Sögurík, innflutt, staðbundin, erlend áhrif – espressobarinn est. 2018

Egill Sæbjörnsson og Ívar Glói Gunnarsson ríða á vaðið í sérstakri sýningarröð Wind and Weather Window Gallery í tenglsum við listahátíð í Reykjavíkurbæ. Þeir félagar bjóða upp á rjúkandi kaffisopa í annexiu eða ferða-útibúi WWWG sem kallast Dragsúgur. Dragsúgur er hugarfóstur Kathy Clark, sýningarstjóra WWWG og er veigamikill hluti af sýningunni Leiðin heim sem er stýrt af Annabelle von Girsewald og Kathy Clark. Ekki er ætlunin að fjalla hér um Dragsúg sérstaklega þó gaman væri en í einfölduðu máli er um að ræða eftirlíkingu gluggans á Hverfisgötunni ásamt með dyrum og sýningarrýminu fyrir innan. Frágangur er allur í takt við frummyndina. Bakliðin er hvítmálað grindarefni og spónaplötur; úthverfa sýningarrýmisins, en framhliðin er eins og Hverfisgata 37; grænmálað bárujárnshús. Hér hafa sýningarstjórar sem sagt koppí-peistað galleríið út á götu hvaðan það mun svo mjaka sér um bæinn með mismundandi sýningar innanborðs. Næsta stopp Dragsúgs og espressobar er við Austurvöll 2. – 8. júní.

Hér læt ég sem sagt nægja að fjalla um þessa fyrstu innsetningu þeirra Egils og Ívars, og það má kannski fljóta með að verkið er yfirgripsmikið og mætti sem hægast hafa um það langt mál, en því er ekki að heilsa að þessu sinni.

Áfram gakk: sýningarrýmið er eftirmynd í sjálfu sér (í skalanum 1:1)1 og er hér því um tvöfalda eftirmynd að ræða, eða tvíþætta: sýningarrýmið annars vegar og hins vegar verk Egils og Ívars, espressobarinn, þar sem þeir hafa hannað inn í Dragsúg kaffihús með espressóvél, haganlega sniðnu borði, stólum, myndum á veggjum, tónlist og lýsingu. Allt yfirbragð ber með sér að hér er ekki tjaldað til einnar nætur. Veggfóðrið er kaffihúsa/skyndibitakeðjulegt, minnir á staði sem minna á sjálfa sig (ógleymanlegir). En á því er ekki firmamerki eða slagorð heldur teikningar tvíeykisins ásamt ábendingu um að þarna sé ekki hægt að komast í wifi. Aðspurðir vildu Egill og Ívar Glói meina að það væri að færast í aukana að kaffihús biðu ekki upp á frían netaðgang og telja að tvennt komi til; annars vegar til að virðast ýta undir munnleg og líkamleg samskipti fólks og hins vegar til að forðast að vera ódýrt skrifstofuhúsnæði. Á veggjum eru svarthvítar myndir af stöðluðum mótívum, pottaplöntur, rjúkandi kaffibollar o. fl. slíku sem þeir sameinuðust um að lita ofan í og umbreyta ásamt að leggja yfir myndirnar filter sem á uppruna sinn í Instagram appinu. Þannig erum við komin með annan fótinn í fýsíska sviðsmynd og hinn í sýndarveruleika hins stafræna heims en þar hefur Egill lengi búið. Ef þetta eru jákvæð og neikvæð skaut, þá eru til jarðtengingar grófunnir leirmunir upp um alla veggi.

Bragakaffi – bragabót

Fljótt á litið gæti þetta kaffihús allt eins verið Starbucks eða álíka. Aðeins við nánari grennslan sést að hér er um eftirmynd að ræða en ekki frummynd. Þó er eitt sem slær mann strax. Verðið. Kaffi á hundrað kall! Farðu úr bænum!

Og það er full ástæða til að fara úr bænum. Hringavitleysan sem kallast á enskri tungu Gentrification veður uppi í Reykjavík án mikilla sjáanlegra mótbára. Ferill Gentrification er í einfölduðu máli svona: ákveðin og rótföst menning fyrirfinnst á litlu svæði. Í þá menningu og andblæ sækir fólk af stærra svæði og fjölskrúðugt líf þrífst. Ómurinn af þessu lífi berst til eyrna fjármagnsaflanna sem vilja þá markaðsvæða hressilega. Þau segja sem svo:

  • Þetta er æðislega skemmtilegt
  •  list! list! list!

en

  •  ýmislegt má betur fara
  • best að hafa þetta eins og hjá (vönduðu) fólki
  • (engar áhyggjur, við gerum hlutina eins og þið mynduð vilja hafa þá (bara án ykkar))!

Svo opnar Starbucks (Reykjavík Roasters) og Dunkin’ donuts (Brauð og Co.) og í stað frummyndar er komin eftirmynd (af allt annarri frummynd). Koss dauðans er kaldur og tilfinningalaus. Koss dauðans er stífur. Koss dauðans er generískur. Koss dauðans er fitusnauður. Þó koss dauðans finnist aðeins í snefilmagni (<1%) er hann á allra vörum. Koss dauðans lifir í borg óttans. Koss dauðans lítur út eins og koss.

Er verkið að hlaupa með mig í simulacrum?

Ég átti smá spjall við listamennina og fannst þeir vera á þessum slóðum, þó ég ætli þeim ekki neina eina pólitíska meiningu. Sviðsetningin er þeim hugleikin, þó þeir komi kannski að henni hvor úr sinni áttinni. Ívar Glói Gunnarsson hefur áður í verkum sínum unnið með generískar myndir og hluti. Myndir teknar í eða úr erkisviðsmyndinni IKEA t.d. Hann hefur annan fótinn í hinu hversdagslega en látum það liggja milli hluta. Hér er það hugmyndin um sviðsmynd sem vekur áhuga. Hætti maður sér út í Jean Baudrillard, sem óneitanlega kemur upp í hugann, mætti segja í hans anda að mannleg reynsla er sviðsmynd (og espressobarinn er reynslu-/venslaverk (relational art). Sviðsmyndin er sýndar- eða samheitaveruleikinn (simulacra) holdi klæddur. Samkvæmt kenningu Baudrillard lifum við í táknmyndinni, orginallinn er okkur hulinn. Táknmyndin er hið sanna því hún þagar yfir fjarveru sannleikans. Og svo maður slengi óábyrgt fram í tímaskorti einhverju hressandi: Sviðsmyndin er fölsun. Hún er þessvegna það sannasta sem við sjáum. Í tilviki espressobarsins blasir þetta raunar við sem staðreynd. Hvort er sannara, sviðsmynd sem læst vera kaffihús, eða kaffihús sem læst byggja á rótgróinni, staðbundinni hefð að erlendri fyrirmynd!?

Ekki benda á mig

Öll erum við saklaus í lýðræðinu. Við leggjum okkar litla lóð á vogarskálarnar, en sundrungaröfl peninganna eru svo kynngimögnuð að með vanmætti einstaklingsins sigra þau samtakamáttinn. Tilvera okkar er sögufölsun og staðleysur. Saga okkar er sögufölsun eða hliðruð saga annarra. Við búum við innflutt staðbönd og afsögun staða. Við erum í sviðsmynd og verkið ber eitthvert lýsandi, óinnblásið gamaldags heiti eins og espressóbarinn sem er að þessu leiti menningarpólitískt verk.

Að lokum

Verðlag mætti flytja inn i meiri mæli.

 

   [ + ]

1. Eins og kortið af Konungsríkinu í smásögu Jorge Louise Borges, Um vísindalega nákvæmni (Del rigor en la ciencia)