Ingvar E. Sigurðsson lék í uppfærslu Borgarleikhússins á Ofviðrinu 2011.

Eybyggja saga

Atburðarás
Á heimleið frá Túnis, þar sem hann gifti dóttur sína konungnum, lendir Alonso Napólíkóngur í sjávarháska og skip hans ferst við strendur lítillar eyjar. Allir komast þó af, og í raun ferst skipið ekkert, heldur var stormurinn sjónhverfing á vegum æðstráðanda skersins, Prosperos, fyrrum hertoga í Mílanó. Þangað komst hann með kornunga dóttur sína, Miröndu, eftir að Antonio bróðir hans rændi völdunum. Antonio er í föruneyti Alonsos á eyjunni, ásamt Sebastian bróður Napólíkonungs og ráðgjafanum Gonzalo. Sonur Napólíkonungs, Ferdinand er þarna líka, en viðskila við hirðmennina. Prospero er göldróttur og hefur í þjónustu sinni andann Ariel sem hann bjargaði úr prísund sem fyrri drottning eyjarinnar, alsírska nornin Sycorax, hafði hneppt hann í. Einnig hefur hann hneppt í þrældóm son Sycoraxar, Caliban að nafni, sem á illa ævi eftir að hann reyndi að nauðga Miröndu. Prospero leiðir saman dóttur sína og Ferdinand, og takast umsvifalaust ástir með þeim, sem Prospero reynir að hemja með ýmsum ráðum þó hann sé í raun ákaflega sáttur við ráðahaginn. Sebastian og Antonio ráðgera að myrða Alonso og koma Sebastian í konungsstólinn í Napólí, en eru stöðvaðir í tvígang af töfrum Ariels. Annað valdarán er líka í uppsiglingu, því tveir aðrir skipbrotsmenn, hirðfiflið Trinculo og brytinn Stephano slást í för með Caliban og hyggjast myrða Prospero og taka völdin á eyjunni. Öllum þessum áformum tekst Prospero og Ariel þó að afstýra. Prospero stefnir að lokum öllum skipbrotsmönnunum á sinn fund, en ákveður að hefna sín ekki eftir allt saman heldur gefa öllum upp sakir, brjóta galdrastaf sinn og sökkva bókinni. Halda síðan til lands og fagna brúðkaupi dóttur sinnar, verðandi Napólídrottningu, og bíða því næst dauða síns í sátt við guð og menn.

Ég veit ekki hvenær ég kom mér upp illum bifri á The Tempest. Mögulega við lestur þess í Háskólanum, þar sem engin leið var að tala um það öðruvísi en með nýlendukúgun sem eina útgangspunktinn. Mögulega þegar ég sá það hjá Leikfélagi Vestmannaeyja vorið 1993 sem þar reisti sér ákaflega þunglamalegan hurðarás um öxl. Líklega gerðist þetta ekki á neinum einum tímapunkti og mikilvægasti þátturinn í þessari fæð er trúlega mærðarfullt hæpið sem hefur fylgt þessum texta gegnum aldirnar og sér ekki fyrir endann á.

Ég hef verið að grúska aðeins í skrítnum kommentum austurríska heimspekingsins Ludwig Wittgenstein um Shakespeare. Hann nær engu sambandi við skáldið og reynir að greina af hverju. Sú greining er blandin gremju yfir hvað aðrir andans menn eru hrifnir, og hann efast mjög um heilindi margra aðdáendanna. En gremjan beinist samt aðallega að skáldinu. Mér líður svolítið svona gagnvart The Tempest, þegar ég reyni að nálgast það gegnum kliðinn af upphrópunum á borð við „hápunktur listar Shakespeares“. „Dýpsta verkið“, „Kveðjuorð skáldsins til leikhússins“, „Meistaraverk“. „Perfect“ er orð sem er notað um The Tempest. T.d. af þeim frábæra Shakespeare-greinanda Marjorie Garber. En er það rétt hjá henni? 

Ef elegans er það sem átt er við, þá já kannski. Þar sker verkið sig t.d. afgerandi frá forverum sínum í Rómönsudeildinni. Eins og frægt er þá er The Tempest það Shakespeareverk sem kemst einna næst því að virða hinar „Aristótelísku einingar“ staðar, tíma og atburðarásar. Þá benda Arden-editorarnir Virginia Mason Vaughan og Alden T. Vaughan á fagra samhverfu í byggingu þess. Ef við lítum á skipsskaðaatriðið í byrjun sem inngang og lokaatriðið sem eftirmála eru sjö senur í verkinu. 2 og 8 snúast um Ferdinand, Prospero og Miröndu. Í þeirri fyrri heldur Ferdinand að hann hafi misst föður sinn, í þeirri seinni gengur Prospero honum í föðurstað með trúlofun þeirra Miröndu. 3 og 7 segja frá eðalbornu skipbrotsmönnum og plotti Antonios og Sebastians gegn Alonso. 4 og 6 eru helgaðar Caliban og fyllibyttunum og þeirra áformum um valdarán og miðpunkturinn, fimman, er síðan helgileikurinn sem Prospero setur á svið fyrir kærustuparið.

Þetta er auðvitað smart. En leikrit eru ekki Pascalþríhyrningar. Ef fullkomnun í leikhúsi felst í þessu þá hrekkur hún ansi skammt til að skapa líf á sviði. Ég var svolítið að vona/búast við að augu mín lykjust upp varðandi snilld Ofviðrisins í þessum lestri, en það varð nú ekki. Þrátt fyrir alla augljósa kostina heldur The Tempest áfram að vera sérkennilega ófullnægjandi drama.

Hvað t.d. með senu tvö, þá skelfilega klunnalegu upplýsingaveitu, þar sem við erum mötuð á forsögunni eins og frönsk gæs? Fyrst sorgarsagan af valdaráni Antonios og bátsferðinni með barnið, þar sem við njótum þess þó að upplifa hana með Miröndu sem er að heyra hana í fyrsta sinn (að því er virðist). En svo koma bæði sögurnar af frelsun og þakkarskuld Ariels og svo skólagöngu og nauðgunartilraun Calibans. Í þeim samtölum við fáum upplýsingar undir formúlunni „varstu kannski búinn að gleyma að ….“ og svo fá persónurnar langar útlistanir á eigin fortíð, sem þær auðvitað muna dável.

PROSPERO
Thou liest, malignant thing! Hast thou forgot
The foul witch Sycorax, who with age and envy
Was grown into a hoop? hast thou forgot her?

ARIEL
No, sir.

PROSPERO
Thou hast. Where was she born? speak; tell me.

ARIEL
Sir, in Argier.

PROSPERO
O, was she so? I must
Once in a month recount what thou hast been,
Which thou forget’st. 

1.2.308–316

Þetta er nú ekki samboðið manni með hæfileika og bransareynslu Shakespeares, er það? Illræmdasta dæmið um svona senu er þrumuræða séra Manders yfir frú Alving í Afturgöngum Ibsens. Ég hef séð paródíuuppfærslu á því verki þar sem frúin var látin sofna úr leiðindum undir upplýsingainnspýtingu prestsins. Lái henni hver sem vill.

Þetta er nú samt ekki stóra málið. Aðalvesenið fyrir leikrænan áhrifamátt The Tempest er sú dramatíska dauðasynd að gefa einni persónunni yfirnáttúrulegt alræðisvald yfir atburðarásinni. Við fáum strax í 1.2 að vita að stormurinn var sjónhverfing, skipið sé óskaddað og bíði í nálægri vík með áhöfninni sem haldið er sofandi. Jafnframt hefur þeim sem Prospero á eitthvað vantalað við verið skolað á land í þremur aðskildum hópum, allt eftir áætlun. Og þegar Sebastian og Antonio byrja á sínu valdaránsbrölti gagnvart bróður þess fyrnefnda þá er annarsvegar eins og það sé partur af plotti Prosperos, eða allavega aldrei neinn möguleiki á að því verði hrint í framkvæmd, með Ariel sífellt á kantinum að hleypa öllu upp. Engin spenna semsagt. Eins er með samdrátt Miröndu og Ferdinands, sem bæði er algerlega átakalaus þar sem þau elska hvort annað frá fyrstu tíð, og svo er hittingur þeirra á vegum kallsins, sem reynir aðeins að halda þeim í sundur fyrir siðasakir og til að viðhalda einhverri spennu, ekki af neinum „raunverulegum“ meinbugum. Flatneskjan í atburðarásinni er nánast alger. Meira að segja uppreisnartilraun Calibans og skipbrotsþrjótanna Stephano og og Trinculo, sem eru sennilega ekki partur af plani eyjajarlsins heldur eina aukaverkunin, er fyrirséð af Ariel og afstýrt algerlega áreynslulaust af Prospero.

Hann er nefnilega ansi öflugur galdrakarl. Undir lokin deilir hann með okkur cv-inu sínu í einni af frægustu ræðum verksins, og kanónunnar allrar:

Ye elves of hills, brooks, standing lakes and groves,
And ye that on the sands with printless foot
Do chase the ebbing Neptune and do fly him
When he comes back; you demi-puppets that
By moonshine do the green sour ringlets make,
Whereof the ewe not bites, and you whose pastime
Is to make midnight mushrooms, that rejoice
To hear the solemn curfew; by whose aid,
Weak masters though ye be, I have bedimm’d
The noontide sun, call’d forth the mutinous winds,
And ‘twixt the green sea and the azured vault
Set roaring war: to the dread rattling thunder
Have I given fire and rifted Jove’s stout oak
With his own bolt; the strong-based promontory
Have I made shake and by the spurs pluck’d up
The pine and cedar: graves at my command
Have waked their sleepers, oped, and let ’em forth
By my so potent art. But this rough magic
I here abjure, and, when I have required
Some heavenly music, which even now I do,
To work mine end upon their senses that
This airy charm is for, I’ll break my staff,
Bury it certain fathoms in the earth,
And deeper than did ever plummet sound
I’ll drown my book.

5.1.42–66

Hann veður svolítið úr einu í annað, en afrekaskráin sem byrjar í 9. línu er nokkuð svakaleg: Prospero stýrir veðrum: lætur sólina hverfa og magnar upp storma og stórsjóa. Hann hefur sært fram eldingar og spilað þar í deild með sjálfum Júpíter. Hann hefur látið jörð skjálfa og vakið hina dánu af svefni sínum. Þegar hér er komið sögu á galdrakarlaferlinum lætur hann reyndar Ariel alfarið um „skítverkin“ – og kannski var það alltaf svo, svona svipað og þegar talað er um að Henry Ford hafi smíðað svo og svo marga bíla, eða Þjóðleikhúsið sé verk Guðjóns Samúelssonar. En hvað sem öðru líður þá hefur Prospero nægilegt galdramagn til að halda Ariel undirgefnum, svo hann má taka það kredit sem hann vill.

FERDINAND
May I be bold
To think these spirits?

PROSPERO
Spirits, which by mine art
I have from their confines call’d to enact
My present fancies.

4.1.132–136

Galdrar Prosperos eru ekki afrakstur hæfileika heldur lærdóms. Þannig eru þeir til komnir í heimi verksins. Við getum gefið okkur að það sama hafi gilt um galdrakerlinguna sem áður réði hér ríkjum. Allavega hefur sonur Sycoraxar, hann Caliban, enga slíka hæfileika og er því ofurseldur mætti Prosperos. Þar sjáum við enn annan hlut í vopnabúri galdrameistarans:

For this, be sure, to-night thou shalt have cramps,
Side-stitches that shall pen thy breath up; urchins
Shall, for that vast of night that they may work,
All exercise on thee; thou shalt be pinch’d
As thick as honeycomb, each pinch more stinging
Than bees that made ’em.

1.2.389–294

Það er óhjákvæmilegt, að spyrja sig hversvegna svona almáttugur (eða því sem næst) seiðkarl er ekki löngu búinn að koma sér og dótturinni aftur til Ítalíu og hinum illa bróður fyrir kattarnef. Óhjákvæmilegt en fánýtt. Svona er leikritið. Sömu spurningar vakna, ef maður fer í pedantagallann, við að skoða hitt leikrit Shakespeares með göldróttum lykilpersónum. Sem er kannski ekki svo mikil tilviljun að er einmitt annað af örfáum verkum skáldsins þar sem atburðarásin og persónugalleríið er alfarið hans sköpun. Og það eru ekki einu samkenni The Tempest og A Midsummer Night’s Dream. Ariel og Puck eru náskyldir. Hraðfleygir hjálparkokkar sem hrekkja og villa fólki sýn til að ná fram vilja húsbænda sinna. Ariel er að sönnu talsvert óskeikulli en Puck, sem aftur er sýnu sáttari í starfi, glímir ekki við kulnun eins og kollegi hans. En skyldir eru þeir, og skapa álíka pytti fyrir leikara eins og t.d. blasir við ef horft er á Roddy McDowell í sjónvarpsmyndinni frá 1960, sem ég ætla aðeins að minnast á síðar. Báðir fá þeir Oberon og Prospero sínu framgengt með tröllskap sínum. 

Shakespeare er sérkennilega kærulaus með frágang enda í lok The Tempest. Eða kannski ekki kærulaus, meira svona hraðvirkur. Prospero hefur alla í hendi sér, hann hefur beðið þessarar stundar í tólf ár. Það sýður í honum hefndarþorstinn. Og svo hverfa þau áform eins og dögg fyrir sólu. Á einu andartaki:

ARIEL
Your charm so strongly works ’em
That if you now beheld them, your affections
Would become tender.

PROSPERO
Dost thou think so, spirit?

ARIEL
Mine would, sir, were I human.

[Hér!]

PROSPERO
And mine shall.

5.1.21–26

„Were I human“. „Hath not a Jew eyes?“ Settu þig í mín spor og ég skal setja mig í þín. Til þess er leikhúsið. Það virðist vera það sem snýr Prospero frá vegi hefndarinnar að vegi sáttar. Ekki beinlínis fyrirgefningar, því samskipti hans við bróður sinn eru nánast engin eftir að hann afhjúpar sig. Prospero mun sigla heim, hætta að galdra og taka við gamla starfinu sínu. Dóttir hans verður væntanlega drottning í Napólí og mögulega munu þau Ferdinand (eða hann allavega) líka stjórna Mílanó, eins umhendis og það virkar á landakortinu. Við fáum ekki að vita hvað verður um Antonio, eða hvað honum finnst um þetta allt. Samt kalla sumir The Tempest „a perfect play“ og vilja jafnframt meina að það sé fyrst og síðast um fyrirgefningu. Það gengur ekki upp. Sú fyrirgefning sem á sér stað fer fram þegjandi og hljóðalaust. En þó fyrst og fremst óundirbyggt, sem er dramatísk dauðasynd.

Það gerist ekki margt í The Tempest, en við hlýðum á stórfenglegan skáldskap og kynnumst forvitnilegu fólki. Enginn er eins forvitnilegur og Caliban. Enginn er eins einstakur. Það er enginn annar Caliban í kanónunni. Uppruninn, staðan, útlitið. Allt setur þetta Caliban í sér-bás í Shakespearelandi. Eina skrímslið, eini þrællinn. Aðeins Ríkarður III og Falstaff komast nálægt honum hvað varðar ummæli um útlit, og lýsingarnar á Caliban skera sig úr fyrir að vera mótsagnakenndar og óljósar. Og alltaf spurning um hvað ber að taka bókstaflega og hvað eru einfaldlega gildisdómar og diss sem vísar ekki í útlit. Svona eins og að Ríkarður er ekki „bottled spider“, og það sjá allir, en allir vita samt að þarna er honum rétt lýst, helvítinu áonum. 

Hér eru nokkur ummæli um Caliban:
A freckled whelp … not honour’d with a human shape … Thou poisonous slave … Hag-Seed …  A strange fish …Legged like a man and his fins like arms … moon-calf … puppy-headed monster … Thing of darkness …

Að staðsetja Caliban á maður–skrímsli kvarðanum er ein af mikilvægustu ákvörðunum í túlkun verksins á sviði. Hvaða trúnað á að leggja í ummæli hatursmanna (Prospero og Miranda) og óáreiðanlegra blindfullra vitna (Stephano og Trinculo). Hversu erfitt á að gera áhorfendum að sjá hið mannlega í honum? Sjá hann sem verðugan herra eyjarinnar og yfirráð Prosperos sem valdarán. Því atburðakeðja The Tempest er í raun líkust rósastríðafjórleiknum sem Shakespeare hóf feril sinn á. 

Antonio steypir Prospero með hjálp Alonsos – Alsírkóngur gerir Sycorax útlæga – Sycorax tekur völdin á eyjunni (við vitum ekki hvort hún steypti einhverjum eða kom að ónumdu landi – Sycorax deyr og Caliban erfir krúnuna – Prospero kemur og steypir Caliban – Antonio og Sebastian plotta að steypa Alonzo – Caliban, Stephano og Trinculo plotta að steypa Prospero – Prospero steypir Antonio.

Það er Caliban sem heillar og samband hans og Prosperos hefur mikið til stýrt því hvernig er hugsað um þetta leikrit frá því um miðja tuttugustu öldina. Frá því að nýlendukúgun verður hluti af meðvitund Vesturlandabúa hefur verið nánast borðleggjandi að skoða verkið undir þeim vinkli. Prospero finnur „villibarnið“ Caliban í eynni og „tekur hann að sér“. Kennir honum sitt mál, lætur hann leika við dóttur sína, sem einnig kennir honum. Caliban kemur líka með sitthvað inn í þetta samband, vísar nýbúunum á fæðu og aðstoðar þau. Smám saman er hann orðinn ómissandi vinnudýr og eftir dramatískt atvik nokkrum árum áður en leikritið hefst er hann endanlega hnepptur í þrældóm.

PROSPERO
I have used thee,
Filth as thou art, with human care, and lodged thee
In mine own cell, till thou didst seek to violate
The honour of my child.

CALIBAN
O ho, O ho! would’t had been done!
Thou didst prevent me; I had peopled else
This isle with Calibans.

1.2.413–419

Það er umtalsverður vandræðagangur í fræðunum um þessi orðaskipti. Það er ótrúlega algengt að þessi atvikalýsing sé dregin í efa, að velmeinandi og pólitískt rétthugsandi fræðingar setji gæsalappir utan um orðið „nauðgun“ í greiningu sinni á The Tempest: Kynþættir og nýlendukúgun trompa feminisma hjá „góða fólkinu“, ef svo mætti segja. Það er samt ekki eins og þetta sé einangrað tilvik. Afstaðan er enn sú sama þegar Caliban leggur á ráðin um hefnd sína og endurheimt valdanna:

CALIBAN
… And that most deeply to consider is
The beauty of his daughter;  ….

STEPHANO
Is it so brave a lass?

CALIBAN
Ay, lord; she will become thy bed, I warrant.
And bring thee forth brave brood.

3.2.107–115

Þannig að það að hneppa Caliban í þrældóm er auðvelt að sjá sem illa nauðsyn. Eða jafnvel: það að drepa hann ekki var ill nauðsyn, einhver þarf jú að veiða í matinn og sækja eldivið. Úr því að galdramáttur Prosperos hrekkur af einhverjum ástæðum ekki til að fást við svona hvunndagsraunir.

En allavega: forsaga, valdatafl og grunnafstaða Prosperos og Calibans hefur ansi marga snertipunkta við nýlendukúgun, forsendur hennar og afleiðingar fyrir alla hlutaðeigandi. Þessi vinkill hefur verið ansi ríkjandi í skoðun á The Tempest, bæði í skólastofum og á sviði frá því upp úr miðri síðustu öld. Á henni eru finnst mér tveir ágallar:

a)

Það er mjög hæpið að Shakespeare hafi beinlínis ætlað sér að segja eitthvað um nýlendukúgun. Hún var mjög skammt á veg komin árið 1611, afleiðingar lítt komnar í ljós – og afleiðingar eru það sem við sjáum í framferði Prosperos og persónuleikamótun Calibans.

og 

b)

Hún er ekki sérlega frjó. Samband Prosperos og Calibans er svo augljós hliðstæða við samband vestræns nýlendukúgara og þess sem verður fyrir áhrifum hans til góðs og ills að það er varla mikið meira um það að segja. 

Það er fleira af þessum toga sem villir sýn í þessum texta: Það er t.d. nokkuð fjölmennur skóli sem hefur litið svo á að The Tempest sé hreinlega „ameríska leikritið“ hans Shakespeares: sé beinlínis um amerísku nýlendurnar í Virginíu og/eða frægt skipsstrand við Bermúda árið 1609. Þetta er að mínu viti augljós villigata. Þá skiptir máli sú staðreynd að The Tempest er alfarið hugarsmíð Shakespeares. Ekki leikgerð á ítölskum reyfara eins og Othello, ekki annálaleikrit upp úr Holinshead eins og Cymbeline, ekki sviðsetning á Plútarkosi eins og Julius Caesar og Coriolanus. Við verðum að taka öllu í verkinu sem meintu. Þar á meðal þeirri staðreynd að eyja Calibans/Prosperos er á siglingaleiðinni frá Túnis til Napólí. Lampedusa og nálægar eyjar koma upp í hugann. Ef við þurfum endilega landfræðilega rétta eyju, sem við þurfum ekki. Hitt blasir við: ef Shakespeare hefði langað að skrifa „nýjaheimsleikrit“ þá var honum það í lófa lagið. Hann gekk óbundinn til verks og gat gert hvað sem hann vildi, þar á meðal að láta leikritið gerast í Virginíu og/eða Bermúda. En hann gerði það ekki.

Annað sem gefur túlkendum á „nýjaheims- og nýlendufræðarófinu“ byr undir báða vængi er lýsing Gonzalos á fyrirmyndarríkinu sem hann langar að stofna, og á sér nokkuð auðþekkta fyrirmynd:

I’ the commonwealth I would by contraries
Execute all things; for no kind of traffic
Would I admit; no name of magistrate;
Letters should not be known; riches, poverty,
And use of service, none; contract, succession,
Bourn, bound of land, tilth, vineyard, none;
No use of metal, corn, or wine, or oil;
No occupation; all men idle, all;
And women too, but innocent and pure;
No sovereignty 

[….]

All things in common nature should produce
Without sweat or endeavour: treason, felony,
Sword, pike, knife, gun, or need of any engine,
Would I not have; but nature should bring forth,
Of its own kind, all foison, all abundance,
To feed my innocent people.

[…]

I would with such perfection govern, sir,
To excel the golden age.

2.1.162–184

Hér er augljóslega sótt í enska þýðingu á ritgerðum franska höfundarins Michel de Montaigne, sem komu út í enskri þýðingu upp úr aldamótunum 1600. Í einni þeirra, sem heitir hvorki meira né minna en „Of the Canibales“ segir m.a. um sæluríki „hinna frumstæðu“:

I should tell Plato that it is a nation wherein there is no manner of traffic, no knowledge of letters, no science of numbers, no name of magistrate or political superiority; no use of service, riches or poverty, no contracts, no successions, no dividends, no properties, no employments, but those of leisure, no respect of kindred, but common, no clothing, no agriculture, no metal, no use of corn or wine; the very words that signify lying, treachery, dissimulation, avarice, envy, detraction, pardon, never heard of. 

Klárlega sækir Shakespeare í þennan texta, og fræðimennirnir hrópa „AHA!“. En þá er að gæta að samhenginu sem Shakespeare setur þetta í. Pedantískur og pínu hlægilegur en góðhjartaður hirðmaður (nokkurskonar Polonius með samvisku) er hér að lýsa sínu fyrirmyndarríki. Ekki að observera eyjarskeggja. Og aftur: Shakespeare ákvað að hafa þetta svona. Hann ákvað að skrifa ekki leikrit um fyrstu kynni „dekadent“ Evrópubúa af sæluríki Montaignes, heldur leyfði einum af þeim að láta sig dreyma það upp, samferðamönnum hans í skipbrotinu til skemmtunar.

Þetta er reyndar einkenni á verkinu: að frægir kaflar eru ekki þar sem þeir ættu að vera, og merkja þar af leiðandi ekki það sem öllum finnst þeir ættu að merkja. Þannig er upphrópun Miröndu: O brave new world, / That has such people in’t! ekki viðbrögð við fyrsta „utanbæjarmanninum“ sem hún sér, ástinni einu, heldur hóp af ferðavelktum karlskröggum, misvel innrættum. Og frægasta ræða verksins, hin óviðjafnanlegu orð Prosperos um leikslokin:

Our revels now are ended. These our actors,
As I foretold you, were all spirits and
Are melted into air, into thin air:
And, like the baseless fabric of this vision,
The cloud-capp’d towers, the gorgeous palaces,
The solemn temples, the great globe itself,
Ye all which it inherit, shall dissolve
And, like this insubstantial pageant faded,
Leave not a rack behind. We are such stuff
As dreams are made on, and our little life
Is rounded with a sleep. 

4.1.165–175

Þessi orð falla ekki að leikslokum, og eru því svo sannarlega ekki kveðjuorð skáldsins til sviðsins. Þau hljóma í miðju verki, til að setja punktinn aftan við töfraskrautsýninguna fyrir Miröndu og Ferdinand, sem hann stoppar í miðju kafi þegar hann man eftir yfirvofandi uppreisnartilburðum Calibans og félaga.

The Tempest skreppur eins og sápustykki undan öllum heildartúlkunum. Ef það er um nýlendukúgun er það frekar lágfleygt. Ef það er um fyrirgefningu og sátt þá eyðir það pínlega litlu púðri i að skoða forsendur hennar eða afleiðingar. Ef það er um galdur þá kemur það okkur ekki sérlega mikið við. Ef það er um töfra leikhússins þá er það eitthvað sem talar skýrar við lesandann en leikhúsgestinn, og við vitum að það er skrifað fyrir þann síðarnefnda. Um það vitnar t.d. þessi stórfenglega upprifjun Toms Stoppard á eftirminnilegri útiuppfærslu verksins:

This production of The Tempest took place in the open air in the early evening and when it became time for Ariel to leave the action of the play he turned and ran up the lawn backed on to a lake. He ran across the grass and got to the edge of the lake, and he just kept running, because the director had had the forsight to put a plank walkway just underneath the surface of the water. So you have to imagine: it’s become dusk, and quite lot of the artificial lighting has come on, and back there in the gloom is this lake. And Ariel says his last words and he turns and he runs and he gets to the water and he runs and he goes splish splash, splish splash, right across the lake and unto the enfolding dark until one can only just hear his footsteps making these little splashes, and then ultimately his little figure disappeared from view. And at that moment, from the further shore, a firework rocket was ignited and just went woosh into the sky and burst into lots of sparks. All the sparks went out one by one and Ariel had gone. This is the thing: you can’t write anything as good as that. If you look it up, it says, „Exit Ariel“.

Ég hef ekki enn séð Ofviðri sem virkar fyllilega, á sviði eða skjá. Ég nefndi uppfærslu Kára Halldórs með Leikfélagi Vestmannaeyja í upphafi greinarinnar, og aðrar tvær sýningar hef ég séð á sviði. Ég man Nemendaleikhúsuppfærslu Rúnars Guðbrandssonar frá 2000 ekki svo glöggt, fyrir utan að Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir voru fyndin fífl. Öllu betur lifir sýning Koršunovasar hins litháíska í Borgarleikhúsinu 2011 í minninu. Illu heilli, liggur mér við að segja. Þá er ótalin mín eina heimsókn í Shakespeare’s Globe, þar sem ég sá Mark Rylance sem Prospero árið 2005, og leiddist

Kvikmynduð Ofviðri eru ófá, sérstaklega ef horft er út fyrir rammann sem leikritið sjálft setur. þar verða t.d. fyrir okkur myndir eins og Prospero’s Books eftir Peter Greenaway og cult-sæfæmyndin Forbidden Planet. Ég fór aðeins yfir sviðið.

Á YouTube er að finna ameríska sjónvarpsmynd eftir verkinu frá 1960.  Maurice Evans er Prospero, kannski þekktastur úr Planet of the Apes, en frægast þátttakandi í þessari Ofviðrismynd George Schaefer er að sjálfsögðu Richard Burton, sem er Caliban. Ekkert rosalega eftirminnileg og töfrabrögðin eru ævintýralega voðaleg, en lúkkið er fallegt. Textinn er ágætlega fluttur og allt hefur þetta svolítið „streit“ yfirbragð. Ágæt fyrir þá sem vilja ekki djúp fingraför túlkenda á sínum Shakespeare. 

RSC uppfærsla Gregory Doran frá 2016 var send út, en líka tekin upp og dreift eftir hefðbundnum leiðum. Hún er líka frekar streit, svolítið eins og allir hafi verið dálítið uppteknir af tæknibrellunum sem leika hér lausum hala með aðstoð tölvubrellumeistara. Það er allt þrusuflott sem slíkt, kómíska þrenningin er hreinlega fyndin, sem er ekki sjálfgefið, en því miður náði Simon Russell Beale enganvegin til mín sem Prospero. Eintóna, iðandi, andstuttur og öskrandi, og þar með sérkennilega mátt-laus. Hann, og sýningin, ná næstum að bæta fyrir það með aldeilis „magísku“ augnabliki þegar hann hefur brotið galdrastafinn sinn í tvennt, en færir Caliban hann að skilnaði, sem hugsar sig smá um, en hendir brotunum síðan í eldiviðarhrúguna. 

Þetta augnablik, og allt ákvörðunarferli Prosperos um að hætta í galdrabransanum og ganga til liðs við mannlífið sem jafningi, er stórkostlega túlkað hjá Helen Mirren í kvikmynd Julie Taymor frá 2010. Mirren er geggjuð í hlutverkinu, fer langt með að samfæra mann um að verkið sé einfaldlega betra með konu í bílstjórasætinu. Unga parið frekar mélkisulegt, sérstaklega Reeve Carney (Ferdinand), og það er eins og hvorki leikstjórinn né sá öndvegisleikari Ben Wishaw hafi almennilega vitað hvað ætti að gera við Ariel. En Djimon Hounsou er æðislegur Caliban og félagar hans í góðum höndum hjá Russell Brand og Alfred Molina. Lúkk og umhverfi geggjað, eins og ætlast mátti til af frú Taymor. Þrusumynd. Það sem helst stendur í vegi fyrir henni sem einni af albestu Shakespearemyndunum er leikritið.

Önnur kvikmynduð gerð er eftir Derek Jarman frá 1979. Það sem hann kemur með er nokkuð sniðug uppskipting og tilfærsla á upplýsingasenunni ógurlegu. Já og ágætar týpur, Heathcote Williams sem Prospero og Toyah Wilcox sem Miranda. Einkum samt Jack Birkett, aka The Incredible Orlando, sem er geggjaður Caliban. Jarman liggur hinsvegar svo mikið á hjarta að það er eiginlega ekkert pláss fyrir hann til að segja okkur neitt um innihald leikrits Shakespeare, svo þetta skilur nú ekki mikið eftir sig því miður.

Ég er ekki frá því að sú kvikmyndagerð verksins sem ég sætti mig best við sé furðuverkið Prospero’s books, þar sem John Gielgud fer með allan textann þangað til í lokaatriðunum þar sem Erland Josephson (Gonzalo) og Mark Rylance (Ferdinand) fá loksins að skjóta inn orðum, ásamt minni spámönnum. Á meðan fer Peter Greenaway hamförum í myndrænni ofgnótt, sem virðist hafa það markmið helst að birta áhorfandanum hugmyndaheim endurreisnarinnar eins og hann leggur sig. Eitthvað sem kannski er bara hægt í bíói, og mögulega mikilvægara fyrir þetta leikrit en nokkurt hinna. Ein skýring þess hvað það á erfitt með að lifna í leikhúsnándinni þar sem allt er bókstaflegt og hér-og-nú. Samspil myndmáls og texta er stundum ævintýralega banalt og óviljandi fyndið, og Kristur á krossinum hvað tónlist tískutónskáldsins Michael Nyman hefur elst illa, en mikið er þetta nú heillandi listaverk þrátt fyrir allt.

The Tempest hefur auðvitað gengið í gegnum enn róttækari endurvinnsluvélar en hausinn á Peter Greenaway. Arden-editorarnir gefa ágætisyfirlit yfir hinar ýmsu ummyndanir og afleggjara en við skulum staldra við bókmenntaformið. Svo skemmtilega vill til að þau nefna þrjár skáldsögur sem styðjast við Ofviðrið, allar kanadískar. Skemmtilegt, vegna þess að ég þekki einmitt tvær kanadískar Tempest-tengdar skáldsögur og þær eru hvorugar á lista ritstjóranna! 

Ég hef lengi otað Tempest-Tost eftir Robertson Davies að fólki, sérstasklega leikhúsfólki, sérstaklega áhugaleikhúsfólki. Þar segir frá uppfærslu leikfélagsins í ímyndaða smábænum Salterton á Oviðrinu, en aðallega þó frá samskiptum leikhópsins, ástarflækjum og raunum. Verkið sjálft er í bakgrunninum, en sagan og persónugalleríið er óborganlega skemmtilegt.

Verkið er bæði í bakgrunni og forgrunni í Hag-Seed eftir Margaret Atwood, sem hún skrifaði að undirlagi Random House. Forlagið pantaði semsagt skáldsögur upp úr nokkrum höfuðverkum Shakespeares hjá nafnkunnum höfundum og The Tempest kom í hlut Atwood. Útkoman er létt og stórskemmtileg saga sem hverfist um sniðuga grunnhugmynd: Sjálfhverfur leikstjóri er settur af sem einvaldur árlegrar leiklistarhátíðar og hverfur af sjónarsviðinu meðan óvinir hans klífa hinn listræna, en aðallega pólitíska, metorðastiga. Leikstjórinn gerist leiklistarkennari í fangelsi og svo fer – eftir 12 ár að sjálfsögðu – að honum gefst færi á að koma fram hefndum. Þetta er snilldarlega plottað og stútfullt af brilljant speglunum, en virkar held ég líka sem skemmtilestur fyrir þá sem ekki búa yfir djúpri þekkingu á Ofviðrinu. 

Þessi yfirferð og athugun á The Tempest færði það sennilega aðeins upp minn persónulega metorðastiga verkanna, en fráleitt upp í þær hæðir sem því er almennt búinn staður. Til þess eru leikrænir ágallar of áberandi og erindi þess mér (og kannski nútímamönnum almennt) of fjarlægt og það sem hægt er að finna í því um nýlendukúgun og valdatöfl af því taginu of vel sett fram annarsstaðar. 

Einn mögulegur kjarni í verkinu er tengsl tveggja staðreynda: 

a) Prospero getur vakið menn af dauðum

b) Prospero ákveður að brjóta staf sinn og sökkva bókunum og fara að huga að dauða sínum

Mögulega er Prospero búinn að reikna út að það sé best fyrir alla að eitt sinn muni allir menn deyja – líka þeir sem kunna að snúa þeim prósess við. Það er að vera maður. Það er hin mannlega útgáfa af því að hverfa til frumefnanna eins og Ariel þráir og fær að lokum. Þetta er fallegt og viðeigandi viðfangsefni fyrir kveðjuleikrit, meistaraverk. En eins og stundum áður þá dvelur Shakespeare ótrúlega lítið við þennan kjarna. Ef þetta er þá kjarninn.

Textinn.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.