Hljómsveitin Ping-Pong veifar ísraelska og sýrlenska fánanum í keppninni árið 2000.

Óeirðir í leikfangalandi

um andsemítisma, Eurovision og Toy með Nettu Barzilai

Ísraelska söngkonan Netta vann Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva síðastliðin laugardag. Strax fyrir keppnina mátti skynja mikla og víðtæka andúð á þátttöku Ísraelsmanna – meiri en ég man eftir lengi, og skýrðist þá kannski af því að Netta þótti fljótlega sigurstrangleg. „Fíla lagið en fyrirlít landið“ skrifaði einn á Twitter. „Fuck Israel“, „Gangi öllum löndunum vel á laugardaginn. Nema Ísrael. [Not you, you can choke-meme].“ Upptalning á löndum sem viðkomandi elskaði og sem viðkomandi fílaði og svo: „Hata af ástríðu: Ísrael.“ Og svo framvegis og svo framvegis. Það er svo sem ekkert nýtt að siðferðislegir framverðir samfélagsins safnist saman á Twitter og peppi hver annan áfram – og keyrði svo auðvitað um þverbak þegar Ísrael hafði unnið. Þá var lagt að jöfnu – formála- og samhengislaust – að fólk hefði stutt ísraelska framlagið og að það styddi morð ísraelska hersins á 15 ára dreng sem gerðist sama dag og gott ef ekki hreinlega öll mannréttindabrot ísraelska ríkisins, stríðið gegn Palestínu og utanríkisstefnu þess almennt.

Í ljósi þess að þessi viðbrögð koma á sama tíma og rannsóknir sína að gyðingahatur hefur farið vaxandi bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum – að ég láti vera að nefna 1 umskurðar-debatinn sem fór hér fram á dögunum – gæti maður kannski leyft sér í augnablik álíka hýperbólísk viðbrögð og spurt: Skyldi Evrópa nokkurn tíma fyrirgefa Gyðingum að hún hafi reynt að útrýma þeim?

Nettu var bókstaflega fundið allt til foráttu, allt tínt til. Hún var sökuð um menningarnám 2, fyrir að stela japanska lúkkinu (erlendis hefur meira farið fyrir ábendingum um hversu mikið hún líkist Björk framan á Homogenic) – hún þótti ekki réttur fulltrúi fyrir femínista og þeim sem þótti hún ekki feit og ógeðsleg fannst hún lélegur málsvari gegn fituskömmun – og kona nokkur á Twitter, sem kvaðst eiga að baki fimm ára nám í menningarfræði og hugmyndafræði, sagðist hreinlega ekki sjá hvernig textinn gæti verið um #metoo-byltinguna einsog höfundarnir hafa haldið fram. Viðlagið er: „I’m not your toy, not your toy / You stupid boy, stupid boy.“ Ég bara rétt náði stúdentsprófinu – ég var reyndar fimm ár að því – en mér finnst þetta samt frekar borðleggjandi. En maður sér kannski bara það sem maður vill sjá.

Ísrael hefur tekið þátt í Eurovision frá árinu 1973 og vann fyrst árið 1978 með A-Ba-Ni-Bi. Kvöldið sem þeir unnu var víst slökkt á útsendingu í mörgum arabalöndum þegar ljóst var hvernig færi. Í Jórdaníu var skipt yfir á útsendingu af blómahafi og svo tilkynnt að Belgar hefðu unnið (þeir voru í öðru sæti). Jórdanir halda víst fast í það enn í dag að Belgar hafi tekið þetta. Titill lagsins er á eins konar p-máli eða grísalatínu og þýðir bara „ég“ og viðlagið: „a-ba-ni-bi o-bo-he-be-v o-bo-ta-ba-ch“ þýðir „Ég elska þig.“

Ísraelar unnu svo aftur árið eftir með laginu Hallelujah – en tóku ekki þátt 1980 og því var keppnin haldin í Den Haag í staðinn. Þess má geta að mörg arabalönd hafa rétt á að taka þátt í keppninni en gera það ekki vegna þátttöku Ísraels – Líbanon og Túnis hafa bæði verið á nippinu með að vera með. Meðal annars vegna þess að það er gert skilyrði um að maður sýni öll lögin í sjónvarpinu – og líbanir t.d. hafa viljað klippa út Ísrael.

Ísraelsmenn hafa oft nýtt keppnina til þess að auglýsa eigið andóf eða friðarboðskap. Þeir sendu fyrstu trans konuna, Dönu International, sem vann keppnina 1998 (og kom aftur 2008 – og tók tvisvar þátt í undankeppninni að auki); sveitin Ping Pong dró fram sýrlenska fána á sviðinu árið 2000 og kallaði eftir friði við mikinn styr ísraelskra stjórnvalda (og í trássi við bann keppninnar við svo augljósum pólitískum yfirlýsingum); árið 2007 sendu þeir harðan áróður gegn einræðisherrum með kjarnorkuvopn (og vísuðu sterklega til Íran), þegar Lazy Bums mættu með letióðinn Shir Habatlanim árið 1987 hótaði menntamálaráðherra að segja af sér af hneykslan 3 og árið 2009 mættu hin ísraelska Noa og hin palestínska Mira Awad og sungu saman dúett um að það hlyti að finnast önnur leið, There Must Be Another Way, á arabísku, hebresku og ensku.

Í ár var stigakynnir Ísraelsmanna, slamskáldið Lucy Ayoub, með palestínskt landslag í bakgrunni og íklædd kjól sem er svo gott sem í palestínsku fánalitunum (þvert ofan í svívirðilegt bann keppninnar um að fánanum sé flaggað). Lucy var skömmuð fyrir þetta á íslenska Twitter, auðvitað, án þess að nokkur vissi hver hún er – hún er kaþólikki af arabískum og ísraelskum uppruna, sem hefur mikið skrifað um sjálfsmynd, pólitík og átök. Kjóllinn og landslagið voru s.s. engin tilviljun, ekki frekar en landsliðsbúningur Eddu Sifjar Pálsdóttur, og Lucy á fullt tilkall til bæði landslags og lita. Það átti sér sem sagt ekki stað neitt menningarnám.

Það er kannski líka ágætt að rifja þetta upp. Fyrir sjötíu árum reyndu afar okkar og ömmur – bókstaflega, í tilvikum evrópumanna á mínum aldri – að útrýma öllum Gyðingum úr Evrópu. Það er mjög stutt síðan og þetta kom í kjölfar mörg hundruð ára ofsókna um alla álfuna. Sex milljónir voru drepnir og enn fleiri hröktust frá álfunni til Ísrael og Bandaríkjanna aðallega, bæði í aðdraganda stríðsins og á árunum eftir það. Þetta skiptir í alvöru máli. Þetta er hið sögulega samhengi Evrópu og Ísrael. Við komumst ekkert undan því og fáum engan afslátt af því. Það afsakar ekki glæpi Ísraelsmanna gagnvart Palestínumönnum – því síður – en það gerir allar fullyrðingar um að maður „hati Ísrael svo heitt“ eða að „Ísraelar eigi að fokka sér“ eða maður „fyrirlíti landið“ eða að Netta Barzilai sé einhvern veginn persónulega ábyrg fyrir ofbeldinu á Gazasvæðinu sökum þjóðernis síns mjög … vafasamar eru ekki rétt orð, þetta er bara pípandi fyrirlitning og fordómar. Get a grip.

En það er munur á að hata Gyðinga og hata Ísrael, segir einhver. Andsemítismi er að hata Ísrael en ég fíla Leonard Cohen. Who by Fire er uppáhaldslagið mitt. Ég les Hönnuh Arendt og Philip Roth, segir hann. Ég er búinn að kynna mér ástandið.

Samt er alveg augljóst að við – hið evrópska samfélag 4, og kannski sérstaklega Ísland síðustu misseri – gerir ekki greinarmun á neinu sem á sér stað innan landamæra Ísraels. Allt sem þar gerist er eitt og óaðskiljanlegt – einsog stór slímkúla af gyðinglegu ofbeldi og allir samsekir.

Við skiljum samt að það er ekki samasemmerki á milli þess að fíla Taylor Swift, Beyoncé eða Bruce Springsteen og þess að styðja mannréttindabrot Bandaríkjamanna eða stjórnmálastefnu Trump. Við hrækjum ekki á eftir Meryl Streep til þess að mótmæla the military industrial complex. Það eru engar herferðir fyrir því að bojkotta SXSW eða Coachella vegna drónaárása Bandaríkjamanna, pyntinga í Guantanamo eða allra þeirra sem lögreglan skýtur árlega. (Og áður en einhver bendir á að Netta hafi verið í hernum og sé þar með samsek vil ég benda á að það er tveggja ára herskylda fyrir konur í Ísrael – tæplega þriggja ára fyrir karlmenn – og Elvis, Johnny Cash, Hendrix, MC Hammer og Shaggy voru líka í hernum). Og bara sorrí – það keppir enginn við Bandaríkjamenn í grimmilegri heimsvaldastefnu, ekki einu sinni Ísrael. Það að maður leyfi sér ekki þetta samasemmerki þýðir ekki að maður afsaki eða geri lítið úr hernaðarsamsteypunni, Guantanamo eða drónaárásum. Maður vanvirðir ekki fórnarlömb bandaríkjahers með því að horfa á Saturday Night Live. Það virkar bara ekki þannig.

Nú gæti einhver sagt sem svo að það ætti augljóslega að bojkotta bandaríska menningu, það sé bara frekar góð hugmynd, í ljósi þess að bandarísk menning hvítþvær og afsakar og pakkar inn og selur sína eigin pólitík – allt frá 24 til Infinity War til Blue Hawaii – að við sýnum bandarískri menningu alltof mikla hluttekningu. Meira að segja and-ameríkanisminn er amerísk útflutningsvara – við skiljum fyrirlitningu okkar á amerískri pólitík í gegnum Dylan, Eminem, Beyoncé og Childish Gambino.

En það verður auðvitað ekki bojkott á ameríska menningu. Ekki bara vegna þess að við skiljum að andófið á sér líka stað innan Bandaríkjanna – rétt einsog andófið gegn stefnu Ísraels á sér líka stað innan landamæra Ísraels – heldur líka vegna þess að það myndi kostar okkur sjálf eitthvað. Við erum samofin bandarískri menningu. Við kjósum að skilja andófið frá mannréttindabrotunum – og raunar menninguna sem slíka, ekki er Taylor Swift mikið í andófinu, eða Game of Thrones – og leyfa bandaríkjamönnum að vera margt á meðan við leyfum ísraelsmönnum bara að vera eitt og „þeir“ eru allir samsekir í því. En menningarlegt viðskiptabann á Ísrael – hvað væri það? Engin Black Swan – engar Star Wars prequel myndir. Lesa Íslendingar Amos Oz? Uri Geller – hvernig bojkottar maður mann sem beygir veruleikann að vilja sínum? Myndi ríkisstjórn Netanyahus þá leggjast í duftið?

Ójafnaðarstefna – einsog rasismi, eða súpremasismi – felst ekki síst í því að búa til ólík skilyrði fyrir ólíka hópa, standa fastar á prinsippum sínum gagnvart sumum en öðrum. Heiftin í garð Nettu er birtingarmynd þess konar ójafnaðarstefnu.

Ég er reyndar alls ekki frá því að það geti verið góð hugmynd að bojkotta sjálfa Eurovision-hátíðina, þótt mér finnist ósættið gagnvart sigri Nettu fáránlegt, ekki síst ef keppnin verður haldin í Jerúsalem, sem er alls ekkert víst. Ég er ekki á móti bojkottum á Ísrael yfir höfuð. En bojkott eru bara sniðug ef þau eru konsekvent, skipulögð og um þau eru breið samstaða og það er ekki bara „þarna landið sem bannaði umskurð“, „þarna landið sem sendi alla gyðingana úr landi í stríðinu“, „þarna landið þar sem er engin sýnagóga – það er Judenfrei“ sem stendur fyrir þeim. Maður verður nefnilega að bregðast við úr þeirri stöðu sem maður er í – og eyðir ekki kapítali sem maður á ekki. Slík aðgerð frá Íslandi, á þessari stundu, yrði sennilega bara afskrifuð sem gyðingahatur útkjálkamanna. Og viðskiptabann sem gengur út á það að 5% af fólki sleppi því að kaupa sér kóríander annað veifið er ekki viðskiptabann sem hefur nein áhrif heldur æfing í andúð.

Að því sögðu er Eurovision – einsog Ísraelsmenn hafa margoft sýnt fram á sjálfir – ágætis vettvangur til þess að æfa og sýna andóf og samstöðu, hvað sem líður fáránlegum boðum og bönnum keppninnar um pólitískan boðskap. Hvernig sem fer með þátttöku Íslands í keppninni að ári er óskandi að sem flestir noti hana til þess að senda skilaboð – og helst ekki bara um hvað manni finnist Ísrael sem slíkt mikið ógeðsland. Þau mega gjarna vera á aðeins hærra plani.

   [ + ]

1. Maður lætur aldrei vera að nefna það sem maður nefnir.
2. Það er eitthvað skelfilega fyndið við að íslenska orðið fyrir „cultural appropriation“ skuli vera sama og beinþýðingin á „cultural studies“.
3. Hann stóð ekki við það.
4. Þau erlendu dagblöð sem ég les eru að vísu ekki full af þessu Ísraelshatri og þetta virðist ekki vera heitur debatt neins staðar annars staðar. Hvað sem það þýðir.