Nokkur orð um kynferðisofbeldi

1593 og 4 var plágan á kreiki í London og yfirvöld lokuðu leikhúsunum trekk oní hvað. Leikhóparnir lögðust í leikferðir um dreifbýlið, oft með styttar og einfaldaðar útgáfur verkanna (sem sumar rötuðu seinna á prent, síðari tíma ritstjórum til armæðu og virðisauka), seldu handritin sín til útgefenda og leikskáldin leituðu á önnur mið. Shakespeare ákvað að reyna fyrir sér sem ljóðskáld og sendi frá sér tvo bálka um goð- og fornfræðileg efni. Fyrst Venus and Adonis og skömmu síðar The Rape of Lucrece.

Sætur sveitastrákur áreittur

Í formála að ljóðasafni Shakesepeares er vakin athygli á að staða leik- og ljóðskálda var gerólík á þessum tíma. Höfundar leikhandrita höfðu að mörgu leyti sama status og handritshöfundar kvikmynda og sjónvarpsþátta: það var undir hælinn lagt hvort nöfn þeirra voru tengd verkunum, og útgáfa textanna hafði mest lítið með þá að gera. Öðru máli gegndi með ljóð, Þau voru orðsporsverk, nátengd höfundum sínum og þeim einum. Allavega ef þau voru rétt feðruð.

Það má því segja að með Venus and Adonis skapi Shakespeare sér meira „nafn“ en hann hafði gert með The Taming of the Shrew, Titus Andronicus eða söguleikjunum vinsælu um Hinrik sjötta og Ríkarð þriðja.

Enginn les það í dag. Eða svoleiðis.

Efnið sækir Shakespeare í tíundu bók Ummyndana Óvíðs. Hinn íðilfagri Adónis heillar ástargyðjuna Venus sem fer í mjög harkalaga viðreynslu, sem í dag teldist á áreitni- og nauðgunarrófinu. Drengurinn er alls ekki til í tuskið, vill bara fá að halda áfram að elta veiðidýrin. Venus nær honum aðeins úr jafnvægi þegar hesturinn hans fær lostafullan áhuga á nærstaddri meri, en að lokum nær hann að slíta sig lausan og hefja veiðiskapinn. Það endar eins og allt skemmtilegt: með því að einhver meiðir sig.

Þetta er yndislegur kveðskapur og meira og minna auðskilinn. Langskemmtilegast auðvitað þegar safinn drýpur af ágengni Venusar:

‘Fondling,’ she saith, ‘since I have hemm’d thee here
Within the circuit of this ivory pale,
I’ll be a park, and thou shalt be my deer;
Feed where thou wilt, on mountain or in dale:
Graze on my lips; and if those hills be dry,
Stray lower, where the pleasant fountains lie.
Within this limit is relief enough,
Sweet bottom-grass and high delightful plain,
Round rising hillocks, brakes obscure and rough,
To shelter thee from tempest and from rain
Then be my deer, since I am such a park;
No dog shall rouse thee, though a thousand bark.’

„Bottom-grass“ tíhí.

Þessi glæsilega lýsingaruna er líka algerlega týpískur Shakespeare:

Were I hard-favour’d, foul, or wrinkled-old,
Ill-nurtured, crooked, churlish, harsh in voice,
O’erworn, despised, rheumatic and cold,
Thick-sighted, barren, lean and lacking juice,
Then mightst thou pause, for then I were not for thee
But having no defects, why dost abhor me?

Og svo er auðvitað drama. Þessar frábæru línur sem lýsa viðbrögðum Venusar yfir líki hins elskaða hefðu sómt sér vel í Títusi eða Rósastríðaleikjunum:

Her voice is stopped, her joints forget to bow;
her eyes are mad that they have wept till now.

Fyrir utan ánægjuna af að lesa vel ort ljóð þá er það sem ég sótti helst í Venus and Adonis skarpari tilfinning fyrir séreðli leikskáldskapar.

Auðvitað er allur skáldskapur í einhverjum skilningi margræður. Opinn fyrir túlkunum, jafnvel alveg niður í grundvallarmerkingu. Stundum er slík margræðni eitt af áformum skáldsins. Svo er held ég ekki í V&A, þó vel megi vera að einhver allegórísk aukamerking eigi að búa að baki orðunum og ljóðsögunni. Ég hef takmarkaðan áhuga á slíku. Í einhverjum heimspekilegum grundvallarskilningi liggur kvæðið samt ljóst fyrir. Innihald þess er fullframsett á blaðinu.

Svo er ekki með leikskáldskapinn. Þar eru skilnings- og túlkunarmöguleikarnir (næstum) ótæmandi. En það sem meira er: merkingin liggur ekki fyrir. Hún er ekki fullsköpuð fyrr en á sviðinu, í rýminu, í munni leikaranna og viðbrögðum mótleikaranna.

Þó svo við getum reynt að sjá hina ástföngnu gyðju og áhugalausan unglinginn fyrir okkur þá er það ekki óhjákvæmileg eða varla einu sinni gagnleg viðbót við skilning ljóðsins. Það er meira að segja frekar kjánalegt að fara að spá í spurningar eins og:

  • „hvað ef Adonis er ekki svona sætur, heldur Venus bara klikkuð?“
  • „Hvað ef Venus er feit og ljót? Hverju breytir það?“
  • „Hvaða merkingarauki fæst ef Venus er karl? Eða Adonis af öðrum kynþætti?“
  • „Hvað ef Adonis er áreitið ekki eins leitt og hann lætur?“
  • „Ætlaði hann kannski að láta göltinn drepa sig?

Ekkert af þessu hefur nokkuð með ljóðið að gera. En að láta undir höfuð leggjast að yfirheyra leiktexta á þennan hátt er að skilja hann ekki. Þess vegna hefur hin sígilda spurning úr eilífðarþrætunum um „framsæknar“ uppfærslur Shakespeareverka: „Af hverju er þetta ekki bara leikið eins og það var skrifað?“ ekkert gildi meðan það sem skrifað stendur styður það sem gerist á sviðinu, eða gengur að minnsta kosti ekki augljóslega í berhögg við það. Engin hliðstæð spurning um verk á borð við Venus and Adonis hefur nothæfa merkingu.

Allavega. Þetta er fallegt og skemmtilegt. En Shakespeare væri ekki eitt af höfuðskáldum heimsins ef Venus and Adonis og hliðstæð verk væru það sem eftir hann lægi.

Don’t quit your day job, William.

Texti ljóðsins.

Rímið, helvítis rímið!

Ég las The Rape of Lucrece og fór að hugsa um rím. Hvað það gerir og hvernig það virkar á mig, tuttugustualdarmanninn sem lifði ekki sjokkið þegar íslensk skáld lögðu þessari tæknibrellu forfeðranna, eða fóru allavega að nota hana sparlega og á endanum aðallega í popptónlist og gríni.

Það verður að viðurkennast að ofbeldisþrungin hryllingssaga eins og þessi, af hinni óspjölluðu eiginkonu sem er nauðgað af stríðsfélaga mannsins hennar, bæði af því hún er svo fögur og vegna þess að eiginmaðurinn hafði verið að gorta af dygðum hennar, græðir ekkert af áhrifamætti á lipurð Shakespeares með rímið hjá þessum lesanda. Þvert á móti er þetta allt eins og Soft-Focus filter yfir atburðina fyrir mér. Eitthvað til að horfa framhjá eða píra í gegnum, frekar en áhrifsauki.

Auðvitað hefur fimleg notkun ríms sinn þokka og eigin áhrifamátt, og getur fest snjallar yrðingar í huga manns (sem er víst upphaflegt hlutverk þess). En það stelur líka athygli. Við flissum og munum brilljansinn hjá Tom Lehrer og Braga Valdimar, en ef þeir hefðu verið að reyna að fylla okkur „Pity and Terror“, er allsóvíst um árangurinn.

Munum líka að í leikritunum notar Shakespeare nánast aldrei rím þegar ætlunin er að tala „í alvöru“ um alvarlega hluti. Tvær lokalínur eintala og atriða eru oft rímaðar saman, nokkurskonar flauelstjald sem dregið er fyrir þegar dramað er búið. Annars ríkir ryþminn einn ásamt myndvísinni og sálarinnsæinu magnaða.

En hér er strangur og lystilega músíkalskur bragarháttur notaður, „Rhyme royal“, sem Chaucer ku hafa innleitt sem viðtekinn hátt fyrir frásagnarkvæði af þessu tagi og var að detta úr tísku um það bil sem Shakespeare orti um raunir Lúkretsíu. Ég fann í fljótu bragði engin íslensk dæmi en þau eru mjög líklega til. Jónas er til dæmis oft ansi nálægt kóngarímunum:

Skáld er ég ei, en huldukonan kallar
og kveða biður hygguþungan beim.
Mun ég því sitja, meðan degi hallar
og mæddur smali fénu kemur heim,
[hér kæmi lína sem rímar við þá fyrir ofan]
þar sem að háan hamar fossinn skekur
og hulduþjóð til næturiðju vekur.

Frásagnarkvæði já, en þetta er samt öllu kyrrstæðara og dramatískara ljóð en Venus and Adonis. Hér skiptast á frásagnarerindi þar sem atburðarásinni er fleytt áfram, og nokkurskonar „kyrrmyndum“ úr hugarheimi fórnarlambs og nauðgara. Þar er margt fjári magnað. Hér er t.d. illvirkinn að vega og meta hvort hann eigi að láta til skarar skríða, á næstum Makbeðskan hátt:

What win I, if I gain the thing I seek?
A dream, a breath, a froth of fleeting joy.
Who buys a minute’s mirth to wail a week?
Or sells eternity to get a toy?
For one sweet grape who will the vine destroy?
Or what fond beggar, but to touch the crown,
Would with the sceptre straight be strucken down?

Þarna er eins og hann ætli að hætta við. En svo hættir hann auðvitað ekki við. Sem betur fer, liggur mér við að segja, svona upp á söguna.

Það er svolítið sérkennilegt að Tarkvín virðist endanlega ákveða að láta til skarar skríða vegna yndisþokka Lúkretsíu. Hann ræður hreinlega ekki við sig. Þetta er viss galli á sögunni, því ástæða þess að hann heimsækir hana virðist vera (eða ætti að vera) að afsanna gort eiginmannsins um dygð hennar, og til að spilla hinu hreina. Skemma og eyðileggja það sem er göfugt og fagurt og hann á ekki sjálfur. Þessi kynferðislega girnd (Shakespeare gælir jafnvel við að sjá þetta sem ást) sem virðist taka yfir er hliðargata í plottinu. Og á móti má svo segja að þetta sé einmitt hliðargata af því taginu sem gefur sögum sennileikablæ. Því hvað er lífið annað en hliðargötur, til orðnar án nokkurs deiliskipulags, sem aftur er einkenni vandaðs skáldskapar.

Hér stendur Tarkvín yfir Lúkretsíu sofandi:

As the grim lion fawneth o’er his prey,
Sharp hunger by the conquest satisfied,
So o’er this sleeping soul doth Tarquin stay,
His rage of lust by gazing qualified;
Slack’d, not suppress’d; for standing by her side,
His eye, which late this mutiny restrains,
Unto a greater uproar tempts his veins:
And they, like straggling slaves for pillage fighting,
Obdurate vassals fell exploits effecting,
In bloody death and ravishment delighting,
Nor children’s tears nor mothers’ groans respecting,
Swell in their pride, the onset still expecting:
Anon his beating heart, alarum striking,
Gives the hot charge and bids them do their liking.

Þetta er nú ansi kröftugt. Rím er alveg kjarnmikill effekt. Hvað þá þegar það er royal.

Eitt er nú hvernig staða ríms hefur breyst í aldanna rás, einkum síðustu 70 ár eða svo. Annað sem erfitt er að kyngja eða lesa sig framhjá er hin þunga áhersla kvæðisins á afleiðingar nauðgunarinnar fyrir eiginmann Lúkretsíu. Hvernig þetta beindist allt gegn honum, hvernig hans heiður hefur verið blettaður, eignir hans verðfelldar, hvernig ekkert geti þvegið hans skömm burt annað en blóð hennar (og gerandans í framhaldinu). Þetta er gegnumgangandi og gerir nútímalesanda óneitanlega erfiðara fyrir að leita uppi það sem eftir stendur fagurt og ásættanlegt. Þetta er ekki ósvipað og fyrir ó- eða léttkristna í dag að lesa Passíusálmana. Eins og netdeilur sem spretta árlega upp um verk Hallgríms segja okkur er það verkefni sem fólk er mis-áhugasamt um að leggja í.

En hér eru auðvitað orðuð sannindi sem ekkert grandar. Ég las bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur og Tom Stranger, Handan fyrirgefningarinnar rétt áður en ég skrifaði þennan pistil. Þetta vers gæti allt eins verið þaðan, ef ekki væri fyrir … rímið:

Even in this thought through the dark night he stealeth,
A captive victor that hath lost in gain;
Bearing away the wound that nothing healeth,
The scar that will, despite of cure, remain;
Leaving his spoil perplex’d in greater pain.
She bears the load of lust he left behind,
And he the burden of a guilty mind.

Eða sú tilfinning þolandans að allir geti séð á henni hvað hefur gerst, hún er ekki nýuppfundin:

Make me not object to the tell-tale Day!
The light will show, character’d in my brow,
The story of sweet chastity’s decay,
The impious breach of holy wedlock vow:
Yea the illiterate, that know not how
To cipher what is writ in learned books,
Will quote my loathsome trespass in my looks.

Og hversu glæsilegt – og sjeikspírskt – er að kalla nóttina „Vast sin-concealing chaos“?!

The Rape of Lucrece hefur ekki verið þýdd á íslensku, og vandséð að ástæða sé til þess. Á hinn bóginn varð ljóðið Árna vini mínum Friðrikssyni innblástur í öldungis órímað örverk sem vann verðskuldaðan sigur í örverkasamkeppni RÚV í tilefni af 400ustu ártíð Shakespeares í fyrra.

Eitt umhugsunarvert að lokum. Í Shakespeareævisögu sinni bendir Peter Levi, ljóðlistarprófessor í Oxford og skrautlegur sérvitringur, á að inngangurinn að The Rape of Lucrece er lengsti samfelldi prósatexti þar sem við getum hugsað okkur að Shakespeare tali með „sinni rödd“. Það er nú allnokkurs virði. Hér stígur hann hér fram án grímu leikpersóna eða bak við hugbreytandi blæju ríms og bragar. Gefum William orðið:

Lucius Tarquinius, for his excessive pride surnamed Superbus, after he had caused his own father-in-law Servius Tullius to be cruelly murdered, and, contrary to the Roman laws and customs, not requiring or staying for the people’s suffrages, had possessed himself of the kingdom, went, accompanied with his sons and other noblemen of Rome, to besiege Ardea. 

During which siege the principal men of the army meeting one evening at the tent of Sextus Tarquinius, the king’s son, in their discourses after supper every one commended the virtues of his own wife: among whom Collatinus extolled the incomparable chastity of his wife Lucretia. 

In that pleasant humour they posted to Rome; and intending, by their secret and sudden arrival, to make trial of that which every one had before avouched, only Collatinus finds his wife, though it were late in the night, spinning amongst her maids: the other ladies were all found dancing and revelling, or in several disports. Whereupon the noblemen yielded Collatinus the victory, and his wife the fame. 

At that time Sextus Tarquinius being inflamed with Lucrece’ beauty, yet smothering his passions for the present, departed with the rest back to the camp; from whence he shortly after privily withdrew himself, and was, according to his estate, royally entertained and lodged by Lucrece at Collatium. The same night he treacherously stealeth into her chamber, violently ravished her, and early in the morning speedeth away. 

Lucrece, in this lamentable plight, hastily dispatcheth messengers, one to Rome for her father, another to the camp for Collatine. They came, the one accompanied with Junius Brutus, the other with Publius Valerius; and finding Lucrece attired in mourning habit, demanded the cause of her sorrow. She, first taking an oath of them for her revenge, revealed the actor, and whole manner of his dealing, and withal suddenly stabbed herself. 

Which done, with one consent they all vowed to root out the whole hated family of the Tarquins; and bearing the dead body to Rome, Brutus acquainted the people with the doer and manner of the vile deed, with a bitter invective against the tyranny of the king: wherewith the people were so moved, that with one consent and a general acclamation the Tarquins were all exiled, and the state government changed from kings to consuls.

Ljóðið.

12228

Enginn veit hvenær eða af hvaða tilefni Shakespeare orti ljóð sem birtist án titils sem einhverskonar eftirmáli við ljóð Roberts Chester, Love’s Martyr: or Rosalins Complaint árið 1601.

Reyndar er svo sem ekki vitað með öruggri vissu að þetta skrítna ljóð, sem hefðin hefur gefið nafnið The Phoenix and the Turtle, sé eftir okkar mann. Það er samt almenna viðhorfið. Svo hefur Helgi Hálfdanarson snarað því á íslensku, og mörgum þykir það sennilega taka af öll tvímæli.

Er þetta þó ákaflega ósjeikspírskur kveðskapur. Engu öðru líkur í bók höfundar. Bragarhátturinn pínu skyldur forljóðinu í leikritinu í leikritinu í Hamlet, hefur verið bent á, sem og útfararsálminum fagra úr Cymbeline, Fear No More the Heat of the Sun.

En svona nýplatónskt allegóríurúnk hefur ekki verið á verkefnaskrá okkar manns. Og meira en það; maður gæti alveg trúað pedöntum eins og Shakespeare gerir svo gjarnan grín að til að yrkja svona. Þetta gæti auðveldlega hafa orðið til á kontórnum hjá honum Hólófernesi í Love’s Labour’s Lost. Og það sem meira er: í formála Chesters að bókinni er einmitt talað um „The Nine Worthies“ eins og í því leikriti.

En þetta breytir þvi ekki að Fönix og dúfa, eins og ljóðið heitir í afbragðs-snúningi Helga (þetta er nefnilega ekki skjaldbaka heldur turtildúfa, því miður/sem betur fer) er furðuverk. Alveg fallegt, en gefur því mjög undir fótinn að fegurðin ein sé ekki tilgangur þess.

Ég ákvað allavega, til öryggis, að renna fyrsta erindinu í gegnum tækin hjá Gunnari Tómassyni sem greinir forna texta á Eyjunni:

11101
9394
9701
17427

Það þarf ekki frekari vitna við.

Textinn (og fróðleikur í kaupbæti).

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.