Ken Kesey og hans kátu hrekkjalómar sameinuðu á sínum tíma fagurfræði strætisvagnsins og fagurfræði hamslausrar spíttnotkunar (sem og annarra meira hugvíkkandi lyfja) og þvældust um Bandaríkin útúrrúsaðir á þessum litríka vagni, sem kallaðist Destination Furthur.

Af spítt- og strætóskáldum

Ljóðaheimurinn er alls konar. Ljóðasenan er alls konar. Ljóð eru alls konar. Auðvitað. Skáld eru líka alls konar en oft eiga þau til að mynda fylkingar. Heildir sem hafa mismikinn heildarbrag. Heildir sem gefa út manífestó (eða ekki-manifestó), mynda eins konar vinahóp, gefa út hjá sama forlagi, eru saman í leynilegum facebook grúppum. Eins og gengur. Skáldafylkingar með sameiginlega fagurfræði, hvort sem að sú fagurfræði myndast í samtali skálda (hversu eiginlegt sem það samtal kann að vera) eða að fylkingarnar myndist í kringum sameiginlega fagurfræði. Skáld segir öðru skáldi að þetta hafi verið flottur upplestur eða góð bók. Skáld verða fagvinir, raunvinir. Allt er þetta eðlilegt. Gott. Jafnvel frábært. Hugsum: Listaskáldin vondu, hugsum: Medúsa, hugsum um Nýhil.

Fagurfræðin er hjartans mál. Rífðu í þig ljóðin mín (samt helst ekki) en láttu fagurfræðina mína vera. Það er eitt að dissa hana á barnum við þitt fólk, en láttu hana vera í kurteisislegu spjalli. Þú mátt segja að þú fílir hana ekki, að hún sé ekki fyrir þig, en farðu varlega með stóru orðin. Mér er kannski sama um fánann og þjóðsönginn en fagurfræðin er upp á líf og dauða.

Og sjaldnast er ástæða til þess að óttast. Fólk veit þetta og virðir. Svona almennt. Á síðasta ári opnaðist þó fyrir eitthvað. Bragi Páll Sigurðsson skrifaði gagnrýni um fyrstu bók Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur, Skýjafar, fyrir vefritið Starafugl. 

Bragi er harðorður í gagnrýni sinni. Hann segir ljóðin vera leiðinleg, líkir þeim við að „horfa á einhvern bíða eftir strætó. Ekki sjálfur að bíða – bara horfa á einhvern“. Bragi biðst samt hálfpartinn afsökunar strax í fyrstu efnisgrein. Hann lýsir þeirri list sem hann hrífst af: „Listamenn með kreppta hnefa, gnístandi tönnum, oft bókstaflega öskrandi um upplifun sína á mannlegu ástandi.“ Og endar efnisgreinina á því að segja: „Með það í huga þá er ég líklega ekki rétta manneskjan til að taka fyrir bókina Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur.“

Og mér finnst hann ekki í raun vera að gera það. Vissulega talar hann um að sér leiðist bókin. Hann talar meira um þá öskrandi sköpun sem hann hefði viljað sjá í bók Jónu. Að mestu leyti er hann þó að gagnrýna þá fagurfræði sem Jóna aðhyllist.

Það er margt sem hægt er að ræða í dómi Braga og margt af því var rætt í umræðuþræði á facebook sem myndaðist undir deilingu Fríðu Ísberg á dómnum. Með deilingunni gagnrýndi Fríða gagnrýnandann Braga af talsverðri hörku. 

pastedGraphic.png

Þarna uppnefnir Fríða tvenns konar fagurfræði í ljóðlist nútímans. Strætóljóðlistin vísar þá til athugasemdar Braga um ljóð sem eru svo leiðinleg að þau líkjast því að fylgjast með einhverjum bíða eftir strætó sem maður gleymir svo samdægurs. Spíttljóðlistin er það sem Bragi kallar eftir. Allir að æpa og á fullu.

Þarna gerðist eitthvað. Það urðu til orð yfir stefnur og fagurfræði og þar með var hægt að tala um þær. Nota bene hvort sem þær voru raunverulega til fyrir þetta augnablik eða ekki. Í fljótu bragði virðist þetta nokkuð klippt og skorið. Þegar þráðurinn undir ummælum Fríðu er skoðaður virðast fylkingarnar vera Starafugl á spítti gegn Meðgönguljóðum í strætó. Gamla Nýhil á móti nýja Partus press. Kaldhæðni gegn einlægni og öskur gegn hvísli.

Umræðurnar sem sköpuðust þarna fóru í allar áttir. Eðli málsins samkvæmt ræddu margir um dóminn. Um það hvort hann ætti rétt á sér og hvort það væri eðlilegt að dæma bók út frá fagurfræði á þennan hátt. Dómurinn var skoðaður með kynjagleraugum, út frá stöðu Braga sem eldra og reyndara skálds. Það myndaðist umræða um eðli bókmenntagagnrýni. Og það myndaðist umræða um fagurfræði.

Jón Örn Loðmfjörð, ritstjóri ljóðahluta Starafugls, tók til sín athugasemdir Fríðu um spíttljóðlist, en hann virtist undir eins samsama sig þessu nýja hugtaki. pastedGraphic_1.png

Þráðurinn var fullur  reiði. En hann var líka fullur leikgleði og galsa. Skáld beggja vegna línunnar voru fljót að finna snertifleti hvort við annað. pastedGraphic_2.png

pastedGraphic_3.png

Nú á dögum virðist fólk hrætt við að ræða ljóð opinberlega. Skáld læsast í sínum kreðsum. Dissa fagurfræði annarra á barnum en nikka kurteisislega til hvors annars á upplestrum. Ekki að ég óski þess að skáld öskri hvort á annað. En umræðan verður full átakalítil og flöt. Stundum er þörf á að einhver glefsi til þess að fólk muni eftir því að þetta eigi ekki að vera leiðinlegt. 

Hér er ég í svolítilli glímu við sjálfan mig. Auðvitað vil ég að öll dýrin í skóginum séu vinir. Eða svona flest. Mér finnst aðgát frábær, og við (við manneskjur, við skáld) ættum að sýna hana sem oftast. Hvísl í hornum og kurteisisspjall þar á milli er samt ekki merki um aðgát heldur heigulsskap (og þetta segi ég sem algjör heigull). Við hljótum að geta rætt hlutina hreint út án þess að fórna ungskáldi. Það þarf bara hugrekki.