhugmyndum: að láta frú Macduff og börnin fylgja fjölskylduföðurnum á fund konungs, þar sem morðið uppgötvast. Þá erum við búin að sjá þau og því hryllilegra þegar þau eru myrt. Gott líka að hafa þau fleiri en eitt, og deila texta sonarins á systkynahópinn. Að sameina persónur Seytons og dyravarðarins („porter of hell-gate“). Að láta einræðu Banquos „Thou hast it now: king, Cawdor, Glamis, all,“ enda á að hann finnur hlerunatæki, sem verður kveikjan að lokaorðum ræðunnar: „But hush! no more.“ Og að láta þá feðga vera í alvörunni að flýja, en ekki bara í útreiðartúr. Morðin eru framin í lest.
Leikararnir eru allri frábærir. Ekki síst Kate Fleetwood, en líka t.d. Tim Treloar sem Ross, og hans ferðalag í gegnum martröð ógnarstórnarinnar er snilldarlega teiknað.
Túlkunin á dauða Macbeths er óvenjuleg. Goold og Stewart láta nornirnar birtast Macbeth þegar hann hefur líf Macduffs í hendi sér eftir hnífabardaga. Lokaorð hans, „Enough“ er tekið úr samhengi við setninguna sem það tilheyrir, hann tekur hnífinn af hálsi andstæðingsins og bíður þess sem verða vill. Ekki það sem Shakespeare var að hugsa en fyllilega fær túlkun. Ágætis áminning að Macbeth er ekki skrímsli, ekki vígvél, ekki bara harðstjóri og morðingi. Heldur maður. Og ekki bara maður heldur maður með ofvirkt ímyndunarafl og búinn öflugri tækjum til að tjá hugsanir sínar en nokkrum slíkum hefur nokkurntíman verið útdeilt.
Það verður eitthvað undan að láta.
Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.