Sigurður Pálsson

Smámunir III

Nóttin er til þess að gráta í
Til þess að brosa í
Hnerra og hiksta í
Til þess að slangra
og dræv’ útí buskann í

Nóttin er til þess að gráta í
Til þess að röfla í
Hakka í sig pulsur í
Til þess að hugsa
og speglast í rúðum í

Nóttin er til þess að gráta í
Til þess að flauta blús í
Velkjast og urra í
Til þess að reyna við
og rupl’og ríð’ í

Nóttin er til þess að gráta í
Til þess að hvolfa útí skurð í
Brjóta allt í kássu í
Til þess að (æ hvers vegna
þú vinur) deyja í

Sigurður Pálsson er látinn. Sigurður Pálsson var fæddur 1948 og var eitt af allra mestu skáldum islendinga á tuttugustu öld. Starafugl sendir aðstandendum hans sínar innilegustu samúðarkveðjur.