Áferðarfallegt andvarp

Um Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur

Frá því ég man eftir mér hef ég dregist að afgerandi tjáningu. Listamenn með kreppta hnefa, gnístandi tönnum, oft bókstaflega öskrandi um upplifun sína á mannlegu ástandi. Með tímanum mildaðist ég í pjúrítanískri afstöðu minni. Eftir stendur samt að sú sköpun sem ég sækist helst í er sú sem virðist verða til í sjúklega hreinskilnu, hringvöðvinn-samanherptur, sjáöldrin-útþanin, allt-í-fokking-botn, ástandi. Með það í huga þá er ég líklega ekki rétta manneskjan til að taka fyrir bókina Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur.

Bókin telur 19 síður, og í henni eru 13 textar. Þemað virðist vera ástarsorg krydduð með náttúrulýsingum. Það eru í það minnsta mest áberandi viðfangsefnin. Áferðin er krúttleg og virkar áreynslulaus. Nánast eins og hverju ljóði sé andvarpað á síðurnar. Ahhh, ég var einusinni í ástarsorg, ahhh. Komið ljóð. Ahhh, og náttúran er nú soldið dularfull, ahhh. Annað ljóð tilbúið.

Bækur Meðgönguljóða hafa margar hverjar verið áhugaverðar tilraunir. Reyndar hef ég séð þær kallaðar „booklet,“ eða bæklinga. Ungir höfundar að gefa út sín fyrstu verk og því eðlilegt að þau séu í styttra lagi. Form sem bíður upp á snarpar og snaggaralegar tilraunir. Eins og ýla sem ríkur í gegnum tilveru manns og er svo horfin. Lengd Skýjafars er einmitt einn helsti styrkleiki hennar. 19 síður. Ég hefði eflaust fengið talsvert háværari leiða á eintóna taktinum í textanum ef hann hefði verið mikið lengri.

Við lesturinn leið mér eins og ég hefði verið að horfa á einhvern bíða eftir strætó. Ekki sjálfur að bíða –  bara horfa á einhvern. Kannski hinumegin við götuna. Kannski er síminn minn batteríislaus. Bara ég að bíða eftir því að eitthvað gerðist. Svo andvarpar viðkomandi. Klórar sér í nefinu. Svo kemur strætó stuttu seinna án þess að nokkuð markvert hafi gerst. Og svo gleymi ég því að hafa horft á þessa manneskju. Líklega samdægurs.

Ég vil nefnilega halda með ljóðabókum. Þegar ég fæ bækur eftir höfunda sem ég þekki ekki, þá tek ég þeim eins og teikningum sem tveggja ára dóttir mín teiknar. „Vá! Allskonar litir og form! En hvað þú ert dugleg að æfa þig!“ Þannig lít ég á þessa bók. Fyrsta verk. Fyrsta atrenna. Tilraun.

Oft hefur mér fundist umfjöllun um bókmenntir á Íslandi, og sérstaklega ljóð, vera með þeim hætti að ekki megi rugga bátnum. Ef eitthvað er gott, þá má benda á það og hafa hátt. En ef þér líkar ekki, þá máttu humma. Í mesta lagi yppta öxlum. En ekki vera með nein leiðindi. Eins og ljóðlistin sé komin á líknardeild og þoli ekkert nema bænir, jákvæða orku og tarotspil. Svo viðkvæmt blóm. Ofboðslega brothætt listform. En ljóð og skáld þurfa ekki á neinni sérmeðferð að halda. Ljóðskáld eru hinar upprunalegu rokkstjörnur. Ljóðið er frumeining allra lista. Formið mun halda lífi svo lengi sem mannkynið heldur áfram að nota tungumál. Í því ljósi þá verð ég einfaldlega að vera heiðarlegur. Til þess að einhver bæting geti átt sér stað.

Ég set listamönnum aðeins eina reglu. Grínlaust. Ein regla: ekki vera óspennandi. Don’t bore us. Og það er eina reglan sem Jóna brýtur. Hvergi við lestur bókarinnar hrærðist ein einasta tilfinning hjá mér. Nema kannski leiði. Meira að segja í ljóðum þar sem verið er að fjalla um upplifanir sem ég ætti að tengja við, ástarsorg og veðurfræði, þá er efnið sett fram á svo bragðlausan og ópersónulegan hátt að það hreyfði ekki einusinni nálina hjá mér.

Allt svo máttlaust. Máttlausar veðurlýsingar.

veröldin hverfur
bak við snjóþekju
á gluggum

hverfa bílar
hverfa strætóskýli

í takt við vindinn
dansa blýantar
á hvítum pappír

hverfa götur
hverfur fólk

eftir örskamma stund
boða ljóðin brottför
upp til skýjanna

-För, 7

Trén, jökullinn, vindurinn, skriður, sandarnir, botnfrosin vötn, strandlengjurnar, auðnin, eyðiströnd, snjóþekjan. Þetta eru allt hlutir tengdir náttúrunni sem koma fyrir í bók Jónu. Hugsanlega eru þetta allt hlutir sem hún er að upplifa í sínu daglega lífi, en ég persónulega tengi bara ekki. Hvað ert þú að gera, Jóna?! Segðu mér þá frá því! Leiðist þér? Frábært! Það væri áhugaverðari frásögn en þetta. Og ekki bjóða náttúrunni á svið nema hún hafi eitthvað hlutverk þar. Annars bara stendur hún gapandi eins og áhugaleikari sem hefur gleymt textanum sínum.

Ástarsorgin er líka máttlaus. Og bragðlaus:

ég geng reglulega
fram hjá kaffihúsinu þar sem þú vannst
og vonast til að sjá þig

brosa til mín
gegnum sólbaðað glerið

eins og staksteinar í auðn
liggja minningar um þig

heitar
ósnertanlegar
og glóandi

-Milli hversdagslegra stríða, 9

Og þetta er sko eitt sterkasta ljóð bókarinnar. Samt vantar saltið. Það að vera í ástarsorg er vissulega mjög sársaukafullt og ömurlegt ástand, en ef þú sem listamaður ætlar að láta ástarsorg vera grunninn sem þú byggir listaverkið þitt á, þá mun það kosta þig talsverða vinnu að gera verkið áhugavert.

Ætlaru að fjalla um ástarsorg? Ok, gerum það: Ástarsorg í dag er Tinder og stafræn þráhyggja. Grindr og grátur og gubb í miðborg Reykjavíkur. Ef ég á að tengja við listsköpun fólks þá þarf sú sköpun að vera stálheiðarleg og með rætur í nútímanum. Í hrárri persónulegri upplifun. Jú það er vont að vera í ástarsorg. En hvað svo? Hvernig lét hún þér líða? Eftirsjá og hvað? Hvert ertu að fara með þetta? Hreyfðu við mér! Ýttu mér! Gerðu bara eitthvað! Fólk sem skrifar texta eins og Siggi Páls og Gyrðir og Hulda, en núna, áratugum seinna og án þess að bæta neinu við, er bara ekki að gera neitt fyrir mig. Sorrý.

Ef íslenskir tónlistarmenn samtímans væru enn að gera tónlist eins og Mannakorn, Dátar og Sextett Ólafs Gauks, þá hefðu tónlistarspekúlantar eflaust eitthvað við það að athuga. Að sama skapi yrði það líklega til að draga úr ásókn ungs fólks í innlenda tónlist. Þeir hlustuðu þá bara á nútímalega og ferska útlenska tónlist. Eitthvað sem talaði inn í þeirra samtíma. Það nákvæmlega sama gildir í bókmenntum.

Þeir starfandi íslensku rithöfundar í dag sem ég tengi við er fólk sem skrifar um hluti sem það upplifir á tungumálinu sem það talar. Textar sem eru svo heiðarlegir að ég get gengið beint inn í þá. Þar er engin kynslóðarbrú sem ég þarf að fara yfir. Enginn óþarfi. Hrá tjáning beint í æð.

Enda erum við hér að bera saman tvo mjög ólíka hluti. Annarsvegar mótaða texta-iðnaðarmenn og hinsvegar nýgræðing á sviðinu. Í því ljósi verð ég að hrósa Jónu fyrir það sem hún gerir vel. Textar bókarinnar eru hnökralausir, enda er ekki eitt einasta greinarmerki í neinum texta. Engir stórir stafir, engir punktar, kommur. Ekkert. Ég hafði soldið gaman af því. Þar fyrir utan eru engir sénsar teknir í bókinni. Allt er seif. Smekklegt. Stílhreint. Áferðafallegt.

En það er líka stærsti galli bókarinnar: það vantar eitthvað smá sjitt í hana. Alveg talsvert mikið til þess að ég geti haft almennilega gaman af. Ekki misskilja. Jóna Kristjana er augljóslega mjög flink með pennann. Ég væri bara til í að sjá hvað gerist hjá henni ef hún fer að hágráta eftir að hafa lesið þennan ógeðslega bókadóm, hellir sig blindfulla og skrifar svo eitthvað beint frá hjartanu. Löðrandi í hatri og blóði og hráum tilfinningum. Það væri ég til í að lesa. Af því ég held með þér Jóna, þó ég sé algjör skíthæll. Ég vil bara bjóða þér að vera það líka.