Ég líka

Nýverið kom út ljóðabókin Rof eftir Bubba Morthens. Er hún hluti af endurminningaljóðum höfundar. Áður hafa komið út Öskraðu gat á myrkrið (2015) og Hreistur (2017). Gert var skil á verkum þeim á Starafugli í fyrra. Útgefandi verksins er Mál og menning. Telur það sextíu og fjórar síður og inniheldur fimmtíu og níu mislöng ljóð. Flest ljóðanna eru orðfá og meitluð. Tekur ekkert þeirra yfir meira en eina síðu. Að þessu sinni ber hvert ljóð heiti. Í Öskraðu gat á myrkrið og Hreistri eru þau tölusett og nafnlaus. Eins og í áðurnefndu verkunum mynda ljóðin samhangandi heild, segja sögu sem er ekki endilega í krónólógískri röð.

Líkast til hefir enginn farið varhluta af misnotkunarsögum af margvíslegu tagi sem ratað hafa í  fjölmiðlana undanfarin misseri. Slíkar sögur haldast hönd í hönd við tíðarandann sem krefst þess að slíkar sögur liggi ekki í þagnargildi. Er því ekki að undra að slíkar sögur verði efniviður listamanna. Sumir stíga þar fram og opinbera sín gröfnustu leyndarmál; að þeir hafi í æsku, á unglingsárum eða á fullorðinsárum lent í höndum níðinga. Þeir taka úr lás og kunngera heiminum að þeir líka hafi lent í krumlum sem svíður undan (hér er vísað til lagsins „Móðir“ með rokkhljómsveitinni Egó). Að gerandinn hafi verið: „faðir móðir / bróðir  systir / frændi nágranni / ókunnugur / prestur kennari“ („Hver sem er“ bls. 24).

LEYNDARMÁL

drengir
unglingar
ungir menn
fullorðnir menn
gamlingjar með læst hjörtu
hafa tapað
talnarununni
að lás lífsins

(bls. 40)

Einn þeirra sem tekur úr lás er Bubbi Morthens. Með bók sinni Rof  tekur hann til umfjöllunar atvik sem hann varð fyrir í æsku þegar hann var misnotaður kynferðislega og þurfti að glíma við þær afleiðingar sem sá atburður hafði á hann, á sálarlífið, á líkamann. Hvernig sakleysi barnæskunnar var numið á brott. Ljóðmælandi verksins burðast með minningarnar í sálinni og líkamanum allt sitt líf uns hann að lokum nær sátt og byrjar „að elska sjálfan sig“ (bls. 5). Verkið er uppgjör við þennan stuld barnæskunnar, sakleysisins. Í því samhengi er titill verksins, Rof, vel til fundinn. Mögulegar merkingar orðsins eru meðal annars samningsrof, svik, niðurbrot, skemmd og ólag. Allar eiga þær við þegar pælt er í verkinu.

ÁFALLIÐ

læddist inní drauminn
eitraði framtíðina
hvarf útí myrkrið

með æskublómið

(bls. 6)

ROF
daginn eftir var kominn
brestur þvert yfir
spegilmyndina

(bls. 7)

 

SÁTT

fyrirgefning
sem hefur
grafið sig
uppúr myrkrinu uppúr gröfinni
og veit

þarf ekki framar
að líta um öxl

(bls. 62)

Eins og í fyrri verkunum horfir ljóðmælandi á atburði fortíðar úr fjarlægð síns fullorðna sjálfs og notast í því skyni við fyrstu, aðra og þriðju persónu. Auk þess samtvinnast fortíðin nútíðinni, útkoman er sú persóna sem ljóðmælandi er núna eða hluti þeirrar persónu.

Það sem einkennir endurminningarbækur almennt séð er fullorðið sjálf sem horfir á sitt fyrra sjálf og gerir upp það sem henti eða þær ákvarðanir sem fyrra sjálfið tók. Viðhorf nútímasjálfsins tekur eða kann að taka mið af þeim tíðarháttum sem við lýði eru þegar verkið er skrifað. Sú er klárlega raunin hér og kallast verkið á við opna umræðu og þá samfélagsbreytingu að bera megi harm sinn á torg og að sá útburður kunni að hafa jákvæð áhrif.

Enginn ámælir
þeim undir björgum
liggur lifandi
með limu brotna,
og hraunöxum
holdi söxuðu,
að ei hann æpir
eftir nótum.

Svo orti Bjarni Thorarensen að Oddi lækni Hjaltalín látnum árið 1840. Þetta kvæði kallast ekki beint á við innihald þess verks sem hér er tekið til athugunar. Og þó. Kvæði þetta fjallar um mann sem sakir erfiðrar æsku, torvelds lífs, batt bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn sínir. Erfið uppeldisskilyrði mótuðu persónu þá sem óhægt er um vik að hallmæla fyrir að æpa eigi eftir nótum.

Sumpart má heimfæra slíkt upp Rof svo og önnur verk sem taka á viðlíka atburðum í lífi fólks. Sögur sem útmála ofbeldi, misnotkun, fátækt, einelti, eiturlyfja- og áfengismisnotkun. Það er erfitt að ætla sér að dæma út frá stílbrögðum eða fagurfræði. Það er illt að ætla sér að dæma frásögn af nauðgun, sem raunverulega átti sér stað, með þeim orðum að viðkomandi hafi ekki skilað nógu dramatískri frásögn eða að hún sé helst til of melódramatísk, eða að stíl sé ábótavant og að sársaukinn sé ótrúverðugur. Nei, innihaldið vekur, hjá öllum þeim sem ekki hafa Gamlatestamentsins hjartalag, allajafna samúð.

Já, það er örðugt að ætla sér að setjast í dómarasæti og hallmæla verki sem Rofi. Fæstir hafa hug á að lasta þann sem gjörir heyrinkunnugt að sá hinni sami hafi sætt kynferðisofbeldi. Viðbrögðin verða sjálfvirk og sjálfkrafa hugsa flestir: hugrekki að stíga fram, hvílík byrði sem viðkomandi þurfti að burðast með, ást honum/henni til handa og fleira á samúðarfullum og jákvæðari nótum. Auðvitað dúkka upp einhverjir sem saka hluteigandi aðila um athyglissýki (jafnvel lygi) eða að vilja eingöngu tolla í tískunni, vera líkt og hinir, enda fylgja þessar misnotkunarfrásagnir tíðarandanum. Þeir sem viðhafa slík ummæli eru þó í minnihluta að ætla mætti. Það fyrirfinnast æ tröll sem kunna að hafa bannhelgisbrot á hornum sér.

Erfitt er í þessu samhengi að segja að verk sem tekur á slíku atviki í lífi þínu, þegar  þú komst í tæri við almenna illsku sem „eins og kirkjan / á […] sér / mörg andlit“ („Hófaför við altarið“, bls. 44), sé máske ekkert sérstakt eða allt í lagi.

Í þessu tilfelli má segja að umfjöllunin um verkið (það hefir verið nokkur umfjöllun um það og mun vafalítið verða meiri) og viðtal við listamanninn séu áhrifaríkari en verkið sjálft. Það á þó vissulega sína spretti, góða spretti. Téð verk er ekki slæmt. Það er ekki heldur frábært. Það er á svæði slíkra frásagna sem eru orðnar svo mikill hluti af daglegu lífi okkar að þær eru allt að því hættar að stuða. Það er offlæði af hörmungum í heiminum og ógrynni af hörmungarfrásögnum.

Hafi umræðan síðustu misseri kennt oss eitthvað þá ætti lýðnum ljóst að þykja að misyndismenn leynast víða. Þeir eru vinir þínir, ættingjar og hjásvæfur. Þeir eru Skúlasynir og Stephensenar. Þeir hafa dottið í það með þér og huggað þig á AA-fundum. Þolendur finnast og allsstaðar og örugglega þar sem síst skyldi. Meira að segja persóna eins og Bubbi Morthens tilheyrir þeim hópi. Það að persóna eins og Bubbi stígi fram og segi ég líka gerir slíkt deginum ljósara ef það var það ekki fyrir. Enginn virðist óhultur.

Það er bara vonandi að umræðan ali ekki á ótta og fólk taki upp á því að sjá illþýði allsstaðar, við hvert fótmál. Nóg er víst af óttanum. En það er önnur saga, þessari tengd, en önnur saga.

Í ljósi þessa tíðaranda má að sönnu taka hattinn ofan fyrir þessu verki, að stígið sé fram og sagst hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Það getur ekki verið auðvelt. Óhægt er þó um vik að líta einangrað á verkið því listamaðurinn sem grefur sig upp úr rústum vitundarinnar, skriður áfallsins og spegli sig í augum gerandans (hér er vísað til ljóðanna „UNDIR RÚSTUNUM“ (bls. 9) og „FERÐALAGIГ (bls. 64)) er frægur maður og hætt er við að umfjöllunin sem innihald verksins fær skyggi á verkið sjálft. Og jafnvel þótt viðkomandi væri ekki Bubbi Morthens væri það örðugt. Í svona tilfellum verður einnig vart gerður greinarmunar á ljóðmælanda og höfundi.

Verkið hefst á því að æskublómið er numið á brott og ljóðmælandi skilinn eftir með bresti í spegilmyndinni (sjá hér fyrir ofan). Atvik þetta verður yfir og undir í lífi ljóðmælanda og litar allt hans líf, er líkt og mara og skilur eftir sig óafmáanleg ummerki í sálarlífinu.

MARA

í rökkrinu
við endann á draumnum
við dyr vökunnar

stendur hann

(bls. 16)

FÓTSPOR

á yfirborði tunglsins
er spor
eins er spor
í kjarna mín sjálfs

(bls. 17)

Fótsporið, örin, áfallið eru inn á við, grafin og lokuð. Ljóðmælandi setur á svið leikrit, gefur í skyn að allt leiki í lyndi, felur sína þjáningu. Þetta stef er endurtekið í ljóðunum ásamt þeirri þjáningu, kvíða, ótta og skömm sem fylgir: „við hvern [hjart]slátt finn ég til“ („Kvíðinn“ bls. 19) og  „[h]venær byrjaði það að þú vaknaðir við að hjartað var að rífa sér leið út“ („Ísing“ bls. 21). Aukinheldur kraumar bræði innra með: „þú ert alltaf reiður“ („Rok“ bls. 28). Hann er í hlekkjum, rimlar, rústir, hrun og fjarvera lita hans tilveru. Hann getur ekki öðlast nánd og elskar á skjön, er á skjön. Aldrei losnar hann við gerandann:

ÞÚ

ég get talað við þig
kysst þig planað vikuna með þér
sagt að ég elski þig
samt er ég fjarverandi
þegar ég sef hjá þér

hann er alltaf á milli okkar

(bls. 31)

GESTUR

sit við borðið
konan hans talar
um móður mína
augu hans horfa á mig
er hann að rifja upp bragðið af mér
réttir mér sósuna brosir
finn að ég smækka
finn kvíðann vakna
finn hvernig hann læsir klónum í mig
ofbeldið bindur okkur saman

(bls. 57)

Eins og sjá má af dæmunum er notast við jarðbundið orðfæri og líkingamál. Ljóðin eru því að gera auðlesin og skiljanleg þótt vissulega bjóði sum hver þeirra upp á túlkunarmöguleika. Eftirtektarverð er notkun persónufornafna. Fyrir það fyrsta koma fyrir fyrsta, önnur og þriðja persóna eintala (einnig fyrsta persóna fleirtala). Ljóðmælandi ávarpar sig í annarri persónu, talar um sig í fyrstu persónu og lýsir einnig í þriðju persónu. Svo er frumlags persónufornöfnum oft sleppt þannig að á tíðum getur leikið vafi á hvort um aðra eða þriðju persónu sé að ræða, hvort frumlagið sé hann (hún) eða þú. Slíkt fer þó eftir sögninni sem brúkuð er hverju sinni. Dæmi:

FRAMHEILASKAÐI

situr á fremsta bekk
hlustar á minningarorðin

hann var afi hennar

Hér er gengið út frá því að um kirkju sé að ræða og líkast til eru viðstaddir við jarðarför. Spurningin er hver situr á fremsta bekk? Þú eða hann (hún)? Hlustar hann eða þú á minningarorðin? Alltént er sá sem situr á fyrsta bekk nákominn þeim sem hugsanlega liggur í kistu fyrst sá hinn sami situr á fyrsta bekk. Fleiri dæmi um slíkt eru að finna í bókinni. Þau rugla í túlkun textanna. Á sá ruglingur ekkert endilega illa við þar sem gert er því skóna að í ljóðmælanda finnist tvær persónur eftir að atvikið og passar þessi notkun persónufornafna, eða skortur á henni, ekki illa í því samhengi.

KENGUR

það er kengur
hann gengur innávið
orðinn vanur sársaukanum

erum í raun orðnir vinir
tveir skuggar hönd í hönd

(bls. 22)

Þessi ruglingslega umfjöllun um sumpart ruglingslega ljóðabók á tímum viðhorfsbreytinga verður ekki lengri.

ÞAÐ ER TIL

það er til haf fullt af sorg
land fullt af þjáningu
hjörtu full af ljósi
við vitum það

Það er til fólk fullt af illsku
börn full af sársauka
faðmur ávallt opinn
við vitum það

(bls. 60)