Ljónshjartað og ég

Sannsögulega smásaga

Þegar Nelson Antonio Haedo Valdez var strákur vissi hann ekki að hann myndi ekki einu sinni, heldur tvisvar stela sigrinum af Argentínu á fótboltavellinum. Fyrra skiptið var þann níunda september 2009 á Defensores del Chaco vellinum í Asunción þegar Nelson, þá 26 ára, skoraði sigurmarkið á 27. mínútu. Seinna skiptið var þann þrettánda júní 2015 þegar Paraguay vann upp tveggja marka mun, þar sem Nelson skoraði á 59. mínútu og Lucas Barrios á þeirri 89. Í bæði skiptin var leikmaður Argentínu númer 10 á vellinum, Lionel Andrés Messi Cuccittini.

Nelson litla dreymdi frá unga aldri um að leika með la Albirroja, rauðhvítklæddu landsliði Paraguay í fótbolta og það má segja að fótbolti hafi ráðið ferðinni í lífi hans. Hann ólst upp í svo mikilli fátækt að fjölskylda hans átti ekki efni á fótbolta en Nelson æfði sig samt sem áður með því að æfa leikni sína með því að sparka í sokkapar eða appelsínu. Nelson eyddi mestum tíma sínum í að æfa sig í fótbolta. Hann lenti þó í því áfalli að missa þrettán ára frænda sinn og eftir það byrjaði hann að drekka ótæpilega af paraguayska sykurreyrsromminu, caña. Hann segist í viðtali hafa æft fótbolta á daginn og drukkið sig fullan á næturnar áður en hann varð fimmtán ára. Hann segir þar jafnframt að hann hafi næstum því orðið áfengissýki að bráð áður en faðir hans talaði við hann og kom honum í skilning um hvað hann ætti að gera.

Saga Nelsons Haedo, sem líka er kallaður Guaraní-ljónið (León Guaraní) og Ljónshjarta (Corazón de león) er líklega ekki einsdæmi en er áhugaverð fyrir mig. Ég var skiptinemi í Paraguay í eitt ár, árið 2008 og varð vitni að ýmsu sem breytti mér sem manneskju. Ég varð til dæmis vitni að forsetakosningunum þetta árið þegar Fernando Lugo bar sigur úr býtum en það var í fyrsta sinn í 61 ár sem Colorado-flokkurinn vann ekki forsetastólinn. Ég fylgdist líka með landsleikum í fótbolta þar sem Paraguay vann Brasilíu 2-0. Síðan þá hef ég verið hugfanginn af liðinu þó að því hafi gengið misvel í gegnum tíðina.

Eins og Nelson, átti ég líka draum þegar ég var ungur strákur en hann var sá að verða rithöfundur. Þegar önnur börn voru spurð hvað þau vildu verða þá sögðu lögga, slökkviliðsmaður eða kannski læknir en ég svaraði fullum hálsi rithöfundur, sama hvað. Ég hætti því samt þegar ég var nógu gamall til að átta mig að þetta þótti fólki skrýtið eða bara fyndið og þá byrjaði ég að segja eitthvað annað sem ég man ekki lengur. Ég gleymdi samt aldrei fyllilega draumnum og hann hefur fylgt mér síðan. Tvítugur gaf ég sjálfur út fyrstu skáldsöguna mína, Allir litir regnbogans, sem vakti litla athygli sem betur fer. Síðan þá hefur næsta verk alltaf verið í vinnslu en aldrei verið nógu gott.

Þegar Nelson var fimmtán ára fluttist hann til Ypané þar sem hann byrjaði að æfa með Club Atlético Tembetary. Vandræðum hans var þó hvergi nærri lokið þar sem Tembetary lék í annarri deild í Paraguay á þessum tíma og gat ekki borgað honum nóg til þess að lifa af fyrir spilamennskuna. Eina heimilið hans á þessum tíma var beddi undir áhorfendapöllunum á leikvellinum. Auk þess vann Nelson á nækturvöktum í sögunarmyllu til að eiga fyrir mat og drykk. Hagur hans vænkaðist þegar Jürgen Born, stjórnarmaður í Werden Bremen sá hann spila og keypti handa honum miða til Þýskalands. Þar komst hann að í Werden Bremen II í Regionalliga í annarri tilraun. Á þessum tíma talaði Nelson ekki orð í þýsku og gat rétt svo bjargað sér með spænsku, þar sem móðurmál hans var guaraní. Fyrstu mánuðina borðaði hann nánast ekkert annað en djúpsteiktan kjúkling og franskar því hann gat séð það selt í gegnum gluggana á veitingastað í nágrenninu.

Nú væri gott að eiga einhverja slíka dramatík að baki. Þá gæti ég til dæmis lýst æsku þar sem ég ælist upp í sárri fátækt, færi að heiman og byggi í hústöku ásamt öðrum. Þar hefði ég ekki getað gert annað en að skrifa í stílabækur sem ég stæli og yrði svo loks uppgötvaður á einhverju götuhorni eða myndi vinna styrk til að hefja nám í ritlist við Háskóla Íslands. Sannleikurinn er svo miklu leiðinlegri, þar sem ég á nokkuð ánægjulega æsku, fer í MH og svo í Háskóla Íslands þar sem ég læri íslensku, spænsku og svo ritlist. Það eina sem ég get kvartað yfir er að ég þótti frekar skrýtinn þegar ég var yngri, hafði meiri áhuga á að lesa bækur en að spila fótbolta. Kannski fór ég þess vegna til Paraguay, hver veit?

Eftir að Nelson var kominn til Þýskalands og byrjaður að æfa af einhverri alvöru án þess að hungur og húsnæðisleysi aftraði honum fór ferillinn á flug. Fyrsta alvöru liðið hans var Werder Bremen en síðan spilaði hann með Borussia Dortmund, Hércules og Valenciu á Spáni, svo með Eintracht Frankfurt í Þýskalandi og Seattle Sounders FC í Bandaríkjunum. Núna spilar hann með paraguayska liðinu Cerro Porteño og mun líklega enda góðan feril sinn þar. Draumur hans um að spila með landsliðinu rættist og skoraði hann þrettán mörk með liðinu, þar með markið sem tryggði Paraguay sigur gegn Argentínu. Svo skoraði hann síðasta markið sitt með landsliðinu í 2-2 jafntefli á Copa América 2015, þá einmitt líka gegn Argentínu.

Þegar ég hugsa um Ljónshjartað Nelson Haedo, þá hugsa ég um þrautseigju, þrautseigju þess sem aldrei gefur drauminn upp á bátinn og heldur alltaf áfram sama hvað á dynur. Ég held allavega að það hafi ekki verið eintóm heppni hjá honum að spila sig út úr aðstæðum þar sem hann lék sér með appelsínur upp í það að spila á stóra sviðinu á HM 2006 og 2010. Ég held að við getum öll lært eitthvað um þrautseigju og hugrekki hjá þessum merkilega fótboltamanni. Einmitt þegar mig vantar innblástur til að halda áfram þá horfi ég á mörkin hans Nelsons og veit að draumurinn lifir.