Ahoy-hoy!

Svavar Knútur sendi nýverið frá sér plötuna Ahoy! Side A og mun sú vera  fyrsta platan í stærra verki kölluðu Ahoy. Samverkamenn Svavars Knúts hér eru helstir Bassi Ólafsson á slagverk, hljóðgervla, Örn Ýmir Arason á bassa, Daníel Helgaso á gítara og Steingrímur Teague á pínaó og hljóðgervla. Allir syngja þeir bakraddir. Auk þeirra er fjöldi annara bakraddasöngvara og strengjaleikara sem koma við sögu hér. Upptökumenn eru Sturla Míó Þórisson, Bassi Ólafsson og Svavar Knútur sjálfur. Upptökustjórn er svo í höndum þeirra Svavars Knúts og Bassa ásamt Erni Ými. Dimma gefur út. Þessi fyrsta plata Ahoy inniheldur níu lög. Fimm þeirra eru ný og fjögur þeirra eru nýjar upptökur af áður útgefnu efni sem Svavar Knútur kýs að kalla „repainted”.

Á síðustu plötu hans kvað við nýja tón, sérstaklega í titillaginu Broti. Það lag hafði meiri dýpt og fór víðar en annað sem frá honum hafði áður komið.  Brot er alveg sérstaklega mögnuð lagasmíð og upptakan er einstaklega vel heppnuð og reis yfir allt sem Svavar Knútur hafði gert áður, sem var þó n.b. ekkert slor. Við skulum hafa það á hreinu. Þannig að ég var að vona að hann tæki stefnuna frekar í þá áttina. Og sú ósk mín hefur ræst.

Nýju lögin fimm á plötunni eru hvert öðru betra. Platan hefst á The Hurting, blúsuðum paranojuðum rokkara sem grípur hlustandann strax. Næst kemur Lady Winter sem er afskaplega fallegt. Þriðja lagið, Morgunn, fjallaði ég um í síðustu smáskífurýni og ætla ekkert að fara neitt frekar í það nema að endurtaka það að popp verður ekkert betra en þetta. Fjórða lagið, Haustvindar er annað mjög fallegt lag sem rís svo upp í dramatískar hæðir. Síðasta nýja lagið er svo Cheap Imitations sem er án vafa besta lag plötunnar. Það er nokkuð súrt og melódían fer á staði sem maður á kannski ekkert endilega von á.

Þegar ég heyrði að á plötunni yrðu endurgerðir á fjórum eldri lögum var ég ekki viss um að það væri til góðs eða það hefði endilega rétt á sér á plötu með nýjum lögum. Ég velti fyrir mér hvað honum gengi til með þessu og átti ekkert sérstaklega von á því að útkoman yrði fullnægjandi góð. En það verður að segjast að nýju útsetningarnar á Undir birkitré, Yfir hóla og hæðir og Tiger and Bear bæta mikilli vigt í lögin og þau falla vel að nýju lögunum. Ölduslóð hins vegar er keimlík útsetning en í stað gítars er það spilað á ukulele. Lagið er ennþá jafngott og það hefur alltaf verið og kannski aðeins betur sungið í dag en það var í upprunalegu upptökunni. En engar stórbreytingar hér og það er sjálfsagt allt í lagi.

Textar plötunnar eru flestir góðir og enginn þeirra slæmur en þeir íslensku eru áberandi betri en þeir ensku sem þarf ekkert að koma á óvart Þar sem Svavar Knútur er jú íslenskur. Flestir eru þeir staddir í dimmri hlið sálartetursins og fáar virðast leiðirnar út þó einhver vonarglæta sé sjáanleg. Það finnst mér bara hið besta mál því þannig tónlist hefur alltaf höfðað vel til mín. Flutningur er allur til fyrirmyndar, hugmyndaríkur, dramatískur og mikil dýnamík í gangi.

Ahoy! Side A gæti mögulega verið besta plata Svavars Knúts til þessa en það er samt erfitt að segja þar sem að það er kannski smá svindl að hafa þessi eldri lög, sem þegar hafa sannað sig, með. Eins og þetta sé einskonar safnplata en samt ekki. En eftir stendur að ég hef aldrei notið þess jafnvel að hlusta á plötu frá honum og ætli það sé ekki nóg. Þetta er frábær plata.