Læknisdóttirin Helena hefur alist upp í skjóli hertogaynjunnar af Rousillion og elskar Bertram son hennar í laumi þrátt fyrir stéttamuninn. Konungurinn er dauðvona og Helena fer á fund hans með meðöl sem faðir hennar ánafnaði henni. Hún læknar hann og fær að launum að velja sér eiginmann úr röðum hirðmanna hans og velur auðvitað Bertram, sem harðneitar að giftast henni en fellst á ráðahaginn þegar kóngur hótar honum öllu illu. Fæst samt ekki til að sænga hjá brúðinni en stingur af í nærliggjandi stríð ásamt raupsömum félaga sínum Parolles. Helenu tilkynnir hann að þau verði ekki „ekta“ hjón fyrr en hún hefur fengið hjá honum hring sem hann ber, og orðið ólétt af hans völdum, hvortveggja ætlar hann að tryggja að gerist aldrei. Helena fer á eftir honum og kemst í kynni við stúlkuna Díönu sem Bertram hefur verið að reyna að fá í rúmið til sín. Hún fær stúlkuna til að fallast á það gegn því að fá hring Bertrams að launum, en fer sjálf í hennar stað. Félagar Bertrams eru orðnir leiðir á mælgi og óheiðarleika Parollesar og gabba hann til að halda að hann hafi verið tekinn höndum af óvinunum og fá hann til að svíkja Bertram og aðra félaga sína. Hann er rekinn burt með skömm. Helena sendir Bertram fréttir um að hún sé látin og hann heldur heim til móður sinnar þar sem Díana og Helena fletta ofan af honum og hann fellst á að lifa hjónalífi með brúði sinni.
The web of our life is of a mingled yarn, good and
ill together: our virtues would be proud, if our
faults whipped them not; and our crimes would
despair, if they were not cherished by our virtues.
Fyrstu fimm til sex ár sautjándu aldarinnar voru sveiflukenndur tími á ferli okkar manns. Sé horft á toppana þá er þetta náttúrulega tindurinn á ferlinum. Hamlet, Twelfth Night, Othello, King Lear, Macbeth. Það má deila um hver þeirra rísi hæst. En milli þeirra eru svo verk á illskilgreinanlega og afstæða rófinu milli „tilraunakennt“ og „mislukkað“. Troilus and Cressida. Measure for Measure. Aðkoman að hinu dauðadæmda verki um Sir Thomas More. Timon of Athens.
Og svo All’s Well that Ends Well, sem er skrítið á algerlega einstakan hátt og ef það er mislukkað þá er sú mislukkun ekki fólgin í því að efni þess hlaupi til í höndum höfundar, skreppi undan. Þetta er ágætlega formað og þræðirnir tveir: mannaveiðar Helenu og afhjúpun grobbhanans Parollesar, raktir og leiddir til lykta á skýran og sannfærandi hátt.
All’s Well that Ends Well er eitt leikritanna sem gæti mögulega verið hið týnda Love’s Labour’s Won, sem minnst er á í upptalningu á verkum Shakespeares frá 1598. Efnislega er það ekkert út úr kortinu. Fransk/ítalska sögusviðið hér á tengsl við heimavöll Love’s Labour’s Lost, og nafnið væri viðeigandi (sem reyndar setti það á sérstall meðal kómedía Shakespeares, sem leggur ekkert upp úr nafngiftum gleðileikja sinna). En ritunartíminn gengur illa upp. Tyrfinn stíllinn tengir All’s Well við Measure for Measure og önnur verk frá lokaárum Elísabetar, þjóðsagnakenndur efniviðurinn sömuleiðis. Þá bendir Russell Fraser, ritstjóri New Cambridge Shakespeare, á merki þess að þróun Shakespeares í átt til rómansa lokaskeiðsins hefjist hér.
Fraser eyðir síðan inngangi sínum, eins og menn gera, í að sannfæra lesandann um að All’s Well sé djúpt og vanmetið meistaraverk. Það er held ég rugl, fyrir nú utan að texti Frasers sjálfs er álíka tyrfinn og skrítinn og texti leikritsins.
Það sem stendur áhrifamætti All’s Well helst fyrir þrifum er þrennt:
Persónurnar. Þó svo okkur sé stöðugt sagt að Helena sé dásamleg stúlka, er hún langt í frá að vera jafningi Rosalindar og Violu að sjarma, Isabellu að styrk, hvað þá Beatrísar að skemmtilegheitum. Bertram er með öllu sjarmalaus skíthæll. Snobbaður, sérgóður og lyginn. Að Helena elski hann og hafi gert frá fyrstu tíð er samt ljóst. Aumingja hún. Parolles er algerlega lit- og orkulaus skúrkur af Falstaffskólanum.
Atburðarásin. Afhjúpun Parollesar er svo sem ágæt, en rúmruskið og allt í kringum það er svo hrátt og fyrirferðarmikið ævintýraminni hér að það er í hrópandi ómstreitu við heildstæðan, alvörugefinn, pínu blúsaðann og raunsæjan grunntón textans. Þetta sleppur fyrir horn í Measure for Measure af því það skiptir ekki sköpum. Hér stendur verkið og fellur með þessu snjáða trikki.
Og í þriðja lagi hefur verkið óvenjustóran skammt af helsta ágalla Shakespeares sem gamanleikjahöfundar: of lítið og sjaldan fyndið þegar það er að reyna að vera það. Ætli Lavatch sé ekki bara leiðinlegasta fífl Shakespeares? Og er þá töluvert sagt.
Parolles hefði líka þurft að vera mun fyndnari, eða þá meira aumkunarverður, þ.e. hlægilegri. Samskipti hans við Lafew eru snotur, sá gamli sýnir galgopanum merkilegt langlundargeð, svona miðað við að hann er fyrstur til að sjá í gegnum hann, en það vantar eitthvað púður í þetta.
Talandi um Lafew: Er All’s Well eina leikrit Shakespeares þar sem gamalt fólk er viturt og gott? Lafew og hertogaynjan af Roussilon eru bæði aðdáunarverð. Yfirveguð, ástrík og hlý. Annars eru gamlingjar Shakespeares gjarnan fávísir og óstöðugir. Kannski var þetta mikilvægasti lærdómurinn sem ég fékk út úr þessu skrítna og veika verki.
Annað sem er hér og hvergi annarsstaðar er innsýn í læknislist aldarinnar. Það sem hrjáir konunginn er fistula, sem ég veit ekki hvað skal kalla á íslensku, „samgróningar“ hljómar rökrétt, en er sennilega ekki læknisfræðilega kórrétt. Það er nú ekki á hverjum degi sem sjúkdómar eru nefndir á nafn í kanónunni, án þess að vera sýfilis eða plágan og kallað til sem brandari eða skammaryrði. Shakespeare var uppi í árdaga nútímavísinda og viðhorf konungsins til tilboðs Helenu eru sennilega nokkuð dæmigerð fyrir tíðarandann:
The congregated college have concluded
That labouring art can never ransom nature
From her inaidible estate; I say we must not
So stain our judgment, or corrupt our hope,
To prostitute our past-cure malady
To empirics, or to dissever so
Our great self and our credit, to esteem2.1.135–141
Enga tilraunamennsku takk. En svo lætur hann sannfærast, þegar Helena er til í að leggja eigið höfuð undir. Merkilegt samt að hún læknar samgróninganna með lyfjum, en samkvæmt þessari lýsingu á fyrstu vel heppnuðu fistúlulækningunni þarf róttækara inngrip.
Í verkinu sjá allir hvað Helena er mikill kvenkostur nema Bertram. Móðir hans, konungurinn, Lafew. Meira að segja drykkju- og stríðsfélagar Bertrams eru hneykslaðir á honum. Hann er líka algerlega einn með þá skoðun að það sé einhver skandall að giftast konu af lágum stigum. Sem er svolítið skrítið, svona í ljósi þess að sú skoðun er 100% háð því að vera viðtekin, byggir á því hvernig þú ert í augum annarra. Ef öllum er sama er þetta ekkert mál. Hér er konungurinn að reyna að koma vitinu fyrir Bertram eftir að hann hefur neitað að giftast Helenu:
‘Tis only title thou disdain’st in her, the which
I can build up. Strange is it that our bloods,
Of colour, weight, and heat, pour’d all together,
Would quite confound distinction, yet stand off
In differences so mighty. If she be
All that is virtuous, save what thou dislikest,
A poor physician’s daughter, thou dislikest
Of virtue for the name: but do not so:
From lowest place when virtuous things proceed,
The place is dignified by the doer’s deed:
Where great additions swell’s, and virtue none,
It is a dropsied honour. Good alone
Is good without a name. Vileness is so:
The property by what it is should go,
Not by the title. She is young, wise, fair;
In these to nature she’s immediate heir,
And these breed honour: that is honour’s scorn,
Which challenges itself as honour’s born
And is not like the sire: honours thrive,
When rather from our acts we them derive
Than our foregoers: the mere word’s a slave
Debosh’d on every tomb, on every grave
A lying trophy, and as oft is dumb
Where dust and damn’d oblivion is the tomb
Of honour’d bones indeed. What should be said?
If thou canst like this creature as a maid,
I can create the rest: virtue and she
Is her own dower; honour and wealth from me.2.3.209–136
Helena elskar Bertram og hefur gert frá barnæsku, en gerir ekki ráð fyrir að hann sé „in her league“ svo við tölum amrísku. Þegar færið gefst grípur hún það. Persóna hennar og framferði í verkinu einkennist af mjög svo óstöðugri blöndu af ást sem virðir engin mörk, yfirvegaðri fórnfýsi og útsmoginni kalkúlasjón. Þetta ætti að vera efniviður í verulega djúsi karakter, en það er svolítið eins og Shakespeare hafi langað að athuga hvort hann þyrfti nokkuð að leggja í púkkið af skáldskap og sjarma til að við tryðum á hana og stæðum með henni.
Það eru auðvitað glampar. Þessi fyrsta kveðjustund hinna nýgiftu hjóna finnst mér t.d. flott og bjóða upp á magnað móment:
HELENA
Something; and scarce so much: nothing, indeed.
I would not tell you what I would, my lord:
Faith yes;
Strangers and foes do sunder, and not kiss.BERTRAM
I pray you, stay not, but in haste to horse.2.5.93–97
Og þó Parolles sé eins og daufur skuggi af Falstaff, Toby Belch, og jafnvel af Lucio og Pompey sem eru kannski ekki snilldarverk sjálfir þá er eitthvað sjarmerandi við hann. Kannski einna helst hvað hann er meðvitaður um stöðu sína. Eins og einn af herramönnunum sem afhjúpa hann bendir á:
Is it possible he should know what he is, and be that he is?
4.1.34
Svarið er já. Parolles veit hvernig hann er. Og þegar allt er komið í kring og hann stendur eftir smáður og ráðalaus er eins og hann sé hálfpartinn feginn, allavega sæmilega sáttur:
Yet am I thankful: if my heart were great,
‘Twould burst at this. Captain I’ll be no more;
But I will eat and drink, and sleep as soft
As captain shall: simply the thing I am
Shall make me live. Who knows himself a braggart,
Let him fear this, for it will come to pass
that every braggart shall be found an ass.
Rust, sword? cool, blushes! and, Parolles, live
Safest in shame! being fool’d, by foolery thrive!
There’s place and means for every man alive.4.3.352–361
Eina aðgengilega kvikmyndun verksins er BBC-mynd Elijah Moshinsky frá 1981. Hún er talin ein best heppnaða myndin úr heildarsafni BBC, og telst stóráfangi í túlkunarsögu verksins, sem á eins og nærri má geta frekar fátæklegan feril á sviði. Moshinsky leggur mikið upp úr sviðsetningum og stemmingarþrunginni lýsingu. Allt útlitið er innblásið af málaralist, Rembrandt og Vermeer svífa yfir vötnum og þetta er meira og minna íðilfagurt. Allt kemur þó fyrir ekki með að gera þetta einkennilega verk að ánægjulegu glápi. Ekki hjálpar að Ian Charleson er deyfðin uppmáluð sem Bertram og það sem verra er: Angela Down er nánast alveg útgeislunarlaus Helena. Það gengur ekki. Celia Johnson og Michael Hordern eru voða fín sem gamlingjarnir og Robert Lindsay leikur konunginn sem dramadrottningu og það er skemmtilegt. Annars ekki mjög áhrifaríkt og hálfgerð vonbrigði.
Það fellur allt í ljúfa löð en óneitanlega kemur hik á mann við að lýsa endinum á AWTEW sem „happy“. Maður vorkennir Helenu að vera gift þessu ræksni og þykir Bertram sleppa fáránlega vel frá syndum sínum. Þá er samt rétt að hafa í huga að hún hefur fengið að fylgjast með eiginmanninum sýna sínar verstu hliðar og elskar hann engu minna fyrir vikið. Og eigum við ekki að vera sæmilega vongóð um að hinn ungi hertogi af Roussillon muni fara skánandi undir áhrifum hinnar gegnheilu og goðumlíku eiginkonu? Fyrir nú utan hvað nýtt blóð er hollt fyrir gamlar aðalsættir. Þetta fer kannski allt vel.
Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.