ALLT SEKKUR IX
ef ég ætti dýragarð
þá myndi ég hafa
búr með mönnum
auðvitað
þyrfti að virða
mannréttindi
þeirra sem væru til sýnis
og kjarasamninga sömuleiðis
ég myndi bjóða
þessu fólki
lífsskilyrði
sem væru beinlínis
eftirsóknarverð
í augum gestanna
þetta væru fyrirmyndareinstaklingar
fremur en einhverjir vesalingar
ég hef nú þegar
augastað á ungum lækni
það er konan
maki hennar er uppeldisfræðingur
sem spilar frídjass
það er maðurinn
þau eiga falleg börn
stúlku
dreng
stúlku
það veit enginn
hvað kemur næst
ef þau kjósa að bæta einu við
(ég veðja á dreng en í mínum huga er hvert barn blessun)
það væri samfélaginu
hvatning að geta séð
hvernig þau lifa
því af þeim má læra
svo margt
sem er of langt mál
að tíunda hér
en á búrinu myndi standa
„Skandinavíska módelið“
og þau myndu flokka
og skila
börnin myndu föndra
úr því
sem ekki er hægt
að endurvinna
með öðrum hætti
þau myndu skapa
sinn eigin heim
innan veggja
dýragarðsins
sem fólk
myndi
koma til
að
sjá
það
yrði
ljós
inni
í
höfðunum
ljós
sem
ég
hefði
tendrað
með
orði
soldið
eins og guð
Haukur Ingvarsson hlaut í dag 18. október Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2018 fyrir ljóðahandritið Vistarverur .
Haukur Ingvarsson er fæddur árið 1979. Hann lauk meistaraprófi í íslenskum bókmenntum árið 2005 og hefur síðan fengist við ritstörf og dagskrárgerð í útvarpi. Hann leggur nú stund á doktorsnám í íslenskum bókmenntum og skrifar um viðtökur Williams Faulkner á Íslandi.
Fyrsta ljóðabók Hauks, Niðurfall og þættir af hinum dularfulla Manga, kom út 2005 og í kjölfarið komu fræðibókin Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) og skáldsagan Nóvember 1976 (2011).
Í niðurstöðu dómnefndar segir:
„Í ljóðabók Hauks Ingólfssonar eru margar Vistarverur. Orðið sjálft, vistarvera, gefur til kynna tilfinningu fyrir stað og íbúa auk þess að vísa til tilvistarinnar sjálfrar og stöðu verunnar í henni. Allt þetta kemur saman í ljóðunum en þau einkennast af vangaveltum um tengsl hins efnilega og hins andlega, með áherslu á samfellu þessa.
Þannig verða byggingar og skip framlenging af sjálfi ljóðmælanda, minningar og draumar taka á sig áþreifanlega mynd í hinum ýmsu vistarverum og veruleikinn sjálfur er jafnframt bundin upplifunum og tengslum við stað og stundir. Ljóðmælandi er á stundum líkt og einskonar draugur í eigin tilveru, hann veltir fyrir sér stöðu sinni í umhverfi sínu og sjálfsmynd og gluggar í stórar spurningar jafnt sem smáar.
Tóntegundin einkennist af hógværð í bland við íhygli og kímni. Heildarmyndin er falleg, margræð og fjölkunnug.“