Leontes Sikileyjarkonungur verður sannfærður um að æskuvinur hans, Polinexes Bæheimskonungur eigi vingott við drottningu hans, Hermione, og sé m.a. faðir barnsins sem hún ber undir belti. Polinexes er búinn að vera gestur á Sikiley um nokkurra mánaða skeið en þegar Leontes skipar Camillo, hirðmanni sínum, að ráða honum bana, kýs Camillo frekar að aðvara Bæheimskonung og þeir flýja eyjuna. Leontes hneppir Hermione í varðhald, skilur hana frá Mamiliusi prinsi og sendir menn til véfréttarinnar í Delfi til að fá staðfestingu grunsemda sinna. Drottningin eignast dóttur í varðhaldinu og hirðmærin Paulina fer með barnið til konungs til að sýna honum fram á glóruleysi sitt, en hann lætur ekki segjast heldur hyggst láta brenna barnið, en felst á að láta eiginmann Paulinu frekar bera það út í fjarlægu landi. Þegar Delfi-fararnir snúa aftur hefjast réttarhöld yfir Hermione. Skilaboð véfréttarinnar eru á þá leið að hún sé alsaklaus og Leontes í ruglinu og hann muni ekki eignast erfingja fyrr en útborna dóttirin finnist. Um leið berast þau tíðindi að Mamilius sé dáinn. Um leið hnígur Hermione niður og er borin brott, og það bráir af Leontesi. Paulina ber honum þær fréttir að hún sé dáin. Stúlkan Perdita er skilin eftir á Bæheimsströndu en eiginmaður Paulinu er umsvifalaust étinn af bjarndýri. Tveir sveitamenn, feðgar, verða vitni að þessu og taka stúlkuna að sér. Líða nú sextán ár. Florizel Bæheimsprins er orðinn ástfanginn af Perditu sveitastúlku og hyggst giftast henni þó það kosti hann krúnuna. Polinexes og Camillo mæta á uppskeruhátíð í dulargerfi, þar sem svikahrappurinn Autolycus heldur uppi stuðinu. Þeir afhjúpa sig um það bil sem Florizel og Perdita opinbera, gefa prinsinum kost á að iðrast en dæma rest til dauða. Prinsinn, Perdita og fjölskylda hennar flýja í skjóli nætur og dulargerfa til Sikileyjar að undirlagi Camillos. Þar tekur niðurbrotinn Leontes á móti þeim, en Polinexes fylgir fast á hæla þeirra. Fljótlega kemur þó í ljós hið rétta ætterni Perditu og honum rennur reiðin. Jafnframt afhjúpar Paulina styttu af drottningunni, sem reynist vera drottningin sjálf, lifandi komin. Konungshjónin sættast og ríkisarfar eru tryggir.
Hermione is chaste; Polixenes blameless; Camillo a true subject; Leontes a jealous tyrant; his innocent babe truly begotten; and the king shall live without an heir, if that which is lost be not found.
3.2.142–144
Ég hef haft dálæti á þessu sérstæða leikriti frá því ég sá það í sjónvarpinu í fyrndinni, á þeim tíma sem RÚV sýndi verk úr BBC-heildarútgáfunni á tyllidögum (nýjársdag og páskum) og stungu The Winter’s Tale í sterkri og snjallri uppfærslu Jane Howell í tækið eitt sinn. Ekki dró það úr hrifningu minni að sjá það löngu síðar á sviði. Reyndar endurskírt Sumarævintýri og talsvert tjúnað að hætti hússins hjá Benedikt Erlingssyni og frábærum leikhópi hans á Nýja sviði Borgarleikhússins. Ég skrifaði um það smá ritgerð, ásamt með öllu frægari uppfærslu á öðru verki, en báðar þessar sýningar eru með þeim best lukkuðu á verkum skáldsins á íslenskum sviðum.
Það er sem sagt alveg ljóst að hvað sem líður sérkennum, meintu glóruleysi og mögulegum annmörkum þá snarvirkar The Winter’s Tale bæði á skjá og sviði. Það er líka dægilegt aflestrar, kom í ljós, í þessum frumlestri mínum á leiktextanum á frummálinu.
Gamall kunningi, Robert Greene, skýtur óvænt upp kollinum í innganginum. Nóvellan Pandosto: the Triumph of Time er uppspretta atburðarásarinnar að mestu, og Arden-editorinn John Pitcher fer í smá vangaveltuferðalag um hina frægu þjófkenningu Greenes á Shakespeare í upphafi ferilsins, „ritstuldi“ skáldsins við ritun Vetrarævintýrisins og þjófinn Autolycus, sem er eitt af góssunum sem Shakespeare hefur úr verki Greene.
Það er mjög gaman og mikið gagn að hafa í þessum inngangi Pitchers. Hann fer rækilega yfir eðli „rómönsunnar“ og „tragikómedíunnar“, sem hann rekur á sannfærandi hátt til Ifígeníuleikrita Evripídesar sem Shakespeara hafði möguleika á að kynna sér í latneskum þýðingum, þó gríski frumtextinn hafi sennilega ekki verið aðgengilegur eða skiljanlegur honum. Einnig skoðar Pitcher á frjóan og snjallan hátt rómönsueinkenni fyrri verka, t.d. The Merchant of Venice og King Lear.
Eitt sem ég vissi ekki: Orðasambandið „Winter’s Tale“ hafði alveg skýra merkingu í máli síðendurreisnarenglendinga. Þýðir „slúður“ eða „sögusögn“. Hvort þetta geri það að viðeigandi nafni á þetta tiltekna leikrit er svo allt annað mál.
Annað þessu skylt: Lengi hefur það vakið hlátur og hneykslan að Bohemia, konungsríki Polinexesar og síðar heimkynni Perditu, skuli hafa strandlengju, nokkuð sem hinn geógrafíski Bæheimur státar ekki af. En svo virðist sem þetta sé vísvitandi brandari hjá Shakespeare sem jafnframt gegnir því hlutverki að búa til svigrúm fyrir ólíkindi og bernska fantasíu. „The Coast of Bohemia“ virðist hafa verið þekktur frasi til marks um fáfræði og heimsku. „Sko“, er Shakespeare að segja, segir Pithcer, „í heimi þessa leikrits er allt leyfilegt. Birnir éta fólk, ekki af hungri heldur af dramatískri nauðsyn. Bæheimur er við sjó. Styttur lifna við.“
Svipuðum effekt væri t.d. hægt að ná með að láta Tímann byrja sína ræðu á: „Árið er: sautjánhundruð og súrkál“.
Í innganginum er að finna áhugaverðar pælingar um hvort Shakespeare hafi mögulega gert róttækar breytingar á verkinu eftir að það var frumsýnt. Í dagbók leikhússgests frá vorinu 1611 er nefnilega að finna nokkuð ítarlegan efnisþráð, sem í vantar nokkur af sérstæðustu einkennum verksins, þar á meðal bæði björninn sem étur Antigonus og styttuna sem vaknar til lífsins. Pitcher blæs á þessar hugmyndir með ágætum rökum. En eins og svo oft munum við aldrei vita þetta með vissu. Ein ástæða þess að ritstjórinn er (eða vill vera) svona viss er sú sannfæring hans að rómönsurnar þrjár séu hugsaðar sem e-k heild. Ég fylgi honum reyndar ekki eftir í þeirri sannfæringu. Til þess eru The Winter’s Tale, Cymbeline og The Tempest einfaldlega of ólík verk þrátt fyrir öll líkindi og mögulegan þematískan samnefnara djúpt í textanum. Þau tengsl sem þó eru birtast bara við bókmenntafræðilega yfirlegu en eiga þess engan kost að snerta venjulegan leikhúsgest, sem var fólkið sem Shakespeare vildi snerta.
Að lokum, varðandi skýringartexta Pitchers: Mikilvægur þáttur í ritstýringu og útgáfu leikritanna er skilningur á textafrágangi leikrita og vinnulagi í prentsmiðjum 17. aldar, og þó einkum hjá hr. Jaggard sem prentaði F. Allir Arden-editorar gera (stundum óbærilega) ítarlega grein fyrir hvernig „sínu“ verki farnaðist, og geta í eyðurnar sem alltaf er að finna á leið textans úr fjöður Shakespeares á prentað form. Ef svo ólíklega vill til að einhver lesandi þessara ritgerða hafi áhuga á að auka skilning sinn á þessu ferli þá myndi ég mæla með að lesa fyrst eftirmála Pithcers við The Winter’s Tale. Þar er farið yfir þessi mál eins og lesandinn hafi enga fyrirframþekkingu og öllu lýst af frábærum skýrleika, í eitt skipti fyrir öll. Til fyrirmyndar.
Þrennt fangar strax athyglina þegar The Winter’s Tale er lesið. Eða ekki síður: þegar ritskýringar og umfjallanir um verkið eru lesnar samhliða því. Förum yfir það lið fyrir lið.
I
Það fyrsta er hve fyrri og seinni hlutinn falla illa saman. Það tengist að einhverju leyti vangaveltum um að verkinu hafi verið breytt róttækt á síðari stigum, en samt ekki: Það hefur alltaf verið sextán ára tímaflakk milli þriðja og fjórða þáttar, og fjórði þáttur var frá upphafi sveitasælu- og hrekkjalómadrifinn. Þetta fangar auðvitað athyglina og ekkert að því. Verra er að sveitasælan og kómíski blærinn á fjórða þætti er svo mikið lakari sem slíkur en fyrstu þrír þættirnir sem sálfræðidrama á beinni braut að harmrænum endi.
Shakespeare hafði áður skrifað kómedíur í svipuðum stíl og fjórða þátt The Winter’s Tale, en það var orðið dálítið langt síðan og hann virðist hafa ýmsu gleymt. Og svo er sannleikskorn í því sem sumir hafa alltaf haldið fram: dramað lá alltaf betur fyrir honum en grín. Svindlarinn og farandsöngvarinn Autolycus stendur t.d. engan veginn undir því að bera uppi gleðina, og það er mikið ónotað púður í því að hafa tvo aðalsmenn í dulargervi að njósna um konungssoninn á uppskeruhátíðinni.
Það er auðvitað viss léttir að komast loksins í snertingu við „heilbrigt“ líf eftir martraðarkennda paranojuna sem flæðir eins og svartolía frá Leontesi yfir hirð hans. Það má alveg hugsa um hliðstæður og andstæður, t.d. í tryllingi Leontesar og bræði Polynexesar er hann afhjúpar sig við trúlofun sonar síns. Eða þá í glórulausri sjálfselsku Florizels prins, sem á auðvitað að vita að hann er að steypa Perditu og fjölskyldu hennar í glötun með ást sinni. Svo er pínu sniðugt að í rifrildi Perditu og hins dulbúna tilvonandi tengdaföður hennar skuli hann tala fyrir kynblöndun hins æðri og þess lægra, en hún staðfastlega gegn. Þegar á allt er litið stenst Bæheimsþátturinn samt einfaldlega ekki gæðasamanburð við sóttheita klikkunina á Sikiley, og verður þess vegna ekki alveg fullnægjandi andstæða hennar.
Þessi ástar- og hrifningarjátning Florizels er nú samt fögur og frumleg, og á alveg skilið að vera frægari en hún er:
What you do
Still betters what is done. When you speak, sweet.
I’ld have you do it ever: when you sing,
I’ld have you buy and sell so, so give alms,
Pray so; and, for the ordering your affairs,
To sing them too: when you do dance, I wish you
A wave o’ the sea, that you might ever do
Nothing but that; move still, still so,
And own no other function: each your doing,
So singular in each particular,
Crowns what you are doing in the present deed,
That all your acts are queens.4.4.161–172
II
Hvað fimmta þátt varðar þá kemur þar að öðru atriðinu af þessum þremur sem ég nefndi: stöðu hins yfirnáttúrulega í verkinu og hvort með því stigi Shakespeare út fyrir einhver mörk, sjálfskipuð eða hefðarmótuð, um hvað sé leyfilegt í uppbyggingu leiksögu.
Á ritunartíma verksins var dogmatísk hlýðni við „einingarreglur“ Aristótelesar farin að gera vart við sig í ensku leikhúsi, eftir hinn frjóa anarkisma Elísabetartímans. Allavega sér Shakespeare sig knúinn að láta sögumann útskýra/biðjast afsökunar á tímaeyðunni milli þriðja og fjórða þáttar. Sama vandamál er leyst á ekki ósvipaðan hátt 2–3 árum fyrr, í Pericles, fyrstu „meðvituðu“ tilraun Shakespeares í rómönsuátt. Eins og áður flæmist atburðarásin athugasemda- og vandræðalaust milli staða, frá Sikileyjar til Bæheims og aftur til baka.
En það er samt aðallega endurkoma Hermione sem vekur umtal og hristir túlkendur. Það virðist nánast óhugsandi að mæta þessu kraftaverki „eins og krakki“, en þannig vill Halldór Laxness að leikhúsgestir á öllum aldri mæti þvi sem fram fer á sviðinu. Lógaritmatöflur hjálpa manni ekki frammi fyrir sviðslistinni. Ég er samt svolítið á því að bernska nálgunin sé sú eina færa, að „kaupa“ einfaldlega þessa atburðarás í samhengi verksins. Myndastytta lifnar við. Só vott? Annað eins gerist nú: ég veit ekki betur en heiðarlegur aþenskur vefari hafi skartað asnahöfði og nokkur ungmenni tapað áttum í ástarmálum undir áhrifum galdra í A Midsummer Night’s Dream – reyndar lifir eitt þeirra undir þessum áhrifum til æviloka, ef marka má leikritið. Sáu nornirnar í Macbeth ekki inn í framtíðina? Og hvað með Prospero og Ariel, sem Shakespeare galdrar fram (afsakið) eftir rúmt ár? Ekki sé ég greinendur væla hátt yfir þeirra brotum gegn náttúrulögmálunum.
Ok. kannski er kraftaverkið í 5.4. í The Winter’s Tale í annarri deild hvað þetta varðar. Það er allavega ljóst að það kitlar fræðinga og hugsuði öllu meira en ástarblómin í Draumnum eða draugarnir í Hamlet og Julius Caesar. Hillumetrar hafa verið skrifaðir af djúpheimspekilegum greiningum um mátt ástarinnar, um kristilega náð, um allegóríska djúpmeiningu og hvaðveitég.
En eftir þennan lestur er ég komin á þá skoðun að þetta séu allt feilskot. Mér finnst blasa við að dauði Hermione og lífgun styttunnar sé hreinræktuð brella innan leikritsins og brjóti engin náttúrulögmál.
Vísbendingarnar eru allsstaðar. Eitt er nú að um leið og Hermione hnígur niður þegar fréttir berast í réttarhöldin af dauða Mamilíusar, er hún samstundis borin út og svo færir Paulina okkur andlátsfregnina. Og eigum við ekki að segja að sá fréttaflutningur sé æði grunsamlegur.
I say she’s dead; I’ll swear’t. If word nor oath
Prevail not, go and see: if you can bring
Tincture or lustre in her lip, her eye,
Heat outwardly or breath within, I’ll serve you
As I would do the gods.3.2.224–228
„The lady doth protest too much“, var einu sinni sagt. Áfram heldur Paulina að taka grunsamlega til orða í fimmta þætti þegar hún ræðir möguleikann á að Leontes eignist nýja eiginkonu:
Yet, if my lord will marry,–if you will, sir,
No remedy, but you will,–give me the office
To choose you a queen: she shall not be so young
As was your former; but she shall be such
As, walk’d your first queen’s ghost,
it should take joy
To see her in your arms.5.1.95–101
Og í beinu framhaldi:
LEONTES
My true Paulina,
We shall not marry till thou bid’st us.PAULINA
That
Shall be when your first queen’s again in breath;
Never till then.5.1.102–106
Og hvað eigum við að hugsa um þessa lýsingu á atferli Paulinu í kringum afskekkta húsið þar sem „styttan“ er geymd, þessi sextán ár sem liðin eru:
I thought she had some great matter there in hand; for she hath privately twice or thrice a day, ever since the death of Hermione, visited that removed house.
5.2.112–114
Og svo allt varðandi styttuna sjálfa: hvernig nún er nýkláruð, nýmáluð, hrukkótt og hvaðeina. Nei, þetta eru einfaldlega samantekin ráð þeirra Paulinu og Hermione, að fela hana, fyrst væntanlega vegna mögulega áframhaldandi klikkunar og frekari ofsókna af hendi Leontesar, hugsanlega vegna þess að spádómur véfréttarinnar hljómar upp á að Leontes muni ekki eignast „aðra“ eiginkonu fyrr en „that which is lost is found“, sem liggur næst að skilja sem vísun í Perditu, en mögulega líka í endurnýjaða hjónaást, einhverskonar sátt.
Það er bara eitt sem hægt er að færa fram sem sönnun þess að Hermione deyi og rísi upp. Það að Leontes fer að vitjja líksins í lok 3.2. En ég blæs á þetta. Þrisvar reyndar:
- Aðrar eins framvindubommertur hefur Shakespeare nú gert í gegnum tíðina, og aðdáendurnir meira en til í að sjá gegnum fingur.
- Paulina gæti sem best hafa gefið Hermione að súpa af leyfunum af dauðastjarfalyfinu góða úr Romeo and Juliet (eða hinu nýskrifaða Cymbeline), milli þess að drottningin er borin út í öngviti og Paulina snýr aftur á svið í refsinornarham. Því má auðvitað andmæla með því að benda á að svoleiðis trikk kalla einatt á (langar) útskýringar og aðdraganda þegar Shakespeare grípur til þeirra. Af hverju er það ekki gert ef þetta er tilfellið? Ég er með kenningu:
- Helstu einkenni tískuformsins tragikómedíu, sem Shakespeare er að pissa utan í í þessum síðustu verkum sínum, eru af tvennu tagi. Annað liggur í nafninu – að blanda saman gamni og alvöru, hefðbundnu efni og efnistökum hinna fornu greina. Nokkuð sem okkar maður hafði alltaf gert, og stundum verið skammaður fyrir, allt fram á okkar daga. En hitt höfuðeinkenni nýja formsins, líklega lykilatriði í vinsældum þess, er að nú er stór hluti áhrifanna fólginn í óvæntum endalokum, snjöllum leiklausnum. „Hin spennta bið eftir endinum“ sem Sigurði heitnum Pálssyni varð svo tíðrætt um í dásamlegum tímum í Háskólanum um árið, er komin til sögunnar. Má kannski vera að Shakespeare hafi þótt ómarksins vert að setja áhorfendur sína í spor Leontesar og telja drottninguna dána, en lífga hana við með tilþrifum undir lokin? Þá má auðvitað ekki ljósta upp áformum Paulinu. Og guði sé lof að hann setti ekki á langar ræður um hvernig þær fóru að, þarna undir lokin, heldur leyfði kikkinu af þessum nýja effekt að virka á okkur orðalaust.
Við getum alveg ímyndað okkur þessi sextán ár, þar sem Paulina virkar eins og blanda af refsinorn og miskunnarlausum þerapista fyrir Leontes, en ber jafnframt fréttir til hinna földu drottningar sem sjálf þarf að vinna úr sinni sorg, leita leiða út úr beiskju og ásökunum. Kraftaverkið sem við verðum vitni að undir lok verksins er sálfræðilegt en ekki yfirnáttúrulegt.
Það er samt nokkuð stórt. Það er ansi margt að fyrirgefa. Tryllingur Leontesar umturnar heilu konungsríki, eyðileggur líf drottningar (eða rænir hana að minnsta kosti sextán árum af því), og veldur (að því henni virðist) dauða beggja barna þeirra, þó annað þeirra reyndar bjargist, þökk sé ævintýrareglunum um útborin börn.
En Mamilíus deyr. Eins og turnprinsarnir í Richard III, eins og Arthur prins í King John, eins og hinn kjaftfori sonur Macduffs. Í fljótu bragði man ég ekki eftir litlum strák í Shakespeareleikriti sem lifir alla fimm þættina af, nema naglinn Marcius Jr., sonur Caiusar í Coriolanus.
Tryllingur Leontesar skilur eftir sig sviðna jörð. En það er kannski óhjákvæmilegt, stöðu hans vegna, að sannfæringunni gefinni. Það er allavega niðurstaða Polinexesar í þessari ágætlega formuðu greiningu á ástandinu, áður en hann forðar sér:
This jealousy
Is for a precious creature: as she’s rare,
Must it be great, and as his person’s mighty,
Must it be violent, and as he does conceive
He is dishonour’d by a man which ever
Profess’d to him, why, his revenges must
In that be made more bitter.1.2.541–547
III
Þriðja lykilatriðið við áhrifamátt The Winter’s Tale skiptir mestu máli. Orðin og niðurröðun þeirra. Skáldskapurinn. Hann er engu öðru líkur. Það er að segja: í gjörvallri kanónunni er ekkert sem jafnast á við óráðsræður Leontesar. Það byrjar svona:
I have tremor cordis on me: my heart dances;
But not for joy; not joy. This entertainment
May a free face put on, derive a liberty
From heartiness, from bounty, fertile bosom,
And well become the agent; ‘t may, I grant;
But to be paddling palms and pinching fingers,
As now they are, and making practised smiles,
As in a looking-glass, and then to sigh, as ’twere
The mort o’ the deer; O, that is entertainment
My bosom likes not, nor my brows!1.2.141–150
Alveg á mörkum þess skiljanlega, einhverskonar „Stream of Conciousness“ í bundnu máli. En magnaðar myndir – „my heart dances“, „paddling palms and pinching fingers“ Og svo magnast það þegar hann fer jafnvel að efast um faðerni Mamiliusar, þó Polinexes hafi verið handan við bæheimska hafið þegar hann kom undir:
Thou want’st a rough pash and the shoots that I have,
To be full like me: yet they say we are
Almost as like as eggs; women say so,
That will say anything but were they false
As o’er-dyed blacks, as wind, as waters, false
As dice are to be wish’d by one that fixes
No bourn ‘twixt his and mine, yet were it true
To say this boy were like me.1.2.163–170
Og enn magnast myndirnar, klikkunin og ógeðið flæða um heila Leontesar og leita út:
Inch-thick, knee-deep, o’er head and
ears a fork’d one![…]
There have been,
Or I am much deceived, cuckolds ere now;
And many a man there is, even at this present,
Now while I speak this, holds his wife by the arm,
That little thinks she has been sluiced in’s absence
And his pond fish’d by his next neighbour, by
Sir Smile, his neighbour: nay, there’s comfort in’t
Whiles other men have gates and those gates open’d,
As mine, against their will. Should all despair
That have revolted wives, the tenth of mankind
Would hang themselves. Physic for’t there is none;
It is a bawdy planet, that will strike
Where ’tis predominant; and ’tis powerful, think it,
From east, west, north and south: be it concluded,
No barricado for a belly; know’t;
It will let in and out the enemy
With bag and baggage: many thousand on’s
Have the disease, and feel’t not.1.2.232–256
Þetta rant skæri sig ekkert úr í Ulysses hjá Joyce. Engu líkt hjá Shakespear, jafnvel Lear og Timon á sínum trippum fara ekki alveg hingað í óreiðunni. Fyrir utan þessar makalausu ræður er texti verksins síðan kristalskýr. Varnarræða Hermione er t.d. með flottustu textum karlsins, stendur alveg jafnfætis frægari systur sinni, miskunnarbæn Portiu í The Merchant of Venice, og mjög eftirminnileg í flutningi Halldóru Geirharðsdóttur í Borgarleikhúsinu um árið:
Sir, spare your threats:
The bug which you would fright me with I seek.
To me can life be no commodity:
The crown and comfort of my life, your favour,
I do give lost; for I do feel it gone,
But know not how it went. My second joy
And first-fruits of my body, from his presence
I am barr’d, like one infectious. My third comfort
Starr’d most unluckily, is from my breast,
The innocent milk in its most innocent mouth,
Haled out to murder: myself on every post
Proclaimed a strumpet: with immodest hatred
The child-bed privilege denied, which ‘longs
To women of all fashion; lastly, hurried
Here to this place, i’ the open air, before
I have got strength of limit. Now, my liege,
Tell me what blessings I have here alive,
That I should fear to die? Therefore proceed.
But yet hear this: mistake me not; no life,
I prize it not a straw, but for mine honour,
Which I would free, if I shall be condemn’d
Upon surmises, all proofs sleeping else
But what your jealousies awake, I tell you
‘Tis rigor and not law.3.2.98–121
Og svo að lokum er málsnið hinnar frökku og hetjulegu Paulinu enn önnur gerð af glæsilegri mælsku og snilldarlegri uppbyggingu. Harpa Arnardóttir var frábær í þessu:
What studied torments, tyrant, hast for me?
What wheels? racks? fires? what flaying? boiling?
In leads or oils? what old or newer torture
Must I receive, whose every word deserves
To taste of thy most worst? Thy tyranny
Together working with thy jealousies,
Fancies too weak for boys, too green and idle
For girls of nine, O, think what they have done
And then run mad indeed, stark mad! for all
Thy by-gone fooleries were but spices of it.
That thou betray’dst Polixenes,’twas nothing;
That did but show thee, of a fool, inconstant
And damnable ingrateful: nor was’t much,
Thou wouldst have poison’d good Camillo’s honour,
To have him kill a king: poor trespasses,
More monstrous standing by: whereof I reckon
The casting forth to crows thy baby-daughter
To be or none or little; though a devil
Would have shed water out of fire ere done’t:
Nor is’t directly laid to thee, the death
Of the young prince, whose honourable thoughts,
Thoughts high for one so tender, cleft the heart
That could conceive a gross and foolish sire
Blemish’d his gracious dam: this is not, no,
Laid to thy answer: but the last,–O lords,
When I have said, cry ‘woe!’ the queen, the queen,
The sweet’st, dear’st creature’s dead,
and vengeance for’t
Not dropp’d down yet.3.2.194–222
Myndir
Fyrir nokkrum mánuðum bauð Bíó Paradís upp á beina útsendingu frá West End, þar sem Kenneth Branagh túlkaði Leontes og leikstýrði sýningunni, þar á meðal sjálfri Judi Dench sem Paulinu. Þetta var nú frekar dauft, þrátt fyrr mannvalið. Það sama verður ekki sagt um tvær aðrar kvikmyndaðar leikhúsuppfærslur sem ég átti í fórum mínum og horfði á að loknum þessum lestri.
Uppfærsla Gregory Doran frá 1999, með eiginmanninum Anthony Sher í aðalhlutverki, er dúndurflott bara, og glæstasta frammistaða leikarans sem ég hef séð. Sher nær að gera sjúklegt óöryggi Leontesar ótrúlega sannfærandi og sálfræðilega „rétt“. Sýningin er mikið augnayndi öll, og textavinnan snilldarleg á öllum póstum. Alexandra Galbraith hefur reyndar einhverja mest pirrandi rödd í bransanum, en Hermione hennar nær að vera flott þrátt fyrir það, og Estelle Kohler er geggjuð Paulina. Bóhemía er skemmtileg og þrusugrínleikarar halda gleðinni á lofti, bæði Ian Hughes sem Autolycus og Christopher Brand sem smalinn ungi, fósturbróðir Perditu. Bæði bjarndýrið og styttan glæsilega leyst. Með allra bestu kvikmynduðu Shakespeareuppfærslum sem ég hef séð.
Það sama má reyndar segja um BBC-myndina af uppfærslu Cheek by Jowl frá því í fyrra. Stórkostlega útfærð naumhyggjuleg sviðsetning hjá Declan Donnellan sem nýtur sín best í fyrsta hlutanum, þar sem stílfærður samleikur „ástarþríhyrningsins“ er í forgrunni ásamt með hreint brilljant túlkun Tom Cawte á Mamilusi sem er algerlega miðlægur í gangi mála fyrstu þrjú korterin eða svo. Það tekst ekki alveg eins vel upp með sveitalífspartinn, sem vonlegt er.
Að leysa hann upp í Jerry Springer þátt er sniðugt á pappírnum en fokkar í leikritinu og reynist ekki jafn brilljant og það hefur líklega þótt í æfingasalnum. Hitt er hinsvegar alger snilld: að breyta samtali Autolycusar við sauðfjárbændurna sem vilja ná konungsfundi í yfirheyrslu vopnaleitarmanns á flugvelli. Snarvirkar. Þangað til reyndar Autolycus/tollvörðurinn gengur grimmilega í skrokk á syninum. Sem er út í hött og afvegaleiðir verkið algerlega þar til þau ná aftur vopnum sínum í gullfallegum blálokum þar sem sonurinn látni er leiddur brott af Tímanum, óvelkominn í hamingjupartíið.
Á þessum síðasta hluta ferilsins er Shakespeare farinn að taka meiri áhættur í skáldskapnum. Fleiri sjaldséð orð, óreiða í hugsun, flóknari og lengri setningar sem falla sjaldnar að gangi mála í bragarhættinum. Meira torf. Stundum veldur þetta vandræðum, en merkilega oft ekki. Og svo eru tilfelli eins og sálarástand Leontesar, sem óhugsandi er að Shakespeare hefði getað sýnt okkur fyrir aldamótin, en verður hér að einum af hápunktum listar hans.
Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.